9.4.2022

Náin samskipti Færeyja og Íslands

Morgunblaðið, laugardagur 9. apríl 2022.

Fær­ey­ing­ar koma vel frá COVID-19-far­aldr­in­um. At­vinnu­leysi er aðeins 0,19% og þá vant­ar meira vinnu­afl. Fiskút­flutn­ing­ur geng­ur vel. Hann stend­ur und­ir 90% af út­flutn­ings­tekj­un­um, þar veg­ur út­flutn­ing­ur á eld­islaxi þyngst eða 42% árið 2021. Fær­ey­ing­ar kalla lax­inn sinn kampa­vín eld­islaxa og selja hann á hæsta verði.

Gæði lax­ins og stöðu hans á markaði má ekki síst rekja til þess að fær­eyska reglu­verkið mæl­ir fyr­ir um al­gjör­an rekj­an­leika frá hrogn­um til út­flutn­ings, þar á meðal um fóðrið sem notað er við fisk­eldið. Á þenn­an hátt er tryggt að neyt­and­inn hafi vitn­eskju um gæði og sjálf­bærni fær­eysks fisk­eld­is.

Nú í vik­unni var Svandís Svavars­dótt­ir mat­vælaráðherra í Fær­eyj­um ásamt full­trú­um ís­lenskra fisk­eld­is­fyr­ir­tækja og emb­ætt­is­mönn­um. Kynntu Íslend­ing­arn­ir sér fisk­eldi Fær­ey­inga og ræddu sam­vinnu þjóðanna á þessu sviði. Á vefsíðu mat­vælaráðuneyt­is­ins seg­ir Svandís: „Með því að fjár­festa í rann­sókn­um í grein­inni hafa Fær­ey­ing­ar lagt grunn að gríðarleg­um fram­förum.“

Rekj­an­leik­inn verður sí­fellt mik­il­væg­ari þátt­ur við fram­leiðslu allra mat­væla. Fær­ey­ing­ar full­yrða ekki að þeir fram­leiði kampa­víns-lax nema vegna þess að þeir geta sannað að á öll­um ferli fisks­ins séu hágæði tryggð. Íslenskt fyr­ir­tæki á hlut að þess­ari gæðakeðju. Laxa­hrogn til eld­is í Fær­eyj­um koma frá Íslandi. Hér sér Bench­mark Genetics öll­um lax­eld­is­stöðvum fyr­ir laxa­hrogn­um og er eina fyr­ir­tækið á Íslandi sem sel­ur laxa­hrogn til annarra landa.

IMG_4747Séð yfir á Tinganes í Þórshöfn, aðsetur færeysku landstjórnarinnar.

Þegar Fær­ey­ing­ar ræða nýja strauma meðal viðskipta­vina sinna benda þeir á að vegna gagn­rýni á út­blást­ur flug­véla setji sum­ir fyr­ir sig að kaupa lax sem flogið hef­ur verið með lang­ar leiðir frá verk­un­arstað til veit­ingastaðar. Aðdrátt­ar­afl sjáv­ar­af­urða og hátt verð þeirra ræðst mjög af því að um hreina sjálf­bæra vöru er að ræða með lítið kol­efn­is­spor.

Eft­ir ágrein­ing Fær­ey­inga við ESB vegna mak­ríl­kvóta sættu Fær­ey­ing­ar úti­lok­un á ESB-fisk­markaði sem varð til þess að þeir juku viðskipti sín við Rússa. Fær­ey­ing­ar héldu þess­um tengsl­um eft­ir inn­rás Rússa á Krímskaga vorið 2014. Lögmaður Fær­eyja fór til fund­ar við rúss­neska sjáv­ar­út­vegs­ráðherr­ann og taldi viðræður við hann hafa skilað „ótrú­leg­um“ ár­angri. Rúss­ar hefðu áhuga á „strategísrki sam­vinnu“ án þess að efni henn­ar væri nán­ar lýst. Bæði í Dan­mörku og Fær­eyj­um sætti lögmaður­inn harðri gagn­rýni vegna sam­komu­lags­ins við Rússa. Hann varðist með þeim orðum að þetta væru viðskipti og Fær­ey­ing­ar neydd­ust til að finna nýja markaði vegna viðskipta­banns ESB.

Ári síðar opnuðu Fær­ey­ing­ar sendiskrif­stofu í Moskvu. Dró lögmaður­inn þá skil milli þess að í ör­ygg­is­mál­um ættu Fær­ey­ing­ar sam­leið með NATO en þeir yrðu að gæta viðskipta­hags­muna sinna og markaða.

Fær­ey­ing­ar hafa frá 1977 haft gagn­kvæm­an fisk­veiðisamn­ing við Rússa sem veiða í fær­eyskri lög­sögu en fær­eysk skip í Bar­ents­hafi. Rúss­nesk­ir tog­ar­ar at­hafna sig frá fær­eysk­um höfn­um, landa þar afla sem flutt­ur er til vinnslu í Rússlandi. Ekk­ert af afla skip­anna er unnið í Fær­eyj­um, þar er aðeins um um­skip­un að ræða. Rúss­ar greiða fyr­ir vör­ur og þjón­ustu og kaupa olíu. Fær­eysk stjórn­völd úti­lokuðu ekki rúss­nesk skip frá höfn­um sín­um árið 2014.

Nú fimmtu­dag­inn 7. apríl hafði fær­eyska rík­is­út­varpið eft­ir Jan­is av Rana, fær­eyska ut­an­rík­is­ráðherr­an­um, að bráðlega kynni að verða rætt um að úti­loka rúss­nesk skip frá fær­eysk­um höfn­um. Inn­an ESB og í Nor­egi könnuðu yf­ir­völd hvort grípa ætti til þessa ráðs í þeim lönd­um. Jan­is av Rana sagðist vona að hafn­bannið, kæmi til þess, yrði ekki til þess að raska fisk­veiðisamn­ingn­um við Rússa, kynni að leiða til rán­yrkju færi allt á versta veg.

Nokkr­um dög­um eft­ir að Rúss­ar réðust inn í Úkraínu 24. fe­brú­ar ákvað stærsta fisk­eld­is­fyr­ir­tæki Fær­eyja, Bakkafrost, að hætta að selja lax til viðskipta­vina sinna í Rússlandi. Á ár­inu 2021 seldi fyr­ir­tækið 10% af laxi sín­um þangað. For­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins tel­ur að auðvelt verði að selja lax­inn, sem ann­ars færi til Rúss­lands, á öðrum mörkuðum fyr­ir­tæk­is­ins.

Lands­stjórn Fær­eyja seg­ist ekki ætla að banna viðskipti við Rússa á meðan slíkt bann er ekki sett af vest­ræn­um ríkj­um.

Und­ir lok sjötta ára­tug­ar­ins var reist rat­sjár­stöð í þágu NATO á Sorn­felli skammt frá Þórs­höfn. Var hún starf­rækt til árs­ins 2007. Nú er rætt um að end­ur­reisa hana og skýrði Jan­is av Rana frá því í ág­úst 2020 að danski ut­an­rík­is­ráðherr­ann hefði kynnt sér áform Dana um end­ur­nýj­un stöðvar­inn­ar.

End­ur­nýj­un rat­sjár­kerf­is­ins var til umræðu í vik­unni á fund­um í Þórs­höfn. Umræður Fær­ey­inga um málið snú­ast ann­ars veg­ar um sam­skipti um ör­ygg­is- og varn­ar­mál inn­an Danska kon­ung­dæm­is­ins og hins veg­ar um mat á sviði ör­ygg­is­mála. Sam­kvæmt nýrri skoðana­könn­un er mik­ill meiri­hluti Fær­ey­inga hlynnt­ur NATO og einnig að rat­sjár­stöðin sé starf­rækt.

Skýr rök eru fyr­ir end­ur­nýj­un rat­sjár­inn­ar í Fær­eyj­um til að tryggja sem best eft­ir­lit í lofti á milli Íslands og Fær­eyja. Í heim­sókn í ramm­gerð mann­virki stöðvar­inn­ar á dög­un­um kom fram að þegar slökkt var á rat­sjánni árið 2007 hefði 10 mín­út­um síðar verið hringt frá Íslandi með ábend­ingu um að geisli stöðvar­inn­ar hefði horfið.

Ná­granna- og frændþjóðirn­ar í Norður-Atlants­hafi geta mikið lært hvor af ann­arri. Á sama tíma og við lít­um nú til Fær­ey­inga til að bæta starfs­um­hverfi ís­lenskra fisk­eld­is­fyr­ir­tækja vilja þeir kynna sér lausn­ir hér í rat­sjár­mál­um til að tryggja sem best sam­eig­in­legt ör­yggi okk­ar.