24.8.2005

Um hryðjuverk.

Erindi í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur, 24. ágúst, 2005.

 

Þegar ég tók að mér að ræða hér við ykkur um hryðjuverk, var mér ljóst, að ekki væri auðvelt að nálgast viðfangsefnið á einfaldan hátt. Efiðara er að skýra hið svonefnda „stríð gegn hryðjuverkum“ en til dæmis átakalínur milli austurs og vesturs á tímum kalda stríðsins.

 

Á mörgum alþjóðaráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur verið reynt að ná samkomulagi um, hvað felst í orðinu terrorismi, án þess að endanleg sátt ríki um málið. Í nýjum Evrópusáttmála gegn hryðjuverkum, sem ritað var undir fyrir Íslands hönd 16. maí síðastliðinn, er skilgreiningin ekki nákvæm en þar segir, að samkvæmt eðli sínu hafi hryðjuverk að markmiði að neyða einstaklinga, stjórnvöld eða alþjóðastofnanir til að aðhafast eitthvað eða láta vera að aðhafast eitthvað eða grafa undan eða eyðileggja stjórnskipunar- efnahags- eða félagsleg kerfi lands eða alþjóðastofnunar.

 

Ég kallaði þetta svonefnt „stríð gegn hryðjuverkum“ vegna þess að ég tel,  orðið „stríð“ ekki heppilegt í þessu sambandi. Baráttan gegn hryðjuverkum er ekki þess eðlis, að beiting hervalds sé besta leiðin til að ná þar árangri. Miklu meiri áhersla er lögð á öflun upplýsinga og lögregluaðgerðir til að reyna að koma í veg fyrir, að hryðjuverk séu unnin.

 

Ég er ekki einn um þessa skoðun á orðinu „stríð“, því að nýlega las ég, að meira að segja Bandaríkjastjórn hefði ákveðið að hætta að kalla þetta stríð við hryðjuverkamenn og ræða frekar um „The Global Struggle Against Violent Extremism“ skammstafað SAVE - sem má íslenska með orðunum: hnattræn barátta gegn ofbeldisfullri öfgastefnu.

 

Haft var eftir embættismanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins, að hin nýja orðnotkun ætti að endurspegla þá staðreynd að „átökin gegn al-Qaida og öðrum hópum [séu] ekki síður hugmyndafræðileg barátta en hernaðaraðgerð.“

 

Spurt hefur verið, hvort þessi nýja skilgreining sé einnig til marks um, að í Pentagon eða Hvíta húsinu hafi menn misst trúna á eigin málstað í baráttunni við hryðjuverkamenn og feti þess vegna í alkunn fótspor þeirra, sem skipta um nafn og númer, ef þeir telja halla undan fæti hjá sér.

 

Rök standa ekki til þeirrar ályktunar, vegna þess að al-Qaida er einangraðari hópur en nokkru sinni fyrr og verulega margt hefur áunnist á síðustu árum til að draga úr hættunni af þeim samtökum. Hver foringi þeirra eftir annan  hefur fallið í valinn, í síðustu viku höfuðpaur þeirra í Sádi-Arabíu, svo að nýlegt dæmi sé tekið.

 

Réttmætt var að tala um stríð gegn hryðjuverkum frá október til desember 2001, þegar herjað var á Afganistan til að brjóta talibanana á bak aftur, en þeir veittu Osama bin Laden og hans mönnum skjól. Fáir höfðu trú á því við upphaf þess stríðs, sem almennt var talið réttlætanlegt eftir hryðjuverkárásina á New York og Washington 11. september, að unnt yrði að bola ríkisstjórn fjarlægs lands frá völdum með loftárásum. Talibanar hrökkluðust þó frá völdum og árið 2002 sneri 1,8 milljón flóttamanna frá Afganistan heim að nýju, þar af 1,5 milljón frá Pakistan. Afganir kusu sér síðan forseta í vel heppnuðum kosningum 9. október 2004.

 

Stríðið í Írak er ekki sambærilegt við árásirnar á Afganistan. Eftirleikur þess, að Saddam Hussein var hrakinn frá völdum, er vissulega blóðugur og augljóst er, að í Írak eru hryðjuverk stunduð í því skyni að grafa undan trú fólks innan landsins  og utan á því, að nýir stjórnarhættir og stjórnarherrar skili þjóðinni friði og hagsæld.

 

Þingkosningarnar í Írak í janúar 2005 með þátttöku nærri 60% fólks á kjörskrá urðu til þess að auka trú manna á, að hryðjuverkamönnum yrði ekki að ósk sinni um upplausn í landinu. Kosningarnar bundu hins vegar ekki enda á sjálfsmorðsárásir sprengjumanna á götum úti og þar sem fólk kemur saman til að vinna með stjórnvöldum.

 

Hryðjuverkaógnin er hnattræn og ekkert ríki er óhult.

 

Ég sé enga ástæðu til að afsaka eða finna einhver rök fyrir hryðjuverkaárásum á Madrid 11. mars 2004 og London 7. og 21. júlí síðastliðinn með vísan til Íraks. Íraksstríðið er ekki upphaf þeirra öfga, sem einkenna hatur ýmissa múslíma á Vesturlöndum og einkum Bandaríkjunum. Sé upphafanna leitað er miklu nær að líta til Írans og byltingarinnar þar í nafni íslam í nóvember 1979.

 

Árásin 11. september 2001 var gerð fyrir stríðið í Írak og sömu sögu er að segja um árásina á tvíburaturnana í New York árið 1993, herskála í Sádi Arabíu, bandarísk sendiráð í Afríku og herskipið Cole í Jemen, svo að aðeins séu nefndar árásir á Bandaríkjamenn. Hryðjuverkamenn hafa látið að sér kveða gegn öðrum og annars staðar eins og í Balí og Egyptalandi, Istanbúl og Casablanca, svo að nokkrir staðir séu nefndir.

 

Íraksstríðið er hvorki upphaf né endir hryðjuverka heldur er vísað til þess til að afsaka hryðjuverkamenn og ódæði þeirra eða til þess að vinna þeim málstað fylgi, að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra kalli her sinn frá Írak.

 

Málið er miklu flóknara en svo að unnt sé að láta eins og hryðjuverkamennirnir í London hafi ákveðið að fórna sjálfum sér fyrir málstað Íraka, eða þess hóps Íraka, sem vill Bandaríkjamenn, Breta og aðra á brott úr landi sínu.

 

Otto Schily, innanríkisráðherra Þýskalands, segir ótrúlega erfitt að berjast  gegn öfgafullum múslímum. Þýska lögreglan sé ekki lengur að takast á við skipulögð lokuð samtök undir einni stjórn heldur við hópa, sem varla hafi nokkur tengsl sín á milli lengur. Markmið lögreglunnar sé nú að einangra þá innan samfélags múslíma. Schily veit, um hvað hann er að tala, þegar hann ræðir um nauðsyn hörkulegra aðgerða gegn hryðjuverkamönnum, því að hann var lögfræðingur slíkra manna á tímum Baader-Meinhof og fleiri slíkra hópa í Þýskalandi.

 

Hryðjuverkamenn geta að sjálfsögðu sprottið úr öðru umhverfi en því, sem tengist íslam, en athygli beinist þó einkum að þeim jarðvegi um þessar mundir.

 

Til að skýra, hvað um er að ræða, er gjarnan vísað til reynslunnar í Hollandi af Mohammed Bouyeri, hollenskum ríkisborgara af ættum frá Marokkó, sem lögreglan vissi, að væri í íslömskum hópi. Hún taldi hann þó ekki skipta þar miklu máli, fyrr en Bouyeri, klæddur hvítum, skósíðum kufli, elti kvikmyndagerðarmanninn Theo van Gogh uppi 2. nóvember síðastliðinn á götu í Amsterdam og skaut hann nokkrum skotum, skar hann síðan á háls með slátrarahnífi og notaði annan hníf til að festa í lík hans hótun um, að hann ætlaði að drepa hollensku stjórnmálakonuna Ayaan Hirsi Ali, sem aðstoðaði van Gogh við handritsgerð.

 

Í fyrstu var talið, að Bouyeri hefði unnið voðaverkið einn og óstuddur en síðar hefur þeirri skoðun vaxið fylgi, að þetta hafi verið liður í áætlun í anda Osama bin Ladens. Við rannsókn málsins voru tengsl rakin frá einum múslíma hópi til annars og til Portúgals, Spánar, Frakklands og Belgíu, jafnvel alla leið til öfgafullra múslíma í Tjstjeníu í Rússlandi.

 

Bouyeri þótti vera meðal þeirra múslíma í Hollandi, sem best hefði tekist að laga sig að þjóðháttum Hollendinga, þar til hann sökkti sér í öfgakenningar innan kennisetningar íslam.  Foreldrar hans fluttust til Hollands á sjöunda áratugnum og hann fæddist þar. Hann hafði tvöfaldan ríkisborgararétt í Hollandi og Marokkó, lauk skólagöngu með góðum einkunnum og hóf nám í tölvunarfræði við hollenskan háskóla. Haustið 2003 tók hann algjörum sinnaskiptum.

 

Eftir því var tekið, að hann byrjaði á því að bæta versum úr Kóraninum við greinar sínar í hverfisblaðið. Hann skipti á gallabuxum og skósíðum kufli. Brátt lifði hann á kostnað félagslega kerfisins og hélt sig mest í Tawhid-moskunni, sem var undir eftirliti hollensku leyniþjónustunnar, sem sá, að Bouyeri varð sífellt öfgafyllri. Aðrir voru þó taldir enn hættulegri en hann.

 

Í lok júlí var Bouyeri dæmdur í lífstíðarfangelsi en fyrir rétti gekkst hann við morðinu og sagðist mundu fremja annað, ef hann fengi til þess tækifæri. Honum bæri að skera höfuðið af öllum, sem móðguðu Allah og spámanninn, en van Gogh hafði gert kvikmynd um kúgun íslam á konum. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu, að þetta hefði verið hryðjuverk og Bouyeri kann að verða saksóttur að nýju fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum.

 

Öfgafullir múslímar hvaðanæva að úr heiminum hafa löngum búið í höfuðborg Bretlands, sem stundum er kölluð Londonistan. Eftir árásirnar þar 7. og 21. júlí hefur breska stjórnin gert ráðstafanir til að koma einhverjum af þessum óvildarmönnum vestrænnar menningar úr landi.

 

Innan Evrópusambandsins hefur verið gripið til ýmissa sameiginlegra ráðstafana til að bregðast við hryðjuverkaógninni. Frá Bandaríkjamönnum og öðrum heyrist, að viðbrögð Evrópusambandsins séu sein, hikandi og ekki öll traustvekjandi. Hin opnu landamæri innan Schengen-svæðisins eru talin veikja úrræði til baráttu við hryðjuverkamenn auk þess sem lagaflækjur og skriffinnska eru sögð spilla fyrir markvissri samvinnu milli ríkja í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum.

 

Eftir árásina á London var vikið frá Schengen-ferðafrelsinu sums staðar á landamærum Frakklands, en Frakkar þykja búa við hvað virkustu og ströngustu löggjöfina meðal Evrópuþjóða gegn hryðjuverkum vegna víðtækra heimilda fyrir lögreglu að fylgjast með hegðun manna, þótt ekki hafi nein óhæfuverk verið sönnuð á þá.

 

Þegar rætt er um viðbrögð stjórnvalda gegn hryðjuverkum á alþjóðlegum fundum er það meðal annars gert undir dagskrárliðnum: Sérstakar rannsóknaheimildir lögreglu og málið snýst um, hve langt á að leyfa lögreglu að ganga í afskiptum af borgurunum til að hindra að þeir vinni verknað, sem kynni að vera talinn refsiverður. Frakkar eru nú að ræða ný lög gegn hryðjuverkum, sem byggjast á auknu eftirliti, skipulögðum óþægindum og árásum í garð öfgamanna og rýmri heimildum til að halda mönnum án ákæru og þyngri refsingum. Í Frakklandi virðist almenningur ekki kippa sér upp við breytingar í þessa átt, þótt Frakkar hreyki sér af því að búa í vöggu mannréttindanna.

 

Þeim stjórnmálamönnum vegnar vel í Frakklandi, sem sýna í senn festu og hörku í þessum málum. Sagt er að Bretar og Þjóðverjar leiti nú í smiðju til þeirra við endurskoðun á lögum sínum í baráttunni gegn hryðjuverkum.

 

Hefur hryðjuverkaógnin haft áhrif á stefnu vestrænna þjóða gagnvart Írak?

 

Einörð afstaða Blairs til Íraksstríðsins varð honum ekki að falli í nýlegum þingkosningum og hið sama má segja um dönsku ríkisstjórnina, sem hélt velli í kosningum á liðnum vetri. Afstaða Dana er sú samkvæmt könnunum, að vissulega kunni aðild þeirra að Íraksstríðnu að auka hættu á hryðjuverkum heima fyrir en engu að síður vill mikill meirhluti þjóðarinnar, að Danir leggi Bandaríkjamönnum og Bretum áfram lið í Írak.

 

Hinn 18. september næstkomandi reynir á, hvort Gerhard Schröder heldur velli sem kanslari Þýskalands, en hann sló sér upp á því fyrir síðustu þingkosningar, sem hann vann með 6000 atkvæða mun, að styðja ekki áform Bandaríkjastjórnar gegn Saddam Hussein. Nú ætlaði Schröder að stunda sama leik með vísan til ágreinings við Íran út af þróun kjarnorkumála þar og sagðist ekki mundu ljá Bandaríkjastjórn lið í stríði af því tilefni. Þar þótti hann hafa skotið yfir markið.

 

Það er  óskhyggja að viðurkenna ekki, að fyrr en síðar kunnum við Íslendingar að standa frammi fyrir svipuðum vanda og nágrannaþjóðir okkar, ef ekki hinum sama.  Það er skylda stjórnvalda að gera  ráðstafanir í þágu öryggis þjóðarinnar og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi til að vinna bug á þeim, sem undirbúa hryðjuverk. Þetta verður ekki gert án lögheimilda í því skyni að veita þeim nægilegt aðhald, sem vilja knýja fram málstað sinn með ofbeldi en gæta verður þess um leið að ekki sé vegið um of að mannréttindum, friðhelgi einkalífs og frelsi til orðs og æðis.

 

Þegar rætt er um þessi mál og viðbrögð íslenskra stjórnvalda, er oft spurt: Hver hefur áhuga á að vinna hryðjuverk á Íslandi? Spurningar af þessu tagi réttlæta ekki aðgerðarleysi af opinberri hálfu.  Við höfum ekki farið varhluta af því að einstaklingar og alþjóðasamtök knýi fram málstað sinn með ofbeldi.

 

Árið 1986 var tveimur hvalbátum sökkt af Paul Watson og samstafsfólki hans í Sea Shepherd-náttúruverndarsamtökunum. Þegar alþingi samþykkti í mars 1999, að hvalveiðar skyldu hafnar að nýju, kvaddi Paul Watson sér hljóðs, fordæmdi ályktunina og minnti á, að efnahagsþvinganir væru ekki eina leiðin til að bjarga hvölum.

 

Hrakspár um, að hvalveiðar myndu spilla ímynd Íslands og draga úr komu ferðamanna, ekki síst frá Bandaríkjunum, hafa ekki ræst, bandarískir ferðamenn eru meira að segja fjölmennari en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir lágt gengi dollars og hátt gengi krónunnar.

 

Í sumar höfum við í rúma tvo mánuði kynnst alþjóðlegum umhverfissinnum með önnur áhugamál en hvali. Hinn 14. júní síðastliðinn var sagt frá því, að samtökin Náttúruvaktin teldu alþjóðlega ráðstefnu um áliðnað á hótel Nordica auglýsingu um Ísland sem kjörið og ódýrt orkuver og málbræðsluland. Síðar  sama dag ruddust þrír óboðnir gestir, tveir karlar og kona, inn í fundarsalinn á Nordica og slettu grænu skyri á ráðstefnugesti og beindu atlögunni að fulltrúum Alcoa, Bechtels og Landsvirkjunar. Spurðu mótmælendur, hvers virði skraddarasaumuð jakkaföt væru í samanburði við stærstu ósnortnu víðerni, sem eftir væru í Vestur-Evrópu. Þau voru handtekin og breskur maður dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Náttúruvaktin þvoði hendur sínar af innrásinni.

 

Frá  3. júlí  til 8. ágúst voru fulltrúar þessara mótmælenda með tjaldbúðir á Austurlandi og gerðu þaðan atlögu að framkvæmdum við Kárahnjúka og á Reyðarfirði. Fjöldi lögreglumanna víða af landinu var kallaður á vettvang til að halda þarna uppi lögum og reglu. Aðfaranótt 26. júlí létu 30 mótmælendur til skarar skríða að næturlagi við Kárahnjúka og var þeim stjórnað af foringjum sínum í gegnum talstöðvar.

 

Á meðan hópurinn var fyrir austan var skemmdarverk  unnið á nýlögðum  130 kw jarðstreng RARIK í Skriðdal. Grafið var niður á strenginn sem er á metradýpi og hann sagaður í sundur með járnsög eða slípirokk. Eftir að hópurinn kom til Reykjavíkur var sænskur maður handtekinn í miðborg Reykjavíkur grunaður um að hafa úðað slagorðunum: Stöðvum Alcoa og Ekki eyðileggja Ísland á Alþingishúsið, styttuna af Jóni Sigurðssyni og fjölda annarra húsa í miðborginni.

 

Leitast hefur verið við að snúa umræðum um þessi óhæfuverk á haus og gera þau að vandamáli lögreglunnar.

 

Birgitta Jónsdóttir úr hópi mótmælenda hélt því fram í útvarpsviðtali, að sími sinn væri hleraður, enda hefði „nýjum hryðjuverkalögum“ verið laumað í gegnum alþingi á síðasta degi þess fyrir sumarleyfi nú í vor, án þess að fólk veitti því athygli. Lögin væru afskaplega loðin og það væri auðvelt að nota þau gegn mótmælendum, jafnvel miklu frekar en hryðjuverkahópum. Taldi hún, að hlera mætti síma án dómsúrskurðar samkvæmt þessum nýju lögum.

 

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður sagði, að atburðir í Evrópu og umræða þar bæði um væntanlegar breytingar á löggjöf og þær breytingar, sem þar hefðu orðið, væri með einhverjum hætti farnar að skila sér til íslensku lögreglunnar, hún ætlaði í einhverju slíku skjóli að ganga enn lengra en áður og segja, að allir sem andmæltu einhverju kynnu að vera einhvers konar hryðjuverkamenn. Og í sama útvarpsþætti spurði Birgitta: „Ha, eru það hryðjuverk að skvetta skyri á jakkaföt, ég bara spyr. Ef það er definition á hryðjuverkum að þá hlýtur bara meira og minna allt að vera hryðjuverk sem maður tekur sér fyrir hendur.“

 

Ég vék að því í upphafi, að erfitt reyndist á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að ná samkomulagi um definition eða skilgreiningu á hryðjuverkum, en enginn hefur líklega gengið eins langt þar og Birgitta Jónsdóttir. Ég veit ekki til þess, að nokkurt stjórnvald á Íslandi hafi lýst þau mótmæli, sem að ofan eru nefnd, hryðjuverk.

 

Birgitta Jónsdóttir hefur greinilega ekki minnstu hugmynd um efni laga, sem alþingi samþykkti síðastliðið vor, þar voru að minnsta kosti ekki samþykkt nein hryðjuverkalög. Íslensk stjórnvöld eiga hins vegar eftir að huga að nauðsynlegum lagabreytingum, eftir að hafa ritað undir sáttmála Evrópuráðsins gegn hryðjuverkum. Þá er það einfaldlega hreinn hugarburður, að íslenska lögreglan hafi heimild til að hlera síma án dómsúrskurðar.

 

Ummæli Ragnars Aðalsteinssonar um framgöngu lögreglunnar eru rakalaus og öfgafull en minna á, hvernig aðgerðum stjórnvalda hér og annars staðar til að halda uppi lögum og rétti er snúið í andhverfu sína af þeim, sem virðast telja mannréttindi einskonar sérréttindi til að traðka á rétti annarra í nafni öfgakennds málstaðar á borð við þann, að ekki megi virkja fallvötn eða veiða hvali.

 

Góðir fundarmenn!

 

Ef þið hafið talið, að ég mundi geta svarað því hér, hvernig ætti að skilgreina hryðjuverk eða uppræta þau, verð ég að hryggja ykkur með því, að svör við því hef ég ekki.  Ég tel hins vegar, að hér sé ekki um stríð að ræða heldur baráttu við öfgamenn, sem geta birst í öllum þjóðfélögum, og gripið til illvirkja í nafni einhvers málstaðar.

 

Áfram verður gerð krafa til þess, að stjórnvöld geri nauðsynlegar ráðstafanir til að skapa borgurum ríkja sinna öryggiskennd gagnvart augljósri vá af framgöngu slíkra öfgamanna.

 

Við búum í frjálsu og opnu þjóðfélagi, þar sem skipst er á skoðunum um öll verk stjórnvalda og stjórnmálamenn þurfa að bera verk sín undir dóm kjósenda á fjögurra ára fresti. Það er alvarlegt, ef sá öryggisventill og aðrar löglegar leiðir duga ekki til að fólk fái útrás fyrir skoðanir sínar. Þegar slíkt ástand skapast verður ríkisvaldið að grípa til annars konar öryggisráðstafana, tryggja haldgóðar lögheimildir til þeirra og hafa afl til að framfylgja þeim. Þetta kennir sagan og þjóðir hafa því miður oft goldið þess illa að læra ekki af henni.