3.2.2008

Evrópuumræður - Hannan refsað.

Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs í háskólanum á Bifröst, heldur úti vefsíðu og ræðir þar meðal annars um Evrópumálefni. Hann segir í færslu á síðunni 30. janúar, 2008:

„Áfram með tilvitnanir úr Alþingistíðindum: Fyrir nokkrum árum komu upp deilur um hversu mikinn hluta af reglugerðaverki ESB Ísland tekur upp í gegnum EES. Árið 2003 sagði Halldór Ásgrímsson að hlutfallið væri 80% en Davíð Oddsson sagði í svari á Alþingi árið 2005 að það væri ekki nema 6,5%. (Ég fór í gegnum þessa umræðu í stuttri fræðigrein sem finna má hér.) Í ljósi umræðunnar sem spannst um þessa skrítnu deilu eru eftirfarandi ummæli Björns Bjarnasonar í umræðum um EES á Alþingi þann 16. maí 1991 ansi athyglisverðar. Um EES sagði Björn:

„Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og það liggur einnig fyrir að við erum hér að tala um 70 -- 80% af því sem við þyrftum að semja um við Evrópubandalagið ef við tækjum þá ákvörðun að sækja um aðild að bandalaginu.“

Björn Bjarnason. Alþingistíðindi 1991, 114. lþ. B. Umræður: 133.

Ég veit ekki, hvort skilja á þessa tilvitnun í mig frá 1991 á þann veg, að ég hafi verið að taka undir með niðurstöðu Halldórs Ásgrímssonar 2003. Hitt er víst, að ég er árið 1991 að tala um 70 til 80% af öllu, sem við hefðum þá þurft að semja um við ESB, ef sótt hefði verið um aðild. Að bera það saman við hlutfallstöluna hjá Halldóri Ásgrímssyni, sem snerist um allt annað, er í raun svo fráleitt, að furðu sætir, að fræðimaður skuli taka það sér fyrir hendur.

Þessi fræðimennska Eiríks Bergmanns sannar ekkert, hvorki til né frá, heldur er hluti af endalausu tali Evrópusinna um eitthvað, sem engu máli skiptir, þegar rætt er stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu á líðandi stundu.

Ég bendi áhugamönnum um þessar hlutfallstölur á skýrslu Evrópunefndar, sem er að finna á vefsíðu forsætisráðuneytisins, en þar er fjallað um þær, án þess að tekin sé afstaða til þess, sem sagði í ræðu minni árið 1991, enda hafa aðstæður breyst svo mikið hjá Evrópusambandinu síðan, að orð frá 1991 hafa í raun enga sérstaka þýðingu á líðandi stundu.

Umræður voru á alþingi hinn 31. janúar um skýrslu utanríkisráðherra um stöðu Íslands á innri markaði Evrópu og flutti ég þar ræðu. Síðan var ég sama dag á málþingi Samtaka atvinnulífsins um Evrópumál og gerði grein fyrir niðurstöðunum í skýrslu Evrópunefndar.

Umræðum um Evrópumál má skipta í tvennt:

Annars vegar eru þeir, sem ræða þau á grundvelli samningsins um evrópska efnahagssvæðisins og með vísan til þess, að hann sé í fullu gildi. Þeir lifa í nú-inu og horfast í augu við hlutina eins og þeir eru.

Hins vegar eru þeir, sem láta eins og samningurinn sé ekki í gildi og eitthvað annað þurfi því að koma í staðinn. Þeir lifa ekki í nú-inu heldur búa sér til eitthvað, sem þeir telja veruleika.

Vandi seinni hópsins er, að  EES-samningurinn er í fullu gildi og engum vandkvæðum bundið að starfa eftir honum. Þess vegna er svo mikið af tali þessa hóps hrein markleysa. Vilji menn finna rök fyrir því, að Ísland gangi í Evrópusambandið dugar hvorki að gera lítið úr EES-samningnum né láta eins og það sé eitthvert náttúrulögmál að Ísland hljóti að fara í sambandið – þeir, sem þannig tala, sýna það eitt, að þá skortir alla þekkingu á Evrópuafstöðu íslenskra stjórnvalda og þess vegna eru rökræður við þá næsta tilgangslitlar.

Á visir.is er þetta haft eftir Bjarna Benediktssyni, formanni utanríkismálanefndar alþingis: „Stanslaust tal Samfylkingarinnar um að aðild [að ESB] væri betri kostur [en EES-aðild] er farið að skjóta rótum í Brussel þar sem menn spyrja hvort stefnubreytinga sé að vænta. Það finnst mér ekki sniðugt.“ Og hann minnir á, að mikilvægt sé að Íslendingar séu trúverðugir í umræðum um Evrópumál.

Ég tek heilshugar undir þetta sjónarmið Bjarna. Þátttaka Samfylkingarinnar í ríkisstjórn er ekki til marks um neina stefnubreytingu í átt til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Sé annað gefið til kynna, er verið að blekkja viðmælendur, hvort heldur í Brussel eða annars staðar.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sem verið hefur hlynntur aðild Norðmanna að ESB hefur tekið af skarið um, að hún sé ekki á dagskrá ríkisstjórnar sinnar og sent þannig skýr boð til Brusselvaldsins og annarra. Thorbjörn Jagland, sem er fyrrverandi leiðtogi norskra jafnaðarmanna,  og reyndi að koma Norðmönnum í ESB er orðinn fráhverfur hugmyndinni. Andstaða Norðmanna við ESB-aðild er meiri nú en áður.

Ég ræddi meðal annars Evrópumálin við Egil Helgason í Silfri Egils sunnudaginn 3. febrúar og hér má sjá, hvernig sagt er frá þeim kafla samstals okkar Egils á eyjan.is.

Hannan refsað.

Egill Helgason spurði mig um afstöðu mína til þess, að Árni Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, hefði skipað Þorstein Davíðsson héraðsdómara, hvort það hefði skaðað Sjálfstæðisflokkinn.

Ég sagði, að þetta væru átök milli dómsvalds og framkvæmdavalds. Dómarar vildu ráða því, hverjir skipuðu embætti dómara. Ég væri því ósammála. Þá hefði ráðherra aðgang að öðrum upplýsingum en dómnefnd, þegar hann tæki ákvörðun sína. Innan ráðuneytis væru upplýsingar, sem ekki færu til dómnefndar en lægju fyrir ráðherra. Hann tæki sínar ákvarðanir með hliðsjón af þessu öllu.

Ákvörðun Árna væri bæði siðleg og lögleg, hins vegar hefðu pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reynt að halda lífi í umræðunum allan janúarmánuð, en skipað hefði verið í stöðuna 20. desember. Þetta hefðu þeir áreiðanlega gert í þeim tilgangi að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og minnka fylgi hans. Það hefði hins vegar aukist um 1% á milli Gallup-kannanna. Þessi pólitíska aðför hefði því misst marks.

Egill sagði þá, að varla gæti ég litið á Sigurð Líndal og Pétur Kr. Hafstein sem andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Ég samsinnti því, en hins vegar hefði Sigurður Líndal skrifað sig frá málinu, þegar hann hafi tekið til við að líkja stjórnarathöfn Árna M. Mathiesens við stjórnarhætti nasista – með slíku gerðu menn sig einfaldlega marklausa og þannig væri komið fyrir Sigurði Líndal í þessu máli.

Benti ég Agli á, að síðustu daga hefði Daniel Hannan, þingmanni á Evrópuþinginu fyrir breska íhaldsmenn, verið vikið úr þingflokki European People’s Party (EPP) á Evrópuþinginu fyrir ummæli, sem voru túlkuð á þann veg, að hann líkti gjörðum þingforseta við valdatöku nasista. Hannan sagði: „It is only my affection for you?.that prevents me from likening this to the Ermächtigungsgesetz.“ Með hinu þýska orði vísaði Hannan til laga frá 1933, sem veittu Hitler aukið vald.

Orðin lét Hannan falla skömmu áður en hinn þýski forseti Evrópuþingsins Hans-Gert Pöttering kynnti ákvörðun sína um að binda enda á málþóf Hannans og fleiri gegn hinum nýja Lissabon-sáttmála.

Hannan og félagar hans frá Bretlandi hafa nýtt sér Evrópuþingið til að kveikja áhuga fólks heima fyrir hjá sér á því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmálann. Í því skyni hafa þingmennirnir til dæmis krafist nafnakalls um hvert einstakt álitaefni en við það fær hver þingmaður eina mínútu til að gera grein fyrir atkvæði sínu. Eru þessar reglur hinar sömu þar og hér á alþingi.

Þingflokkur frjálslyndra á Evrópuþinginu hefur látið reikna út kostnaðinn við hvert nafnakall og er hann 528 evrur. Á fundum Evrópuþingsins í Strassborg hafði þar til sl. fimmtudag, 31. janúar, 185 sinnum verið efnt til nafnakalls vegna Lissabon-sáttmálans. Kostnaðurinn vegna þess er talinn nema um 100.000 þúsund evrum,  9,6 milljónum íslenskra króna, vegna prentunar á skjölum og þýðinga.

Pöttering þingforseti hafði óskað eftir áliti þingskapanefndar þingsins og skömmu eftir að Hannan lét hin umdeildu orð falla, samþykkti þingheimur, að bundinn skyldi endir á málþófsaðgerðir Hannans og félaga hans.

Á vefsíðu sinni segir Hannan svo frá ræðu sinni og því, sem síðan gerðist:

„I repeated the point I made in this blog last week: that the 1933 Enabling Act had had a technical majority in the Reichstag, but that it opened the door to unconstitutional rule. Whatever else MEPs are, they are not Nazis: many of them have proud records of fighting totalitarianism throughout the world. That is why it was so disappointing to see them resorting to this appalling measure in order to silence dissent.

As I sat down, the EPP leader, Joseph Daul, sprang to his feet and announced that he wanted me thrown out of the group. He had lost patience with my filibustering, he said. Enough was enough.

I spoke to him afterwards. I hoped, I said, that he wasn’t taking any of this personally. But I understood why he wanted to exclude me. There was, I suggested, an ideological difference between us. “Not a difference, an incompatibility”, he snapped, adding: “I don’t care if you call for a referendum in the United Kingdom. But I won’t have you doing it from the floor of the European Parliament as a member of my Group.”

Fair enough. It is, as I have always maintained, better for us to be friendly neighbours to the EPP than grudging tenants. Here, though, is the answer to those who wonder why David Cameron pledged to leave the EPP.“