8.4.2007

Páskahugleiðing um kirkju, siðferði, löggæslu og vantrú.

 

Í morgun fór ég í hátíðarmessu í Kristskirkju, þar sem fagnað var 50 ára prestvígsluafmæli Jóhannesar Gijsens, biskups kaþólskra á Íslandi, síðan 1996, en hann lætur af störfum í október, þegar hann verður 75 ára. Mikið fjölmenni var við messuna, svo mikið, að ekki reyndust nægilega margar oblátur til fyrir þá, sem gengu til altaris. Hefur það ekki gerst áður í Kristskirkju, svo að elstu menn muni.

 

Giovanni Tonnucci, erkibiskup og umboðsmaður páfa á Norðurlöndum, með búsetu í Stokkhólmi, prédikaði og rakti meðal annars 50 ára prestsstörf Jóhannesar biskups, en á sínum tíma varð hann þjóðkunnur í Hollandi, þegar hann reis gegn því, sem hann taldi of mikið frjálslyndi innan kaþólsku kirkjunnar. Tók Jóhannes Páll II. páfi í sama streng og biskupinn eins og meðal annars má lesa um í þessari frásögn, sem birtist á sínum tíma í Time.

 

Umboðsmaður páfa gegnir lykilhlutverki við val á nýjum kaþólskum biskupi hér á landi. Hann fær tillögur um kandídata frá starfandi biskupum kaþólsku kirkjunnar á Norðurlöndum, hann ræðir við leika og lærða hér á landi og sendir þrjú nöfn til páfagarðs, en að lokum er það páfinn sjálfur, sem ákvörðun tekur um hinn nýja biskup.

 

Kaþólski söfnuðurinn hér á landi hefur stækkað jafnt og þétt undanfarin ár og í messum má sjá þverskurð af þeim, sem búa hér á landi um þessar mundir. Hátíðarmessan fór fram á íslensku, latínu og ensku. Í Karlmelklaustrinu í Hafnarfirði eru nunnur frá Póllandi, þá eru Karmelnunnur á Akureyri, einnig eru hér nunnur af reglu Móður Teresu. Í messunni hitti ég nunnur frá reglum í Argentínu og Mexíkó – er aðdáunarvert, hve nunnurnar leggja sig fram um að tala íslensku og hef ég kynnst því vel hjá Karmelnunnunum, að þeim er það mikið metnaðarmál.

 

Ég minnist þess, frá því að ég var menntamálaráðherra, að við Jóhannes Gijsen biskup ræddum um, að mikils virði gæti verið að fá að nýju munkareglu til að setjast að hér á landi. Hinn 7. mars sl. mátti lesa í Morgunblaðinu:

 

„Kapúsína-munkarnir sem hyggjast setja á fót klaustur og kirkju á Kollaleiru í Reyðarfirði eru hingað komnir frá Slóvakíu. Bróðir David Tencer kom hingað í nóvember 2004 fyrstur þeirra bræðra. Hann hóf þá íslenskunám og hefur einnig aðstoðað sóknarprest kaþólskra í Maríukirkju í Breiðholti, auk þess að sinna helgihaldi á Austurlandi. Í kjölfar bróður Davids kom Anton Majercak í júlí 2005 og tók einnig til við íslenskunám. Sá þriðji bættist við næsta sumar, en í samfélögum kapúsína verða að vera minnst þrír bræður.

Kapúsínar hafa lengi starfað í Slóvakíu en meðan kommúnistar réðu þar ríkjum létu þeir loka klaustrum þeirra. Þegar nýir stjórnarhættir tóku við á 10. áratug síðustu aldar var nýtt umdæmi kapúsína stofnað í Slóvakíu með 100 munkum. Meðal markmiða þeirra er að breiða út fagnaðarerindið og færa út kvíarnar og völdu slóvakísku munkarnir að hefja starf reglu sinnar á Íslandi.“

Um 12 þúsund munkar eru í Kapúsína-reglunni, sem sækir fyrirmynd sína til heilags Frans frá Assísi. Stefnt er að því, að fimm munkar verði á Austurlandi, en almennt eru ekki fleiri en sjö munkar saman í hverju klaustri.

Í Morgunblaðinu 8. apríl er viðtal Guðrúnar Guðlaugsdóttur blaðamanns við séra Húbert Th. Óremus, sem hefur verið kaþólskur prestur hér í 29 ár, en hann hélt upp á 50 ára prestvígsluafmæli sitt hinn 19. júlí 1994 og verður níræður á næsta ári. Enn syngur hann messu og fer allra sinna ferða. Fyrir nokkru hlýddi ég á prédikun hans í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði og hann þjónaði með öðrum við hátíðarmessuna í dag. Í páskaleiðara sínum vitnar Morgunblaðið í séra Óremus, þegar hann segir:

„Íslendingar vilja ekki vera eftirbátar annarra Evrópubúa og ganga jafnvel feti framar. Áður átti fólk guðrækni innra með sér og fjölskylduböndin voru sterk, nú er gamalt fólk sent á elliheimili og börnin fara á mis við að kynnast reynslu þess, njóta ekki áhrifa frá þeim eldri og lífsviðhorfi þeirra. Fjölskylda nútímans er því bara ungt fólk og börn þess. Ég segi stundum að nú sé þörf fyrir kraftaverk á borð við þegar Íslendingar tóku kristna trú á Þingvöllum. Glæpatíðnin og annað slæmt sýnir að við erum að komast á botninn. Annað hvort verður að fjölga fangelsum og stofufangelsum eða taka upp betri siði. Trúin er leið til þess. Helst þyrfti þetta að gerast áður en allt fer á hinn versta veg. Mannleg lög koma ekki í staðinn fyrir kristið siðferði.“

Og leiðarahöfundur Morgunblaðsins leggur út af þessum orðum á þennan veg:

„Séra Hubert Oremus kemst beint að kjarna málsins þegar hann segir að annað hvort verðum við að fjölga fangelsum og stofufangelsum eða taka upp betri siði. Þjóðfélag sem þarf að halda villimennskunni í sér í skefjum með hótunum um þungar refsingar og langa fangelsisvist er á villigötum. En það er ekki hlaupið að því að bæta hugarfar. Siðferði verður ekki breytt með lögboði. Siðferði verður til hjá hverjum og einum. Það verður til með breytni hvers og eins. Það byggist á því, sem fyrir börnunum er haft.“

Villimennska hefur fylgt mannkyni allt frá örófi alda og í tímans rás hafa menn leitað ólíkra skýringa á henni, en auðvitað ræðst hún af siðferði hvers og eins og vilja hans til að virða lög Guðs og manna. Á öllum tímum hafa menn talið, að heimurinn fari aðeins versnandi. En er það svo, þegar til dæmis er litið á ofbeldisverk hér á landi? Ekki segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði og afbrotafræðingur við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu  5. apríl en þar er minnt á líkamsárásir í vikunni. Síðdegis á sunnudag hafi verið ráðist á fatlaðan mann í Austurstræti og af honum tekinn farsími, á þriðjudag hafi svo verið ráðist að ungu pari þar sem það beið eftir strætó.

 Helgi Gunnlaugsson segist ekki merkja að um hrinu tilefnislausra árása sé að ræða og bætir við:

„Ef maður skoðar svona mál almennt sér maður að ekki er um fjölgun á þeim að ræða, fremur fækkun. En eðli þessara mála er að þetta stingur í augu þar sem engin sjáanleg ástæða er fyrir brotinu, heldur fyrst og fremst ófyrirleitni. Maður hlýtur að staldra við svona dæmi sem erfitt er að skilja og velta fyrir sér þessu umhverfi sem ungt fólk er í, þessu áreiti, efnishyggju og sérhyggju svo eitthvað sé nefnt. Þróunin og hlutirnir eru á leið til hins betra, þetta verður aldrei fullkomið en í það heila eru hlutirnir betri en þeir voru fyrir tíu árum – og það er þveröfugt við það sem talað er um. Núna eru menn sér betur meðvitandi um rétt sinn og eru viljugri til að kæra, og þrátt fyrir það er kærum að fækka.“

Af fréttum verður ráðið, að nýskipan lögreglumála, sem tók gildi um síðustu áramót, hafi leitt til meiri virkni af hálfu lögreglunnar en áður. Kastljós sjónvarpsins fylgdist með götueftirliti fíkniefnalögreglumanna hér í Reykjavík og sýndi þá við störf sín. Einnig var sýnt frá samræmdum aðgerðum greiningardeildar og sérsveitar ríkislögreglustjóra annars vegar og lögreglu og tollvarða á Suðurnesjum gegn fíkniefnasölum í Reykjanesbæ og víðar. Fór ekki fram hjá neinum, sem með þeim þáttum fylgdust, að lögregla gengur fram af miklum þunga, þegar hún tekst á við mál af þessum toga.

Fíkniefni verða æ algengari meðal fólks sem stundar skemmtanalífið. Áhugi lögreglumanna í götueftirlitinu, fagmennska þeirra og kraftur er til mikillar fyrirmyndar. Eftir að Kastljósið sýndi þá við störf mun ábendingum til lögreglu um hugsanlega brotastarfsemi hafa fjölgað mikið.

 

Starf þessara lögreglumanna er ekki hættulaust. Fíklar bregðast oft illa við og reyna að beita lögreglumenn líkamlegu ofbeldi og eru gjarnan vopnaðir hnífum, auk þess sem skotfæri finnast í bílum eða heimilum. Fúkyrði eru ekki heldur spöruð við verði laganna af fólki í annarlegu ástandi.  Markmiðið með því að efla sérsveitina var öðrum þræði að styrkja lögregluna til að takast á við þessa ofbeldisfullu fíkla. Hið sama má segja um greiningardeildina, hún gegnir meðal annars því hlutverki að kortleggja fíkniefnaheiminn og auðvelda götueftirlitinu að rata um krákustíga hans í leit að þessum óvinum samfélagsins. Segja má, að þetta sé stríð á milli þeirra, sem vilja forða fólki frá því að lenda í klóm fíkniefnasalanna, og þeirra, sem starfa á þeirra vegum til að skapa fíkla og þar með viðskiptavini.

Skjár einn sýndi að kvöldi 7. apríl kvikmyndina Blow sem byggð er á sannsögulegum atburðum og segir frá ævi George Jung, sem Johnny Depp leikur, en Jung var frumkvöðull í sölu fíkniefna í Bandaríkjunum og vann að því að dreifa þar kókaíni í samvinnu við Kólombíumanninn alræmda Pablo Escobar. Ted Demme gerði myndina, sem var frumsýnd árið 2001 og fær 7,2 stig af 10 hjá 32. 267 gestum á vefsíðunni IMDb – Demme dó af hjartaáfalli skömmu eftir að myndin var frumsýnd en það var rakið til kókaíns í blóði hans. Jung situr í fangelsi í Bandaríkjunum.

Ég nefni myndina hér til sögunnar, vegna þess að hún bregður ljósi á þá, sem standa að baki sölu fíkniefna og hve þétt lögregla þarf að sækja að þeim til að hafa betur.

Leiðin til að uppræta þjóðfélagsmein felst í því að greina þau rétt og beita síðan skynsamlegum úrræðum. Í samtímanum er rík tilhneiging til að mála vandann allof sterkum litum í von um, að úrræðin verði einnig önnur og meiri en nauðsyn krefst. Margt getur búið að baki þessu einkenni á samtímaumræðum – oft er það aðeins þrá eftir að komast í fréttir, þá kann þörfin fyrir að koma höggi á einhvern að ráða miklu, loks getur vonin um að hagnast á því, að gripið sé umfangsmikilla gagnráðstafana, einnig verið öflugur drifkraftur.

Föstudaginn langa tókst hópi fólks, sem kennir sig við vantrú, að komast í fréttir með því að spila bingó á Austurvelli, af því að það er bannað samkvæmt helgidagalöggjöfinni. Alþingi hefur ákveðið, að lög af þessu tagi gildi hér á landi. Þeir, sem mótmæla henni í nafni vantrúar sinnar og kjósa að sýna það með því að spila opinberlega bingó föstudaginn langa til að komast í fréttir, velja auglýsingamennsku samtímans í stað rökræðna.

Herra Karl Sigurbjörnsson biskup vék að þessu í páskapredikun sinni í Dómkirkjunni 8. apríl, þegar hann sagði:

„Átök um lífsskoðanir hafa verið áberandi hér á landi nú í vetur. Það er sem hin harða og kalda andstaða gegn kristninni sem einkenndi upphaf fyrri aldar sé gengin aftur í hatrömmum andtrúaráróðri. Hinn andlegi hafís guðleysisins lónar fyrir landi, og ískalda og vonarsnauða þoku stafar frá honum.“