7.10.2007

Misvitrir álitsgjafar um lögreglu og fangelsi.

Í Fréttablaðinu mánudaginn 1. október segir Guðmundur Andri Thorsson, álitsgjafi blaðsins:

Af einhverjum ástæðum virðist ríkislögreglustjóri standa í þeirri trú að helsta hlutverk lögreglunnar hér á landi sé að standa vörð um álversframkvæmdir. Í því skyni að bæla niður ímyndaðar óeirðir kringum þær hefur hann stóreflt óeirðalögreglu, svonefnda „sérsveit“, á kostnað annarra deilda með þeim afleiðingum að sárlega hefur skort lögreglumenn til raunverulegra löggæslustarfa, en eins og kunnugt er felast slík störf hér á landi einkum í því að stöðva séríslenskar ölæðisaðgerðir.“

Ótrúlegt er, að jafnmargar missagnir leynist í jafnstuttum texta:

1.     Kallað hefur verið á lögreglu til að gæta öryggis á framkvæmdasvæðum álvera vegna mótmælaaðgerða, sem hafa meðal annars byggst á því að leggja undir sig vinnutæki á þessum svæðum á ólögmætan hátt.

2.     Ríkislögreglustjóri tók ekki ákvörðun um að efla sérsveit lögreglunnar. Ákvörðunin var tekin af mér og kynnt 1. mars 2004 og þá var tilgangi hennar lýst, án þess að nokkur væri með álversframkvæmdir í huga.

3.     Með eflingu sérsveitarinnar er ekki gengið á hlut annarra lögregluliða. Hún er þeim til styrktar eins og dæmin sanna, nú síðast í miðborg Reykjavíkur.

4.     Í norrænum samanburði eru flestir lögreglumenn á íbúa á Íslandi, 432 íbúar á hvern starfandi lögregluþjón, 511 í Svíþjóð, 509 í Danmörku og 592 í Noregi. Hér á landi hafa lögreglumenn aldrei verið fleiri og þeim hefur fjölgað ár frá ári síðustu fimm ár.

Í ávarpi á Kvíabryggju 3. október, þegar stækkun fangelsisins var fagnað, taldi ég, að huga þyrfti að samstarfi við einkaaðila við byggingu og jafnvel rekstur nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er síður en svo ný hugmynd. Hún var til umræðu 2001 og þá kynnti fjármálaráðuneytið skilyrði þess, að leið einkaframkvæmdar yrði farin. Þáverandi dómsmálaráðherra fól hins vegar framkvæmdasýslu ríkisins að undir búa alútboð. Eftir að ég varð dómsmálaráðherra var haldið áfram að vinna að þessum málum og með Valtý Sigurðssyni sem fangelsismálastjóra var mótuð áætlun í fjórum liðum um heildaruppbyggingu fangelsa og er endurnýjun Kvíabryggju fyrsta skrefið. Segja má, að í hinni nýju áætlun sé meiri áhersla en áður lögð á Litla Hraun og dregið úr stærð höfuðborgarfangelsisins. Þarfagreining vegna þess er á lokastigi og miklu auðveldara er nú en 2001 að taka ákvörðun um, hvort fara eigi í einkaframkvæmd. Vil ég ekki útiloka þann kost fyrirfram.

Í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 4. október sagði:

„Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsa á höfuðborgarsvæðinu skrifaði fyrir tveimur árum ítarlega grein um einkarekstur fangelsa út frá reynslu Englendinga af slíkum rekstri. Ríkisendurskoðunin enska taldi fyrir nokkrum árum að einkareksturinn hefði bætt ímynd og ástand í breskum fangelsismálum. Hins vegar var talinn misbrestur á öryggi einkareknu fangelsanna, starfsmannavelta væri þar meiri og hagræðing hefði falist í að fækka starfsfólki. Guðmundur kemst í grein sinni að þeirri niðurstöðu að einkarekstur fangelsa, eins og hann er í Bretlandi, samræmist illa íslensku starfsumhverfi.“

Útdrátt úr ritgerð Guðmundar Gíslasonar um þetta efni má lesa á vefsíðunni www.fangelsi.is en hann telur, að enska aðferðin að einkavæða alla fangelsisstarfsemi eigi ekki við hér, en dregur skil á milli þeirrar leiðar og hins að ráðast í einkaframkvæmd við byggingu fangelsis og grunnrekstur innan veggja þess eins og rekstur mötuneytis og ræstingu, svo að dæmi séu tekin.

Fráleitt er að taka upp enskar aðferðir við rekstur íslenskra fangelsa. Íslensk refsistefna er einstök að því leyti, að áhersla á að loka brotamenn í fangelsum er minni hér á landi en í nágrannalöndunum auk þess sem fangelsisbragur er allur annar hér en í Bretlandi. Í raun er meira en vafasamt að álykta sem svo, að einkarekstur fangelsa hér á landi yrði til þess, að hér yrði horfið af hinni íslensku leið í fangelsismálum og tekin upp ensk.

*

Þráinn Bertelsson, rithöfundur og fyrrverandi kvikmyndagerðarmaður, er í hópi álitsgjafa Fréttablaðsins. Laugardaginn 6. október birti hann þetta í föstum dálki sínum:

„Einkavæddur ráðherra

„Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir ekki óeðlilegt, að þeirri spurningu sé velt fyrir sér, hvort stofna eigi með samningi til samstarfs við einkaaðila um byggingu og jafnvel rekstur fangelsa.“

Þetta er mögnuð hugmynd. Að reisa og reka fangelsi í samvinnu við einkaaðila sem hagnast á því að sem flestir séu sem lengst í fangelsi við sem ódýrastan aðbúnað. (Leturbr. Bj. Bj.)

Þetta eins og fleira sem hægt er að græða á hefur verið prófað í Ameríku. Samt hryllir flesta Íslendinga við slíkum stofnunum og góðir menn skjóta saman til að bjarga þeim löndum okkar sem þar hafa lent.

Vitlegra væri að einkavæða dómsmálaráðherrann.“

Spyrja má: Vill Þráinn, að hann sé tekinn alvarlega? Heldur hann, að einkaaðili, sem tæki að sér að reka fangelsi, myndi semja við dómara um að lengja refsingar? Krafan um lengri refsingar er ofarlega á baugi í umræðum um nauðganir og kynferðisbrot. Telur Þráinn, að þessi krafa sé runnin undan rótum einhvers, sem vill græða á því að reka fangesli?

Nýjustu tölur, sem ég hef séð um kostnað við að halda úti fangelsi, birtust í grein Margrétar Sæmundsdóttur, starfsmanns fangelsismálastofnunar, í nýjasta hefti af Tímariti lögfræðinga þar segir:

„Afplánun í fangelsi á dag á hvern einstakling kostar um 17.000 kr., í samfélagsþjónustu 119 kr. og á áfangaheimili Verndar tæplega 1.300 kr. Fangelsisvist þekur því um 65% af heildarkostnaði og 99% af fullnustu refsinga. Það kostar því samfélagið langmest að refsa með fangelsisvist eða að meðaltali um 3,5 milljónum á hvern einstakling sé tekið mið af einstaklingi sem afplánar 4 mánuði í fangelsi.“

Yrði samið við einhvern um rekstur fangelsa yrði tekið mið af tölum sem þessum og sett gegnsæ reikniregla eins og gert var, þegar einkarekstur var markvisst innleiddur á háskólastiginu með glæsilegum árangri. Hverjir skyldu hafa grætt mest á einkaframtakinu á því sviði? Að sjálfsögðu nemendur og þjóðfélagið í heild. Kynnu ekki einmitt fangar að græða mest á einkarekstri fangelsa?

*

Í Fréttablaðinu sunnudaginn 7. október birtir Þráinn Bertelsson grein, sem byggist á dagbók Matthíasar Johannessen frá maí 1974 og bréfi Hrafns Gunnlaugssonar til Matthíasar, en þetta efni er á vefsíðu Matthíasar www.matthias.is Telur Þráinn, að þarna sé að finna ástæðuna fyrir því, að tókst að flæma hann úr íslenskri kvikmyndagerð en ekki af landinu – nema í tæp þrjú ár. Af þessu tilefni er ástæða að ítreka ósk til Þráins um, að hann upplýsi ástæðuna fyrir því, að  hann komst á lista alþingis yfir heiðurslistamenn.