7.9.2008

Staksteinar í ófæru.

Morgunblaðið 6. september, 2008.

Í Morgunblaðinu föstudaginn 5. september er fjallað um aðild Íslands að evrópsku lögreglusamstarfi, sem kennt er við þýsku borgina Prüm vegna samkomulags, sem þar var gert um að styrkja innviði lögregluliða í Evrópu með nánara samstarfi. Í svari mínu til blaðsins sagði ég meðal annars:

„Leiðin til að koma málum á hreyfingu gagnvart ESB er að setja sér markmið, tryggja lögheimildir og banka síðan upp á í höfuðborgum lykilríkja og fá pólitískan stuðning. Þetta hefur nú verið gert vegna aðildar að Prüm-lögreglusamstarfinu.“

Ríkisstjórn Íslands félst á tillögu mína um að sækja um aðild að Prüm, málið hefur verið rætt við Frakka, sem nú fara með formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins og ég ræddi það hinn 26. ágúst við Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Þýskalands, sem tók erindinu vel.

Sömu aðferð þarf að beita í öllum samskiptum Íslands við Evrópusambandið, kanna lögheimildir þess, marka stefnu og leita henni fylgis. Ég hef lagt mig fram um að kanna hvaða lögheimildir Evrópusambandið hefur til að semja við ríki utan sambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum, það er evruna. Könnun mín sýnir, að þær heimildir eru fyrir hendi, og hef ég kynnt þá niðurstöðu.

Ég hef hins vegar ekki markað neina stefnu í gjaldeyrismálum þjóðarinnar og margsagt, að til þess skorti mig alla þekkingu. Höfundur Staksteina Morgunblaðsins leggur fyrir mig spurningar í dálki sínum 6. september og byggjast þær allar á þeirri óskhyggju hans, að ég sé talsmaður upptöku evru. Ég er enginn málsvari evru-aðildar, hef aðeins bent á, að aðrar leiðir séu fyrir hendi en innganga í Evrópusambandið, ef evru-stefna yrði mörkuð – það er einhliða upptaka evru og tvíhliða samningur. Ég loka hvorki augum né eyrum fyrir rökum fyrir nýrri gjaldeyrisstefnu, séu þau kynnt.

Ef Ísland tæki upp evru með samkomulagi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, réði efni þess samnings því að sjálfsögðu, hvernig samstarfinu yrði háttað. Höfundur Staksteina hefur gert upp hug sinn á þann veg, að úr því að spánski utanríkisráðherrann samþykkir skoðun seðlabankastjóra Evrópu, gildi hið sama um íslensk stjórnvöld og alla viðmælendur Íslands á vettvangi Evrópusambandsins.

Að óreyndu hefði ég talið, að spænski ráðherrann hefði nóg með að sannfæra sína eigin landsmenn um nauðsyn þess að lúta evrópska seðlabankanum í einu og öllu. Á Spáni á sú skoðun vaxandi fylgi að fagna, að evran sé örlagarík undirrót mikils efnahagsvanda þar. Evrópski seðlabankastjórinn blæs á þá skoðun og líkir Spáni við Texas innan Bandaríkjanna, ekki sé bandaríski seðlabankastjórinn með hagsmuni Texas í huga, þegar hann taki ákvarðanir, háleitari og merkilegri sjónarmið ráði.

Staksteinar eru í ófæru, ef þeir leita svara hjá mér um nauðsyn þess að taka upp evru.  Skoðun mín um heimildir í því efni hefur ekki breyst, jafnvel þótt spænski utanríkisráðherrann sé annarrar skoðunar. Umræður síðustu vikna um skoðun mína hafa hins vegar leitt í ljós ótrúlega undirgefni málsvara Evrópusambandsaðildar við skoðanir embættismanna Evrópusambandsins, hvort sem þeir sitja í Brussel eða Frankfurt. Þessi undirgefni er tilefni umræðna um, hverjum unnt sé að treysta til að halda fram málstað Íslands gagnvart Evrópusambandinu.