30.1.1997

Nýsköpun - atvinnulíf - háskóli

Nýsköpun - háskóli - atvinnulíf Hádegisfundur á vegum Nýsköpunarsjóðs í Lögbergi
30. janúar 1997

Ég ætla hér að stikla á nokkrum atriðum sem ég tel, að hafa þurfi í huga, þegar litið er til nýsköpunar, háskóla og atvinnulífs.

Fyrst ætla ég að nefna þá þætti sem undirstrika að ekki eru nægileg tengsl á milli nýsköpunar, háskóla og atvinnulífs.


Í fyrsta lagi er það mikið áhyggjuefni að háskólanám á Íslandi nýtist hinu almenna atvinnulífi illa, ef litið er til þess, hvert þeir leita, sem ljúka slíku námi. Rannsóknir Stefáns Ólafssonar prófessors sýna, að tæplega 60% háskólamenntaðra Íslendinga starfa hjá hinu opinbera, þar af rúmlega 73% háskólamenntaðra kvenna og rúmlega 44% karla. Af þessu hefur Stefán dregið þá ályktun, að íslenskir háskólamenn vinni í alltof ríkum mæli við að eyða þjóðartekjum en í alltof litlum mæli við að afla þeirra.


Í öðru lagi er á háskólastiginu um helmingur nemenda í heimspekideild og félagsvísindadeild. Konur eru meirihluti námsmanna og þær ljúka fremur BA-prófi en BS-prófi. Áhugi á raungreinum fer minnkandi. Þeir, sem bera hag verkfræði fyrir brjósti, hafa miklar áhyggjur af framtíð þess náms hér á landi vegna skorts á nemendum. Góð þekking þjóða í tækni og raungreinum er talin ýta mjög undir nýsköpun. Þessi þróun á háskólastiginu er því töluvert áhyggjuefni.


Í þriðja lagi langar mig að nefna það hér að undanfarin misseri hefur nefnd unnið að því að styrkja forsendur fyrir tækni- og verkfræðinámi. Hún var meðal annars sett á laggirnar í því augnamiði að styrka tengslin milli slíks náms í Háskóla Íslands og Tækniskóla Íslands. Allt bendir til þess, að nefndin komist ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Efling tækni- og verkfræðináms tengist vissulega mjög nýsköpun og atvinnulífinu. Það er miður ef slík markmið ná ekki fram að ganga.


Í fjórða lagi eru ýmsir þættir sem renna stoðum undir áhyggjur manna af því að á hinum almenna vinnumarkaði séu hvorki gerðar miklar kröfur um menntun né rannsóknir.

Allt nám er varðar arðbærasta atvinnuveg landsmanna, sjávarútvegsins, er í skötulíki, ef ég má orða það svo. Um árabil hefur verið unnið að því að endurskoða námsefni fyrir þá, sem stunda sjómennsku. Vona ég, að niðurstaða sé að fást í því efni. Mikill ágreiningur er hins vegar uppi um það, hvernig staðið skuli að menntun vélstjóra.

Þegar ég hóf störf sem menntamálaráðherra fyrir tæpum tveim árum, hafði Fiskvinnsluskólinn ekki verið starfræktur um nokkurt skeið. Var formhlið málsins meðal annars að bögglast fyrir mönnum. Ákvað ég, að skólinn yrði starfræktur sem tilraunaverkefni á vegum Flensborgarskóla í Hafnarfirði.

Opnaður hefur verið glæsilegur hótel- og matvælaskóli við Menntaskólann í Kópavogi. Þar verður nám í kjötiðnaði. Áhugi er einnig á því að veita þar framhaldsnám í fiskiðnaði. Það merkilega er að engin slík námsbraut hefur áður verið skilgreind við íslenskan framhaldsskóla þrátt fyrir að afkoma okkar byggist að miklu leyti á fiski.

Í nýlegri skýrslu um starfsumhverfi og framtíðarmöguleika fiskvinnslunnar segir, að menntunarstig sé almennt lægra í fiskvinnslu en öðrum atvinnugreinum. Aðeins 1% starfsmanna við fiskvinnslu hafa hlotið háskólamenntun.

Í þessari skýrslu er staðfest það, sem ég hef sagt hér um menntun sjómanna og fiskvinnslunám. Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið, hefur frá árinu 1986 staðið fyrir námskeiðum fyrir starfsfólk í fiskvinnslu. Að mínu mati á þetta nám að vera rekið í tengslum við framhaldsskóla, sem nú hafa heimild til að stofna fullorðinsfræðslumiðstöðvar.

Í skýrslunni segir: “Á næstu árum má búast við að fiskvinnsla flokkist undir hágæða matvælaframleiðslu í stað þess að einblínt sé á að forða verðmætum frá skemmdum. Þessi breyting krefst hins vegar þess að til komi markviss grunn- og endurmenntun starfsfólks. Þróunar- og nýsköpunarstörf krefjast sérmenntunar." Um leið og heilshugar er tekið undir þessi orð er nauðsynlegt að hafa í huga að nú er það þannig að endurmenntun sækja þeir helst, sem hafa góða grunnmenntun og einkum háskólamenntað fólk. Þessu þarf að breyta.

Undrun vekur, að nú skuli tekið þannig til orða, að búast megi við, að fiskvinnsla flokkist undir hágæða matvælaframleiðslu. Ég hefði haldið, að hún gerði það nú þegar. Menntunarskortur stendur því líklega helst fyrir þrifum, að ekki hefur náðst nægur árangur að þessu leyti. Ég hef haldið því fram, að í sjávarútvegi gerðu atvinnurekendur litlar sem engar menntunarkröfur og ég ítreka það hér. Ég býð einnig fram krafta mína til að stuðla að betri menntun á þessu sviði.

Ég hef nú nefnt nokkra þætti sem undirstrika að ekki eru nægileg tengsl á milli nýsköpunar, háskóla og atvinnulífs. Fjölmargar ástæður eru fyrir því að þessi tengsl þurfi að efla en ein sú mikilvægasta að menntun er arðbær í sjálfu sér. Með aukinni menntun eykst framleiðni. Íslenskt atvinnulíf þarf að átta sig enn betur á því.

Til að fjalla um tengsl menntunar, svonefnds mannauðs og framleiðni, hef ég leitað fræðilegrar aðstoðar hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og vinnur Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður hennar nú að því að semja skýrslu um áhrif menntunar á hagvöxt.

Öll vitum við, að auðlegð Íslendinga stafar einkum af náttúruauðlindunum. Færri gera sér grein fyrir því, að 29% auðlegðarinnar má rekja til aukinnar framleiðni vegna meiri og betri menntunar á undanförnum áratugum. Aukist meðalskólaganga um 1% á ári samsvarar það 0,3% hagvexti á tilteknu ári.

Í þjóðfélagi þar sem ákvarðanir og umræður snúast jafnvel meira um slíkar hagtölur en annars staðar er mikilvægt að hafa þær á hraðbergi, þegar rætt er um gildi menntunar, þótt hún verði aldrei að fullu metin til fjár.

Góðir áheyrendur!

Í fáum orðum má segja að niðurstaða mín af þessari upptalningu sé sú og allar rannsóknir hníga að því, að mjög sterk tengsl séu á milli nýsköpunar, háskóla og atvinnulífs. Tengslin verða ekki skýrð með einföldum hætti. Líti ég á þróun háskólans hér og alltof stóran hlut hins opinbera í háskólamenntuðum starfsmönnum, spyr ég fyrst: Gerir ríkisvaldið meiri kröfur um menntun starfsfólks síns en aðrir atvinnurekendur?

Því miður eru á hinum almenna vinnumarkaði hvorki gerðar miklar kröfur um menntun né rannsóknir. Einnig er hægt að fullyrða að menntunin sé ekki nægilega mikils metin í launum. Sést það til dæmis á því, að launabilið milli þeirra, sem hafa lokið löngu og dýru háskólanámi, og hinna er ekki stórt og arðsemi náms er oft neikvæð.

Er brýnt að leggja enn og aftur áherslu á það að stofnanir, sem sinna menntun, og atvinnulífið geri sér grein fyrir þessum tengslum á milli menntunar og nýsköpunar. Þá er ekki síður mikilvægt að menn geri sér grein fyrir raunverulegum hlut menntunar í hagvexti framtíðarinnar. Betri menntun er lykill að bættum hag og fjölbreytilegra atvinnulífi, öflugra atvinnulífi þar sem hver einstaklingur finnur starf við hæfi og þar sem atvinnulífið er tilbúið að greiða fyrir menntun og sérþekkingu.


--------------------------------------------------------------------------------



Nýsköpun - háskóli - atvinnulíf Hádegisfundur á vegum Nýsköpunarsjóðs í Lögbergi
30. janúar 1997

Ég ætla hér að stikla á nokkrum atriðum sem ég tel, að hafa þurfi í huga, þegar litið er til nýsköpunar, háskóla og atvinnulífs.

Fyrst ætla ég að nefna þá þætti sem undirstrika að ekki eru nægileg tengsl á milli nýsköpunar, háskóla og atvinnulífs.


Í fyrsta lagi er það mikið áhyggjuefni að háskólanám á Íslandi nýtist hinu almenna atvinnulífi illa, ef litið er til þess, hvert þeir leita, sem ljúka slíku námi. Rannsóknir Stefáns Ólafssonar prófessors sýna, að tæplega 60% háskólamenntaðra Íslendinga starfa hjá hinu opinbera, þar af rúmlega 73% háskólamenntaðra kvenna og rúmlega 44% karla. Af þessu hefur Stefán dregið þá ályktun, að íslenskir háskólamenn vinni í alltof ríkum mæli við að eyða þjóðartekjum en í alltof litlum mæli við að afla þeirra.


Í öðru lagi er á háskólastiginu um helmingur nemenda í heimspekideild og félagsvísindadeild. Konur eru meirihluti námsmanna og þær ljúka fremur BA-prófi en BS-prófi. Áhugi á raungreinum fer minnkandi. Þeir, sem bera hag verkfræði fyrir brjósti, hafa miklar áhyggjur af framtíð þess náms hér á landi vegna skorts á nemendum. Góð þekking þjóða í tækni og raungreinum er talin ýta mjög undir nýsköpun. Þessi þróun á háskólastiginu er því töluvert áhyggjuefni.


Í þriðja lagi langar mig að nefna það hér að undanfarin misseri hefur nefnd unnið að því að styrkja forsendur fyrir tækni- og verkfræðinámi. Hún var meðal annars sett á laggirnar í því augnamiði að styrka tengslin milli slíks náms í Háskóla Íslands og Tækniskóla Íslands. Allt bendir til þess, að nefndin komist ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Efling tækni- og verkfræðináms tengist vissulega mjög nýsköpun og atvinnulífinu. Það er miður ef slík markmið ná ekki fram að ganga.


Í fjórða lagi eru ýmsir þættir sem renna stoðum undir áhyggjur manna af því að á hinum almenna vinnumarkaði séu hvorki gerðar miklar kröfur um menntun né rannsóknir.

Allt nám er varðar arðbærasta atvinnuveg landsmanna, sjávarútvegsins, er í skötulíki, ef ég má orða það svo. Um árabil hefur verið unnið að því að endurskoða námsefni fyrir þá, sem stunda sjómennsku. Vona ég, að niðurstaða sé að fást í því efni. Mikill ágreiningur er hins vegar uppi um það, hvernig staðið skuli að menntun vélstjóra.

Þegar ég hóf störf sem menntamálaráðherra fyrir tæpum tveim árum, hafði Fiskvinnsluskólinn ekki verið starfræktur um nokkurt skeið. Var formhlið málsins meðal annars að bögglast fyrir mönnum. Ákvað ég, að skólinn yrði starfræktur sem tilraunaverkefni á vegum Flensborgarskóla í Hafnarfirði.

Opnaður hefur verið glæsilegur hótel- og matvælaskóli við Menntaskólann í Kópavogi. Þar verður nám í kjötiðnaði. Áhugi er einnig á því að veita þar framhaldsnám í fiskiðnaði. Það merkilega er að engin slík námsbraut hefur áður verið skilgreind við íslenskan framhaldsskóla þrátt fyrir að afkoma okkar byggist að miklu leyti á fiski.

Í nýlegri skýrslu um starfsumhverfi og framtíðarmöguleika fiskvinnslunnar segir, að menntunarstig sé almennt lægra í fiskvinnslu en öðrum atvinnugreinum. Aðeins 1% starfsmanna við fiskvinnslu hafa hlotið háskólamenntun.

Í þessari skýrslu er staðfest það, sem ég hef sagt hér um menntun sjómanna og fiskvinnslunám. Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið, hefur frá árinu 1986 staðið fyrir námskeiðum fyrir starfsfólk í fiskvinnslu. Að mínu mati á þetta nám að vera rekið í tengslum við framhaldsskóla, sem nú hafa heimild til að stofna fullorðinsfræðslumiðstöðvar.

Í skýrslunni segir: “Á næstu árum má búast við að fiskvinnsla flokkist undir hágæða matvælaframleiðslu í stað þess að einblínt sé á að forða verðmætum frá skemmdum. Þessi breyting krefst hins vegar þess að til komi markviss grunn- og endurmenntun starfsfólks. Þróunar- og nýsköpunarstörf krefjast sérmenntunar." Um leið og heilshugar er tekið undir þessi orð er nauðsynlegt að hafa í huga að nú er það þannig að endurmenntun sækja þeir helst, sem hafa góða grunnmenntun og einkum háskólamenntað fólk. Þessu þarf að breyta.

Undrun vekur, að nú skuli tekið þannig til orða, að búast megi við, að fiskvinnsla flokkist undir hágæða matvælaframleiðslu. Ég hefði haldið, að hún gerði það nú þegar. Menntunarskortur stendur því líklega helst fyrir þrifum, að ekki hefur náðst nægur árangur að þessu leyti. Ég hef haldið því fram, að í sjávarútvegi gerðu atvinnurekendur litlar sem engar menntunarkröfur og ég ítreka það hér. Ég býð einnig fram krafta mína til að stuðla að betri menntun á þessu sviði.

Ég hef nú nefnt nokkra þætti sem undirstrika að ekki eru nægileg tengsl á milli nýsköpunar, háskóla og atvinnulífs. Fjölmargar ástæður eru fyrir því að þessi tengsl þurfi að efla en ein sú mikilvægasta að menntun er arðbær í sjálfu sér. Með aukinni menntun eykst framleiðni. Íslenskt atvinnulíf þarf að átta sig enn betur á því.

Til að fjalla um tengsl menntunar, svonefnds mannauðs og framleiðni, hef ég leitað fræðilegrar aðstoðar hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og vinnur Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður hennar nú að því að semja skýrslu um áhrif menntunar á hagvöxt.

Öll vitum við, að auðlegð Íslendinga stafar einkum af náttúruauðlindunum. Færri gera sér grein fyrir því, að 29% auðlegðarinnar má rekja til aukinnar framleiðni vegna meiri og betri menntunar á undanförnum áratugum. Aukist meðalskólaganga um 1% á ári samsvarar það 0,3% hagvexti á tilteknu ári.

Í þjóðfélagi þar sem ákvarðanir og umræður snúast jafnvel meira um slíkar hagtölur en annars staðar er mikilvægt að hafa þær á hraðbergi, þegar rætt er um gildi menntunar, þótt hún verði aldrei að fullu metin til fjár.

Góðir áheyrendur!

Í fáum orðum má segja að niðurstaða mín af þessari upptalningu sé sú og allar rannsóknir hníga að því, að mjög sterk tengsl séu á milli nýsköpunar, háskóla og atvinnulífs. Tengslin verða ekki skýrð með einföldum hætti. Líti ég á þróun háskólans hér og alltof stóran hlut hins opinbera í háskólamenntuðum starfsmönnum, spyr ég fyrst: Gerir ríkisvaldið meiri kröfur um menntun starfsfólks síns en aðrir atvinnurekendur?

Því miður eru á hinum almenna vinnumarkaði hvorki gerðar miklar kröfur um menntun né rannsóknir. Einnig er hægt að fullyrða að menntunin sé ekki nægilega mikils metin í launum. Sést það til dæmis á því, að launabilið milli þeirra, sem hafa lokið löngu og dýru háskólanámi, og hinna er ekki stórt og arðsemi náms er oft neikvæð.

Er brýnt að leggja enn og aftur áherslu á það að stofnanir, sem sinna menntun, og atvinnulífið geri sér grein fyrir þessum tengslum á milli menntunar og nýsköpunar. Þá er ekki síður mikilvægt að menn geri sér grein fyrir raunverulegum hlut menntunar í hagvexti framtíðarinnar. Betri menntun er lykill að bættum hag og fjölbreytilegra atvinnulífi, öflugra atvinnulífi þar sem hver einstaklingur finnur starf við hæfi og þar sem atvinnulífið er tilbúið að greiða fyrir menntun og sérþekkingu.