5.7.2007

Vernd barna gegn nettælingu.

Grein í Morgunblaðinu 5. júlí 2007.

Málefni tengd vernd barna og efni refsireglna í því skyni voru helsta umræðuefnið á nýlegum fundi norrænna dómsmálaráðherra, sem haldinn var í Finnlandi. Sérstaklega var rætt um leiðir til að hindra, að netið sé notað til að lokka börn til kynferðislegs sambands og hvernig bregðast megi við hættum af þessum toga með refsireglum.

Ákveðið var, að ríkislögreglustjórar landanna skyldu ræða sameiginlegar aðgerðir Norðurlanda gegn misnotkun á netinu gegn börnum á fundi sínum í ágúst og leggja til grundvallar skýrslu frá norska dómsmálaráðuneytinu um varnarráðstafanir í þágu barna. Norrænir ríkissaksóknarar ræddu þetta mál á fundi sínum hér í Reykjavík um miðjan júní. Dómsmálaráðherrarnir stefna að aukafundi um málið í desember í Ósló.

,,Grooming" eða nettæling

Það kallast ,,grooming" í breskri löggjöf, þegar fullorðinn einstaklingur stofnar til sambands við barn á netinu og ræktar það í því skyni að hitta barnið síðar í kynferðislegum tilgangi. Hafa Bretar sett í lög sérstakt refsiákvæði um nettælingu og Norðmenn fetað í fótspor þeirra.

Nettælingu má lýsa þannig, að fullorðinn einstaklingur leitar eftir persónulegum ,,prófíl" barns á netinu eða fylgist með samskiptum barna á spjallrásum í leit að fórnarlambi með kynferðistengsl í huga. Síðan setur hann sig í samband við barn, oft undir því yfirskini að hann sé einnig barn, og ávinnur sér traust þess, t.d. með að sýna því umhyggju. Smám saman stofnar hinn fullorðni til náins tilfinninga- og trúnaðarsambands við barnið. Hann reynir á sambandið með kröfum og óskum og hreyfir við kynferðislegum efnum til að athuga þolmörk barnsins. Sýni barnið mótþróa slítur hinn fullorðni sambandinu við barnið eða reynir nýja leið til að afla sér trausts.

Þegar hinn fullorðni telur sig öruggan í sambandi sínu við barnið upplýsir hann smám saman um eigin hag og stingur síðan upp á fundi, þar sem kynferðisbrotið á sér stað. Dæmigert er að barnið vilji ekki horfast í augu við að hinn fullorðni hafi þessi áform, eða það þori ekki að segja öðrum frá af ótta við viðbrögð hans.

Íslensk löggjöf

Hér hefur verið upplýst um fullorðna einstaklinga með ráðagerðir á netinu um að hitta barn á tilteknum stað og hafa við það kynferðismök.

Í greinargerð sem fylgdi norska frumvarpinu um nettælingu er m.a. fjallað um norrænan rétt til upplýsinga og samanburðar en þar segir m.a. að ákvæðið um tilraun til brots í 20. gr almennra hegningarlaga hér á landi heimili refsingu fyrir verknað á fyrra stigi en samkvæmt norskum rétti.

Ríkissaksóknari hefur nú þegar gefið út þrjár ákærur í málum þar sem menn eru sóttir til saka fyrir nettælingu, þ.e. tilraun til kynferðisbrots gegn 13 ára stúlku í samræmi við ráðagerðir í tölvusamskiptum á spjallrás á netinu. Málin hafa verið þingfest og verður aðalmeðferð í þeim að hausti. Að sögn ríkissaksóknara má búast við að gefnar verði út fleiri sambærilegar ákærur á næstunni, enda liggja málsgögn þegar fyrir hjá embættinu.

Telji dómstólar unnt að refsa fyrir nettælingu á grundvelli þessa ákvæðis almennra hegningarlaga, má segja, að í íslenskum lögum sé að finna refsivernd gegn þessu ógnvekjandi athæfi gegn börnum. Komi í ljós, að dómstólar telji lagaheimildir til refsingar ekki fyrir hendi, er nauðsynlegt að bregðast við með nýju lagaákvæði og má þá líta bæði til Bretlands og Noregs.

Heimildir lögreglu

Samhliða því sem tryggt er, að refsiheimildir séu fyrir hendi, þarf að treysta þátttöku okkar í alþjóðlegri lögreglusamvinnu um þessi mál. Þá þarf að skoða til hlítar, hvort lögregla hafi nægar heimildir til að grípa inn í þá atburðarás, þegar barn verður fyrir árás frá óþekktum árásarmanni á netinu.

Hér varð töluverð andstaða á alþingi fyrir nokkrum misserum, þegar við Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra, stóðum að tillögu um að auðvelda miðlun og geymslu á svonefndum IP-tölum, en með þeim er unnt að rekja tölvusamskipti. Vorum við sakaðir um, að vilja ganga um of á friðhelgi einstaklinga með tillögum okkar og var Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, þar fremstur í flokki meðal þingmanna.

Án heimilda og leiða til að rekja tafarlaust tölvusamskipti kunna lögreglu að vera allar bjargir bannaðar í málum sem þessum. Skjót og fumlaus viðbrögð á réttu augnabliki geta skipt sköpum til að standa brotamann að verki. Í Noregi eru hugmyndir um að setja á fót beina kæruleið (svokallaðan rauðan hnapp) til lögreglu, bæði í gegnum netið og sérstakt símanúmer. Lögregla gæti síðan tekið við þræði barnsins og rakið hann til upphafs síns. Raunar hafa Norðmenn lagt drög að því að koma á fót sérstakri lögreglustöð, sem starfi aðeins í netheimum.