12.8.2007

Norðurpóllinn - Sarkozy og Bush - framsóknargremja.

Ríki, sem eiga land að Norðurpólnum eru Rússland, Noregur frá Svalbarða, Danmörk frá Grænlandi, Kanada og Bandaríkin. Lögsaga þeirra teygir sig í 200 mílur frá grunnlínupunktum landanna.

Rússar settu metersháa titanium stöng með flaggi sínu á hafsbotn fjóra km undir Norðurpólnum 2. ágúst til að marka yfirráð sín á svæði utan 200 mílnanna. Krafa þeirra frá árinu 2001 til yfirráða á svæðinu byggist á því, að Lomonosov-hryggurinn sé framlenging á landgrunni Rússlands og þar með 460 þúsund fermílna auðlindaríkt svæði, ekki síst af olíu og gasi.

Danir hafa nú sent leiðangur af stað frá Svalbarða til að kanna jarðfræðilega gerð Lomonosov-hryggjarins frá Grænlandi og hvort hún geri þeim kleift að stækka grænlenska yfirráðasvæðið.

Okkur Íslendingum ætti ekki að koma á óvart, að ríki geri kröfur utan 200 mílnanna á grundvelli jarðfræðilegra athugana á landgrunninu. Við höfum sett fram kröfur með vísan til þeirra sjónarmiða á Reykjaneshrygg og einnig suður af landinu allt að Rockall undan ströndum Bretlands. Kröfur af þessu tagi samrýmast hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna en þær verður að setja fram innan 10 ára frá því að viðkomandi ríki fullgilti sáttmálann. Sérstök nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna, Nefnd um ytri mörk landgrunnsins, metur réttmæti krafnanna.

Bandaríkin eru eina ríkið við Norðurpólinn, sem hefur ekki fullgilt hafréttarsáttmálann. Undan strönd Alaska eiga Bandaríkin um 1000 mílna lögsögulínu andspænis Norðurpólnum. Bandaríkjaþing lagðist gegn fullgildingu á sínum tíma, en nú eru þeir að sækja í sig veðrið í Washington, sem telja skynsamlegt fyrir hagsmuni Bandaríkjanna að fullgilda sáttmálann vegna hagsmuna á Norðurslóðum og hefur George Bush Bandaríkjaforseti meðal annars hvatt til þess, að það verði gert. Talið er að um 25% af olíu og gasi, sem enn er ófundið á jörðunni, sé á þessum slóðum.

Scott Bergerson, kennari við Coast Guard Academy Bandaríkjanna, ritaði grein í The New York Times 8. ágúst, þar sem hann lýsir áhyggjum yfir því, hve illa Bandaríkjamenn eru í stakk búnir til að sýna mátt sinn við Norðurpólinn. Þeir verði að smíða ísbrjóta til að geta látið að sér kveða. Af þeim þremur bandarísku skipum, sem senda megi á þessar slóðir, séu tvö biluð og hið þriðja í raun vanbúið til að fara í heimskautaleiðangur. Rússar eigi 18 ísbrjóta. Bandaríkjamenn verði að eiga nógu marga ísbrjóta til að halda samtímis úti skipum við Suður- og Norðurpólinn.

Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, fór í leiðangur til heimskautasvæða Kanada á dögunum til að árétta staðfestan vilja Kanadamanna til að gæta hagsmuna sinna. Hinn 10. ágúst var skýrt frá því, að tvær nýjar, kanadískar herstöðvar yrðu stofnaðar í heimskautahéruðum landsins.

Harper fór til Resolute Bay og sagði að þar yrði þjálfunarstöð fyrir hermenn til að búa þá undir kalda dvöl á Norðurslóðum. Þá ætla Kanadamenn að byggja úthafshöfn í Nanisivik á Baffinseyju. Kanadamenn eru áhugasamir um að opna Norðvesturleiðina svonefndu. Hún tæki við af Panamaskurðinum sem stysta siglingaleið milli Kyrrahafs og Atlantshafs.

Stephen Harper sagði, að Kanadmenn stæðu frammi fyrir tveimur kostum, þegar þeir litu til fullveldisréttar síns á Norðurheimskautinu: „We either use it or lose it. And make no mistake, this government intends to use it.“ Ákveðið hefur verið að verja 7 milljörðum Bandaríkjadala til að smíða átta vopnuð kanadísk eftirlitsskip til starfa á þessum slóðum. Peter Mackay, utanríkisráðherra Kanada, sagði um flöggun Rússa á hafsbotni Norðurpólsins: „Við lifum ekki á 15. öld. Menn geta ekki farið um með flaggið sitt og sagt: „Við helgum okkur þetta land.““

Hér skal engu spáð um framvindu þessara mála. Á sínum tíma var Heimskautaráð stofnað og á Ísland aðild að því. Íslendingar hafa látið sig rannsóknir á Norðurslóðum varða og hefur Háskólinn á Akureyri með stofnun Vilhjálms Stefánssonar tekið þátt í sameiginlegum rannsóknaverkefnum. Slík starfsemi má sín hins vegar lítils, þegar tekist er á um beina hagsmuni ríkja og tilkall þeirra til auðlinda. Þá kjósa ríki að hafa svigrúm til að sýna mátt sinn og megin, ef nauðsyn krefst.

Hitt er víst, að auðlindanýting við Norðurpólinn kann að hafa áhrif á skipaferðir við Ísland og hefur meðal annars verið tekið mið af því við áætlanir um að efla Landhelgisgæslu Íslands með nýju varðskipi og nýrri flugvél.

 

Sarkozy og Bush

Þegar ég var áskrifandi að Le Monde á sínum tíma voru þar engar ljósmyndir nú er unnt að fara inn á vefsíðu blaðsins og sjá þar myndband af húsinu í Wolfeboro í New Hampshire-ríki í Bandaríkjunum, þar sem Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hefur dvalist í sumarleyfi með fjölskyldu sinni.

Ákvörðun Sarkozy-fjölskyldunnar um að fara til Bandaríkjanna í sumarleyfi þykir enn til marks um þáttaskilin, sem orðið hafa hjá franska forsetaembættinu með kjöri Sarkozys.  Raunar hefur verið ólíkindum að fylgjast með öllu, sem forsetinn hefur áorkað á fáeinum mánuðum og vinsældir hans meðal Frakka hafa síður en svo dvínað.

Það eitt, að forsetinn dvelst í einkaerindum í Bandaríkjunum, hefur orðið til að breyta hug Bandaríkjamanna í garð Frakka. Þegar Jacques Chirac, forveri Sarkozys, og Dominique de Villepin, þáverandi utanríkisráðherra Frakka, hótuðu að beita neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í mars 2003 gegn öllum tillögum um hernað í nafni SÞ gegn Saddam Hussein, hófst einstakt kuldaskeið í pólitískum samskiptum Bandaríkjamanna og Frakka. Tók það á sig ýmsar myndir eins og þá, að bandarískir þingmenn kröfðust þess að í stað „franskra kartaflna“ (French Fries) yrðu bornar fram „frelsis kartöflur“ (Freedom Fries) í mötuneyti þingsins.

 

Laugardaginn 11. ágúst buðu George Bush Bandaríkjaforseti og Laura kona hans Sarkozy-fjölskyldunni til óformlegs hádegisverðar í sumarhúsi Bush-fjölskyldunnar í Kennebunkport í Maine, nokkra tugi kílómetra frá Wolfeboro. Cecila Sarkozy og börnin gátu ekki þegið boðið vegna hálsbólgu.

Frásagnir af samfundum þeirra forsetanna bera allar með sér, að vel hafi farið á með þeim og segja bandarísk blöð, að hingað til hafi slík gestrisni Bandaríkjaforseta aðeins verið sýnd breskum leiðtogum. Eftir málsverðinn sigldu forsetarnir ásamt George H. W. Bush, forsetaföður og fyrrverandi forseta, í hálftíma á Atlantshafinu í fjölskyldufleyi Bush.

Hér að ofan var sagt frá því, að Bush hvetji nú til þess, að Bandaríkjaþing fullgildi hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fyrir nokkrum árum hefðu áhrifamiklir álitsgjafar litið á slík tilmæli sem einskonar aðför að fullveldi Bandaríkjanna – ólíklegt er að slíkar raddir eigi sama hljómgrunn nú og þá. Og fyrir Bandaríkjaforseta skiptir miklu, eins og málum er háttað, að samskipti við Frakka batni. Það slær vopnin úr höndum þeirra, sem segja, að hann sé orðinn of vinalítill til að gæta hagsmuna Bandaríkjanna – þeir eru með öðrum orðum að fá byr í seglin, sem benda á, að Bandaríkjastjórn, þótt öflug sé hernaðarlega, geti ekki farið sínu fram án tillits til annarra.

Hafi það verið ætlun Sarkozys, að nota sumarleyfi sitt til að skapa nýja stöðu í alþjóðastjórnmálum, hefur honum tekist það með því að dveljast í Wolfeboro.

Framsóknargremja.

Framsóknarmenn eiga ákaflega erfitt með að sætta sig við að sitja utan ríkisstjórnar. Minnist ég þess frá fyrsta kjörtímabili mínu á þingi 1991-1995, hve gremja þeirra í stjórnarandstöðu var augljós. Birtist hún til dæmis á fyrsta vetrarþingi kjörtímabilsins í fundum dag og nótt um allt og ekkert.

Nú brýst framsóknargremjan einkum fram í hálfkveðnum vísum frá Valgerði Sverrisdóttur, nú síðast um að ekki hafi verið unnt að leggja fram frumvarp frá henni um ratsjárstofnun á þingi, sem lauk 17. mars, vegna ágreinings meðal sjálfstæðismanna. Í hinu orðinu segir hún svo, að hún hafi ekki getað mótað framtíðarstefnu fyrir stofnunina vegna þess hve Bandaríkjamenn voru svifaseinir til viðræðna um hana!

Pétur Gunnarsson, spunameistari Framsóknarflokksins, telur sig hafa komist í feitt í ratsjármálinu, en honum verður hált á því, eins og Andrés Magnússon rekur í þessum pistli sínum.

Gremjuköst bjarga Framsóknarflokknum ekki úr stjórnarandstöðunni.