2.6.2012

Sjö ástæður til að hætta ESB-viðræðunum

 

Hvarvetna í ríkjum Evrópusambandsins setur aðildin að því mikinn svip á allt stjórnmálastarf og þátttakan í samstarfinu verður skýrari og skarpari eftir því sem það eykst eða vandræðin innan þess. Við Styrmir Gunnarsson höfum í rúm tvö ár haldið úti vefsíðunni Evrópuvaktinni og á hverjum degi segjum við þar fréttir af því sem gerist á vettvangi ESB og fylgjumst auk þess með aðildarviðræðum íslenskra stjórnvalda við sambandið. Við erum báðir eindregnir andstæðingar aðildar og reisum skoðanir okkar á langri reynslu af því að hafa fjallað um innlend og erlend stjórnmál.

Á tímum kalda stríðsins skrifuðum við mikið um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Við vorum samstiga í skoðunum þar eins og varðandi aðildina að ESB þótt við nálguðumst viðfangsefnið hvor frá sínum sjónarhóli. Athygli mín beindist verulega að hernaðarlegu þróuninni og umræðum um hana, sótti ég í því skyni fjölda funda og ráðstefna erlendis bæði til að safna efni fyrir Morgunblaðið og til þess að ræða málefni Íslands við erlenda sérfræðinga á sviði hernaðarmála og öryggismála.

Umræður um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi voru miklar á þessum árum og skiptust menn í fylkingar að mestu eftir stjórnmálaflokkum þótt ágreiningur væri um ýmis mál líðandi stundar innan einstakra flokka. Á öðrum vængnum var Sjálfstæðisflokkurinn og stór hluti Alþýðuflokksins og öflugir einstaklingar innan Framsóknarflokksins á hinum vængnum var Alþýðubandalagið, Þjóðvarnarflokkurinn og einstakir áhrifamenn úr Alþýðuflokki og Framsóknarflokki. Það einkenndi Framsóknarflokkinn að hann vildi vera beggja handa járn svo að hann gæti átt ríkisstjórnarsamstarf til hægri og vinstri.

Þegar ég leiði hugann að umræðunum um aðild Íslands að Evrópusambandinu og hvernig þær hafa þróast síðan aðildarumsókn Íslands var samþykkt á alþingi 16. júlí 2009 er niðurstaða mín í stuttu máli sú að allt hafi farið á hinn versta veg fyrir aðildarsinna hvar í flokki sem þeir standa og í raun sé óskiljanlegt að ríkisstjórn Íslands lemji endalaust hausnum við steininn og láti eins og aðildarviðræðurnar séu á beinu brautinni. Trúverðugleiki Össurar Skarphéðinssonar minnkar í réttu hlutfalli við þann tíma sem hann heldur ESB-viðræðunum í þessum farvegi.

Fyrir þessari skoðun minni nefni ég þessar sjö meginástæður:

  1. Í kosningabaráttunni 2009 lögðu helstu sérfræðingar Samfylkingarinnar í ESB-málum (Baldur Þórhallsson prófessor og Árni Páll Árnason þingmaður) áherslu á stutt viðræðuferli, Baldur sagði því ljúka sumarið 2010 með þjóðaratkvæðagreiðslu, Árni Páll sagði að greitt yrði atkvæði um niðurstöðuna snemma árs 2011. Nú segir Štefan Füle, stækkunarstjóri ESB, að ekki verði litið á landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál fyrr en eftir þingkosningar í apríl/maí 2013.
  2. Ríkisstjórn Íslands hefur ekki enn mótað samningsmarkmið í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum. Í aðdraganda umsóknarinnar lét Samfylkingin eins og mótun samningsmarkmiða væri mikilvægasta pólitíska viðfangsefnið. Nú er sagt að þetta sé tæknilegt verkefni embættismanna í skjóli utanríkisráðherra og allt óljóst um hvernig staðið verður að samráði um málið. Bændasamtök Íslands hafa bent á að embættismönnum ESB sé fyrr skýrt frá því sem íslenskir embættismenn eru að taka saman um afstöðu Íslands en samningahópi um landbúnaðarmál. Trúnaðarbrestur magnast vegna vinnubragðanna sem tíðkast í skjóli utanríkisráðherra.
  3. Ríkisstjórn Íslands lætur eins og makríldeiluna sé unnt að leysa án þess að hún tengist aðildarviðræðunum. Einstakir þingmenn í Bretlandi og á Írlandi krefjast þess að ráðherrar þessara landa noti einhliða rétt til að stöðva viðræðurnar við Ísland til að brjóta lögmætar makrílveiðar íslenskra skipa á bak aftur. Verðmæti aflans fyrir íslenska þjóðarbúið er um 30 milljarðar króna. Stækkunarstjóri ESB talar tungum tveim um makrílmálið, hann vill ekki að harka ESB í því fæli Íslendinga frá aðild að ESB, eftir aðild eigi framkvæmdastjórnin síðasta orð um heimild íslenskra skipa til veiða á makríl.
  4. Sjónarmið þeirra sem vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla ráði framhaldi ESB-viðræðnanna hefur orðið ofan á í umræðunum. Þeim fjölgar sem leita leiða til að láta reyna á vilja þjóðarinnar án þess að viðræðurnar séu leiddar til lykta. Lyktir viðræðna fást ekki nema ríkisstjórn Íslands kyngi tilboði stækkunarstjóra ESB. Tilboðið verður svo fjarri því sem segir í áliti meirihluta utanríkisnefndar alþingis frá júlí 2009 að um óbrúanlegt bil er að ræða. Nú telja bæði andstæðingar aðildar og meðmælendur nauðsynlegt að leita umboðs þjóðarinnar. Ágreiningur virðist helst um hvernig staðið verður að hléi á viðræðunum á meðan álits þjóðarinnar er leitað. Hvort afturkalla beri aðildarumsóknina eða tilkynna að viðræðum sé hætt þar til þær hefjist að nýju samþykki þjóðin það.
  5. Ríkisstjórnin hefur gerst sek um yfirhylmingu (cover-up) vegna ESB-aðildarviðræðnanna. Hún viðurkennir ekki rétt eðli þeirra, telur enn að Íslendingar séu að „kíkja í pakkann“ þótt fyrir liggi skýlausar kröfur um aðlögun og boð um peninga frá Brussel til að vinna að framkvæmd þeirra. Ráðherrar þykjast ekki sjá einhliða áróður starfsmanna ESB og stækkunardeildar sambandsins hér á landi. Þeir leggja blessun sína yfir starfsemi á vegum sendiráðs ESB sem er brot á 41. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband ríkja. Sé ekki um slíkt brot að ræða brýtur hinn einhliða áróður ESB-starfsmanna hér á landi gegn stefnu ríkisstjórnarinnar um „könnunarviðræður“. Það orð er einfaldlega ekki til í handbók ESB um aðildarumsókn og er aldrei notað af talsmönnum ESB þegar rætt er um umsókn Íslands. Tvöfeldni íslenskra embættismanna að þessu leyti varðar ekki aðeins starfsheiður þeirra heldur einnig lögmæti þess sem þeir taka sér fyrir hendur gagnvart ESB.
  6. Evrópusambandið hefur tekið á sig gjörbeytta mynd frá því að aðildarumsókn Íslands var kynnt. Nær allan tímann hefur samstarfið innan þess og sérstaklega á evru-svæðinu þolað miklar hremmingar og þeim er alls ekki lokið. Allar hrakspár um skuldavanda evru-svæðisins hafa ræst vegna þess að ríkisstjórnum landanna hefur mistekist að snúa vörn í sókn. Hagkerfi Spánar stendur á barmi hyldýpis og ekki eru til nægilega sterkir bjarghringir fari Spánn fram af brúninni. Evru-samstarfið er í húfi og að sögn ráðamanna þess einnig framtíð ESB. Það er mikill misskilningur og óþörf áhætta að telja Íslendingum það helst til bjargræðis nú að ræða við embættismenn ESB um aðild að sambandinu.
  7.  Innan Evrópusambandsins takast enn á tvö ólík sjónarmið um framtíð þess: hvort um sé að ræða samstarf ríkja eða sambandsríki.  Innan evru-samstarfsins segja menn að ekki verði unnt að ná tökum á sameiginlegri mynt án sameiginlegrar stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum. Slík stefna verði ekki mótuð nema innan sambandsríkis þess vegna beri að taka stefnuna þangað til að bjarga evrunni og ESB. Engin umræða fæst hér á    landi um hina miklu áherslubreytingu varðandi framtíð ESB. Íslensk stjórnvöld og viðmælendur þeirra vilja ekki ræða annað opinberlega en að kaflar séu opnaðir og þeim lokað.

 

Að sjálfsögðu mátti deila um gæði almennra umræðna um utanríkis-, öryggis- og varnarmál á tíma kalda stríðsins. Þeir sem komu að mótun utanríkisstefnunnar og framkvæmd hennar höfðu hins vegar ákveðin meginsjónarmið á hreinu og vissu um umboð sitt enda hafði verið tekist á um málið í fjölda þingkosninga auk þess sem undirskriftarsöfnunin mikla Varið land vorið 1974 sýndi hug almennings til dvalar varnarliðsins á afdráttarlausan hátt.

Nú er staðan allt önnur. Af hálfu stjórnvalda er lagt höfuðkapp á að lýsa málum á annan hátt en þau eru í raun. Líklegt er að ekki séu öll kurl komin til grafar um hve langt utanríkisráðherra hefur gengið til móts við kröfur ESB. Nýlega upplýsti þingmaður, Atli Gíslason, sem sat í þingflokki VG vorið 2009 að óðagot Steingríms J. Sigfússonar og Svavars Gestssonar í Icesave-málinu, afleik aldarinnar, hafi mátt rekja til þjónkunar við ESB svo að Steingrímur J. yrði ráðherra í stjórn með Jóhönnu Sigurðardóttur. Hvað hefur fleira gerst á bakvið tjöldin andstætt íslenskum þjóðarhagsmunum til að þóknast embættismannavaldinu í Brussel?

Það er mál að linni. Til þess þarf tvennt: Jóhanna Sigurðardóttir hverfi úr embætti forsætisráðherra og sent verði boð til Brussel um að hlé hafi verið gert á ESB-viðræðunum.