27.9.2008

Stimamýkt í Staksteinum.

Morgunblaðið 27. september, 2008.

Fyrir nokkrum dögum setti ég þessi orð á vefsíðu mína bjorn.is: „Þegar ég skrifaði Staksteina, var lögð rík áhersla á, að höfundar væru vel að sér um það, sem birst hefði í Morgunblaðinu. Skyldi sú regla ekki lengur við lýði?“

Í Morgunblaðinu 26. september sé ég, að höfundur Staksteina hefur lesið svör mín til blaðamanns, áður en þau birtust í blaðinu. Hann svarar þeim sama dag og þau birtast. Þetta er nýmæli og tíðkaðist ekki, þegar ég skrifaði Staksteina.  

Blaðamaðurinn spurði mig álits í tilefni af ferð Evrópunefndar til Brussel og sagði ég meðal annars í svari mínu: „Mig undrar enn í þessu sambandi, hve sumir stjórnmálamenn og álitsgjafar eru mjúkir í hnjáliðunum, þegar rætt er við embættismenn í Brussel.“

Vegna þessara orða spyr höfundur Staksteina, hvort ég eigi við Illuga Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, eða Geri H. Haarde, forsætisráðherra, með orðum mínum.  Svarið er einfalt, hvorugur þessara manna gengur fram á þenn veg gagnvart Evrópusambandinu, að lýsing mín eigi við þá.

Til dæmis um álitsgjafa, get ég bent höfundi Staksteina á einn úr þeirra hópi, þann, sem sýndi af sér einstaka stimamýkt í Staksteinum, eftir að utanríkisráðherra Spánar hafði gefið tóninn í heimsókn sinni hingað til lands á dögunum.

Höfundur er dóms- og kirkjumálaráðherra.