9.5.2022

Fé- og valdagræði í Kína

Bækur - Nútímasaga, Morgunblaðið, mánudagur 9. maí 2022

Rauð rúlletta ****-

Eft­ir Des­mond Shum. Þýðandi Jón Þ. Þór. Ugla, 2022. Kilja, 360 bls.

Um þess­ar mund­ir eru 10 ár frá því að Wen Jia­bao (f. 1942), þáver­andi for­sæt­is­ráðherra Kína, heim­sótti Ísland í boði Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur for­sæt­is­ráðherra. Þau funduðu í Safna­hús­inu við Hverf­is­götu auk þess sem kín­verski gest­ur­inn ræddi við Ólaf Ragn­ar Gríms­son, for­esta Íslands, heim­sótti fjár­bónda og hitti nem­end­ur Jarðhita­skóla Sam­einuðu þjóðanna enda er hann sjálf­ur jarðfræðing­ur að mennt.

Wen Jia­bao er kvænt­ur Zhang Peili gim­steina­fræðingi. Þau kynnt­ust við jarðfræðistörf. Hún sást sjald­an eða aldrei með manni sín­um á op­in­ber­um vett­vangi held­ur vann hún hörðum hönd­um að auðsöfn­un í skjóli og skugga hans eins og lýst er í bók­inni Rauð rúll­etta .

GFR17JBDCDes­mond Shum (f. 1968) er höf­und­ur bók­ar­inn­ar og seg­ir þar frá upp­vexti sín­um í Shang­hai og Hong Kong, námi í Wiscons­in-Madi­son-há­skóla í Banda­ríkj­un­um og síðan þátt­töku sinni í kín­versku fjár­mála- og at­vinnu­lífi, hann reisti toll­vöru­geymslu og dreif­ing­armiðstöð við flug­völl­inn í Pek­ing og lagði grunn að Bulgari-hót­el­inu í hjarta borg­ar­inn­ar. Hann og kona hans Duan Whitney auðguðust mjög og er hún gjarn­an nefnd til sög­unn­ar sem auðug­asta kona Kína. Eng­inn veit um dval­arstað henn­ar frá því að hún hvarf 5. sept­em­ber 2017. Síðast heyrði Shum í henni í síma í sept­em­ber 2021 þegar hún varaði hann við af­leiðing­um þess að gefa út bók sína. Þau eru skil­in. Búa Shum og son­ur þeirra í Bretlandi.

Zhang Peili, í bók­inni Zhang frænka, gegndi lyk­il­hlut­verki á braut Duan Whitney til auðs og áhrifa. Bók­in ber und­ir­t­itil­inn: Frá­sögn inn­an­búðar­manns af auðæfum, völd­um, spill­ingu og hefnd í Kína okk­ar daga.

Whitney vildi ekki gift­ast Shum fyrr en hún fengi grænt ljós frá Zhang frænku. Þær voru alls ekki frænk­ur held­ur var Whitney eins kon­ar hirðmey gim­steina­drottn­ing­ar­inn­ar. Höfðu þær gagn­kvæm­an fjár­hags­leg­an hag af sam­bandi sínu. Í heimi þess­ara kven­skör­unga var glæsi­mennið og at­hafnamaður­inn Shum inn­an­búðarmaður.

Í Kína þess tíma sem þarna er lýst hikaði eng­inn auðmaður í viðskipta­líf­inu við að sýna ríki­dæmi sitt. Það var hluti af and­lit­inu gagn­vart öðrum, mesta dýr­grip hvers og eins. Ekki má falla neitt á hann.

Þeir sem störfuðu fyr­ir flokk­inn og stjórn­völd bár­ust ekki á út á við. Shum og Whitney litu hins veg­ar á flott­ræf­ils­hátt sem góðan fyr­ir viðskipt­in. „Fólk sem stefndi hátt í Kína mátti ekki sýna nein veik­leika­merki. Hver vildi þá vera með manni? Eng­inn. Sýnd­ar­mennsk­an var hluti af leikn­um.“ (145)

Hún birt­ist hjá Whitney í bíl­um, skart­grip­um og lista­verk­um. Sag­an af bíl­núm­eri Whitney, „Beij­ing A 8027“, stöðutákni sem blasti við öll­um, opn­ar sýn á hug­ar- og valda­heim­inn: „„A-ið“ þýddi að við vær­um í innsta hring í Beij­ing. Tal­an 80 sýndi að bíll­inn væri í eigu ein­hvers með stöðu ráðherra, eða jafn­vel enn hærra setts. Og 027 var lág tala sem gaf til kynna að við vær­um á ein­hvern hátt tengd rík­is­ráðinu, rík­is­stjórn Kína.“

Þá seg­ir: „Á bíl með rétt­um núm­er­um mátti sigla að vild á viðskipta­ak­rein­um, aka á gang­stétt­um, taka ólög­lega U-beygju, hafa rauð blikk­andi ljós og leggja á stað þar sem ekki átti að leggja en var í námunda við upp­á­haldsveit­ingastað.“ (146)

Bíl­núm­erið gat óbreytt kaup­sýslu­kona eins og Whitney ekki fengið án þess að nudda í lög­reglu­stjór­an­um í Pek­ing sem samþykkti beiðni henn­ar að lok­um. Þetta er ein­falt dæmi um það sem á kín­versku er kallað guanxi, þ.e. sam­bönd á æðri stöðum. Án þeirra var Whitney eins og á eyðiskeri. Þegar Shum hvatti hana til að fylgja sér til son­ar þeirra sem var í skóla á Englandi og dvelj­ast þar treysti hún sér ekki til að segja skilið við heim flokks­ins og valds hans.

Lýs­ing­in á sam­skipt­um ein­stak­linga á hæstu stig­um kín­verska viðskipta- og stjórn­mála­valds­ins ber þess skýr merki að þar er ekki leitað að mála­miðlun­um held­ur er sig­ur eins ann­ars tap. Bar­átt­an um að „halda and­lit­inu“ birt­ist í öllu sem Shum lýs­ir. Hún varð til þess að grafa und­an hjú­skap hans við Whitney. „Við Whitney háðum harða inn­byrðis keppni þrátt fyr­ir að við vær­um hjón og viðskipta­fé­lag­ar.“ (291)

And­rúms­loftið er að nokkru eitrað í öll­um sam­skipt­um fólks. Á æðstu stig­um birt­ist valda­bar­átt­an í gagn­kvæm­um spill­ingar­rann­sókn­um. Yfir mat og drykk ráða klík­ur ráðum sín­um. Sum­ir snæða þrjá kvöld­verði sama dag­inn til tryggja völd sín. Þeim sem mistekst er bolað frá og ýtt á haug sög­unn­ar eða líf­látn­ir. Þegar Xi Jin­ping varð alls­ráðandi inn­an flokks og í rík­inu var löpp­un­um kippt und­an Whitney og Shum. Þau höfðu veðjað á rang­an hest. Shum veit ekki hvar Whitney er. Hann til­eink­ar henni og Hong Kong bók­ina. Fremst í henni er þessi gamla kín­verska ljóðlína: „Betra er að segja hug sinn og deyja en þegja og lifa.“

Jón Þ. Þór sagn­fræðing­ur ís­lensk­ar bók­ina og fell­ur þýðing hans vel að text­an­um sem er lip­ur og læsi­leg­ur. Í ís­lensku út­gáf­unni er nafna­skránni sleppt.

Shum seg­ir að bók­in hefði ekki orðið til án fé­laga síns og sam­höf­und­ar, Johns Pom­frets. Þeim tekst að lýsa flókn­um viðskipt­um, leyni­makki og stjórn­mála­átök­um á þann hátt að les­and­inn fær skýra mynd. Minn­ing­ar Shums um æsku sína auka gildi bók­ar­inn­ar eins og lýs­ing­ar á mann­leg­um sam­skipt­um í fjöl­menn­asta ríki heims þar sem menn eru hik­laust dregn­ir í dilka eft­ir ætt sinni og upp­runa og lagt hag­kvæmn­ismat á öll sam­skipti.

Hér er á ferðinni bók sem veit­ir sýn inn í kín­verskt sam­fé­lag frá sjón­ar­hóli drengs sem leit á sig sem út­skúfaðan í æsku en snerti síðan æðsta valda­hring þjóðar sinn­ar. Til­gang­ur höf­und­ar er að upp­lýsa en ekki niður­lægja. Fyr­ir bragðið er bók hans trú­verðug þótt ekki allt sé sagt.