20.4.2009

Þvermóðska Jóhönnu - alþingi kvatt - nýr tími.

 

 

 

Alþingi lauk störfum klukkan 20.48 föstudaginn 17. apríl, það er viku fyrir kjördag 25. apríl. Er einsdæmi hér á landi og líklega í öllum lýðfrjálsum löndum, að þing sitji að störfum svo nálægt kjördegi. Ástæðan fyrir þessum undarlegheitum var einföld: Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, komst ekki lengur hjá því að horfast í augu við hina einföldu staðreynd, að hún gæti ekki þvingað fram stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn.

Skrýtnir tímar kalla á annað enn skrýtnara og eitt af því er, að Jóhanna Sigurðardóttir skuli hafa sest í stól forsætisráðherra. Á níunda áratugnum, þegar hún var ráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, fór hún einu sinni í verkfall sem ráðherra og neitaði að sækja ríkisstjórnarfund, ef ekki yrði látið að kröfu hennar í einhverju máli. Greip Þorsteinn þá til þess ráðs að slíta ekki morgunfundi ríkisstjórnarinnar heldur fresta honum fram á kvöld og var síðdegið notað til að sefa reiði Jóhönnu.

Fyrsta kjörtímabil mitt á alþingi 1991 til 1995 sat Jóhanna í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og þá bárust okkur þingmönnum fréttir um, hve erfitt samstarf Jóhönnu væri við samráðráðherra sína í Alþýðuflokknum. Hún yfirgaf síðan ríkisstjórnina sumarið 1994, skömmu eftir að minnst var 50 ára afmælis íslenska lýðveldisins á hátíðarfundi alþingis á Þingvöllum. Við svo búið stofnaði hún stjórnmálahreufinguna Þjóðvaka til höfuðs Jóni Baldvini Hannibalssyni og félögum hans í Alþýðuflokknum.

Þessi skapgerðareinkenni Jóhönnu Sigurðardóttur settu sterkan svip á þingstörfin og leiddu til þess, hve erfiðlega gekk að komast að niðurstöðu um að ljúka þeim. Þau réðu líklega einnig miklu um, að stjórnarflokkarnir og stuðningslið þeirra á þingi ákvað að slá á framrétta sáttahönd okkar sjálfstæðismanna í stjórnarskrármálinu, en við lögðum hana fram fimmtudaginn 16. apríl á fundi í sérnefnd um málið.

Tillögur okkar snerust annars vegar um að setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána, án þess að nota þar orðið „þjóðareign“, sem valdið hefur miklum ágreiningi meðal lögfræðinga. Þá vildum við einnig setja inn nýtt ákvæði um leið til að breyta stjórnarskránni. Var það sniðið að danskri fyrirmynd og í raun orðréttur texti, sem leiddi til samkomulags í nefnd allra flokka um stjórnarskrármálið, sem skilaði skýrslu í febrúar 2007. Loks lögðum við fram tillögu um, að alþingi kysi 25 manna ráðgjafanefnd til að semja tillögur um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og yrðu þær kynntar í tæka tíð vorið 2011, svo að alþingi gæti ályktað um þær í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní 2011.

Allt var þetta haft að engu og lagði Jóhanna Sigurðardóttir lykkju á leið sína til að kalla okkur andstæðinga lýðræðis,  þegar hún horfðist í augu við eigin ósigur. Hið gagnstæða gerðist á alþingi. Þar sannaðist enn, að lýðræði felst meðal annars í því að nýta þann tíma, sem menn hafa til að setja fram skoðanir sínar. Jóhanna og félagar fóru á svig við lýðræðisreglur og hefðir með því að ætla að þröngva stjórnarskrárbreytingum í gegn, án þess að fara að óskráðum leikreglum lýðræðisins og leita samráðs og samvinnu allra.

Föstudag 18. apríl var 2. umræðu um stjórnarskrármálið haldið áfram, án þess að henni lyki og lá því málið eftir óafgreitt við frestun þingfunda að kvöldi þess dags.

Ég var einn fjögurra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í sérnefndinni og framsögumaður af okkar hálfu. Var ánægjulegt að kynnast hinum einarða vilja allra þingmanna flokksins til að stöðva framgang stjórnarskrárbreytinganna í þeirri mynd, sem þær voru lagðar fyrir alþingi. Ég er viss um, að engum muni oftar detta í hug að leggja tillögur um stjórnarskrárbreytingu fram á þann veg, sem gert var undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Reynsla hennar verði öðrum víti til varnaðar.

Stjórnartími Jóhönnu hefur einkennst af einstefnu og yfirgangi. Hún komst upp með að breyta lögum um Seðlabanka Íslands, ýta þremur seðlabankastjórum til hliðar og ráða norskan mann sem seðlabankastjóra á hæpnum lögfræðilegum grunni, svo að ekki sé meira sagt. Frá þeim tíma hefur stöðugt fjarað undan íslensku krónunni.

Full ástæða er fyrir íslensku þjóðina að kvíða því, sem í vændum er, ef Jóhanna heldur áfram sem forsætisráðherra að kosningum loknum með Steingrím J. Sigfússon sem fjármálaráðherra sér við hlið. Hvorugt þeirra aðhyllist stjórnmálastefnu, sem mótar skynsamlega leið út úr þeim vanda, sem við er að glíma.

Þvermóðska Jóhönnu Sigurðardóttur gerði hana að forsætisráðherra. Samfylkingarfólki þótti eina leiðin til að draga úr líkum á því, að hún beitti sér fyrir óróa og klofningi í þeirra röðum, að „sparka henni upp á við“ eins og sagt er og láta hana sitja með lokaábyrgðina á eigin herðum. Steingrímur J. liggur síðan ekki á þeirri skoðun sinni, að hann viti í raun allt best og þar með einnig hvernig eigi að taka á málum, Jóhanna átti sig ekki á hinum flóknu viðfangsefnum. Hún þiggi ráð um þau frá sér.

Alþingi kvatt.

Þegar þingfundi lauk rétt fyrir klukkan 20.48 föstudaginn 18. apríl lauk einnig þingsetu minni. Fyrir síðustu kosningar sagðist ég ætla að hætta á þingi eftir þetta kjörtímabil. Þótt það yrði styttra en ætlan var, breyttust áform mín ekki.

Á fyrsta kjörtímabili mínu kynntist ég þingstörfum vel, því að ég sat strax fyrsta veturinn í forsætisnefnd þingsins. Þá urðu deilur um kjör manna í forsætisnefndina og sátu aðeins stjórnarsinnar í henni, sem olli miklum deilum í þingsalnum. Sátum við þá gjarnan á löngum næturfundum. Framsóknarmenn kunnu því illa að vera í stjórnarandstöðu og sýndu að mér fannst mikla óbilgirni.

Eftir nokkur átök innan þingflokks sjálfstæðismanna var ég kjörinn formaður utanríkismálanefndar alþingis en á nefndinni hvíldi að leiða EES-samninginn í gegnum þingið. Var það eftirminnilegt viðfangsefni.

Hinn 23. apríl 1995, að loknum kosningum, varð ég menntamálaráðherra. Þá var ég tekinn til við að færa efni hér á síðuna og frá þeim tíma hef ég notað hana til að segja frá því helsta, sem á daga mína hefur drifið, og vísa ég til þess! Ég geri mér ekki grein fyrir, hve margar blaðsíður af efni ég hef skrifað hér á síðuna á undanförnum 14 árum, en líklega skipta þær þúsundum.

Ég kveð alþingi með söknuði sem vinnustað og stofnun. Oft hef ég þó undrast vinnubrögð á alþingi og skipulag á vinnutíma,  ekki síst síðustu daga og vikur. Ég hef einnig orðið var við, að það tekur nokkurn tíma fyrir nýja þingmenn að laga sig að vinnulagi þingsins.  Starfið er hins vegar í senn fræðandi og gefandi, auk þess sem spenna myndast, þegar hart er deilt. Þannig var það síðustu þingdaga mína vegna stjórnarskrármálsins. Ég hefði ekki viljað missa af þeirri reynslu að sitja sem stjórnarandstæðingur á þingi.

Þegar ég kom á þing eimdi enn eftir af þeim tíma, þegar þingmenn önnuðust frágang mála að verulegu leyti sjálfir og treystu mest á eigin þekkingu og krafta. Síðan hefur alþingi tekið stakkaskiptum sem stofnun og í öllum aðbúnaði þingmanna. Þótti mér miklu skipta að fá aftur tækifæri til að taka þátt í störfum þingsins sem þingmaður, eftir að ég hætti sem ráðherra, til að átta mig betur á því, hve mikil umskipti hafa orðið til hins betra í allri þjónustu við þingmenn. Metnaður allra starfsmanna alþingis er mikill. Heyrir til mikilla undantekninga að mál tefjist vegna þess, að beðið sé eftir vinnu af hendi starfsmanna þingsins, þar stendur almennt allt eins og stafur á bók.

Allt frá því ég fæddist hefur alþingi verið snar þáttur í lífi mínu. Þar var vinnustaður föður míns og fékk ég oft að heimsækja hann í þinghúsið, þegar ég var ungur að árum og fylgjast með þingfundum. Sat ég þá gjarnan löngum stundum í hljóðritunarherberginu hjá Magnúsi Jóhannessyni, sem festi ræður þingmanna á stórar segulbandsspólur. 

Líklega hefði ekki þótt trúverðugt þá, ef sagt hefði verið, að sú tíð kæmi, að unnt yrði að nota tölvu til að hlusta á og horfa á þingmenn flytja ræður sínar, ekki síður en lesa þær í þingtíðindum. Nýting alþingis á tölvutækninni til að miðla upplýsingum um störf sín er til fyrirmyndar. Þingfréttum fjölmiðla hefur hins vegar hrakað og með því að nýta þá fæst enginn heildarmynd af því, sem á alþingi gerist.

Einkennilegt er að verða vitni að því, að litið sé á það eins og næsta sjálfsagt, að mál séu tekin fyrir og afgreidd á þingi í gustukaskyni eða greiðasemi við einstaka þingmenn og þá gjarnan án tillits til hinnar vönduðu málsmeðferðar, sem ávallt ber að krefjast.

Í stjórnarskrármálinu var því hreyft manna á meðal í þinginu, að það ætti nú að greiða fyrir afgreiðslu þess, af því að Valgerði Sverrisdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, fomanni sérnefndarinnar yrði það gleðiefna vegna brottfarar sinnar af þingi.  Við sjálfstæðismenn vildum fá lengri tíma til að ræða stjórnarskrármálið í nefnd í leit að sáttaleið, áður en 2. umræða hæfist, en Valgerður mátti ekki heyra á það minnst. Síðar kom í ljós, að hún hvarf frá þingstörfum laugardaginn 11. apríl.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri-grænna, nauðgaði vændisfrumvarpi sínu út úr allsherjarnefnd og í gegnum þingið á lokadegi þess. Í fyrra tók hann viðamiklar breytingar á almennum hegningarlögum í gislingu undir þinglok með því að hengja þessi vændisákvæði á það frumvarp. Allsherjarnefnd lét hinar viðamiklu breytingar á almennum hegningarlögum enn liggja óafgreiddar á þessu þingi, en þær fela meðal annars í sér virkari úrræði af hálfu lögreglu til að hafa hendur í hári þeirra, sem stunda smygl á fíkniefnum, eða stjórna slíkum aðgerðum eða hagnast á þeim.

Ég var einn af þremur þingmönnum, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpi Atla. Í Morgunblaðinu 20. apríl segir Jón Þór Ólason, kennari í refsirétti í Háskóla Íslands, að þetta frumvarp Atla sé illa unnið og ígrundað. Ég er sammála því, enda virðist hér fyrst og fremst um pólitískt sjónarspil að ræða.  Ragnheiður Bragadóttir, prófessor í refsirétti við Háskóla Íslands, hefur réttilega bent á, að ekki sé unnt að uppræta félagslegt vandamál með refsiákvæðum, en þetta nýja lagaákvæði endurspeglar einmitt félagslega uppgjöf gagnvart því, sem ætlunin er að gera refsivert, þrátt fyrir rökstutt andmæli þeirra, sem gæta laga og réttar.

Nýr tími.

Nú verður sú breyting á högum mínum, að ég hverf frá opinberum skyldustörfum, þegar tæp 19 ár eru liðin frá því, að ég bauð mig fram til þeirra. Óvíst er, hvað ég tek mér fyrir hendur. Ég stefni þó að því að halda þessari síðu áfram úti, þótt efnistök hljóti að breytast í samræmi við ný viðfangsefni.