4.11.2018

Ferðasaga á Wagner-árshátíð

á Hótel Holti 03. 11. 18

Það voru nokkur viðbrigði að koma í rúmlega 30 stiga hitann í München á leið okkar til Bayreuth í byrjun ágúst.

Við létum viðbrigðin þó ekki aftra okkur frá að fara á tónleika í Hofkapelle der Residenz um kvöldið. Kapellan er hluti hallarinnar, Residenz, sem hýsti hertoga, kjörfursta og konunga Bæjaralands á árunum 1508 til 1918.

Við hlustuðum á samleik flautu og hörpu.

Margar glæsibyggingar mynda Residenz. Þar eru salir með listaverkum og til listsýninga af öllum toga, þar á meðal óperan en smíði hennar hófst árið 1818. Þar voru margar óperur Wagners fluttar í fyrsta sinn: Tristan og Ísold árið 1865, Meistarasöngvararnir árið 1868, Rínargullið árið 1869, Valkyrjurnar árið 1870 og Die Feen árið 1888.

Stór hluti Residenz var eyðilagður í síðari heimsstyrjöldinni. Ráðist var í endurreisn bygginganna stig af stigi árið 1945.

*

Við tókum lest frá München til Bayreuth, skipt var yfir í héraðslest í Nürnberg. Var víða numið staðar í smáþorpum áður en komið var á leiðarenda.

Lestarvagninn var þétt setinn þetta laugardagssíðdegi og höfðu margir farþeganna greinilega notið þess að fara þarna um sveitir gangandi eða á reiðhjólum meðal annars karl og kona sem settust andspænis okkur í lestarvagninum. Hann gaf henni stóra dós af Elefant-öli en dreypti sjálfur á hálfri flösku af þurrum vermút.

Rut las íslenska bók og þóttist ég sjá að konan gegnt henni þekkti þetta framandi tungumál. Skömmu áður en við renndum að brautarpallinum í Bayreuth ávarpaði karlinn okkur með þessari spurningu: Og hvaða sýningar ætlið þið að sjá?

Þá rann upp fyrir mér að svipmót gesta Wagner-hátíðarinnar leynir sér ekki. Tókum við því sem sjálfsögðum hlut og sögðumst ætla að sjá Meistarasöngvarana og Hollendinginn. Þau fórum fögrum orðum um sýningarnar og konan spurði hvort við værum frá Íslandi – bók Rutar benti til þess.

Við sögðum svo vera og spurðum hvort hún kynni íslensku. Nei, en hún hefði verið fimm sinnum á Íslandi og þekkti Selmu, forseta íslenska Wagner-félagsins, sjálf væri hún í forustu félagsins í Köln.

 *

Í ár voru Meistarasöngvararnir frá Nürnberg, sýndir annað árið í röð í Bayreuth. Uppsetningin er eftir Barrie Kosky, listrænan stjórnanda Komische Oper í Berlín, en Philippe Jordan, hljómsveitarstjóri við Bastillu-óperuna í París, stjórnaði hljómsveitinni. Aðalhlutverkið, Hans Sachs, söng Micahel Volle.

Þetta hlutverk í óperum Wagners er sagt lengst allra. Óperan er einnig löng, tekur fjóra og hálfan tíma í flutningi án hlés. Í Festspielhaus eru tvö hlé, hófst sýningin sem við sáum klukkan 16.00 og lauk um 22.40. Frá hótelinu, Bayerischer Hof, var unnt að fara með sérstakri rútu klukkan 15.00 en niður af hæðinni þar sem Festspielhaus stendur er um 20 mínútna þægilegur gangur að hótelinu í kvöldkyrrðinni að sýningu lokinni. Það má því segja að þetta hafi alls verið um átta tíma ævintýri.

Eins og áður sagði var óperan upphaflega flutt í München 1868.  Tuttugu árum síðar, 1888, var hún fyrst sýnd í Bayreuth. Síðan hafa verið 12 uppsetningar á óperunni þar.

Miklar umræður urðu í fyrra um þessa uppsetningu. Kosky velur þá leið að færa Wagner sjálfan og vini hans inn í sýninguna. Fyrsta atriðið á meðan forleikur er fluttur lætur hann gerast á heimili Wagners í Wahnfried í Bayreuth. Þar eru Wagner og fleiri kynntir til leiks áður en þeir breytast sjálfir í höfuðpersónur verksins og verður Wagner að Hans Sachs sem á undir högg að sækja í verkinu.

IMG_6677Frá gröf Wagners í Bayreuth við húsið sem hann reistii þar, Wahnfried.

Kosky er fyrsti gyðingurinn sem fær tækifæri til að setja upp sýningu í 142 ára sögu Festspielhaus (opnað 1876) og þetta tækifæri notar hann til að gera upp við gyðingahatur Wagners með því að breyta sviðinu í réttarsal Nürnberg-réttarhaldanna þar sem nazistar hlutu dóma árið 1945.

Í lokaatriði annars þáttar birtist stór uppblásinn gyðingur á sviðinu sem síðan er trampað á þegar allt loft fer úr honum. Þegar tjaldið féll varð uppnám meðal áhorfenda, sumir hrópuðu upp yfir sig af hrifningu aðrir púuðu kröftuglega.

Skýrendur á óperum Wagners segja að með Hans Sachs skilgreini Wagner eigin afstöðu á þeim árum sem óperan var samin. Ítalir og Frakkar höfðu myndað sterkt sameinandi ríkisvald en í Þýskalandi voru enn mörg smáríki og óttaðist Wagner að án þess að staðinn yrði vörður um þýska menningararfleifð gætu þýsku smáríkin orðið öflugum nágrannaþjóðum að bráð. Sagan af Hans Sachs og meistarasöngvurunum í Nürnberg er frá 16. öld og snýst um ástir og virðingu fyrir menningararfleifðinni.

Þegar Festspielhaus var opnað að nýju árið 1924 eftir lokun þess í fyrri heimsstyrjöldinni stóðu áheyrendur á fætur í lokakór Meistarasöngvaranna og sungu við svo búið Deutschland, Deutschland über alles. Eftir að Hitler endurreisti þinghúsið í Berlín  árið 1933 var þessi ópera Wagners flutt til hátíðarbrigða.

Richard Wagner verður ekki sakfelldur fyrir að nazistar reyndu að slá sér upp á kostnað hans. Sýningin í Bayreuth eftir Kosky snýst ekki heldur um það. Hún snýst um listamanninn Wagner með kostum hans og göllum eins og staðfest er í lokaatriði þessarar mögnuðu uppfærslu þegar Sachs stendur fremst á sviðinu og stjórnar hljómsveit og kór sem þar birtast.

 *

Uppfærslan á Hollendingnum fljúgandi var svo fjarlæg uppruna verksins að hún missti marks. Flutningurinn var einstakur en umgjörðin á skjön við væntingar. Sagan gerist vegna óveðurs á hafi úti en hér var hún færð inn í hrunheim fjármála- og viðskipta.

Í stað þess að Norðmaðurinn Daland reki spunastofu framleiða starfskonur hans viftur og kasta á milli sín pappakössum. Tónlistin tekur mið af því að niður af rokkum eða spunavélum saumakvennanna setji svip á hana. Svo var ekki að þessu sinni heldur minntu vifturnar á hitann sem var í salnum – sýningin var án hlés og stóð í tæpa þrjá tíma.

*

Kvöldinu lauk á skemmtilegan hátt því að Selma smalaði af alkunnum dugnaði sínum öllum íslenskum Wagner-hátíðargestum saman til málsverðar. Snæddum við á Bürgerreuth góðum og skemmtilegum stað í göngu fjarlægð frá Festspielhaus.

Var þetta ánægjulegur endir á dvölinni í Bayreuth að þessu sinni því að við flugum næsta kvöld heim frá Nürnberg með þýska félaginu Germania eftir að hafa nýtt daginn til að skoða okkur um í borginni og meðal annars réttarsal nasistaréttarhaldanna og magnaða sýningu í kringum hann.