16.3.2008

OR/REI-hneykslið og ófarir borgarstjórnar

Þjóðmál, vetur 2007.

 

 

 

 

  

 

 

 

Hinn 3. október 2007 var skýrt frá því, að nýtt fyrirtæki væri komið til sögunnar. Reykjavik Invest Energy (REI) og hefði það orðið til fyrir samruna tveggja fyrirtækja: Reykjavik Energy Invest, sem var 93% í eigu Orkuveitu Reykjavíkur (OR) en 7% voru í eigu Bjarna Ármannssonar, stjórn-arformanns, og Jóns Diðriks Jónssonar, starfsmanns REI, og Geysir Green Energey (GGE) sem var 43,1% í eigu FL Group, 16,1% í eigu Glitnis, 32% í eigu Atorku og 8,8% í eigu annarra, þar með félaga, sem kennd eru við framsóknarmenn undir forystu Finns Ingólfssonar. Stofnun þessa fyrirtækis hratt af stað atburðarás, sem leiddi til þess, að sjálfstæðismenn hurfu úr meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, þegar Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, gekk til liðs við vinstrimenn í því skyni að tryggja framgang samrunans.

Allri þessari atburðarás er nákvæmlega lýst í fróðlegri grein eftir Pétur Blöndal í Morgunblaðinu 4. nóvember. Af þeirri lýsingu sést svart á hvítu, að sex af sjö borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins var stórlega misboðið vegna aðferðanna við að stofna hið nýja REI með samrunanum við GGE. Þar kemur einnig fram, að Björn Ingi Hrafnsson gegndi lykilhlutverki í því laumuspili, sem leiddi til samrunans. Hann myndar hins vegar nú félagshyggju-meirihluta borgarstjórnar með Svandísi Svavarsdóttur, oddvita vinstri/grænna, sem harðast gagnrýndi vinnubrögð Björns Inga og félaga í samrunaferlinu.

Í Morgunblaðinu hinn 17. nóvember sagði Hörður Bergmann:

„Uppreisn borgarfulltrúa Sjálfstæðis-flokksins vitnaði um einlæga hneykslun og vilja til að bera siðferðilega ábyrgð gagnvart almenningi. Atburðarásin gefur okkur innsýn í veikleika opinberrar stjórnsýslu þegar glímt er við fjársterka fésýslumenn.“

 

*

Dagur B. Eggertsson, þáverandi fulltrúi Samfylkingarinnar, og Sigrún Elsa Smáradóttir, þáverandi varafulltrúi Sam-fylkingarinnar, í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur rituðu hinn 7. október sl. lofsamlega grein í Morgunblaðið um sameiningu REI og GGE:

„Því samruni REI og GGE getur þrátt fyrir allt verið skref í rétta átt í útrás íslenskra orkufyrirtækja. Ekki leikur vafi á því að sameinað fyrirtæki stendur sterkar að vígi í verkefnum sínum erlendis en fyrirtækin sitt í hvoru lagi. Annað sem er ánægjulegt við þennan samrunasamning er að viðskiptavild og orðspor Orkuveitu Reykjavíkur er metið í samningnum á 10 milljarða. Þessir 10 milljarðar eru þannig metnir til viðbótar við framlag OR í peningum og efnislegum eignum, meðan aðrir eignast sinn eignarhlut í félaginu með því að leggja eignir og peninga inn í félagið. Í samningnum um samrunann er Orkuveita Reykjavíkur því að njóta þeirrar þekkingar og reynslu sem orðið hefur til í fyrirtækinu og íslenska orkuútrásin byggist á.“

Á stjórnmálavettvangi hafa borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ásamt Birni Inga Hrafnssyni verið helstu talsmenn þess, að ekki skuli horfið frá samruna REI og GGE. Af þeirra hálfu hefur hagnaðarvon OR verið máluð sterkum litum vegna samrunans. Sjálfstæðismenn hafa hins vegar varað við því, að áhætta sé tekin með eignir Reykvíkinga – vilji menn hætta fé í Indónesíu eða á Filippseyjum, eigi þeir að eiga þá peninga sjálfir en ekki ráðskast með eignir almennings.

 

*

 

Nú hefur verið horfið frá samrunanum. Hinn 1. nóvember 2007 samþykkti borgarráð Reykjavíkur einróma:

 1. Borgarráð fellst ekki á samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy og telur jafnframt að þjónustu-samningur Orkuveitunnar og Reykjavík Energy Invest sé óásættanlegur.

2. Borgarráð telur að eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur 3. október síðastliðinn og þær ákvarðanir sem þar voru teknar séu haldnar miklum annmörkum og mikinn vafa leika á um lögmæti fundarins.

3. Borgarráð samþykkir jafnframt að beina því til fulltrúa borgarinnar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að ljúka málinu í samræmi við þessa niðurstöðu borgarráðs.

Þá vill borgarráð, að gerð sé stjórnsýsluút-tekt á OR og tekur með því undir gagnrýni á leyndarhyggjuna og vinnuaðferðir stjórn-enda OR en í greinargerð með tillögunni, sem borgarráð samþykkti segir:

„Kjörnir stjórnarmenn í fyrirtækjum borgarinnar eiga að viðhafa opið og gegnsætt ferli við ákvarðanatöku og þeim er ekki ætlað að taka umfangsmiklar ákvarðanir án þess að fyrir því hafi legið samþykktir eða rökstuðningur. Við skoðun á aðdraganda málsins og málsmeðferð hefur stýrihópurinn komist að því að reglur kunni að hafa verið brotnar að því er varðar umboð, upplýsingamiðlun, meðferð gagna og nálgun. Slíkt varðar athafnir og ákvarðanir stjórnarmanna fyrirtækjanna, æðstu stjórnenda og fulltrúa eigenda. Þetta hefur leitt til þess að trúnaðarbrestur hefur orðið í ferlinu öllu, sem er nauðsynlegt að horfast í augu við og draga lærdóma af.“

Þegar litið er á málflutning sex borgarfulltrúa sjálfstæðismanna frá 3. október verður ekki séð annað en málstaður þeirra hafi unnið fullan sigur í þessu máli.

 

*

 

Pólitíska niðurstaðan er einfaldlega sú, að ekki stendur steinn yfir steini í málflutningi Björns Inga Hrafnssonar um ástæður þess, að hann sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn. Sá loddaraskapur gerði hann að pólitískum ómerkingi eins og staðfest er í leiðara Fréttablaðsins laugardaginn 3. nóvember, en þar segir Þorsteinn Pálsson um Björn Inga:

„Hin pólitíska hlið málsins er margþætt: Í fyrsta lagi var ljóst að niðurstaðan gat aldrei orðið á þann veg að bæði formaður sameinaðs borgarstjórnarflokks meirihlutans [Svandís Svavarsdóttir] og formaður borgarráðs [Björn Ingi Hrafnsson] gætu varðveitt málefnalegan trúnað. Nú liggur það fyrir að formaður borgarráðs hefur málefnalega sætt þeim örlögum að lúta í gras.

Sú staðreynd veikir hann verulega út á við. Hann var áhrifaríkur í fyrri meirihluta en sýnist nú vera áhrifarýr. En sú þversögn stendur eigi að síður eftir að viðskilnaður hans við sjálfstæðismenn í borgarstjórninni sýnist hafa eflt virðingu hans inn á við í Framsóknarflokknum.“

 

*

 

Miðað við áralangan vandræðagang OR í fjárfestingum utan kjarnastarfsemi sinnar hér á landi er full ástæða til að hafa áhyggjur af því, að stjórn félagsins hefur nú ákveðið að fara með fé Reykvíkinga og annarra eigenda OR í áhættufjárfestingu á Filippseyjum eða eins og segir á mbl.is 3. nóvember:

„Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformað-ur Orkuveitunnar, segir að með ákvörð-uninni sé verið að standa vörð um hagsmuni almennings þar sem þegar hafi talsverðum fjármunum verið varið í verkefnið og verulegir hagsmunir séu í húfi. Þá þurfi að standa vörð um trúverðugleika REI, að því er fram kemur í tilkynningu.

Það eru REI og Geysir Green Energy sem standa saman að íslenskri þátttöku í tilraun til að eignast ráðandi hlut í filippseyska félaginu í bandalagi við heimamenn. Samstarf í þessa veru hófst haustið 2006 þegar Orkuveitan studdi tilboð Glitnis og FL-Group í fyrsta áfanga einkavæðingar PNOC-EDC, sem er stærsta jarðvarmaorkufyrirtæki Filippseyja.“

Með öðrum orðum úr því að byrjað er að grafa holu felast „hagsmunir almennings“ í því að grafið sé dýpra. Sagan kennir, að þessi stefna hefur ekki endilega reynst OR til framdráttar. Risarækjueldi OR hefur verið aflagt, eftir að lengi var talið að „hagsmunir almennings“ kölluðu á það, sömu sögu er að segja af Feygingu í Þorlákshöfn, sem átti að vinna með hör og enn má nefna Þórsbrunn til að flytja út vatn með Vífilfelli og Hagkaupum. Ekkert af þessu hefur gengið eftir og enn er óvissa um Línu.net eða Gagnaveituna eins og fyrirtækið heitir nú. Verð hennar hefur verið talað upp eins og gert var með verðið á REI.

Ef OR/REI tekst betur að ávaxta fé Reykvíkinga á Filippseyjum en hér á landi er þess að sjálfsögðu beðið með mikilli eftirvæntingu. Hvort rökstyðja beri þá áhættu með vísan til „hagsmuna almennings“ er annað mál.

Orkan í iðrum jarðar, virkjuð í þágu Reykvíkinga og nágranna þeirra er undirstaða Orkuveitu Reykjavíkur (OR) en stjórnendur hennar hrifsuðu hluta af verðmætum frá fyrirtækinu til að nota í öðrum tilgangi og þeir ætluðu að hagnast sjálfir af eignarhlut í nýju fyrirtæki Reykjavík Energy Invest (REI). Deilan, sem leiddi til byltingar í borgarstjórninni snýst um eignarhald og nýtingu á náttúruauðlindum í opinberri eigu.

 

*

 

Fáfnir birtist í átökunum um OR/REI. Guðlaugur Þór Þórðarson, heil-brigðisráðherra, leysti hann úr fjötrum formennsku bygginganefndar nýs hátækni-sjúkrahúss. Alfreð Þorsteinsson breytti Framsóknarflokknum í Reykjavík í tröllaflokk til að gæta OR/gullsins, eftir að það hafði verið hrifsað úr höndum Reykvíkinga og umboðsmanna þeirra. Laugardaginn 13. október skýrði Fréttablaðið frá því, að innsti kjarni Framsóknarflokksins ætti þar mikilla eiginhagsmuna að gæta.

Í tröllahöndum höfnuðu framsóknar-menn samstarfi við sjálfstæðismenn í borgarstjórn og var þeim þá tekið fagnandi af Samfylkingu, vinstri/grænum og frjálslyndum/óháðum. Dagur B. Eggertsson, verðandi borgarstjóri Samfylkingar, sagði Björn Inga Hrafnsson, eina borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, hafa beðist afsökunar — þar með væri hann samstarfshæfur. Á fundi með framsóknarmönnum í Reykjavík klökknaði Björn Ingi, þegar hann lýsti ástæðum hamskiptanna.

Í leiðara Fréttablaðsins laugardaginn 13. október segir Þorsteinn Pálsson: „Sexmenningarnir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðis-flokksins sitja eftir með þá ímynd að hafa fórnað meirihlutanum fyrir tæknilegan ágreining við borgarstjóra [Vilhjálm Þ.] og formann borgarráðs [Björn Inga] um það hvort selja eigi hlutabréf einu ári fyrr eða síðar.“

Ritstjórinn notar orðið „ímynd“ af því að hann veit af langri stjórnmálareynslu, að samstarf springur ekki vegna deilna um, hvort eitthvað eigi að gerast mánuði fyrr eða síðar. Miklu meira býr að baki byltingu en deila um tímamörk. Skýringu er að finna í frétt á forsíðu Fréttablaðsins sama dag og Þorsteinn birti leiðarann. Framsóknarmenn óttuðust, að sjálfstæðismenn mundu krefjast ógildingar ákvarðana um brýna hagsmuni þeirra. Eða eins og Þorsteinn segir einnig í leiðaranum:

„Gangi Björn Ingi Hrafnsson inn í nýtt samstarf með þeim afarkostum að þurfa að viðurkenna ólögmæti samþykkta eigendafundarins yrði hann að hreinu pólitísku viðundri. Kjarni málsins er sá að þau geta ekki bæði [Svandís og Björn Ingi] haldið pólitísku höfði. Annaðhvort þeirra þarf að fórna pólitískum trúverðugleika fyrir byltinguna, Undan því verður ekki vikist.“

Í hrunadansi félagshyggjunnar í borgarstjórn Reykjavíkur er öllu fórnað til að ná í gullið og tryggja, að það haldist í tröllahöndum. Í því efni skildi einmitt á milli borgarfulltrúa sjálfstæðismanna og vinstri-manna að lokum — hið einkennilega er, að Svandís Svavarsdóttir skyldi á úrslitastundu skipa sér í raðir þeirra, sem vilja ríghalda í niðurstöðu eigendafundarins. Var henni gefin óminnisdrykkur?

Þorsteinn Pálsson segir í leiðara sínum, að Björn Ingi hafi með framgöngu sinni í borgarstjórn hefnt þess, að Framsóknar-flokknum hafi verið „ýtt“ úr ríkisstjórn, það gefi Birni Inga „hetjuyfirbragð innan flokks.“

Þetta er forvitnileg kenning en víst er, að Birni Inga verður ekki jafnað við Fáfnisbana vegna hetjudáða. Enginn framsóknarþingmaður var á flokksfundi í Reykjavík, þegar þeir Björn Ingi, Alfreð Þorsteinsson og Óskar Bergsson föðmuðust af feginleika. Verður Björn Ingi hetja við að hefna sín á Reykvíkingum fyrir að veita engum framsóknarmanni brautargengi í síðustu þingkosningum? Er líklegt, að vegur Framsóknarflokksins vaxi í Reykjavík með því að Björn Ingi gangi erinda oligarka flokksins? Guðni Ágústsson taldi sig vera að bjarga flokknum úr höndum þessara manna, þegar hann yfirgaf fund Halldórs Ásgrímssonar í Þingvallabænum um hvítasunnu 2005. Nú svíkja framsóknarmenn  Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík til að gæta hagsmuna þeirra.

Sögnin að svíkja á við um framgöngu Björns Inga gagnvart Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, fráfarandi borgarstjóra Sjálf-stæðisflokksins.  Björn Ingi lýsir tilfinningaríkri  vandlætingu  í garð samstarfsmanna Vilhjálms Þ. í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna og sakar þá um að bregðast Vilhjálmi á örlagastundu. Sjálfur lét Björn Ingi þannig við Vilhjálm fram eftir kvöldi miðvikudags 10. október, eftir að hann hafði ákveðið að yfirgefa sjálfstæðismenn næsta dag, að Vilhjálmur andmælti af þunga öllum fullyrðingum samstarfsmanna sinna meðal sjálfstæðismanna um, að Björn Ingi væri að fara yfir til vinstrimanna.

 

*

 

Kapp er best með forsjá segir Ingvar Birgir Friðleifsson, skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, og að kraftur verði ekki talaður upp í borholum eins og á verðmæti verðbréfa. Þetta á ekki aðeins við um orku, eins og þeir Hannes Smárason og Bjarni Ármannsson vita, til dæmis af reynslu þeirra af því að tala upp verðmæti deCode um árið.

Nýlega voru þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Guðmundur Þóroddsson á palli með Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í New York, þar sem hann heiðraði þá  fyrir að lofa 8 til 9 orkumilljörðum Reykvíkinga á næstu fimm árum til fjárfestinga í Djíbúti, einu fátækasta ríki Afríku. Spyrja má: Með samþykki hverra var loforðið við Clinton gefið — borgarstjórnar eða borgarráðs Reykjavíkur? Um þetta eins og allt annað í þessu máli vaknar spurningin: Hverjir hafa í raun umboð til að ráðstafa orkumilljörðunum? Engin umgjörð breytir nauðsyn þess, að menn hafi heimildir til að ráðstafa eignum annarra.

Um þetta framtak sagði Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði, sem hefur starfað að jarðhitarannsóknum og jarðhitanýtingu í 40 ár, í grein í Fréttablaðinu 12. október, að hver sem vildi gæti séð, að útrásinni til Djíbútí væri ætlað að gefa eitthvað í aðra hönd og fátækir Afríkubúar ættu að greiða vextina. Síðan segir Stefán orðrétt: „Útrás Íslendinga í orkugeiranum á að víkja fyrir eldri stefnu Sameinuðu þjóðanna, a.m.k. þegar fátæk ríki eiga í hlut. Stefna Sam-einuðu þjóðanna er að styðja fátæk ríki til sjálfshjálpar en Bandaríkin og fleiri ríki hafa nánast svelt þessa stefnu í hel og það fyrir allmörgum árum. ... Útrásin í orkugeiranum er ekki augljóslega göfugt fyrirbæri eins og flestir virðast halda, a. m. k. ekki þegar fátæk þróunarlönd eru annars vegar.“

Hátíðarstundin með Clinton gefur þannig ekki aðeins tilefni til að spyrja um ráðstöfunarrétt þeirra, sem lofuðu orkumilljörðunum. Hún kallar einnig á svör við því, hvort Íslendingar hafi horfið af þeirri braut, sem mörkuð var með Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna: Að styðja þjóðir til sjálfshjálpar með nýtingu og virkjun jarðvarma.

Ef litið er á tekjur REI/GGE við nú-verandi aðstæður er uppspretta þeirra nær eingöngu innan lands, það er hjá Hitaveitu Suðurnesja (HS) og Jarðborunum. Lunginn af efnislegum eignum REI/GGE felst í HS (24 milljarðar af 40 milljörðum) en verðið byggist á kaupum GGE á hlut ríkisins í HS, en þá bauð GGE 50% hærra verð en næstbjóðandi. Sú ályktun verður af því dregin, að verðið sé í hærra lagi. Verð á Jarborunum er talið 16 milljarðar, en það ræðst af nýlegum viðskiptum GGE og Atorku með bréf í Jarðborunum. Er það verð kannski einnig í hærra lagi vegna vitneskju innvígðra um fyrirhugaða sameiningu REI og GGE?

Jarðboranir hafa nær einokunaraðstöðu hér með verkefni á vegum OR, HS og Landsvirkjunar með stórar borholur á háhitasvæðum og væntanlegar djúpboranir, en ákveðið hefur verið að verja 5 milljörð-um af opinberu fé til þeirra.

ENEX-hönnun er fyrirtæki með verkefni erlendis en tekjur af þeim hafa ekki verið á þann veg, að gefi vonir um mikinn arð og munu fyrirtæki erlendis vera metin á um einn milljarð króna. Fyrir utan orkumilljarðana 8 til 9 til Djíbúti er boðuð áhættufjárfesting á Filippseyjum í PNOC-EDC, stærsta varmaorkufyrirtæki heims. 155 milljarða kr. verð fyrirtækisins er vafalaust hagkvæmt í samanburði við HS, en viðskiptavinir fátækir og stjórnmálaástand ótryggt.

Í fyrrnefndri grein víkur Stefán Arnórsson prófessor að þessari fjárfestingu og segir það gæðastimpil fyrir REI/GGE að hafa OR með í þessari fjárfestingu. Hann lýkur grein sinni á þessum orðum: „Ef íslensk fyrirtæki geta eignast auðlindir og orkuver erlendis, á það að vera gagnkvæmt? Er okkur stætt á öðru? Eiga erlend fyrirtæki þá ekki að geta eignast orkuauðlindir okkar og orkuver og hvernig ætla íslensk stjórnvöld að verja eignaraðildina þegar opinbert íslenskt fyrirtæki leikur afgerandi hlutverk í útrásinni?“

Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur hjá OR, varð þjóðkunnur í þann mund, sem framkvæmdum lauk við Kjárahnjúka-virkjun, þegar hann taldi hættu á ferðum, vegna þess að menn hefðu ekki rætt virkjunina nóg og ekki tekið mið af ábend-ingum sínum. Taldi hann ekki hafa verið farið að réttum leikreglum við aðdraganda og undirbúning virkjunarinnar. Næst komst hann í fréttir, þegar birtur var listi yfir kaupréttarhafa í REI. Loks er birt við-tal við hann í Fréttablaðinu 12. október, þar sem hann segist hafa fengið starfstilboð frá erlendum olíufélögum en hér rífist menn „um einhver pólitísk formsatriði eins og hundur og köttur“, en við það geti tapast niður forskot til að græða í samkeppni við hin ofsaríku olíufélög.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI/GGE, sagði, áður en Svandís Svavarsdóttir sagðist ætla að „róa umræðuna“, að stöðva þyrfti „stjórnlausar umræður“ til að tryggja hag félagsins – á þessum dögum hefur verð fyrirtækisins verið talað upp úr 65 milljörðum í 500 milljarða króna. Hvar er stjórnleysið í umræðunum?

 

*

 

Eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti samhljóða að kvöldi 16. nóvember að staðfesta fyrri ákvarðanir borgarráðs Reykjavíkur  frá 1. nóvember og  síðan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um að hafna samruna Reykjavik Energy Invest (REI) við Geysi Green Energy (GGE). Þar með felldi eigendafundur ákvörðunina frá 3. október úr gildi.

Jafnframt samþykkti fundurinn að veita Bryndísi Hlöðversdóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar og stjórnarformanni Orkuveitunnar, umboð til þess að hefja viðræður við ríkið og meðeigendur í Hitaveitu Suðurnesja um framtíð fyrirtækisins í því skyni að tryggja að auðlindir og almenningsveitur verði í eigu almennings.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lýsti niðurstöðunni á þann veg, að nú stæði eftir útrásararmur Orkuveitunnar, REI, sem væri í eigu OR að langstærstum hluta. „Nú tekur við það verkefni hjá okkur að búa útrásinni heilbrigt umhverfi og læra af þessu máli öllu saman, en jafnframt viljum við huga að orkuumhverfinu almennt og munum, eins og kynnt var á þessum fundi, óska eftir viðræðum við ríkið, sveitarfélög og meðeigendur okkar í Hitaveitu Suðurnesja um að tryggja það að auðlindir og almenningsveitur verði í almenningseign,“ sagði Dagur í samtali við Morgunblaðið 17. nóvember.

Hann sagði jafnframt eðlilegt að hefja viðræður við GGE. Ágreiningur væri milli aðila og mikilvægt að kanna hvort hægt væri að leysa hann í einhvers konar samkomulagi. „Það er alltaf betra ef það er hægt að finna einhverja fleti þar sem hagsmunir fara saman,“ sagði Dagur einnig.

Hinn 19. nóvember var gengið frá sátt í máli Svandísar Svavarsdóttur gegn Orkuveitu Reykjavíkur vegna ákvarðana eigendafundarins 3. október. Í sáttinni fólst, að OR viðurkenndi að eigendafundurinn hefði verið ólögmætur og Svandís féll frá kröfu um að ákvarðanir fundarins yrðu dæmdar ólögmætar. Sáttin fól jafnframt í sér að OR greiðir kostnað Svandísar af málshöfðuninni.  Þetta er sérkennileg sátt, svo að ekki sé meira sagt, því að hún er milli Svandísar í borgarstjórn við Svandísi í stýrihópnum, sem er yfirfrakki stjórnar OR. Í raun er þetta einn einkennilegasti liðurinn í leikritinu, sem nýr meirihluti borgarstjórnar setti á svið til að fara bakdyramegin að samstarfi við GGE með sama markmiði og sett var með REI 3. október.

 

*

 

Eftir að REI hafði að nýju breyst í félag í eigu OR með slitum á samstarfinu við GGE, tók stjórn þess að funda um verkefni félagsins og hvernig það ætti að standa að útrásinni, sem að mati Samfylkingarinnar er höfuðverkefni félagsins eins og fram hefur komið hjá Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra, Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra og Bryndísi Hlöðversdóttur, stjórnarfor-manni OR.

Stjórn REI fundaði laugardaginn 17. og sunnudaginn 18. nóvember til að ræða fjárfestingar í Orkuveitu Filippseyja og samstarf við GGE og orkufyrirtæki á Filippseyjum. Engin niðurstaða varð á fundunum. Í fréttum var sagt frá því, að málsvarar GGE teldu sig enn vera með löggildan samrunasamning við REI í höndum. Bryndís Hlöðversdóttir kvað nauðsynlegt að ná lendingu, sem báðir gætu sætt sig við, en Bryndís taldi hana ekki í sjónmáli. Og í fréttum sjónvarpsins var vitnað í Bryndísi að kvöldi 18. nóvember og síðan sagt: „Málið er flókið því þræðir Geysis Green og REI liggja víða saman. Bæði eiga fyrirtækin hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Þau starfa einnig saman í útrásarfyrirtækjunum Enex og Enex Kína og síðan er það Filipps-eyjaverkefnið. Erfitt gæti því reynst fyrir borgina og Orkuveituna að fara aðra leið en að semja við Geysi Green sem ætlar að fara fram á skaðabætur ef ekki semst. Það er því allt annað en einfalt að ákveða framtíð REI.“

Af þessu verður ekki annað ráðið en Bryndís Hlöðversdóttir telji leið úr ógöngum REI að semja að nýju við REI eftir allt, sem á undan er gengið.

Hinn 2. nóvember áttu þessi orðaskipti sér stað í fréttatíma hljóðvarps ríkisins:

 

Hannes Smárason, stjórnarformaður GGE: „Menn eru að leika sér að eldinum hvað það snertir [rifta samningi REI og GGE] og jafnframt þá mögulega að skapa sér bótaskyldu ef þeir standa ekki við gerða samninga. Þannig að það er alveg ljóst að menn þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en að þeir einhliða ákveða að taka ákvarðanir í þessum efnum.“

Sveinn Helgason fréttamaður: „Þú ert að tala um að Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur geti bakað sér bótaskyldu?“

Hannes Smárason: „Það er alveg klárt og hún mun verða umtalsverð ef menn halda áfram án þess að setjast niður að samningaborði með einhverjum hætti.“

Sveinn: „Ertu að tala um milljarða króna?“

Hannes Smárason: „Já, að sjálfsögðu.“

 

Merkilegt er, að Bryndís Hlöðversdóttir minnist aðeins á, að GGE geti krafist skaðabóta. Hinn 31. október 2007 lagði Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, fram minnisblað á stjórnarfundi OR, þar sem sagði meðal annars:

„Í samrunaefnahagsreikningi REI og GGE sem unninn var 30. október kemur fram að bókfært virði GGE er 30. september sl. kr. 18.721.246.000,- að viðbættum aðgerðum í framhaldi af samruna kr. 2.093.000.000,- eða alls kr. 20.814.246.000,-. Mismunur á samningsverði og bókfærðu verði er kr. 6.685.754.000,-. Bókfært virði eigna GGE byggist á mjög nýlegum samningum svo sem kaupum á hlutum í Hitaveitu Suðurnesja hf., kaupum á hlutum í Enex hf. og kaupum á Jarðborunum hf. Kaupin á Hitaveitu Suðurnesja hf. og Jarðborunum hf. áttu sér stað í júlí–ágúst. Færa má fyrir því gild rök að eignasafn GGE sé hátt metið og beri ekki það yfirmat sem samningsverðið felur í sér.“

Var þetta minnisblað túlkað á þann veg, að við samrunann hafi GGE verið ofmetið um 6,7 milljarða króna. Getur það ekki skapað rétt OR/REI til skaðabóta úr hendi viðsemjanda síns?

 

*

 

Hinn nýi meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur ákvað að setja málefni OR í sérstakan stýrihóp undir formennsku Svandísar Svavarsdóttur. Hlutverk hans er að kortleggja aðdraganda ófaranna vegna REI og leggja á ráðin um framtíðina.

Umboðsmaður alþingis lagði spurningar fyrir borgarstjórn, sem endurspegluðu mikla gagnrýni hans á málsmeðferð borgarstjórnar. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, fól borgarlögmanni að svara. Svörin voru borin undir Dag B. Eggertsson og síðan send umboðsmanni án vitundar borgarráðs eða borgarstjórnar. Leyndarhyggjan réð málsmeðferð borgarstjóra og kemur í ljós, hvort umboðsmaður telur þessa stjórnsýsluhætti viðunandi.

Störf stýrihópsins einkennast einnig af leyndarhyggju. Í skjóli hans er neitað að gefa upplýsingar um málefni OR og í skjóli viðskiptaleyndar er neitað að gefa upplýsingar um stefnu REI eða þau áform Bryndísar Hlöðversdóttur að leita sátta við GGE.

Morgunblaðið skýrði hins vegar frá því á forsíðu 22. nóvember, að með  „sáttatillögu“ eða „vinnuskjali“ frá meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur frá því í vikunni áður, væru línur lagðar eftir höfnun OR á samruna GGE og REI. Þar kæmi fram að eign OR í Hitaveitu Suðurnesja yrði látin renna inn í REI og þaðan inn í GGE, en í staðinn kæmi hlutafé í GGE. Lagt væri upp með að hlutur REI í GGE yrði aldrei hærri en 25%, ekki lægri en 15%, og að REI tryggði sér einn stjórnarmann í GGE.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sem situr í stýrihópi borgarstjórnar sagði í samtali við Stöð 2 22. nóvember tillöguna ekki hafa verið mótaða af stýrihópnum og hún kæmi á óvart. „Þarna virðist vera um einhvers konar bakdyrasamruna að ræða sem er vont fyrir alla aðila,“ sagði Gísli Marteinn; hann gæti þó ekkert sagt efnislega um málið vegna trúnaðarskyldu innan stýrihópsins.

Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem einnig á sæti í stýrihópnum, sagði einungis um tillögur að ræða, sem enn væru í vinnslu og að þær yrðu kynntar opinberlega að henni lokinni.

Svandís Svavarsdóttir, sem krafðist þess hástöfum hinn 3. október, að engin leynd ríkti um málefni OR, REI og GGE er nú formaður stýrihópsins, sem leggur þagnarhulu yfir ráðstafanir OR. Einu fréttirnar, sem eru staðfestar, bárust 22. nóvember frá Filippseyjum.

PNOC, ríkisolíufyrirtæki Filippseyja, sam-þykkti formlega 22. nóvember að taka 84 milljarða króna tilboði Red Vulcan Holdings Corp. fjárfestahópsins sem Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy eru aðilar að í dótturfyrirtækið, PNOC-EDC orkuveituna. Íslensku fyrirtækin drógu sig að vísu út úr tilboðinu, þar sem þeim þótti of hátt boðið. Virtist þar með útrás hinna nýstofnuðu fyrirtækja á Filippseyjum lokið í sama mund og hún hófst.

 

*

 

Í fyrirsögn þessarar greinar nota ég orðið OR/REI-hneykslið. Gangur málsins sýnir slík vinnubrögð, að ekki er unnt að kenna þau við annað en hneyksli. Sexmenningarnir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins eru hinir einu innan borgarstjórnar, sem hafa ekki látið flækja sig í þetta brask með eignir og fjármuni borgarbúa. Þeir vildu ekki una því, að samþykktin frá 3. október næði fram að ganga. Andstaða þeirra kostaði þá meirihlutasamstarf við Björn Inga Hrafnsson og Óskar Bergsson í borgarstjórn.

Nýr meirhluti félagshyggjunnar var mynd-aður í borgarstjórn án málefnasamnings en með það að markmiði að sigla OR/REI áfram í tengslum við GGE. Líklegt er, að birting Morgunblaðsins á „sáttatillögunni“ 22. nóvember hafi kæft hana í fæðingu. Hvaða bakdyraleið verður reynd næst?

Leyndarhyggja og ofríki við stjórn OR/REI verða að sjálfsögðu ekki upprætt nema ráðist sé að rót vandans og skipt um stjórnendur og teknir upp nýir stjórnarhættir. Stjórnsýsla í ráðhúsinu verður ekki bætt nema embættismenn fari að stjórnsýslureglum. Stjórnarhættir borgarstjórnar sæma ekki Reykjavíkurborg, á meðan meirihluti hennar starfar eins og hér er lýst.