13.8.2006

Niflungahringur - hryðjuverk - Grass.

Þegar tekið er sumarfrí og farið til Bayreuth til að sjá Niflungahringinn, er í raun ekki tími til neins annars en helga sig þessu stórvirki Wagners. Við Rut erum í Bayreuth höfum séð Rínargullið og Valkyrjuna. Nú eru 130 ár liðin frá því, að stofnað var til Bayreuth-hátíðarinnar í fyrsta sinn. Við sjáum nýja uppfærslu á hringnum. en venjulega er hver þeirra sýnd í fimm ár í senn. Ég mun líklega segja meira frá þessari einstæðu reynslu síðar, þegar við höfum átt þess kost að sjá allan hringinn - Sigfried, Sigurður Fáfnisbani, og Gotterdammerung, Ragnarök - eru eftir, þegar þetta er skrifað.

Hryðjuverk.

Enn sannaðist í Bretlandi 10. ágúst, hve greining og áhættumat af hálfu öryggislögreglu og almennri lögreglu skiptir mikilu nú á tímum. Vegna eftirlits með tölvusamskiptum og með símhlerunum tókst bresku lögreglunni með aðstoð frá Pakistönum og fleiri þjóðum að koma í veg fyrir áform um að sprengja flugvélar á leið frá Bretlandi til Bandaríkjanna í loft. Tilgangur hryðjuverkamannanna var að drepa þúsundir manna. Bretar gripu til strangra öryggisráðstafana á flugvöllum sínum og í Bandaríkjunum varð viðbúnaðarstrigið rautt.

Hér í Þýskalandi er að sjálfsögðu mikið fjallað um þetta mál og nauðsyn þess að gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir, án þess að ganga á mannréttindi borgaranna. Þýska ríkisstjórnin hefur unnið að gerð frumvarps um skráningu upplýsinga til að auðvelda yfirvöldum að leggja mat á áhættu og greina hættuna af einstökum mönnum. Þá er sagt frá því, að í Bretlandi séu múslímar, sem komi frá löndum, þar sem ýtt sé undir hryðjuverk á Vesturlöndum. Í Þýskalandi séu flestir múslímar hins vegar frá Tyrklandi og þar sé ekki verið að hvetja fólk sérstaklega til hryðjuverka gegn Vesturlöndum.

Die Welt am Sontag segir, að breska lögreglan hafi látið til skarar skríða, þegar hún frétti af því að auðugur Pakistani í Karachi hafi flutt fjármuni inn á bankareikninga í Bretlandi, en talið var, að þá ætti að nota til að greiða farseðla fyrir hryðjuverkamennina. Við húsleit hjá þeim 21, sem handtekinn var í Bretlandi, hafi fundist efni í sprengjuvökva og myndbönd, þar sem viðkomandi hafði flutt ávarp um það, hvers vegna hann fórnaði lífi sínu fyrir málstaðinn.

Blaðið segir, að ætlunin hafi verið að smygla sprengjuvökva um borð í ilmvatnsglösum eða jafnvel umbúðum um barnamat og síðan setja sprengjuna saman í salerni aftan við flugstjórnarklefann og sprengja allt í loft upp með því að nota fartölvu, farsíma, iPod eða annað sambærilegt tæki og nú verði mönnum bannað að hafa slíkt með sér í flugvélum. Sagt er, að foreldrar verði látnir smakka á mat fyrir börn sín og gerð verði krafa um gagnsæjar töskur um handfarangur.

Ég hverf ekki frá þeirri skoðun minni, að við Íslendingar verðum að telja þessa þróun geta snert okkur og þess vegna verða íslensk stjórnvöld að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi með greiningu og mati á áhættu.

Nýlega samþykkt lög um breytingu á skipan og innra starfi lögreglu eru skref í þessa átt og nú hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að breyta skipulagi innan embættis síns í því skyni að leggja meiri áherslu en áður á greiningu og mat. Sérfræðingar Evrópusambandsins telja hins vegar, að ganga þurfi skrefi lengra til að Íslendingar standi jafnfætis öðrum varðandi skipulag og heimildir lögreglu, eins og fram kom í matsskýrslu um hryðjuverkavarnir, sem ég kynnti 29.júní sl.

Grass.

Í gær, laugardaginn 12. ágúst, birtist langt viðtal í Frankfurter Allgemeine Zeitung við Nóbelsverðlaunahafann frá 1999 Gunther Grass, þar sem hann sagði frá því að hann hefði 18 ára gamall verið kallaður til starfa í SS-sveitum nasista. Viðböðgðin við þessari uppljóstrun, sem Grass mun segja nánar frá í æviminningum, sem væntanlegar eru í haust, hafa verið á ýmsa lund.

Sumir tala máli Grass aðrir telja hann hræsnara í ljósi ummæla sinna á undanförnum árum og er þá sérstaklega nefndur atburðurinn á níunda áratugnum, þegar þeir Ronald Reagan, Bandaríkjaforseti, og Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, fórum saman að grafreit hermanna í Bitburg-kirkjugarði, Ýmsir, þar á meðal Grass, hneyksluðust á því, vegna þess að SS-menn hvíldu í kirkjugarðinum.

Hvers vegna beið Grass í 62 ár með að segja frá þessum árum í lífi sínu? er spurt. Ég las haft eftir einhverjum, að hann hefði ekki fengið Nóbelsverðlaunin, hefði hann sagt frá SS-þátttöku sinni.