13.11.2021

Fréttastjórinn kveður RÚV

Morgunblaðið, laugardag 13. nóvember 2021,

Rakel Þor­bergs­dótt­ir, frétta­stjóri rík­is­út­varps­ins (RÚV), til­kynnti þriðju­dag­inn 9. nóv­em­ber að hún hefði ákveðið að láta af störf­um frá næstu ára­mót­um. Stefán Ei­ríks­son út­varps­stjóri boðaði að starf frétta­stjóra yrði „aug­lýst laust til um­sókn­ar fljót­lega á nýju ári“. Heiðar Örn Sig­urfinns­son vara­f­rétta­stjóri tæki við af Rakel um ára­mót­in og sæti þar til nýr frétta­stjóri yrði ráðinn.

Sag­an kenn­ir að harka get­ur hlaupið í skip­an frétta­stjóra RÚV. Þegar Auðun Georg Ólafs­son var ráðinn í stöðu frétta­stjóra hljóðvarps­ins töldu frétta­menn þar vegið að starfs­heiðri sín­um. Þeir samþykktu 10. mars 2005 van­traust á út­varps­stjóra vegna ráðning­ar­inn­ar. Hún væri aug­ljós­lega á póli­tísk­um for­send­um ein­vörðungu og með henni vegið að sjálf­stæði og óhlut­drægni frétta­stof­unn­ar.

Auðun Georg hóf í raun aldrei störf hjá RÚV en árið 2017 var hann ráðinn frétta­stjóri K100, út­varps­stöðvar Árvak­urs, út­gef­anda Morg­un­blaðsins.

RuvfrettirÁrið 2005 voru tveir frétta­stjór­ar hjá RÚV, fyr­ir sjón­varp og hljóðvarp. Þetta breytt­ist í sept­em­ber 2008 þegar stofnuð var ein frétta­stofa RÚV und­ir stjórn Óðins Jóns­son­ar, frétta­stjóra hljóðvarps.

Rakel Þor­geirs­dótt­ir (f. 1971) tók síðan við af Óðni vorið 2014 eft­ir að hafa starfað um skeið sem vara­f­rétta­stjóri RÚV. Heiðar Örn Sig­urfinns­son, nú­ver­andi vara­f­rétta­stjóri, keppti um frétta­stjóra­starfið við Rakel árið 2014.

Rík­is­út­varpið rek­ur fjöl­menn­ustu frétta­stofu lands­ins í krafti mik­illa fjár­muna sem renna úr vös­um skatt­greiðenda og frá aug­lý­send­um til RÚV. Útvarps­stjóri ræður frétta­stjóra og skal starf hans aug­lýst op­in­ber­lega. Óvenju­legt er að út­varps­stjóri til­kynni eins og nú að starf frétta­stjóra verði ekki aug­lýst til um­sókn­ar fyrr en „fljót­lega á nýju ári“. Al­mennt er op­in­bert starf aug­lýst skömmu eft­ir að því er sagt lausu. Manna­skipti dragi sem minnst úr óvissu og festa sé tryggð.

Þótt al­mennt traust til frétta­stofu RÚV mæl­ist mikið sæta efnis­tök starfs­manna henn­ar og meðferð ein­stakra mála sem þeir setja á odd­inn oft harðri gagn­rýni.

Þess gæt­ir að frétta­menn eigni sér ein­stök mál eða mála­flokka. Umræður vegna fréttameðferðar snú­ast því gjarn­an meira um per­són­ur og leik­end­ur en efni máls­ins. Þá gæt­ir þess að frétta­menn taki til máls á sam­fé­lags­miðlum til að setja ofan í við þá sem finna að fram­setn­ingu ein­stakra frétta. Þetta er óvenju­legt í ljósi kröf­unn­ar um óhlut­drægni frétta­stof­unn­ar. Frétta­stjóri á að svara fyr­ir frétta­stof­una en ekki ein­stak­ir frétta­menn.

Áður en Rakel Þor­bergs­dótt­ir varð frétta­stjóri eða und­ir lok mars 2012 var gerð hús­leit í skrif­stof­um Sam­herja á Ak­ur­eyri og í Reykja­vík að kröfu Seðlabanka Íslands. Þegar leit­in hófst voru mynda­töku­menn RÚV með vél­ar sín­ar fyr­ir utan þess­ar skrif­stof­ur Sam­herja. Sam­tím­is birt­ist frétt á heimasíðu RÚV um hús­leit­ina. Var frétt­in unn­in fyr­ir fram í sam­vinnu starfs­manna Seðlabank­ans og frétta­manna RÚV.

Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, sagði sam­skipti frétta­stofu RÚV og Seðlabank­ans í aðdrag­anda hús­leit­ar­inn­ar „mjög óeðli­leg“. Hús­leit­in bar ekki þann ár­ang­ur sem að var stefnt með mála­til­búnaðinum.

Í gær, 12. nóv­em­ber, voru rétt tvö ár liðin frá upp­hafi ann­ars átaka­máls frétta­stofu RÚV og Sam­herja, Namib­íu­máls­ins, í Kveik, þætti frétta­stofu RÚV.

Í Namib­íu er talað um Fis­hcor- og Nam­gom­ar-mál­in. Þau voru form­lega sam­einuð í eitt saka­mál 21. októ­ber 2021. Hvorki Íslend­ing­ar né fé­lög und­ir stjórn Íslend­inga eru þar meðal sak­born­inga. Að óbreyttu hljóta því eng­ir Íslend­ing­ar dóm.

Vegna Namib­íu­máls­ins hef­ur mála­fylgja Sam­herja og gagn­rýni á vinnu­brögð frétta­stofu RÚV hleypt mik­illi hörku í sam­skipti fyr­ir­tæk­is­ins og frétta­stof­unn­ar. Átök Sam­herja og RÚV setja svip á stjórn­má­laum­ræður og á nýliðnu kjör­tíma­bili nýtti stjórn­ar­andstaðan þetta mál óspart til að koma höggi á póli­tíska and­stæðinga. Kristján Þór Júlí­us­son, frá­far­andi sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, sat til dæm­is und­ir ómak­leg­um árás­um.

Namib­íu­málið hef­ur hvorki verið til lykta leitt hér á landi né í Wind­hoek, höfuðborg Namib­íu. Þar er það átaka­mál inn­an rétt­ar­kerf­is­ins og valda­flokks lands­ins. Tekst for­seti Namib­íu á við fyrr­ver­andi sam­starfs­menn með gagn­kvæm­um ásök­un­um um spill­ingu.

Hér skal engu spáð um niður­stöðu Namib­íu­máls­ins en fari svo sem horf­ir bend­ir margt til þess að frétta­stofa RÚV hafi reitt of hátt til höggs í sum­um frá­sögn­um sín­um og álykt­un­um. Merki­legt er að svo virðist sem frétta­stof­unni þyki lítt eða ekk­ert frétt­næmt við sam­ein­ingu mál­anna í eitt saka­mál 21. októ­ber 2021 og að Íslend­ing­ar séu ekki ákærðir.

Stefán Ei­ríks­son út­varps­stjóri boðar að hann ætli ekki að huga að ráðningu nýs frétta­stjóra fyrr en „fljót­lega“ á næsta ári. Sam­einaða saka­málið verður tekið fyr­ir í Wind­hoek fljót­lega á næsta ári.

Þegar á reyndi í mars 2005 tókst starfs­mönn­um frétta­stofu hljóðvarps rík­is­ins að hindra að sá sem var upp­haf­lega ráðinn kæmi til starfa sem frétta­stjóri. Síðan hafa tveir inn­an­búðar­menn verið ráðnir. Fund­ist hef­ur sam­nefn­ari sem skap­ar frið meðal starfs­manna. Sjálf­stjórn frétta­stofu telst þó hvergi al­gild aðferð til að tryggja há­marks­gæði.

Vin­ir frétta­stof­unn­ar segja gagn­rýni á hana aðför að óháðri skoðana­mynd­un. Þetta verður stöðugt úr­elt­ari skoðun vegna tækni­legr­ar bylt­ing­ar í fjöl­miðlun og reynslu liðinna ára. Styrk­ur frétta­stof­unn­ar end­ur­spegl­ar sorg­lega veika stöðu ís­lenskra fréttamiðla í skugga ríki­dæm­is RÚV.