25.5.2008

Skýrsla ríkisendurskoðunar - ótti við Taser - Goldfinger.

Að ósk Kristins H. Gunnarssonar, formanns þingflokks frjálslyndra, samþykkti forsætisnefnd alþingis hinn 31. mars, að ríkisendurskoðun gerði skýrslu um reynsluna af starfi og rekstri embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og legði mat á þær skipulagsbreytingar, sem ég kynnti lögreglustjóranum og samstarfsmönnum hans 19. mars. Forseti alþingis lagði eftirfarandi spurningar fyrir ríkisendurskoðun:

1.   Hvernig er fjárhagsvandi embættisins tilkominn og hvernig hefur verið tekið á honum?

2.     Hver er faglegur og fjárhagslegur ávinningur af sameiningunni sem varð 1. janúar 2007?

3.     Hvert er mat ríkisendurskoðunar á fyrirhugðum skipulagsbreytingum á embættinu?

Ríkisendurskoðun birti svar sitt til forsætisnefndar alþingis í skýrslu, sem jafnframt var send dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og fjölmiðlum föstudaginn 23. maí.

Í skýrslunni er farið yfir þau málefni, sem spurt er um.  Þar er vikið að ákvörðun minni um framtíð embættisins og meðal annars sagt:

„Ríkisendurskoðun telur að tillögur dómsmálaráðuneytisins stuðli að því að þau ráðuneyti sem lögum samkvæmt fara með forræði tollgæslu [fjármálaráðuneyti] pg flugverndar [samgönguráðuneyti] fái skýrari aðkomu að markmiðssetningu og ákvörðun þjónustustigs á þessum sviðum sem og ábyrgð á nauðsynlegum fjárveitingum til þeirra. Stofnunin telur því rétt að hrinda tillögum ráðuneytisins í framkvæmd.“

Feitletrun og innskot eru frá mér. Hér fer ekkert á milli mála. Í framhaldi af ákvörðun minni flutti fjármálaráðherra frumvarp um breytingar á tollalögum, sem samþykkt var í ríkisstjórn en hefur beðið afgreiðslu í þingflokki Samfylkingarinnar.  Ríkisendurskoðun telur, að þetta frumvarp eigi ekki aðeins að ná til tollamála á Suðurnesjum heldur „eigi að ná til allra sýslumanns- og lögregluembætta landsins sem annast bæði lögreglu- og tollamál.“

Með síðustu breytingu á umdæmaskipan tollamála var tollstjórn lögreglustjóra á Akranesi, Stykkishólmi og í Borgarnesi flutt til tollstjórans í Reykjavík. Nú vill ríkisendurskoðun, að til verði embætti ríkistollstjóra en að sjálfsögðu munu umboðsmenn hans um land allt starfa með embættum lögreglustjóra. Frá mínum bæjardyrum séð eru engir meinbugir á því, að þessi skipan sé ákveðin með lögum, en frumkvæði að því að breyta tollalögum er ekki hjá mér.

Fjölmiðlar hafa haft mikinn áhuga á þessu máli og þegar niðurstaða ríkisendurskoðunar hafði verið birt leituðu þeir álits hjá mér. Ég birti hér tölvusamskipti okkar Björns Gíslasonar, blaðamanns á visir.is, en þar kom einna gleggst frásögn af viðhorfi mínu:

„Mig [segir Björn Gíslason] langaði að leita hjá þér viðbragða við nýrri skýrslu ríkisendurskoðunar um lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum. Sendi þér hér með fimm spurningar sem ég vonast til að þú getir svarað.

1.     Í skýrslunni er tekið undir sjónarmið þín um að rétt sé að skilja á milli einstakra þátta hjá embættinu. Reiknarðu með að það verði þá af aðskilnaðinum og þingmenn Samfylkingarinnar ljái málinu stuðning á þingi? Ef svo er hvenær er gert ráð fyrir aðskilnaðinum?

Svar: Mér sýnist á ummælum Lúðvíks Bergvinssonar, að hann taki undir með ríkisendurskoðun og þá mín sjónarmið. Hann sagðist þurfa betri rök, nú hefur hann greinilega fengið þau. Ég vænti þess, að þess sjáist skjót merki í afstöðu hans til einstakra þátta málsins.

2.     Ríkisendurskoðun segir að stjórnun og fjármögnun verkefna kalli á að stjórnvöld taki afstöðu til þess hversu mikla lög- og tollgæslu þarf vegna starfseminnar á flugvellinum. Ef halda eigi óbreyttum mannafla sé ljóst að auka þurfi fjárveitingar til löggæsluverkefna um 315 milljónir króna til að bæta upp tekjutap og ná rekstri löggæsluhluta embættisins hallalausum án frekari sparnaðaraðgerða. Hyggstu beita þér fyrir því að fjárveitingar til löggæslunnar verði auknar eins og þarna segir?

Svar: Markmið mitt er að tryggja góða og öfluga löggæslu á Suðurnesjum og ég tel, að sú breyting á embættinu, sem ég hef boðað og ríkisendurskoðun telur, að eigi að ná fram að ganga, miði að því. Í því skyni þarf einnig að tryggja fjárveitingar – fyrsta skrefið er að hin stjórnsýslulega ábyrgð sé skýr og ótvíræð.

3.     Ríkisendurskoðun segir að ef verkefnum embættisins verði breytt komi til álita að lögreglustjóraembættinu verði áfram falin dagleg stjórnun verkefna á sviði tollgæslu og flugverndar með þjónustusamningum. Telur þú það koma til greina?

Svar: Ég lít á það sem fullt starf að stjórna lögreglu og landamæravörslu á Suðurnesjum. Ef þeir, sem fara með tollamál og flugvernd vilja semja um sameiginlega stjórn þessara mála, verða þeir fyrst að taka þá ákvörðun og síðan yrði henni fylgt eftir með samningum og að því kæmi dóms- og kirkjumálaráðuneytið með lögreglustjóraembættinu.

4.     Jóhann Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í viðtali á Vísi í dag að honum hugnist ágætlega að skipta upp embættinu fjárhagslega en ekki stjórnsýslulega þannig að yfirstjórn verði áfram á einni hendi. Telur þú það koma til greina?

Svar: Þetta er annað en Jóhann hefur sagt við mig. Honum er ljóst, að unnið er að fjárhagslegri og stjórnsýslulegri aðgreiningu eins og ríkisendurskoðun telur að gera beri. Ef til vill er hann að vísa til hugsanlegra samninga, eftir aðskilnað verkþáttanna.

5.     Í skýrslunni er enn fremur rætt um alvarlegan samskiptavanda milli aðila frá því að LRS færðist undir dómsmálaráðuneytið og að hann snúi ekki eingöngu að boðuðum breytingum. Í hverju felst sá samskiptavandi og hefur verið unnið að því að leysa hann?

Svar: Ég veit ekki í hverju þessi vandi felst. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fær almennt mjög góða einkunn hjá forstöðumönnum stofnana sinna eins og síðast kom fram í könnun, sem birt var nýlega. Ráðuneytið gerir ríkar kröfur til stofnana sinna og fylgir þeim eftir með viðræðum og samskiptum í tölvu eða bréfaskiptum. Lögð er áhersla á að bregðast fljótt við öllum erindum og enginn þurfi að vera í vafa um afstöðu ráðuneytisins. Embættið á Suðurnesjum er tiltölulega nýkomið inn í þetta umhverfi. Ég hef ekki orðið var við neinn samskiptavanda og líklega hef ég síðan um áramót 2007 ekki rætt meira við nokkurn forstöðumann en Jóhann R. Benediktsson. Að þessi aðferð við stjórnun leiði til samskiptavanda er af og frá – ég skil satt að segja ekki, hvað í þessum orðum ríkisendurskoðunar felst, enda kemur fram, að hafi þessi vandi verið fyrir hendi sé hann úr sögunni!“

Taser og ótti Jónasar.

Þráinn Bertelsson, rithöfundur, sagði á bloggsíðu sinni hinn 23. maí:

Vegna þess að ég starfa sumpart sem rithöfundur hef ég lagt mig eftir að kynna mér þróun glæpa og alþjóðlegrar glæpastarfsemi - sem er svo umfangsmikil að hún ræður yfir um 20% af öllu fjármagni í veröldinni. Við búum ekki lengur á afskekktri eyðieyju, heldur í ríku landi, svo að hér er eftir töluverðu að slægjast fyrir stórhuga glæpamenn sem eiga auðvelt með að finna sér fúsa útibússtjóra hér á landi, íslenska og erlenda.“

Þráinn Bertelsson, rithöfundur, sagði á bloggsíðu sinni hinn 24. maí:

„„Aukin harka einkennir heim afbrota hér á landi. Jafnframt er ljóst að starf lögreglu er nú mun hættulegra en áður var," segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri um stöðu þessara mála hér á landi í Fréttablaðinu.

Predikun aðstoðarríkislögreglustjóra virðist vera að hræða fólk með því að erlendar glæpamafíur séu að koma sér upp aðstöðu hér á landi og sendifulltrúum, eins og er siður allra kapítalískra samfélaga sem trúa á alþjóðavæðingu og markaðssókn. 

Lögregla víða um heim hefur komist að þeirri niðurstöðu að taser (þótt þetta sé sniðugt áhald) dugir ekki til að fækka alþjóðlegum glæpasamtökum.“

Á forsíðu Fréttablaðsins 24. maí segir í frétt jss.:

„Skipulagðir erlendir glæpahópar hafa náð fótfestu hér á landi. Þetta hefur vinna greiningardeildar Ríkislögreglustjóra leitt í ljós, að sögn Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur aðstoðarríkislögreglustjóra.

Einkum er um að ræða glæpahópa frá Mið- og Austur-Evrópu. Jafnframt hefur komið í ljós að erlendir glæpamenn eru sendir gagngert hingað til lands til að fremja afbrot.

"Þá hefur eftirgrennslan greiningardeildar leitt í ljós að erlendir glæpahópar eiga samvinnu við íslenska glæpamenn," útskýrir Sigríður Björk. "Þetta á einkum við um smygl og dreifingu fíkniefna. Reynslan kennir hins vegar að skipulögð glæpastarfsemi vindur jafnan upp á sig og til verða ný svið. Hið sama gildir um möguleika á frekara samstarfi erlendra og íslenskra glæpahópa."

Sigríður Björk útskýrir að þegar rætt sé um "íslenska" eða "innlenda glæpahópa" sé átt við þá sem íslenskir ríkisborgarar myndi. "Útlendir glæpahópar" séu að sama skapi þeir sem erlendir ríkisborgarar, búsettir á Íslandi, myndi. Hinir útlendu geta hins vegar lotið stjórn manna hér á landi sem erlendis.

"Enginn vafi leikur á því að hluta þeirrar skipulögðu glæpastarfsemi sem haldið er uppi á Íslandi er stjórnað erlendis frá," segir Sigríður Björk. "Fyrir liggur að menn eru sendir hingað til lands gagngert til að fremja afbrot. Upplýsingar greiningardeildar benda til þess að viðkomandi sé síðan "skipt út" og nýir menn teknir inn þegar þörf er á eða þegar henta þykir."

Greiningardeild telur að hér sé um að ræða mikil og söguleg umskipti á vettvangi löggæslu í landinu.

"Þessi þróun hefur í för með sér að lögreglan stendur frammi fyrir nýjum og sérlega krefjandi verkefnum," undirstrikar Sigríður Björk.“

Aðstoðarríkislögreglustjóri minnist hvergi í þessu viðtali við Fréttablaðið á taser-tækin, það er rafstuðtækin, sem einnig eru nefnd rafbyssur og Landssamband lögreglumanna vill, að hver lögreglumaður hafi innan seilingar. Tækið er nú til athugunar hjá ríkislögreglustjóra.

Þráinn Bertelsson og Jónas Kristjánsson, tveir fyrrverandi ritstjórar, hafa bloggað grimmt gegn þessum tækjum. Eru þau þeim jafnan ofarlega í huga, þegar minnst er á lögregluna.

Jónas Kristjánsson segir á vefsíðu sinni jonas.is hinn 25. maí:

Hver verndar okkur fyrir löggunni?
Óskar Þór Guðmundsson, stjórnarmaður í löggufélaginu, hefur í Mogga hótað mér og teimur öðrum. Fórnardýr hans eru nánar tiltekið Þráinn Bertelsson rithöfundur, Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty, og ég. Óskar skrifar: "Og það er líklegt að þeir, sem hafa yfirgnæft umræðuna um Taser valdbeitingartækið séu akkúrat þeir sem eru stundum í þeim aðstæðum að tækið yrði jafnvel notað gegn þeim." Ég hef ekki orðið var við, að Óskar hafi sætt áminningu vegna þessa. Og við þremenningarnir hljótum að spyrja: Hver verndar okkur fyrir löggunni, þegar hún hefur fengið rafbyssurnar?“

Hér vitnar Jónas í grein eftir Óskar Þór, sem birtist í Morgunblaðinu hinn 11. maí sl. http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1213677. Þegar grein Óskars Þórs er lesin er ógjörningur að draga þá ályktun af henni, að þau Jóhanna, Þráinn og Jónas verði beitt rafstuði, þótt lögreglan fái þetta varnaðartæki til notkunar.

Við það er ekkert að athuga, að menn verði sjálfhverfir, þegar rætt er um rétt lögreglunnar til að beita valdi eða tæki, sem hún fær í þeim tilgangi. Þótt þeir Jónas og Þráinn séu sammála um, að lögregla eigi að ráða yfir litlu afli, er ástæðulaust að ætla, að Óskar Þór hafi verið með þá eða Jóhönnu K. Eyjólfsdóttur í huga, þegar hann festi ofangreind orð á blað, en hér ber auðvitað að huga að nærgætni í orðum um alvarleg málefni. – Höfundareinkenni þeirra Jónasar og Þráins er að fara mjúkum orðum um menn og málefni og vilja þeir eðlilega, að þeim sé goldið í sömu mynt.

Goldfinger.

Á ruv.is 24. maí segir:

„Atli Gíslason, þingmaður vinstri grænna er ósammála niðurstöðu dómsmálaráðaráðuneytis um næturklúbbinn Goldfinger og telur að óþarft hafi verið að ógilda ákvörðun sýslumanns sem synjaði klúbbnum um leyfi til nektardanssýninga. Hann telur lögreglu hafa fært næg rök fyrir því að ekki ætti að veita leyfið.

Dómsmálaráðuneytið felldi úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um að neita Goldfinger um leyfi til nektardanssýninga. Lögum samkvæmt er nektardans bannaður, nema því aðeins að sex umsagnaraðilar fallist á að veita undanþágu.

Í úrskurði ráðuneytisins segir að í umsögn lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins hafi verið settar fram ýmsar ósannaðar fullyrðingar. Lögreglustjóri vitnaði í umsögn sinni til evrópskra rannsókna um að nektardansmeyjar væru oftast mjög ungar, þolendur misneytingar af ýmsu tagi og í mörgum tilvikum fórnarlömb mansals eða annarra glæpa. Þá væri það staðreynd að oftar en ekki útveguðu skipulögð glæpasamtök nektardansmeyjarnar. Dómsmálaráðuneytið ógilti ákvörðun sýslumanns og fer fram á nýja umsögn lögreglustjóra. Þorleifur Pálsson, sýslumaður í Kópavogi, segir að Goldfinger hafi í haust aðeins fengið venjulegt rekstrarleyfi. Staðurinn hafi því ekki leyfi til nektarsýninga. Hann býst ekki við því að aðhafast í málinu nema forráðamenn Goldfinger fari fram á það. Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, er ekki sammála niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins.

„Samkvæmt þeim lögum sem vísað er til eru nektarsýningar bannaðar," segir Atli. „Það má að uppfylltum ströngum skilyrðum og jákvæðum umsögnum fjölda aðila leyfa þetta í miklum undantekningartilvikum. Í umsögn lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins er bæði bent á sértæk atriði sem varða aukna löggæsluþörf á þessum stað. Ennfremur er bent á þá staðreynd sem er viðurkennd í allri Evrópu að svona staðir séu gróðrarstía vændis og mansals," segir hann. „Umsögn lögreglustjórans er neikvæð og það á að synja Goldfinger um leyfið. Ég tel ekkert tilefni til að ómerkja þessa vönduðu og málefnalegu umsögn lögreglustjórans."

Atli telur ekki að úrskurður dómsmálaráðuneytisins gefi fordæmi varðandi leyfisveitingar til nektardansstaða. Málið snúist um form en ekki efni.“

Í þessari frétt ruv.is kemur fram, að sýslumaðurinn í Kópvavogi ætlar ekki að veita Goldfinger leyfi til nektarsýninga í tilefni af úrskurði dóms- og kirkjumálaráðneytisins. Úrskurðurinn lýtur að þeim sjónarmiðum, sem lögreglustjórar eiga að hafa í huga við umsagnir sínar samkvæmt lögum um veitingastaði o. fl. Í úrskurðinum segir m. a.:

„Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og ákvæði 6. mgr. 24. gr. samnefndrar reglugerðar er ljóst að það kemur í hlut lögreglunnar að veita umsögn um nauðsyn á dyravörslu og sérstakri löggæslu. Ekki er að öðru leyti kveðið á um þau atriði sem lögreglu ber að veita umsögn um. Í athugasemdum um 10. gr. í frumvarpi til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald kemur hins vegar skýrt fram að umrætt ákvæði feli ekki í sér tæmandi talningu á þeim atriðum sem umsagnaraðilar skulu veita umsagnir um.  Því verður að telja að lögregla geti byggt umsögn sína á öðrum löggæslusjónarmiðum að því gefnu að þau séu málefnaleg og lögmæt, þ. á m. þeirri reynslu sem fengist hefur af rekstrinum á leyfistíma, enda er það hlutverk lögreglu að hafa eftirlit með framkvæmd laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. 1. mgr. 21. gr. laganna.

Að mati ráðuneytisins fór lögregluembættið út fyrir þessi mörk í umsögn sinni. Þess vegna er niðurstaða ráðuneytisins þessi:

„Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat ráðuneytisins að umsagnir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 27. júlí 2007 og 29. október 2007, hafi verið haldnar verulegum efnisannmörkum sem leiði til ógildingar ákvörðunar sýslumannsins í Kópavogi, dags. 31. október 2007. Í þessu sambandi telur ráðuneytið rétt að taka fram að þrátt fyrir að umsögn umsagnaraðila samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sé bindandi ber leyfisveitanda að ganga úr skugga um að umsögnin sé byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Telji hann svo ekki vera ber honum að óska eftir nýrri umsögn. Með vísan til framangreinds beinir ráðuneytið því til sýslumannsins í Kópavogi að leita eftir nýrri umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu áður en hann tekur veitingu umrædds leyfis til meðferðar á ný.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi, dags. 31. október 2007, um að synja umsókn Baltik ehf. um heimild í rekstrarleyfi til þess að fram fari nektardans í atvinnuskyni á veitingastaðnum Goldfinger. Sýslumanninum í Kópavogi ber að taka leyfisveitingu um heimild í rekstrarleyfi til þess að fram fari nektardans í atvinnuskyni á veitingastaðnum Goldfinger til meðferðar á ný að fenginni nýrri umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.“