28.4.2007

Útskrifaður - rannsóknanám - lögregla efld.

Vegna veikinda hef ég ekki skrifað pistil síðan á páskadag en annan dag páska, 9. apríl, var ég farinn að mæðast svo mjög að nýju, að ég ákvað að hafa samband við Tómas Guðbjartsson lækni, sem sendi mig beint í myndatöku. Eftir hana var ég lagður að nýju inn á deild 12 E á Landspítala háskólasjúkrahúsi við Hringbraut. Miðvikudaginn 11. apríl opnaði Bjarni Torfason skurðlæknir á mér brjóstkassann, fjarlægði blöðrur úr báðum lungum en einkum því hægra, sem hafði fallið saman að nýju, setti í mig goritex þéttiefni og hefti saman. Að kvöldi sama dags var ég fluttur af gjörgæslu á 12 E og var þar til föstudags 20. apríl, þegar ég fékk að fara heim. Föstudaginn 27. apríl fór ég síðan í lungnamyndatöku og eftir hana útskrifaði Bjarni Torfason mig. Ég er sannfærður um, að þrek mitt verður meira eftir en áður, enda hafi það ekki gerst án nokkurs aðdraganda, að dró svo mjög úr krafti hægra lungans.

Strax sama dag og ég var skorinn var ég sambandi við umheiminn eins og staðfest er á þessari vefsíðu.  Batinn síðan hefur verið jafn og góður og fór ég á fund með ráðuneytisstjóra og skrifstofustjórum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að morgni föstudag 27. apríl, eftir að ég hafði verið útskrifaður. Ég þarf hins vegar nokkurn tíma til að ná mér eftir holskurðinn og verð að gæta þess, að fara ekki of bratt í dagleg störf.

 

Tvö viðtöl hafa birst við mig síðan ég lagðist sjúkur. Bergljót Davíðsdóttir ræddi við mig fyrir Mannlíf og Hjördís Rut Sigurjónsdóttir fyrir DV og birtist það föstudaginn 27. apríl. Viðtal Hjördísar Rutar er mun pólitískara en hið fyrra og segi ég þar álit mitt á kosningabaráttunni og ræði stjórnmálaástandið. Lýsi framgangi mála í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og tel þar mörg spennandi verkefni enn bíða úrlausnar, þótt mikið hafi áunnist á kjörtímabilinu, sem er að líða. Þar segist ég enn geta tekist á við ný breytingaverkefni á vettvangi stjórnarráðsins, eftir að hafa unnið að þeim í menntamálum og lögreglumálum, og nefni heilbrigðismálin, enda verði ekki lagst gegn því, að einkarekstrarsjónarmið fái að njóta sín meira þar en nú er. Með þessum orðum er ég ekki að lýsa vilja til að yfirgefa núverandi starfsvettvang heldur benda á brýnt og nauðsynlegt viðfangsefni til endurbóta á ríkisrekstri.

 

Rannsóknanám.

 

Í Viðskiptablaðinu hefur undanfarið verið rætt um háskólamenntun og því velt fyrir sér, hvort skynsamlegt sé, að hér á landi fjölgi þeim, sem stunda meistara- og doktorsnám. Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbanka Íslands, sagðist í viðtali við blaðið andvígur doktorsnámi hér á landi, þar sem sókn Íslendinga í æðra nám erlendis væri ein af meginástæðunum fyrir því, hve vel Íslendingar hefðu notið sín á tímum alþjóðavæðingar.

 

Sem menntamálaráðherra var ég eindreginn talsmaður þess, að rannsóknanám yrði eflt hér á landi og ekki yrði sett neitt „glerþak“ á háskólamenntun hér – ef skólum yrði gert ókleift að dýpka nám í samræmi við eigin stefnu, myndu þeir ekki þróast og dafna í samræmi við hágæðakröfur. Þessi stefna hefur gengið eftir í samræmi við ákvarðanir hvers háskóla fyrir sig.

 

Einkavæðing bankanna hefur getið af sér blómlegri og arðbærari atvinnustarfsemi en nokkurn grunaði, þegar lagt var af stað. Ef sett hefði verið „glerþak“ á einkavæðinguna, til dæmis á þann veg, að sala bankanna hefði verið bundin því skilyrði, að þeir störfuðu aðeins á íslenskum markaði, sjá allir, að um óeðlilega fjötra hefði verið að ræða. Opinbert „glerþak“ á fræðaiðkanir innan háskóla er álíka fráleitt.

 

Háskólarnir eiga að keppa um fjármagn og nemendur. Háskóli Íslands nær aldrei því markmiði að verða meðal 100 bestu háskóla heims, ef hann mótar ekki nýja stefnu varðandi gjaldtöku fyrir nám. Ríkisframlag til rannsóknanáms á að byggjast á samkeppni um fé úr rannsóknasjóðum og framlagi námsmanna sjálfra með skólagjöldum og Lánasjóð íslenskra námsmanna að bakhjarli.

 

Alþjóðavæðing í háskólanámi er mikil og ör. Markaður fyrir háskólamenntun er án takmarka á heimsvísu. Öflugt framboð menntunar í alþjóðlegri samkeppni byggist  ekki á ríkisrekstri, heldur á arðbærum, hágæða-einkarekstri. Í stjórnmálaumræðum hér á landi er nokkuð öfugsnúið, að þeir, sem helst eru andvígir eflingu atvinnulífs með stóriðju eða fjármálafyrirtækjum, eru einnig andvígir því, að einkarekstur fái að njóta sín í skólastarfi.

 

Reynslan sýnir, að íslenskir nemendur laga nám sitt vel að kröfum atvinnumarkaðarins. Atvinnuleysi þekkist ekki hér meðal ungs fólks og þess vegna eru tengsl atvinnulífs og skóla mun virkari að þessu leyti hér á landi en annars staðar. Geri fyrirtæki ekki kröfu um alþjóðlega vídd í námi starfsmanna sinna, hverfur hún, en ekki vegna þess að íslenskir háskólar bjóða meira rannsóknanám en áður.

 

Samhliða því, sem háskólastarfsemi blómstrar hér á landi, hefur mikið líf færst í rannsóknir  og vísindastarfsemi. Fyrir nokkru kom sérfræðingur á minn fund og spurði mig um aðdraganda og hugmyndir á bakvið breytingar á löggjöfinni um skipulag vísinda og rannsókna á sínum tíma. Þeirri sögu geta menn raunar kynnst af því, sem um hana er ritað hér á síðunni í áranna rás. Var sérfræðingurinn að vinna að gæðaúttekt á hinni nýju stefnu, sem hrundið var í framkvæmd með nýjum lögum, og gat ég ekki skilið hann á annan veg en þann, að allt hefði þetta gengið eftir á hinn besta veg og skilað miklum og góðum árangur.

 

Lögregla efld.

 

Ekki kemur á óvart, að fleiri konur en karlar telji nauðsynlegt að koma hér á fót þjálfuðu varaliði lögreglu, eða að meiri hluti landsmanna telji réttmætt að stofna slíkt lið.

 

Upphrópanir Össurar Skarphéðinssonar um, að nú væri ég loksins að stofna íslenska herinn með varaliðinu, dugðu að sjálfsögðu ekki til að drepa málinu á dreif. Hið sama má segja um venjubundna suð álitsgjafanna um, að ég megi ekki flytja tillögur af þessum toga, af því að ég sé of mikið með hugann við hernaðarleg málefni. – það fauk einfaldlega út í buskann.

 

Á þeim fjórum árum, sem ég hef gegnt embætti dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur viðkvæði stjórnarandstöðunnar og álitsgjafanna jafnan verið, að ég hafi gengið of langt, þegar ég hef hreyft hugmyndum, sem stuðla að því að efla löggæslu. Andstaðan hefur síðan hjaðnað, því að oftast tala þessir menn, áður en þeir hugsa um öryggi lands og þjóðar.

 

Vegna framgöngu minnar í öryggismálum hefur álitsgjafinn Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, líkt mér við fasista og hann hefur raunar notað þetta orð um fleiri stjórnmálamenn samtímans eins og þá Davíð Oddsson og Tony Blair. Þegar ég beitti mér fyrir stækkun sérsveitar lögreglunnar ritaði Jónas leiðara í DV  3. mars 2004, þar sem sagði meðal annars:

 

„Þægilegt væri að vita, hvers konar reglur gilda um íslenzku víkingasveitina. Hvernig er til dæmis tryggt, að þar séu ekki valdshyggjumenn í bland? Hafa sveitarmenn gengizt undir persónuleikapróf, einhverja nútímaútgáfu af prófunum, sem Horchheimer og Adorno bjuggu til fyrir bandaríska herinn?

Við þurfum líka að vita, hver vopnar sveitirnar, stjórnar því, hvað þær gera og afvopnar þær síðan að verki loknu. Er það hlutverk ríkislögreglustjóra? Nýtur hann slíks trausts í þjóðfélaginu, að það sé óhætt? Við þurfum líka að vita, hvaða reglur hafa verið settar stjórnandanum? Hver bjó þessar reglur til á hvaða forsendum?

Tvöföldun víkingasveitarinnar og yfirlýst dálæti núverandi dómsmálaráðherra á íslenzkum her og íslenzkri hermennsku, gefur tilefni til að staldra við og fá svarað spurningum af þessu tagi. Ekki er víst, að þjóðfélagið í heild sé sátt við forsendur ráðherra, sem hefur í senn eindregnar og sérstæðar skoðanir á öryggismálum.

 

Í friðsömu landi er mikilvægt, að sátt sé um aðgerðir, sem hugsanlega kunna að vera nauðsynlegar vegna brotthvarfs bandarískra varnarliðsins og breyttra aðstæðna í öryggismálum heimsins, þar á meðal aukinnar hættu á hryðjuverkum. Ekkert hefur verið gert til að sá til slíks trausts á víkingasveitinni. “

 

Þessar illspár Jónasar vegna stækkunar sérsveitarinnar hafa að sjálfsögðu ekki gengið eftir, stækkun hennar hefur ekki á neinn hátt vegið að öryggi landsmanna. Hún hefur þvert á móti reynst vel til að tryggja öryggi borgaranna.

 

Nýlega birti Jónas Kristjánsson skýringu á fasisma á vefsíðu sinni. Þar sagði hinn 25. apríl síðastliðinn:


Tíu leiðir að fasisma
Þú ert við völd og vilt koma á fasisma. Þú gerir þetta: 1. Þú býrð til ógnvekjandi óvini, einn innlendan og annan erlendan. 2. Þú býrð til gúlag. 3. Þú býrð til stétt fauta. 4. Þú setur upp öryggislögreglu. 5. Þú hrellir borgaralega andstöðuhópa. 6. Þú fangelsar og náðar án dóms og laga. 7. Þú tekur einstaklinga í gegn. 8. Þú nærð tökum á fjölmiðlum. 9. Þú lætur andstöðu jafngilda landráðum. 10. Þú tekur lög og rétt úr sambandi.“

 

Telji Jónas Kristjánsson ástand af þessu tagi hafa skapast hér á landi á undanförnum árum, hljóta fleiri en ég að verða undrandi.