14.6.2010

Ísland og ESB-leiðtogaráðsfundurinn 17. júní


Hér á landi hefur athygli beinst að fundi leiðtogaráðs ESB-ríkjanna, æðsta pólitíska afls Evrópusambandsins, hinn 17. júní næstkomandi vegna óska Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, um, að á fundinum verði tekin jákvæð afstaða til þess álits framkvæmdastjórnar ESB, að í lagi sé að hefja aðildarviðræður við Íslendinga.

Ákveði leiðtogaráðið, að viðræður skuli hafnar, setur embættismannalið ESB í nýjan gír gagnvart umsókn Íslands. Þá hefst rýnivinna á íslenskri löggjöf í því skyni að tryggja, að hún falli að lögum ESB. Einnig ræðst ESB í „kynningarátak“ til að snúa Íslendingum til fylgis við ESB-aðild og sporna gegn því, að þeir segi nei í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Þegar Össur og samstarfsmenn hans eru að leggja lokahönd á að þröngva Íslandi inn á dagskrá leiðtogafundarins, birtist skoðanakönnun, sem sýnir, að tæplega 60%  þjóðarinnar vill, að aðildarumsóknin verði dregin til baka. Fram til þessa hefur það sjónarmið notið verulegs fylgis, að það beri að fara með aðildarumsókn til Brussel, til að sjá hvað er í poka þess. Þegar þeirri skoðun sé lokið, eigi þjóðin að taka afstöðu til innihaldsins í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Æ fleiri átta sig á því, að þessi málflutningur er blekking. Þjóðir sækja ekki um aðild að ESB í þessum tilgangi heldur til þess að komast í ESB. Engri þjóð með sjálfsvirðingu dettur í hug að gera bjölluat hjá yfirstjórn ESB í Brussel. Að íslenska utanríkisþjónustan skuli láta hafa sig í að tala á þann veg í Brussel, að alvara sé á bakvið umsókn Íslands, veikir hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB og gerir málsvara Íslands marklausa.

Í stað þess að nota dagana til 17. júní til að knýja á um afgreiðslu leiðtogaráðs ESB á tillögum framkvæmdastjórnarinnar um, að gengið verði til viðræðna við Ísland, ætti íslenska utanríkisþjónustan að endurspegla vilja almennings í störfum sínum og útskýra, hvers vegna aðildarumsókn Íslands verði brátt dregin til baka.

Að þrýsta á um að dagskrá leiðtogaráðsfundarins verði breytt og aðild Íslands sett á hana, sýnir ekki aðeins gjána á milli utanríkisráðuneytisins og íslensku þjóðarinnar heldur einnig einstakt skilnings- eða þekkingarleysi á því, sem er að gerast á vettvangi ESB. Á fundi leiðtogaráðsins 17. júní verða rædd einhver erfiðustu viðfangsefni, sem hafa verið á döfinni innan Evrópusambandsins, frá því að það kom til sögunnar.

Á fundinum verður tekist á um leiðir til að sigrast á fjármálakrísunni innan ESB. Allt verður lagt í sölurnar til að koma í veg fyrir klofning milli öflugustu þjóðanna innan sambandsins, það er Breta, Frakka og Þjóðverja, um leiðir út úr vandanum. Deilan snýst um, hve mikið vald í fjármálum og efnahagsmálum einstakra ESB-ríkja á að færa til embættismannakerfisins í Brussel.

Ágreiningnum má lýsa með því að nefna tvö ensk orð „governance" og „government“, það er „stjórnun“ og „stjórn“.  Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Breta, deildi við ESB-leiðtoga um notkun á orðunum „economic government“, „efnahagsstjórn“, sem Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, notaði. Hin opinbera ESB-þýðing á ensku mildaði málið, því að þar var talað um „economic governance“, „efnahagslega stjórnun“.

Sumir telja líklega, að hér sé um gamalkunnan pólitískan orðhengilshátt að ræða. Svo er ekki, því að deilan snýst um, hve mikið vald á að færa í hendur embættismanna ESB í Brussel til að móta fjárlagastefnu og fjárlög einstakra ESB-ríkja. Markmiðið er að koma í veg fyrir, að einstök ESB-ríki taki ákvarðanir um eigin ríkisútgjöld, sem kunni að skaða hagsmuni annarra ESB-ríkja.

Frakkar eru í forystu þjóða, sem vilja sem mesta samræmingu á sviði ríkisfjármála innan ESB, en síðan í raun sameiginlega „efnahagsstjórn“ fyrir evru-ríkin 16.  Þessi „efnahagsstjórn“ byggðist á því, að reglulega yrði efnt til funda háttsettra fulltrúa ríkjanna undir stjórn forseta af einhverju tagi, auk þess yrði komið á fót skrifstofu, sem mótaði og kynnti sameiginlegar fjárlagatillögur fyrir evru-ríkin.

Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, og Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hafa lagst á sveif með Frökkum. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, vill hins vegar, að sameiginlegar ákvarðanir um efnahagsmál nái til allra 27 ESB-ríkjanna til að útiloka frekari klofning innan ESB. Á það hefur verið bent, að Merkel vilji ekki verða skipað í klúbb með ríkjunum í suðurhluta ESB. Hún telji fjárlagastjórnina þar alltof losaralega og opinberar skuldir of miklar.

Frá ríkjunum í austurhluta ESB berast einnig viðvörunarorð vegna hugmynda um skarpari skil milli evru-ríkja innan ESB og ekki-evru-ríkja. Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur látið þau orð falla, að Pólverjar sækist ekki eftir evru-aðild til að komast í lokaðan eilítuklúbb innan ESB heldur eigi evru-ríkin að vera í forystu alls ríkjahópsins.

Embættismannaveldið í Brussel er mjög á varðbergi gagnvart tillögu Frakka. Framkvæmdastjórnin telur hættu á því, að verði til sérstök evru-stjórn undir hatti ESB, verði hún til þess að taka til sín völd og áhrif frá þeim stjórnarstofnunum, sem nú starfa. Þá sé ljóst, að framkvæmastjórnin hafi ekkert yfir henni að segja.

Sagt er, að tvær grímur séu farnar að renna á Herman Van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, sem sagðist upphaflega hafa skilning á sjónarmiðum Frakka en er tekin til við að gagnrýna þau í því skyni að koma til móts við Þjóðverja og leiðtoga þjóðanna í Austur-Evrópu.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, segir stjórn sína ekki ætla að taka upp evru. William Hague, utanríkisráðherra Breta, segir, að ábyrgð breska ríkisins á ráðstöfunum vegna fjárlaga- og evru-vanda innan ESB taki mið af því, að Bretar séu utan evru-svæðisins. Þá segist breska ríkisstjórnin ætla að kynna eigin þingmönnum fjárlagatillögur sínar, áður en ESB-embættismenn fái aðgang að þeim.

Þessi stutta lýsing á því, sem bíður leiðtoganna í Brussel, þegar þeir hittast 17. júní, sýnir, að þeir hafa um annað að hugsa en hvort aðildarviðræður eigi að hefja við Íslendinga, þjóð, sem hefur auk þess engan áhuga á ESB-aðild.

Utanríkisráðuneyti Íslands undir forystu Össurar Skarphéðinssonar á að sjá sóma sinn í því að fara að ósk íslensku þjóðarinnar og hætta að heimta aðildarmál Íslands á dagskrá 17. júní-fundarins. Um þetta snýst málið en ekki hitt, hvort fresta eigi 17. júní, eins og Steingrímur J. Sigfússon taldi af alkunnri glöggskyggni sinni í þingræðu. Á skömm hans vegna ESB-málsins var þó ekki bætandi. Væri einhver dugur í Steingrími J. í ESB-málinu, ætti hann að krefjast þess á ríkisstjórnarfundi 15. júní, að fallið verði frá öllum óskum um, að aðildarumsókn Íslands verði á dagskrá leiðtogaráðs ESB 17. júní.