2.3.2024

Friðarsamstarf frá Grænlandi til Finnlands

Morgunblaðið, laugardagur 2. mars 2024.

Fyr­ir þann sem hef­ur tekið þátt í umræðum um ör­ygg­is­mál á Norður-Atlants­hafi ára­tug­um sam­an minn­ir margt núna á at­b­urðarás sem hófst fyr­ir rúm­lega hálfri öld þegar norsk­ir fræðimenn und­ir for­ystu Johans Jør­gens Holsts (1937-1994), hjá Norsku ut­an­rík­is­mála­stofn­un­inni og síðar varn­ar- og ut­an­rík­is­ráðherra Nor­egs, hófu að kynna herfræðileg­ar breyt­ing­ar í Norður-Nor­egi, á Norður-Atlants­hafi og Íslandi með mál­stof­um, greina­skrif­um og út­gáfu fræðirita sem náðu til allra nor­rænu ríkj­anna, þótt tvö þeirra, Svíþjóð og Finn­land, væru þá utan hernaðarbanda­laga.

Joh­an Jør­gen stefndi sam­an nor­ræn­um hópi sem hitt­ist reglu­lega og hélt nor­ræn­um sjón­ar­miðum fram fræðilega og á stjórn­mála­vett­vangi. Hann var full­viss um að gættu nor­rænu rík­in ekki sjálf að því að kynna breyt­ing­ar í ná­grenni þeirra gerði það eng­inn. Með miðlun á þekk­ingu tæk­ist að blása til þeirr­ar sam­stöðu meðal banda­manna sem dygði til að halda friði og stöðug­leika á norður­hjara ver­ald­ar.

Þetta reynd­ist rétt í kalda stríðinu þegar Sov­ét­menn unnu að því að breyta Kóla­skag­an­um við aust­ur­landa­mæri Norður-Nor­egs í mesta kjarn­orku­vopna­hreiður heims. Þeir höguðu sér þó ekki eins og Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti ger­ir um þess­ar mund­ir. Ræðan sem hann flutti núna fimmtu­dag­inn 29. fe­brú­ar hafði að geyma eina skýr­ustu kjarn­orku­hót­un hans til þessa í garð Vest­ur­landa.

Kjarn­orku­hót­an­ir Pútíns eru reist­ar á styrk rúss­nesku kaf­bát­anna frá Kóla­skag­an­um. Þeir bera lang­dræg­ar eld­flaug­ar bún­ar kjarna­odd­un­um sem tryggja Rúss­um gjör­eyðing­araflið. Norður­flot­inn, styrk­ur hans og varn­irn­ar um­hverf­is hann skipta Pútín höfuðmáli. Þar er und­ir­rót hernaðarlegu spenn­unn­ar á norður­slóðum.

Enn þann dag í dag, eins og fyr­ir hálfri öld, er það verk­efni nor­rænna fræðimanna og stjórn­valda að vekja at­hygli á nauðsyn­legri sam­stöðu til að halda ógn­ar­ríki í norðri í skefj­um. Þetta var rætt á mál­stofu sem sendi­ráð Íslands í London und­ir for­ystu Sturlu Sig­ur­jóns­son­ar sendi­herra boðaði til í sam­vinnu við RUSI-hug­veit­una þriðju­dag­inn 27. fe­brú­ar með þátt­töku Guðna Th. Jó­hann­es­son­ar, for­seta Íslands.

Þegar fjallað er um stöðuna á norður­slóðum núna standa nor­rænu rík­in öll sam­einuð inn­an NATO. Þar fyr­ir utan er tví­hliða varn­ar­samn­ing­ur frá 1951 í gildi milli Íslands og Banda­ríkj­anna og mun yngri tví­hliða samn­ing­ar um varn­ar­sam­starf milli Banda­ríkj­anna og hinna nor­rænu ríkj­anna fjög­urra. Þess­ir samn­ing­ar veita Banda­ríkja­her aðgang að um 50 stöðvum á Norður­lönd­un­um öll­um.

Þetta er bylt­ing­ar­kennd breyt­ing á nokkr­um miss­er­um sem rekja má til inn­rás­ar Pútíns í Úkraínu. Þá eru nor­rænu rík­in fimm und­ir sam­eig­in­legri her­stjórn NATO í Nor­folk í Virg­in­íu­ríki. NATO-varn­aráætlan­ir fyr­ir lönd­in eru gerðar sam­eig­in­lega und­ir for­ystu her­stjórn­ar­inn­ar. Áætlan­irn­ar teygja sig frá Norður-Am­er­íku, norður í Bar­ents­haf að Kóla­skaga og þaðan suður með landa­mær­um Finn­lands til Eystra­saltsland­anna þriggja.

Pressemoede_grls_udenrgs_sikkerh_strategi_lj82827_kopierVivian Motzfeldt, sjálfstæðis- og utanríkisráðherra Grænlands, kynnir stefnu landsins ó utanríkis-, öryggis- og varnarmálum 21. febrúar 2024.

Græn­lenska land­stjórn­in, Na­alakk­ersuisut, kynnti í fyrsta skipti stefnu sína í ut­an­rík­is-, ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um miðviku­dag­inn 21. fe­brú­ar og er gild­is­tími henn­ar til árs­loka 2033.

„Ekk­ert um okk­ur án okk­ar“ er leiðar­stef græn­lensku stefnu­skýrsl­unn­ar, sem er 25 bls. og skipt­ist í 12 efniskafla.

Lagt er til að stofnaður verði nýr póli­tísk­ur vett­vang­ur und­ir heit­inu Arctic North American For­um. Þar beri fram­kvæmd­ar­valds­haf­ar og þing­menn í Alaska, á norður­skauts­svæðum Kan­ada og á Græn­landi sam­an bæk­ur sín­ar og ákveði sam­starfs­verk­efni. Þá er mælt með aukn­um sam­skipt­um við Íslend­inga t.d. í ferðaþjón­ustu, sam­göng­um og við nýt­ingu á end­ur­nýj­an­leg­um orku­gjöf­um.

Banda­rík­in eru sögð eitt nán­asta sam­starfs­ríki Græn­lands. Bæði lönd­in séu í NATO. Græn­lend­ing­ar hafi árum sam­an þróað sam­skipti sín við Banda­ríkja­menn, sem í meira en 80 ár hafi haldið úti her­stöð á Græn­landi. Banda­ríkja­menn hafi í raun tekið að sér varn­ir Græn­lands með varn­ar­samn­ingi frá ár­inu 1951. Þá sé Pituffik Space Base (Thule-stöðin) mik­il­væg fyr­ir þjóðarör­yggi Banda­ríkj­anna sjálfra. Lýst er vilja Græn­lend­inga til að halda áfram góðu sam­tali við Banda­ríkja­menn um varn­ar­sam­starfið, enda gegni Græn­land mjög mik­il­vægu hlut­verki fyr­ir varn­ir Banda­ríkj­anna gegn ytri ógn einkum úr norðri.

Í 12. kafla græn­lensku stefnu­skýrsl­unn­ar um ör­ygg­is- og varn­ar­mál er lögð er áhersla á að Græn­lend­ing­ar skipi sér í sveit þjóða sem virði lýðræði, mann­rétt­indi, virðingu fyr­ir alþjóðalög­um og sjálfs­ákvörðun­ar­rétt þjóða. Virðing fyr­ir þess­um grunnþátt­um setji skorður við því með hvaða þjóðum Græn­lend­ing­ar geti starfað.

Dön­um og Banda­ríkja­mönn­um er lýst sem nán­ustu sam­starfs- og banda­mönn­um Græn­lend­inga en einnig sé mik­il­vægt að starfa með ná­grannaþjóðunum í Kan­ada og á Íslandi. All­ar þjóðirn­ar séu í NATO.

Með af­stöðu sinni vilja Græn­lend­ing­ar viðhalda lág­spennu og friði. Í því skyni stefn­ir hug­ur þeirra til þess að koma á fót Friðar­setri á Græn­landi, gjarn­an með stuðningi annarra, til að vinna að friði á norður­slóðum. Sam­hliða verði starfað með dönsk­um og banda­rísk­um hernaðar­yf­ir­völd­um að því að tryggja hervarn­ir og leitað til Íslands og Kan­ada í því skyni að efla al­manna­varn­ir.

Landa­fræðin er óbreytt frá því að Joh­an Jør­gen hóf kynn­ingar­átakið til að styrkja varn­ir Norður­landa í norðri fyr­ir rúmri hálfri öld. Póli­tísk samstaða ríkj­anna frá Græn­landi til Finn­lands í ör­ygg­is­mál­um er nú meiri en nokkru sinni. Staðreynd sem nýta ber í þágu friðar.