1.5.2020

Kínverski stórlaxinn byltir sér

Morgunblaðið, föstudagur 1. maí 2020

Mál­flutn­ing­ur kín­verskra stjórn­valda vegna COVID-19-far­ald­urs­ins staðfest­ir að gjör­breyt­ing hef­ur orðið á fram­göngu þeirra á alþjóðavett­vangi. Kín­verj­ar sögðust áður vilja læra af öðrum þjóðum án þess að blanda sér í mál­efni þeirra. Diplómat­ar þeirra lágu þó ekki endi­lega á skoðunum sín­um og þeir gátu verið harðir í horn að taka. Skil­yrði sem ís­lensk­um stjórn­völd­um voru sett þegar Kína­for­seti kom hingað árið 2002 voru mörg sér­kenni­leg. Á sín­um tíma lét kín­verski sendi­herr­ann öll­um ill­um lát­um vegna sam­skipta ís­lenskra stjórn­mála­manna við stjórn­völd á Taív­an. Ráðamenn er­lendra ríkja eru sett­ir í kín­versk­an skammar­krók ræði þeir við við Dalai Lama – og fleira má nefna.

Þessu hafa marg­ir kynnst eft­ir ára­tuga löng sam­skipti við kín­verska stjórn­ar­er­ind­reka. Þegar Kín­verj­ar opnuðu hér sendi­ráð fyr­ir tæpri hálfri öld (1972) vakti veru­lega at­hygli hve sendi­herra þeirra var mikið í mun að fræða ís­lenska viðmæl­end­ur sína um hætt­una af hernaðarleg­um um­svif­um og útþenslu Sov­ét­manna á Norður-Atlants­hafi. Það væri Íslend­ing­um fyr­ir bestu að treysta sam­starf sitt við Banda­ríkja­menn og standa vörð um aðild­ina að NATO. Boðskap­ur­inn var þá í and­stöðu við yf­ir­lýsta stefnu vinstri­stjórn­ar­inn­ar sem sat hér á landi og vildi loka varn­ar­stöð Banda­ríkja­manna á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Nú blanda kín­versk­ir diplómat­ar sér í op­in­ber­ar umræður inn­an ein­stakra landa með hörðum aðfinnsl­um við fjöl­miðla séu þeir tald­ir vega að Kína. Dæmi um fram­kvæmd þess­ar­ar stefnu má sjá á blaðamanna­fund­um, í hring­borðsum­ræðum og sam­töl­um í alþjóðleg­um sjón­varps­stöðvum.

 

COVID-19-blekk­ing­ar

Sam­hliða op­in­berri áróðurs­her­ferð til að bæta hlut Kína vegna COVID-19-far­ald­urs­ins hef­ur verið hert á kín­verskri sókn með miðlun upp­lýs­inga í net­heim­um. Þar er leit­ast við að bæta hlut Kína á kostnað annarra ríkja, einkum Banda­ríkj­anna, en raun­ar allra sem vekja reiði í Pek­ing. Frétta­rit­ar­ar er­lendra fjöl­miðla eru rekn­ir skýr­inga­lítið frá Kína svo að stjórn­völd sitji ein að efni frá­sagna og frétta.

Kín­verski sendi­herr­ann í Reykja­vík skammaði leiðara­höf­und Morg­un­blaðsins á dög­un­um fyr­ir að vega ómak­lega að Kína vegnaCOVID-19-far­ald­urs­ins. Í Frétta­blaðið skrifaði sendi­herr­ann síðan grein 15. apríl til að vekja efa­semd­ir um að veir­an ætti í raun upp­runa í Wu­h­an í Kína. Í grein í Frétta­blaðinu 27. apríl flettu Þor­geir Eyj­ólfs­son og Hrafn Magnús­son ofan af blekk­ing­um sendi­herr­ans. Starfs­hóp­ur Þjóðarör­ygg­is­ráðs sem fjall­ar um upp­lýs­ingafals­an­ir hér á landi vegnaCOVID-19 hlýt­ur að fara í saum­ana á fram­lagi kín­verska sendi­herr­ans.

COVID-19-in-China-Food-supply-and-lax-regulations-cause-for-concern-as-government-touts-return-to-normalcy

 

„Stríðsúlf­ar“


Af nýj­ustu áróðurs­her­ferðinni má ráða að Kín­verj­ar vilji hafa sitt fram á kostnað þess sem gegn þeim stend­ur. Fyr­ir Kín­verj­um vak­ir ekki að finna sam­eig­in­leg­an flöt eða sam­starfs­leið. Í einu af mál­gagni Kína­stjórn­ar Global Times er nýju stefn­unni lýst á þenn­an veg (16. apríl 2020):

„Þeir dag­ar eru fyr­ir löngu liðnir þegar Kín­verj­ar hlýddu skip­un­um um að sýna und­ir­gefni. Vax­andi virðing Kína í heim­in­um krefst þess að Kín­verj­ar gæti þjóðar­hags­muna sinna á ótví­ræðan hátt. Það sem í raun býr að baki því að Kín­verj­ar eru nú sagðir ganga fram á alþjóðavett­vangi í anda „stríðsúlfa“ er breyt­ing­in á styrk­leika­hlut­föll­um milli Kína og Vest­ur­landa. Þegar Vestrið hef­ur ekki leng­ur getu til að verja hags­muni sína gríp­ur það í ör­vænt­ingu sinni til fram­komu í alþjóðasam­starfi sem minn­ir á fót­bolta­bull­ur og reyn­ir þannig að viðhalda dvín­andi virðingu sinni. Þegar vest­ræn­ir diplómat­ar falla í ónáð finna þeir bragðið af „stríðsúlfa“-diplóma­tíu Kín­verja.“

Orðið „stríðsúlf­ar“ er sótt til kín­verskra kvik­mynda, Wolf Warri­or I frá 2015 og Wolf Warri­or II frá 2017 þar sem bar­daga­hetj­ur halda heiðri Kín­verja á loft. Þess­ar mynd­ir eru ekki á Net­flix en þar má þó finna marg­ar kín­versk­ar kvik­mynd­ir sem verðugt er að skoða vilji menn kynn­ast því hvernig litið er á út­lend­inga af þeim sem lúta rit­skoðun kín­verska komm­ún­ista­flokks­ins.

 

Árekst­ur menn­ing­ar­heima

Þegar margt af því er skoðað sem nú er dreift með bless­un kín­verskra ráðamanna minn­ir það á efni bók­ar­inn­ar The Clash of Civilizati­ons and the Remak­ing of the World Or­der - Árekstr­ar menn­ing­ar­heima og end­ur­gerð heims­mynd­ar­inn­ar sem Samu­el P. Hunt­ingt­on, pró­fess­or við Har­vard-há­skóla, sendi frá sér árið 1996.

Í öllu því sem síðan hef­ur gerst í heims­mál­un­um hafa ráðamenn á Vest­ur­lönd­um forðast að skil­greina átök með vís­an til ólíkra menn­ing­ar­heima og lagt of­urá­herslu á að hafna þjóðern­is­hyggju og halda þeim hóp­um í skefj­um sem höfða til henn­ar á stjórn­mála­vett­vangi ein­stakra ríkja.

Lýs­ing­ar Hunt­ingt­ons á af­stöðu for­ystu­manna Kína til Banda­ríkj­anna um miðjan tí­unda ára­tug síðustu ald­ar sýna að þar spruttu eng­in kær­leiks­blóm. Í ág­úst 1995 sagði Jiang Zem­in Kína­for­seti – sem hingað kom 2002 og söng O sole mio í Perlunni – að óvin­veitt vest­ræn öfl hefðu „ekki eitt and­ar­tak horfið frá sam­særi sínu um að vest­ur­væða og „sundra“ landi okk­ar“. Árið 1995 var sagt að meðal kín­verskra valda­manna og fræðimanna væri al­menn samstaða um að Banda­ríkja­menn reyndu „að sundra lands­yf­ir­ráðum í Kína, koll­varpa stjórn­mál­um lands­ins, halda því hernaðarlega í skefj­um og ónýta efna­hag þess“.

Hunt­ingt­on seg­ir að upp­gang­ur nýs stór­veld­is raski alltaf stöðug­leika og stígi Kína fram sem öfl­ugt veldi verði um­brot­in meiri en menn hafi áður kynnst á seinni helm­ingi annarr­ar þús­ald­ar­inn­ar. Hann vitn­ar í LeeK­u­anYew, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Singa­púr, sem sagði 1994: „Um­fang til­færslu Kína í ver­öld­inni er svo risa­vaxið að heim­ur­inn verður að finna nýtt jafn­vægi eft­ir 30 til 40 ár. Það er ekki unnt að láta eins og þarna sé hver ann­ar stór­lax á ferð. Þetta er mesti stór­lax­inn í mann­kyns­sög­unni.“

 

Stór­lax­inn birt­ist

Styrkja eða veikja sögu­legu at­b­urðirn­ir núna „ríkið í miðjunni“? Í ein­flokkslandi und­ir manni með alræðis­vald þarf risa­átak til að halda 1.400 millj­ón­um manna í skefj­um, vakni grun­semd­ir um að leynt sé út­breiðslu mann­skæðrar veiru. Tök­in eru því hert inn­an lands með stór­efldri sta­f­rænni eft­ir­lits­tækni. Utan lands er spurt hvort kín­versk­ur efna­hag­ur standi áfram und­ir fjár­fest­ing­um alræðis­herr­ans, belti og braut.

Mál­svar­ar Kína­stjórn­ar segja að lítið þýði fyr­ir Banda­ríkja­menn, 250 ára þjóð og aðeins fjórðung af fjölda Kín­verja, að reyna að hafa vit fyr­ir Kín­verj­um með meira en 4.000 ára gamla stjórn­mála­menn­ingu sína. Þá hafi Kín­verj­ar lært að sýni þeir veik­leika vaði Vestrið yfir þá eins og á niður­læg­ingaröld­inni. Nú þegar skamm­ir dynji á Kín­verj­um úr vestri segi þeir: Enn eina ferðina. Þetta sé því til þess eins fallið að festa kín­versku stjórn­ina í sessi, hún eigi allt sitt und­ir eld­móði meðal þjóðar­inn­ar gegn þeim sem traðki á henni á tím­um erfiðleika. Þess vegna sé ýtt und­ir þjóðern­is­hyggju og hörku gagn­vart öðrum.

Lif­um við nú rosa­lega um­brota­tíma vegna kín­verska stór­lax­ins?