25.1.1997

Aukinn stuðningur við kvikmyndagerð

Aukinn stuðningur við kvikmyndagerð
Grein í Morgunblaðinu, 25. janúar 1997.


ÚTHLUTUN styrkja úr Kvikmyndasjóði 22. janúar síðastliðinn var hin hæsta í sögu sjóðsins. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1997 var veitt meira fé til sjóðsins en áður. Í þeirri ákvörðun Alþingis felst viðurkenning á gildi kvikmyndagerðar fyrir íslenska menningu. Hún er einnig til marks um, að það er mikils metið, sem vel er gert á þessu sviði.

Á síðastliðnu ári átti ég þess kost að ræða við forystumenn tveggja fjölþjóðlegra sjóða, sem veitt hafa rausnarlega styrki til íslenskrar kvikmyndagerðar á undanförnum árum. Voru það annars vegar fulltrúar Norræna kvikmyndasjóðsins og hins vegar Eurimages, evrópska sjóðsins, sem starfar undir handarjaðri Evrópuráðsins.

Hjá báðum þessum aðilum kom fram mikil trú á getu íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Varð mér einnig betur ljóst eftir samtöl við þá, að aðstæður þeirra, sem starfa að kvikmyndalist hér, eru að ýmsu leyti erfiðari en jafnframt meira ögrandi en í samkeppnislöndum okkar um styrki úr sjóðum á Norðurlöndum eða annars staðar í Evrópu. Af þessu leiðir, að það orð fer af íslenskum kvikmyndagerðarmönnum, að þeir séu framtakssamari og djarfari við fjáröflun á alþjóðavettvangi en starfsbræður þeirra annars staðar.

Staðan gagnvart erlendum sjóðum

Af þessum viðræðum réð ég, að aukning á framlagi íslenska ríkisins til Kvikmyndasjóðs myndi af hinum erlendu aðilum verða því til stuðnings, að íslenskir kvikmyndagerðarmenn nytu áfram stuðnings úr þessum fjölþjóðlegu sjóðum, enda stæðust verkefnin kröfur þeirra. Er ég þeirrar skoðunar, að forráðamenn Norræna kvikmyndasjóðsins líti ekki síst til þess, að framlagið til Kvikmyndasjóðs hækkar um 25 milljónir króna í ár.

Hið opinbera framlag Íslands til norræna sjóðsins byggist á samningum um hann og er að sjálfsögðu staðið við þær skuldbindingar. Nokkrar umræður hafa orðið um það á undanförnum árum, að Íslendingar legðu ekki nóg af mörkum til Eurimages. Vandinn í því efni er sá, að ekki er um það samið með skuldbindandi og formlegum hætti, hve hátt framlag ríkja til þess sjóðs skuli vera.

Íslendingar hafa smátt og smátt verið að auka fjárveitingar sínar til Eurimages og hefur það komið í hlut Kvikmyndasjóðs að standa undir þeim skuldbindingum. Hef ég látið þau boð berast til forráðamanna Eurimages, að ekki sé unnt að láta óvissu ríkja um það, hve hátt framlag Íslands skuli vera til að tryggt sé, að íslenskir kvikmyndagerðarmenn sitji þar örugglega við sama borð og aðrir. Eftir orðsendingaskipti liggur nú fyrir, að greiði Ísland 500 þúsund franska franka eða 6 milljónir króna árlega til sjóðsins hafi það fullnægt skyldum sínum. Er að því stefnt, að það markmið náist á árinu 1998, en í ár greiðum við 400 þúsund franka til Eurimages.

Þessar staðreyndir eru dregnar fram hér til að staðfesta, að aukin fjárveiting til Kvikmyndasjóðs er ekki aðeins til þess fallin að styrkja beint íslenska kvikmyndagerðarmenn á heimavígstöðvum heldur einnig til að styrkja stöðu þeirra gagnvart erlendum sjóðum. Skal þá jafnframt minnt á, að þátttaka okkar í Media-áætlun Evrópusambandsins, sem fylgir aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, hefur flutt mikið fjármagn inn í landið, meðal annars til kvikmynda.

Áhugi á kvikmyndum

Kvikmyndasafn Íslands, sem starfar undir handarjaðri Kvikmyndasjóðs, fluttist nýlega til Hafnarfjarðar á grundvelli samnings milli menntamálaráðuneytisins og Hafnarfjarðarbæjar. Þegar safnið hefur komið sér þar endanlega fyrir og fengið Bæjarbíó til notkunar, verða þáttaskil í starfsemi þess og fyrir alla áhugamenn um kvikmyndalist í landinu.

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að endurskoðun kvikmyndalaga. Er þar meðal annars litið til skipulags á stjórn Kvikmyndasjóðs, aðferða við úthlutun úr honum, stöðu Kvikmyndasafnsins og úrræði til að tryggja sjóðnum öruggar tekjur. Er það von mín, að það takist að ná sæmilegri sátt um frumvarpstexta, sem síðan verði lagður fyrir Alþingi.

Íslendingar eru meðal þeirra þjóða, sem hvað best sækja kvikmyndasýningar. Framboð íslenskra kvikmyndahúsa er einnig með því mesta, sem þekkist. Er ánægjulegt, að í allri þeirri hörðu samkeppni hafi íslensk mynd, Djöflaeyjan, dregið að sér flesta áhorfendur á síðasta ári.

Hvernig sem á málið er litið er óhætt að fullyrða, að af opinberri hálfu hafi að undanförnu verið sýndur töluverður áhugi á framgangi kvikmyndamála í landinu. Mestu skiptir þó, að áfram hafi menn sköpunargáfu og þrautseigju til að framleiða íslenskar kvikmyndir, sem nái til áhorfenda jafnt heima fyrir og í öðrum löndum.

Höfundur er menntamálaráðherra.