24.6.2012

Jóhanna í hremmingum vegna jafnréttismála

Samanburði er gjarnan beitt í spuna til að rétta hlut einhvers í vanda. Nú láta spunaliðar Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra eins og hremmingar hennar vegna brota hennar á jafnréttislögum sé sambærilegur við það sem á mér dundi um páskana 2004 þegar kærunefnd jafnréttismála birti álit sitt í þágu Hjördísar Hákonardóttur sem ég skipaði ekki í embætti hæstaréttardómara. Því er meira að segja haldið fram að ég hafi verið „sakfelldur“ og sitji uppi með sömu niðurstöðu þá og Jóhanna núna. Þessi samanburður stenst ekki gagnrýni. Hann gefur mér hins vegar enn eitt tilnefnið til að reifa málið gegn mér, rifja upp viðbrögð Jóhönnu þá og bera saman við framgöngu hennar núna.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætis- og jafnréttisráðherra, hefur sætt bindandi úrskurði kærunefndar jafnréttismála sem telur hana hafa brotið jafnréttislög sem tóku gildi 2008 vegna þess hvernig hún stóð að því að skipa starfsmann í forsætisráðuneytið á árinu 2010. Þá komst héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu 20. júní 2012 að Jóhanna hefði gerst sek um að veitast að Önnu Kristínu Ólafsdóttur umsækjanda um umrætt starf á þann veg að Önnu Kristínu voru dæmdar miskabætur.

Kærunefnd jafnréttismála sendi frá sér álit um að ég hefði gengið á hlut Hjördísar Hákonardóttur sumarið 2003 við skipan hæstaréttardómara. Lagði nefndin til að ég leitaði samkomulags við Hjördísi til að rétta hlut hennar. Við gerðum slíkt samkomulag 17. nóvember 2005. Lauk samskiptum okkar vegna málsins í sátt.

Miðvikudaginn 7. apríl 2004 birtist þessi frétt í Morgunblaðinu eindálka ef ég man rétt:

„BJÖRN Bjarnason dómsmálaráðherra segir jafnréttislög barn síns tíma. Óeðlilegt sé að þeir sem nú hafa veitingarvaldið séu bundnir af því að ráða konur frekar en karla, af því að forverar þeirra hafi ekki gert það, en kærunefnd jafnréttismála kemst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að ráða hefði átt konu, sem væri jafnhæf eða hæfari en aðrir umsækjendur, í stöðu hæstaréttardómara. Í áliti nefndarinnar er bent á að tveir dómarar af níu við Hæstarétt séu konur. Björn sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa fært fyrir því rök gagnvart kærunefndinni að málið félli ekki undir hana, „vegna þess að það var ekki um neina kynferðislega mismunun að ræða í mínum athöfnum þegar ég veitti þetta starf.“

Björn minnir á að í umsögn sinni um umsækjendurna átta hafi Hæstiréttur talið þá alla hæfa en síðan talið tvo karla heppilegasta úr hópnum fyrir réttinn að þessu sinni. „Ef Hæstiréttur hefði talið jafnréttislög gera óhjákvæmilegt að kona yrði valin, hlyti rétturinn að hafa vakið máls á því í umsögn sinni,“ segir Björn. Hann segir þá röksemdafærslu kærunefndarinnar að ráða hefði átt konu í stað karls til réttarins ekki haldbæra. „Ég tel að miðað við núverandi stöðu í okkar þjóðfélagi sé það tímaskekkja að gera kröfur á þessum forsendum til þeirra sem hafa veitingarvaldið, að binda hendur þeirra á þennan veg. Það er óneitanlega mjög erfitt að fikra sig eftir þessum lögum. Sjálf framkvæmdastýra jafnréttismála mátti sæta því að kærunefndin sagði hana brjóta jafnréttislög en niðurstaða fimm dómara Hæstaréttar í því máli var að kærunefndin hefði ekki komist að réttri niðurstöðu.““

Fréttin birtist miðvikudaginn fyrir páska árið 2004. Haldið var lífi í orðum mínum yfir helgidagana og þeim breytt í einskonar pólitískt voðaverk. Það þótti ekki pólitískt rétt að ráðherra leyfði sér að tala á þennan veg um jafnréttislögin auk þess voru fréttamenn andvígir vali mínu á hæstaréttardómara.

Hafi lesendur áhuga á að kynnast hinum miklu umræðum um málið í fjölmiðlum má sjá frásagnir af þeim hér á síðunni í apríl 2004.

Jóhanna skammast á alþingi

Föstudaginn 16. apríl 2004 við fyrsta tækifæri eftir páska svaraði ég fyrirspurnum Jóhönnu Sigurðardóttur um mál Hjördísar Hákonardóttur á alþingi. Jóhanna fór mikinn og feitletra ég áhersluorð hennar til að draga betur fram en ella, hve umburðarlyndi hennar var lítið gagnvart sjónarmiðum annarra í jafnréttismálum. Fór ekki á milli mála að hún leit á sig sem innvígðan fulltrúa hinnar pólitísku rétthugsunar í jafnréttismálum.

Hið einkennilega við málatilbúnað Jóhönnu er að annars vegar talar hún eins og fulltrúi fórnarlamba en hins vegar eins og sá sem valdið hefur. Málafylgja af þessu tagi setur svip sinn á framgöngu femínista, þær láta eins og fórnarlömb en tala síðan í skipunartón og með siðferðilegum þótta af háum sessi til annarra.

Í þingræðunni taldi Jóhanna það áfall fyrir réttarkerfið og stjórnsýslureglur að réttarvitund og viðhorf okkar Davíðs Oddssonar væri jafnhraksmánarlegt gagnvart jafnréttislögum og raun bæri vitni. Þetta væri mikið áfall fyrir jafnréttisbaráttuna og raunar lítilsvirðing við þjóð sem kenndi sig við jafnrétti og mannréttindi. Veikburða rök mín væru ámátleg þegar ég sneri öllu á hvolf í jafnréttislögunum, misskildi þau og mistúlkaði sundur og saman eftir eigin geðþótta.

Það væri grafalvarlegt fyrir jafnréttisbaráttuna að í stóli dómsmálaráðherra og forsætisráðherra skyldu sitja menn með svona forneskjuleg viðhorf í jafnréttismálum. Spyrja ætti hvaða hætta leikreglum lýðræðisþjóðfélags væri búin ef dómsmálaráðherra teldi sig hafinn yfir lög um grundvallarmannréttindi eins og jafnréttislög.

Hroki og vankunnátta okkar Davíðs á jafnréttislögum væri hrópandi. Ég lifði í þeim gamla tíma að ég hefði ótakmarkað svigrúm til að velja á milli umsækjenda að eigin geðþótta. Margsinnis hefði komið fram hjá umboðsmanni alþingis að veitingarvaldshafar hefðu ekki frjálsar hendur um val á umsækjendum

Jóhanna sagði, að hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem bryti svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi væri allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir kæmust upp með allt. Ef ráðherrar væru ósáttir við lög ættu lögin bara að víkja en ekki þeir að þeirra mati.

Í svari mínu við þessum hörðu ásökunum sagði ég meðal annars:

„Jóhanna Sigurðardóttir, háttvirtur þingmaður, hefur lagt fyrir mig fjórar spurningar. Hin fyrsta er,  hvort ég sé reiðubúinn að semja um skaðabætur [við Hjördísi Hákonardóttur] sbr. 28. gr. jafnréttislaga.

Ég hafna því, að hafa brotið gegn jafnréttislögum. Ég byggði tillögu mína um skipan í embætti hæstaréttardómara á lögmætum og málefnanlegum sjónarmiðum, enda tel ég þann, sem skipaður var, hæfastan umsækjenda til þess að gegna embættinu með hliðsjón af þeim sjónarmiðum.

Mörg fordæmi eru því til staðfestingar, að ráðherra hafi meira svigrúm til töku málefnalegra ákvarðana við stöðuveitingu en kærunefnd jafnréttismála telur í þessu máli.

Í áliti umboðsmanns alþingis í máli nr. 2214/1997 segir meðal annars um kærunefnd jafnréttismála og valdheimildir hennar, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að við mat kærunefndar jafnréttismála á því hvort fylgt hafi verið þeim efnisreglum sem leiða má af ákvæðum laga nr. 28/1991 verði hún að taka mið af þeim sjónarmiðum sem atvinnurekandinn lagði til grundvallar ákvörðun sinni að því tilskildu að þau hafi verið málefnaleg og lögmæt. Innan þessara marka hefur hann visst mat sem ekki verður haggað. Ef sýnt þykir að atvinnurekandinn hefur lagt mismunandi áherslur á tiltekin sjónarmið í mati sínu á starfshæfni umsækjenda verður kærunefnd jafnréttismála á sama hátt að taka mið af því.

Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist að 8. gr. laga nr. 28/1991 veiti nefndinni sjálfstæða heimild til að byggja á öðrum sjónarmiðum heldur en veitingarvaldshafi studdist löglega við. Á það jafnt við um það hvaða hæfnisþætti megi leggja til grundvallar og um innbyrðis þýðingu þeirra."

Umboðsmaður alþingis vísar hér til þágildandi laga nr. 28/1991 um jafnan rétt karla og kvenna, en núgildandi lög nr. 96/2000 veita kærunefnd jafnréttismála ekki ríkari heimildir að þessu leyti. Segir þetta álit umboðsmanns alþingis meira en mörg orð og hávær.

Ég hef sjónarmið sem þessi að leiðarljósi við mat mitt á óskinni um skaðabætur auk mats á því, hvort um sannanlegt fjárhagslegt tjón sé að ræða, en nýlega skipaði ég Hjördísi Hákonardóttur dómstjóra á Suðurlandi. Eftir því sem ég kemst næst eru heildarlaun hennar þar hærri en nemur launum hæstaréttardómara.

Önnur spurningin snýst um það hver sé  pólitísk ábyrgð ráðherra.

Samkvæmt þingræðisreglunni ber ráðherra pólitíska ábyrgð athafna sinna eða athafnaleysis gagnvart alþingi. Þessi þinglega ábyrgð er pólitísks en ekki lagalegs eðlis. Hún er algerlega komin undir mati alþingis hverju sinni. „Hún er engum lagareglum háð,“ eins og Ólafur Jóhannesson segir í fræðiriti sínu um stjórnskipunarrétt. […]“

Undir lok umræðunnar áréttaði Jóhanna Sigurðardóttir enn frekar að hún ein vissi hvernig ætti að túlka jafnréttislögin. Hún gaf jafnframt til kynna að lögin væru þannig úr garði gerð að ekki mætti beita almennri skynsemi við túlkun á þeim heldur yrði að styðjast við kennisetningar í anda hins pólitíska rétttrúnaðar. Jóhanna sagði:

„Ég tel að jafnréttisfulltrúi dómsmrn. ætti að taka hæstv. dómsmrh. í kennslustund og kenna honum jafnréttislögin þannig að hann sé ekki að lesa þau aftur á bak. [...] En hæstv. ráðherra skilur ekki að jafnréttislögin eru þannig úr garði gerð að hæfni á fyrst og fremst að ráða ferðinni þegar karl og kona sækja um starfið.

Í Svíþjóð hafa ráðherrar verið settir á skólabekk til að uppfræða þá um jafnréttislögin. Hæstv. ráðherra ætti að taka sér tíma í að lesa jafnréttislögin með öðrum gleraugum en hann hefur gert hingað til.“

Í lok umræðunnar sagði ég:

„Herra forseti.

Það hefur lítið nýtt komið fram í þessum umræðum, eins og þingmenn hafa heyrt, annað en upphrópanir og ásakanir í minn garð um lögbrot og annað slíkt. Þó að kærunefnd jafnréttismála sé lögbundin nefnd eru orð hennar ekki lög. Það er alltaf verið að túlka lög og alltaf verið að segja álit á lögum. Hæstiréttur hefur sagt að kærunefndin hafi rangt fyrir sér. Það er enginn að fjalla um að það hafi verið framið lögbrot á þeim sem sitja í kærunefndinni þótt Hæstiréttur hafi sagt að kærunefndin hafi komist að rangri niðurstöðu.

Hv. málshefjandi Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra, ráðherra vinnuréttar, í ríkisstjórn, sem nam kjarasamninga úr gildi með bráðabirgðalögum. Síðan kom hæstiréttur saman og taldi að bráðabirgðalögin hefðu brotið í bága við stjórnarskrána. Hvar er ábyrgð ráðherrans í því þegar um þessi mál er fjallað?

Hæstiréttur er að fjalla um héraðsdóma og kemst að þeirri niðurstöðu að héraðsdómarinn hafi komist að annarri niðurstöðu en rétt sé miðað við lögin. Fara menn þá að fjalla um hvort héraðsdómarinn sé lögbrjótur eða ekki? Það er alltaf verið að túlka lög, alltaf verið að leggja út af lögum.

Það sem ég er að segja í þessu máli er, að ef álit kærunefndar jafnréttismála byggist á því að henni er nauðugur einn kostur að grípa fram fyrir hendur á veitingarvaldshafanum er nauðsynlegt að líta til laganna.“

Samið við Hjördísi

Við Hjördís Hákonardóttir sömdum eins og áður sagði 17. nóvember 2005 um námsleyfi hennar í eitt ár. Hefði mátt ætla að fleiri en við sem vorum aðilar að þessu máli fögnuðum því að sátt skyldi finnast. Hvergi er þó minnst á hana í umræðum líðandi stundar og ýmsir virtust raunar fúlir yfir sáttinni þegar hún var gerð.

Hún vakti að minnsta kosti litla gleði hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur,  þáverandi formanni Samfylkingarinnar, sem sagði í áramótagrein 31. desember 2005 að ég hefði „keypt“ mig „frá málaferlum sem eru yfirvofandi vegna geðþóttaákvörðunar við skipan hæstaréttardómara“.  Hvernig hún vissi um að málaferli hefðu verið „yfirvofandi“ af hálfu Hjördísar veit ég ekki. Orðalagið í grein Ingibjargar Sólrúnar gaf til kynna að innan Samfylkingarinnar hefðu menn vonað að mér yrði stefnt fyrir dómara vegna málsins.  

Sagði ég hér á síðunni í tilefni þessum orðum Ingibjargar Sólrúnar:

„Árás á mig fyrir að ljúka þessu máli með góðri sátt og samkomulagi, getur flokkast undir venjulegt pólitískt skítkast - en varla á það við um Hjördísi, viðsemjanda minn. Hvers á hún að gjalda, að sitja undir slíkum ávirðingum?“

Þegar samið hafði verið við Hjördísi tóku DV og fleiri að velta fyrir sér hvar finna mætti fé til að standa undir kostnaði við námsleyfi hennar.

Geir H. Haarde skipaði Hjördísi hæstaréttardómara frá 1. maí 2006. Vék ég sæti við afgreiðslu málsins vegna vanhæfis.

Eins og hér er lýst tók ég mark á kærunefndinni og samdi við Hjördísi Hákonardóttur þótt ég væri ósammála niðurstöðu nefndarinnar og teldi jafnréttislögin barns síns tíma. Að láta eins og afstaða mín til niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála sé sambærileg við framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur nú er út í hött.

Jóhanna breytir jafnréttislögum

Á alþingi 2004 og á nokkrum fyrri þingum fluttu Jóhanna Sigurðardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, frumvarp til breytinga á jafnréttislögunum frá árinu 2000. Þær vildu að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála yrðu bindandi gagnvart málsaðilum og rökstuddu það meðal annars á þennan veg:

„Samkvæmt upplýsingum frá kærunefnd jafnréttismála bárust nefndinni 103 erindi á árunum 1991–2001. Í 55 tilvika taldi nefndin að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefðu verið brotin en langflest þeirra lutu að stöðuveitingum. Fjöldi þeirra laut einnig að launajafnrétti kynjanna.....Iðulega hafa niðurstöður kærunefndar jafnréttismála verið teknar upp á Alþingi, bæði varðandi stöðuveitingar og launajafnrétti kynjanna. ....

Stjórnvöldum ber skylda til að sjá til þess að jafnréttislögum sé framfylgt. Jafnréttislög kveða á um að jafnréttissjónarmiða skuli gætt á öllum sviðum samfélagsins og að unnið sé að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku. Reynslan sýnir að ákvæðið um kærunefnd virkar ekki eins og til var ætlast, því að veruleg undanbrögð eru á því að álit nefndarinnar séu virt. Frumvarp þetta á að bæta úr þeirri brotalöm. “

Jóhanna Sigurðardóttir varð félags- og jafnréttisráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde eftir kosningar vorið 2007. Hún gekkst upp í því að umbylta sem flestu að eigin geðþótta og með hraði, þar á meðal jafnréttislögunum. Hún mælti fyrir breytingum á þeim strax 1. nóvember 2007 og sagði þá meðal annars á alþingi að „eitt af lykilatriðum“ frumvarps síns sneri að því „að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði gerðir bindandi fyrir málsaðila í stað álita áður“. Niðurstöðum nefndarinnar yrði þar með gefið meira vægi og ykjust þá líkur á að farið yrði eftir þeim. Íslensk stjórnvöld hefðu fengið athugasemdir frá sérfræðinganefnd sem starfaði á grundvelli samnings um afnám allrar mismununar gegn konum um það efni að ákvarðanir kærunefndar væru ekki bindandi.

Það reyndi á þetta „lykilatriði“ í jafnréttislögum Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2008 í málinu sem Anna Kristín Ólafsdóttir höfðaði gegn Jóhönnu. Þá bregður svo við að Jóhanna telur ákvæðið „um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála séu bindandi og fyrirmæli um hvernig þeir verði bornir undir dómstóla, vandskýrt [...] og erfitt að festa hönd á hvernig úrskurður þessa efnis sé bindandi að lögum eða hafi réttaráhrif,“ eins og segir í útdrætti héraðsdómara á vörn Jóhönnu. Þar kemur einnig fram að Jóhanna hafi reist vörn sína á því „að úrskurður kærunefndarinnar geti ekki talist bindandi á þann hátt að þegar séu skilyrði til að taka kröfur stefnanda [Önnu Kristínar] að einhverju eða öllu leyti til greina. Liggi til þess margar ástæður“

Þarna er lýst afstöðu Jóhönnu Sigurðardóttur til ákvæðis sem var hennar hjartans mál að sett í yrði í lög til að ráðherrar gætu ekki skotið sér undan ábyrgð. Fyrsti ráðherrann sem þarf að verjast vegna ákvæðisins fyrir dómstóli er Jóhanna sjálf sem segist ekki vita hvaðan á sig standi veðrið ákvæðið sé svo óljóst. Þetta er sama Jóhanna sem flutti yfir mér þingræðu um að ég ætti að fara í tímakennslu í jafnréttislögunum hjá jafnréttisfulltrúa dómsmálaráðuneytisins. Vissi Jóhanna ekki hvað fólst í lagatexta sem hún flutti sjálf inn á alþingi?

Jóhanna gagnrýnir kærunefndina

Vörn Jóhönnu í málinu sem Anna Kristín höfðaði gegn henni var ekki aðeins reist á því að jafnréttislög Jóhönnu væru óljós og vandskýrð. Jóhanna taldi rökstuðning kærunefndarinnar ófullnægjandi og rannsókn málsins hefði ekki verið viðhlítandi  af hálfu nefndarinnar. Nefndinni hefði borið að upplýsa málið  ítarlega samkvæmt ákvæðum jafnréttislaga og gæta einnig ákvæða stjórnsýslulaga. Nefndinni hefði verið þetta vel kunnugt, enda hefði legið fyrir álit umboðsmanns Alþingis þar að lútandi í máli nr. 2214/1997. Taldi Jóhanna að kærunefndin hefði alls ekki metið málefnalega menntun og starfsreynslu þess sem skipaður var í embættið, enda hefði Önnu Kristínu verið ítrekað veittur kostur á því að veita kærunefndinni frekari upplýsingar, meðal annars um menntun sína og starfsreynslu, en þeim sem Jóhanna skipaði hefði ekki verið gefinn kostur á því, eða því að koma fyrir kærunefndina. Í áliti í máli nr. 2214/1997 hefði umboðsmaður alþingis gagnrýnt málsmeðferð kærunefndar jafnréttismála að því er hliðstæð atriði varðaði.

Þegar þetta er lesið í útdrætti héraðsdómara á málsvörn Jóhönnu fyrir réttinum er engu líkara en Jóhanna hafi stuðst við ræðu mína á alþingi 16. apríl 2004 sem hún taldi þá sýna forkastanlegt skilningsleysi mitt á jafnréttislögunum, ég læsi þau afturábak og þyrfti á sérkennslu að halda. Ég hafði mér þó til afsökunar að hafa aldrei flutt frumvarp til laga um jafnréttismál, það hefur Jóhanna þó gert og svo mikla áherslu leggur hún á að tengja málaflokkinn sjálfri sér að hún ýtti stjórn efnahagsmála úr forsætisráðuneytinu til að geta sinnt hugðarefnum sínum á sviði jafnréttismála.

Ekki er nóg með að ofangreindar athugasemdir um störf kærunefndar jafnréttismála komi fram í vörn Jóhönnu fyrir héraðsdómi. Hún sýndi kærunefndinni auk þess óvenjulegt vantraust með því að skipa í mars 2011 sérstakan rýnihóp til að fara yfir úrskurð kærunefndarinnar. Þessi rýnihópur forsætisráðherra skilaði greinargerð um málið 15. apríl 2011. Með bréfi, dagsettu 4. maí 2011, tilkynnti forsætisráðuneytið kærunefnd jafnréttismála að ráðuneytið teldi erfitt að festa hönd á það með hvaða hætti úrskurður kærunefndar jafnréttismála í málinu væri bindandi að lögum. Jafnframt taldi ráðuneytið að úrskurðurinn hefði ekki þau áhrif að til bótaréttar Önnu Kristínar hefði stofnast.

Forsætisráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu um niðurstöðu rýnihópsins hinn 10. maí 2011. Þar sagði að hópurinn sem skipaður var Elsu S. Þorkelsdóttur lögfræðingi, Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni dósent, og Sveinbjörgu Pálsdóttur stjórnsýsluráðgjafa teldi að beitt hefði verið „ólíkum aðferðum“ hjá kærunefnd jafnréttismála annars vegar og ráðuneytinu hins vegar við að meta hæfni umsækjenda, þess vegna væri niðurstaðan mismunandi. Taldi hópurinn að baki lægju „ tveir hugmyndaheimar um það hvað sé hæfni og hvernig skuli greina hana og meta“. Lykilatriðið væri að byggja yrði „brú á milli þessara heima ef takast [ætti] að efla fagmennsku í ráðningum hjá Stjórnarráðinu“ um leið og réttinda umsækjenda í ráðningarferlinu væri gætt. Þá mætti benda á að í flóknum álitamálum væri mikilvægt að kærunefnd jafnréttismála kallaði til sín sérfróða aðila, s.s. með sérþekkingu í ráðningum og ráðningarferli.

Niðurstaðan var sem sé sú samkvæmt þessari tilkynningu ráðuneytisins að kærunefndin hefði ekki unnið verk sitt sem skyldi. Með hliðsjón af því sem Jóhanna sagði á alþingi 2004 um nauðsyn þess að ráðherrar læsu ekki jafnréttislöggjöfina afturábak hefði mátt ætla að hún gæfi út fyrirmæli innan stjórnarráðsins að þar löguðu menn sig að kröfum kærunefndarinnar. Af tilkynningu ráðuneytisins má hins vegar ráða að Jóhanna sjái ástæðu til að setja ofan í við kærunefndina í krafti álits rýnihópsins. Tekið er fram að vakin hafi verið sérsök athygli velferðarráðuneytisins á ábendingum rýnihópsins og hið sama gildi um kærunefnd jafnréttismála „sérstaklega varðandi atriði sem lúta að málsmeðferð kærunefndarinnar“. Í framhaldinu verði „hafin vinna við það að samræma viðmið við skipanir og ráðningar þannig að koma megi í veg fyrir það í framtíðinni að byggt verði á mjög ólíkum aðferðum við að meta hæfni umsækjenda um störf hjá ríkinu,“ segir í tilkynningu forsætisráðneytisins. Ætlunin er með öðrum orðum að binda hendur kærunefndar jafnréttismála með því „að samræma viðmið“.

Þá var það mat forsætisráðuneytisins og ríkislögmanns að fengnu áliti rýnihópsins að fjölmörg atriði rökstyddu þá afstöðu að ekki hefði verið brotið gegn jafnréttislögum við skipun í embættið. Jóhanna og ríkislögmaður höfnuðu því alfarið niðurstöðu kærunefndarinnar sem taldi Jóhönnu hafa brotið jafnréttislögin. Í þessari tilkynningu ráðuneytisins er jafnframt skýrt frá því að Jóhanna vilji leita sátta í málinu. Anna Kristín hafnaði öllum tillögum ráðuneytisins um sátt og stefndi Jóhönnu fyrir héraðsdóm Reykjavíkur hinn 24. júní 2011.

Í lok þessarar tilkynningar frá 10. maí sagði:

„„Það er von mín og trú að þrátt fyrir allt muni þetta mál reynast til hagsbóta fyrir jafnréttið og ráðningar hjá hinu opinbera almennt þannig að aukin sátt skapist um þau mikilvægu mál“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.“

Þessi orð sýna að spunaliðarnir lágu ekki á liði sínu. Forsætisráðherra situr undir bindandi úrskurði um að hafa brotið jafnréttislög en segist vona að það sé „til hagsbóta fyrir jafnréttið“ að hún hafi gerst sek um brotið.

Niðurstaða héraðsdómara

Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kvað upp dóminn í máli Önnu Kristínar gegn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Í dómsorði Barböru segir að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála hafi bindandi áhrif fyrir aðila máls áður hafi nefndin gefið álit  í málum sem til hennar bárust. Ætlunin með setningu þessa ákvæðis hafi verið að veita niðurstöðum nefndarinnar meira vægi og leiða til þess að þær yrðu virtar. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að bera úrskurði kærunefndar jafnréttismála undir dómstóla innan tiltekins málshöfðunarfrests. Jóhanna hafi fengið úrskurð kærunefndar jafnréttismála um frestun réttaráhrifa, en í framhaldinu ekki nýtt sér þau réttarúrræði sem hún hafði til þess að reyna að hnekkja úrskurðinum. Þar sem ekki hafi verið krafist ógildingar úrskurðarins innan málshöfðunarfrests telur dómarinn að úrskurðinn hafi orðið bindandi fyrir aðila málsins. Hann  hafi því réttaráhrif samkvæmt efni sínu og sé ekki á færi dómstóla að breyta efni hans. Verði því lagt til grundvallar í málinu að við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu hafi forsætisráðherra brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Dómarinn segir að krafa Önnu Kristínar um miskabætur byggist á því að henni hafi af hálfu forsætisráðherra verið sýnd lítilsvirðing, hún hafi verið niðurlægð á opinberum vettvangi og vegið hafi verið að starfsheiðri hennar, reynslu og hæfni, en í því hafi falist meingerð gegn æru hennar og persónu.

Dómarinn telur að sú staðreynd að Anna Kristín hafi ekki fengið embætti skrifstofustjóra þyki ein og sér ekki valda því að hún eigi rétt til miskabóta. Hins vegar þyki yfirlýsing sú sem birt var á vef forsætisráðuneytisins í tilefni af úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli stefnanda, þar sem því sé meðal annars hafnað að Anna Kristín hafi verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut og sérstaklega bent á að hún hafi verið fimmti umsækjandi í hæfnismati, ásamt skipun rýnihóps til þess að fara yfir ferli undirbúnings skipunar í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu í kjölfar úrskurðarins, þess eðlis að bitnað gæti á orðspori Önnu Kristínar. Í ljósi þessa telur dómarinn að uppfyllt séu skilyrði til þess að dæma henni miskabætur. Anna Kristín krafðist 500.000 króna í miskabætur. Dómara þótti sú krafa hæfileg og féllst á hana. Auk þess var Jóhanna dæmd til að greiða Önnu Kristínu málskostnað 1.600.000 krónur. Það féll með öðrum orðum 2,1 m. kr. kostnaður á ríkissjóð samkvæmt dómsorðinu auk dráttarvaxta og alls annars kostnaðar skattgreiðenda sem af þessu máli hefur hlotist.

Dómurinn felur í sér tvennt: Jóhanna braut jafnréttislögin og hún gerðist sek um að sýna Önnu Kristínu Ólafsdóttur og var dæmd til að dæma þær miskabætur sem hún krafðist.

Viðbrögð leiðarahöfunda

Sama dag og héraðsdómurinn féll, 20. júní 2012, sendi forsætisráðuneytið frá sér tilkynningu.  Þar segir í upphafi:

„Forsætisráðuneytið fagnar því að niðurstaða héraðsdóms liggi nú fyrir. Í dóminum er kröfu stefnanda um skaðabætur hafnað en fallist á sömu fjárhæð miskabóta og forsætisráðuneytið hafði þegar boðið stefnanda í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála.“

Með þessu hófu spunaliðar Jóhönnu tilraun sína til að snúa dóminum henni í vil. Þarna er látið í veðri vaka að miskabæturnar sem Önnu Kristínu voru dæmdar vegna lítilsvirðingar Jóhönnu í hennar garð hefðu verið boðnar henni á fyrri stigum málsins. Þetta er út í hött. Bæturnar voru dæmdar vegna óvirðingar Jóhönnu í garð Önnu Kristínar en ekki vegna þess að hún hlaut ekki skipun í embættið.

Jóhanna er söm við sig. Í tilkynningu ráðuneytisins er haft eftir henni:

 „Í samræmi við fyrri yfirlýsingar mínar og sáttavilja í þessu máli ítreka ég þá von, að með þessari niðurstöðu megi ljúka málinu, með sama hætti og ég lagði sjálf til þegar í upphafi.“

Í tilefni af þessum ummælum Jóhönnu sagði í leiðara Morgunblaðsins föstudaginn 22. júní:

„Eftir að hafa verið dæmdir í tvígang fyrir brot gegn lögum vegna sama málsins hefðu einhverjir líklega hugsað sinn gang og að því loknu jafnvel beðist afsökunar, en ekki Jóhanna Sigurðardóttir. Þess í stað sendi hún frá sér nýja yfirlýsingu þar sem hún „fagnar“ því að dómur hafi fallið og spinnur svo nýja útgáfu af niðurstöðunni þar sem reynt er að fela að nokkurt lögbrot liggi fyrir, hvað þá tvö.

Ekkert bendir til að Jóhanna Sigurðardóttir ætli að gera nokkuð með úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að hún hafi brotið lög þó að sá úrskurður sé endanlegur eins og héraðsdómur minnir á. Þvert á móti er hún algerlegra forhert í þeirri afstöðu sinni að hún hafi ekkert rangt gert og segist að auki hafa sýnt sérstakan „sáttavilja“ í málinu.“

Sama föstudag 22. júní birti Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, leiðara í blaði sínu undir fyrirsögninni: Prinsippkonan. Ritstjórinn greinir frá niðurstöðu héraðsdóms í málinu gegn Jóhönnu og segir hana reyna „að snúa sig út úr klípunni með orðhengilshætti í fréttatilkynningu“.  Þá segir: „Ráðherrann virðist ekki átta sig á að aðalatriðið í þessu máli er ekki hvort niðurstaða kærunefndarinnar sé rétt, heldur hvort Jóhanna sé sjálfri sér samkvæm og hvort ímyndin sem oft er dregin upp af henni sem prinsippföstum stjórnmálamanni sé sönn.“

Ólafur Þ. Stephensen telur að málið gegn Jóhönnu sé „algjörlega sambærilegt“ við málið í apríl 2004 sem ég hef rakið hér að ofan. Þessi fullyrðing ritstjórans stenst ekki. Jafnréttislögum hefur verið breytt auk þess samdi ég við Hjördísi Hákonardóttur með vísan til álits kærunefndar jafnréttismála. Jóhanna hefur hins vegar  með ótvíræðum hætti brotið gegn jafnréttislögum að mati þeirra yfirvalda sem eiga síðasta orðið um það efni. Hún hefur auk þess sýnt umsækjanda lítilsvirðingu.

Ólafur Þ. minnir á kröfu Jóhönnu um að ég segði af mér ráðherraembætti og segir Jóhönnu hafa gerst seka um tvískinnung með því að gera aðra kröfu til mín en sjálfrar sín. Hann segir augljóst að Jóhanna segi ekki af sér en lýkur leiðaranum með þessari spurningu:  „En er til of mikils mælzt að hún [Jóhanna] biðji kjósendur afsökunar á að hafa þverbrotið sín gömlu og margfrægu prinsipp?“

Spunaliði Jóhönnu tekur til máls

Hinn 26. janúar 2012 réð Jóhanna Sigurðardóttir upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Þetta gerði hún án þess að auglýsa starfið eða að umsækjandi hefði þurft að sæta nokkru hæfnismati.  Túlkun Jóhönnu á lögunum um Stjórnarráð Íslands leiddi til þeirrar niðurstöðu hennar að „upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar“ væri í raun aðstoðarmaður hennar. Þessi skilningur á lögum sýnir mikið umburðarlyndi gagnvart bókstafnum. Á það hefur ekki verið látið reyna fyrir dómstólum hvort Jóhanna hafi einnig ástæðu í þessu tilviki til að fagna því að hafa brotið lög.

Jóhanna valdi Jóhann Hauksson blaðamann til að gegna embætti „upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar“. Hann hefur hins vegar sannað með skrifum sínum að hann lítur á sig sem spunaliða Jóhönnu og sem slíkur brást hann við leiðara Ólafs Þ. Stephensens með grein í Fréttablaðinu laugardaginn 23. júní 2012 undir fyrirsögninni: Hvað hefðir þú gert Ólafur ritstjóri?

Jóhann segir að Jóhanna hafi í góðri trú ekki skipað Önnu Kristínu Ólafsdóttur í starfið í forsætisráðuneytinu eða „nr. 5“ eins og hann kallar hana, líklega í virðingarskyni. Jóhanna hafi af prinsippástæðum ekki viljað „fara í hart“ gegn Önnu Kristínu. Jóhanna var þó dæmd fyrir að lítilsvirða hana. Þá hafi Jóhanna af prinsippástæðum ekki viljað „véfengja úrskurð kærunefndar jafnréttismála“. Jóhanna skipaði þó sérstakan rýnihóp í því skyni.

Eftir að hafa spunnið þennan þráð snýr Jóhann Hauksson sér að skipan dómara í hæstarétt sumarið 2003 og segir að Hjördís Hákonardóttir hafi verið „hæfasti umsækjandinn“. Hvaðan Jóhann hefur það veit ég ekki, hæstiréttur sjálfur taldi tvo karlmenn helst koma til álita vegna ágætis þeirra og hæfileika.

Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, ráðinn án auglýsingar, segir Jóhönnu hafa skipað hæfasta manninn vegna prinsippfestu þótt hún hafi brotið lög með því að hafna Önnu Kristínu Ólafsdóttur. Grein sinni lýkur Jóhann Hauksson á þessum orðum:

„Hvað hefðir þú gert Ólafur ritstjóri í sporum Jóhönnu?

Finnst þér að Björn Bjarnason eigi að biðja Hjördísi velvirðingar á því að hafa skipað Ólaf Börk hæstaréttardómara gegn öllum prinsípum, lögum og úrskurðum?“

Hér kýs upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar að láta þess ógetið að við Hjördís Hákonardóttir sömdum 17. nóvember 2005. Í niðurstöðu okkar fólust fullar sættir sem má jafna til velvirðingar af minni hálfu í hennar garð.

Það er til marks um lélegan málstað þeirra sem vilja verja brot Jóhönnu Sigurðadóttur forsætisráðherra á jafnréttislögunum og lítilsvirðinguna sem hún hefur verið dæmd fyrir að sýna Önnu Kristínu Ólafsdóttur að tönnlast Jóhönnu til afsökunar á ágreiningi um túlkun á jafnréttislögum frá árinu 2004 sem var jafnaður með sátt aðila þess máls. Þá taldi Jóhanna að viðkomandi ráðherra ætti að víkja úr embætti. Hún breytti síðan jafnréttislögum til að herða á því að ráðherrar fylgdu þeim við mannaráðningar. Nú segir hún fagnaðarefni og jafnréttisbaráttunni til framdráttar að hún, forsætisráðherrann, sé dæmd fyrir brot á jafnréttislögum.

Stjórnarhættir Jóhönnu Sigurðardóttur einkennast af frekju og yfirgangi. Hún situr við völd í skjóli þingflokks Samfylkingarinnar sem sættir sig við vinnubrögð á borð við þau sem hér er lýst. Jóhönnu verður ekki breytt, hún reynir að snúa öllu sér í hag og fljóta áfram með því að segja eitt í dag og annað á morgun. Fylgið hrynur af Samfylkingunni, virðing alþingis hefur aldrei verið minni samt hafa þingmenn Samfylkingarinnar ekki döngun í sér til að setja Jóhönnu stólinn fyrir dyrnar.