23.4.2006

Fjölmiðlavandi – stjórnmálarýni – borgarstjórnarstraumar.

 

Stundum hefur það gerst í áranna rás, að ég hef hér á síðunni vitnað til áhrifamikilla þátttakenda í stjórnmálaumræðum í Bandaríkjunum á borð við Ann Coulter og Rush Limbaugh. Ég hef haft gaman að fylgjast með viðbrögðum við vísan til þessara bandarísku álitsgjafa, því að greinilegt er, að þeir vekja ekki aðeins sterk viðbrögð í heimalandi sínu heldur einnig með Íslendinga, helst þeirra, sem yngri eru. Ég hef fengið reiðileg bréf af þessu tilefni og einnig hefur verið veist að mér á ýmsum vefsíðum fyrir að leyfa mér, að nefna þetta fólk á nafn, það sé aðeins til staðfestingar á dómgreindarbresti mínum.

 

Í Lesbók Morgunblaðsins í gær, laugardaginn 22. apríl, skrifar Heiða Jóhannsdóttir grein um fjölmiðla undir fyrirsögninni: Endalok fréttamennsku? Byggist grein hennar á endursögn á úttekt bandaríska blaðmannsins Michales Massings. Heiða segir Massing víkja m. a. „að þeim árásum sem stóru virtu fjölmiðlarnir í Bandaríkjunum sæta á degi hverjum fyrir sína alræmdu „vinstri slagsíðu“ (svokallað „liberal bias“). Þessi ásökun er samkvæmt Massing sprottin úr hinum þaulskipulögðu hugveitum íhaldssamra og kristinna repúblíkana og er haldið fram af þvílíkri festu að venjulegir fjölmiðlar, sem hvorki geta talist mjög vinstri- eða hægrisinnaðir, þurfa að eyða ómældu púðri í að sverja af sér ásakanirnar. Að mati Massing eru fjölmiðlar farnir að stíga varlegar til jarðar en hollt getur talist fyrir gagnrýna þjóðfélagsumræðu...“

 

Í grein Heiðu segir, að ríkisstjórn Bandaríkjanna sýni nú „meiri bíræfni og hörku en dæmi eru um á síðari tímum við að takmarka aðgang fjölmiðla að upplýsingum, myndefni og opinberum gögnum..“  Við hlið manna á borð við Rush Limbaugh, Bill O’Reilly og Michael Savage, sem úthúði „jafnt feministum og aröbum við hvert tækifæri“ hafi blogg- og vefmiðlar komið til sögunnar „sem öflugur boðskiptamiðill þessara öfgafullu íhaldsafla og útbreiðslu boðskaparins sé þaulskipulögð og gríðarlega víðtæk.“

 

Grein sinni lýkur Heiða á þessum orðum: „Það er óhætt að taka undir með Massing þegar hann hvetur metnaðarfulla fréttamiðla til þess að snúa vörn í sókn og virða að vettugi ásakanir um vinstri slagsíðu í hvert skipti sem þeir voga sér að gagnrýna stefnu stjórnvalda.“ Raunar telur Heiða, að viðkvæðið um vinstri slagsíðu blaðanna sé úr lausu lofti gripið, af því að Massing hafi þurft að gagnrýna þessa fjölmiðla fyrir óviðunandi umfjöllun í Íraksstríðinu.

 

Mér finnst grein Heiðu Jóhannsdóttur staðfesta þá skoðun, að hér á landi sé óvenjumikill áhugi á því að halda fram hlut þeirra, sem sæta gagnrýni frá hægri í bandarískum stjórnmála- og fjölmiðlaumræðum. Af þessum áhuga má draga þá ályktun, að viðhorf þessa fólks til þess, sem er að gerast í Bandaríkjunum, móti afstöðu þess til stjórnmálaþróunar hér á landi, enda mætti oft halda, að íslenskir stjórnmálamenn séu þátttakendur í ákvörðunum starfsbræðra sinna í Washington.

 

Hvað sem segja má um Ann Coulter, Rush Limbaugh, Bill O’Reilly og þetta fólk allt saman, er gert of mikið úr hlut þess með því að segja það bera ábyrgð á vanda rótgróinna bandarískra fjölmiðla. Málið er miklu flóknara og raunar er veiki þráðurinn í þessari röksemdafærslu sá, að fjölmiðlarnir hafa einfaldlega gefið of mikinn höggstað á sér og fleiri leiðir eru en áður til að vekja máls á því og draga hlutdrægni þeirra fram í dagsljósið, þar skipta bloggararnir miklu en þeim fjölgar ótrúlega hratt eða um 70.000 á dag, á fyrri hluta síðasta árs fjölgaði bloggsíðum úr 7,8 milljónum í 14,2 milljónir. Það voru bloggarar, sem vöktu máls á því, hvernig aðalfréttafrömuður CBS-sjónvarpsstöðvarinnar, Dan Rather, beitti vafasömum aðferðum í síðustu forsetakosningabaráttu til að gera lítið úr herþjónustu George W. Bush.

 

Kannanir í Bandaríkjunum sýna, að af þeim blaðamönnum, sem gefa upp stjórnmálaskoðun sína, lýsa 76% sjálfum sér sem liberal eða vinstrisinnuðum. Almennt á sú skoðun mikinn hljómgrunn í Bandaríkjunum, að blaðamenn þar líti á hlutverk sitt að bæta heiminn í anda vinstrisinna og blöð séu tæki þeirra til þess. Þessi skoðun hefur fest rætur vegna þess hve auðvelt er að rökstyðja hana með dæmum. Mun virtari álitsgjafar en þeir, sem hér hafa verið nefndir, halda því fram með rökum, að blöð á borð við New York Times, Washington Post og Los Angeles Times eigi það fyllilega skilið að njóta minni virðingar og trausts hjá sífellt fleira fólki en áður vegna þess, hve mjög þau hafi stuðlað að flokkadráttum og deilum andstæðra fylkinga á undanförnum árum.

 

Vinstrisinnum í Bandaríkjunum tekst oft að koma ár sinni fyrir borð með því að beina athygli frá eigin vanda með því að segjast eiga í höggi við hægrisinnaða samsærismenn. Frægasta dæmið um þetta úr síðari tíma sögu er þegar Hillary Clinton, forsetafrú, notaði þessa samsæriskenningu til varnar manni sínum, þegar hann átti undir högg að sækja vegna hneykslismála.

 

Stjórnmálarýni.

 

Fréttaskýringar um stefnu og strauma í íslenskum stjórnmálum eru svipur hjá sjón, frá því sem áður var – einkum á áttunda áratugnum og fram á hinn níunda. Það er Morgunblaðið, sem hefur haft burði til þess hin síðari ár, að gera einstökum málum góð skil og þannig leitast við að skýra afstöðu flokka og einstaklinga til þeirra mála, en ekki er lengur eins og áður var leitast við að skyggnast um að tjaldabaki innan stjórnmálaflokkanna og segja frá því, sem þar er að gerjast eða gerast. Kannski finnst blaðamönnum ekkert vera þar að gerast, eða þeir telja efni af þessum toga ekki höfða til lesenda – síðari skýringin er líklegri.

 

Hvað sem um ástæðuna fyrir minni áhuga á innviðum stjórnmálaflokkanna má segja, er víst, að hún leiðir til þess, að frásagnir fjölmiðla af því, sem er að gerast á stjórnmálavettvangi verður oft yfirborðskenndari. Þá verður einnig að segja þá sögu eins og hún er, að traust fjölmiðla á stjórnmálafræðinga innan og utan háskóla til að lýsa því, sem er að gerast í stjórnmálum, leiðir sjaldan til annars en almælt tíðindi fá á sig annan blæ en ella vegna þess að þau eru reifuð af einhverjum með fræðimannsgráðu.

 

Hér er mikill munur að þessu leyti og til dæmis í Bandaríkjunum, þar sem unnt er að lesa dálka eftir menn með víðtæka reynslu innan stjórnkerfisins og á vettvangi fræðimennsku eða blaðamennsku, lýsa þróun og viðburðum líðandi stundar með eigin reynslu og tengsl að leiðarljósi. Má þar til dæmis nefna David Gergen, sem nú er prófessor og forstjóri Center for Public Leadership við John F. Kennedy School og Government í Harvard, og tekur jafnframt þátt í stjórnmálaumræðum sem dálkahöfundur eða álitsgjafi. Hann ritar til dæmis í dag, sunnudaginn 23. apríl, grein í New York Times um vanda George W. Bush og endurskipulagningu hans á starfsliði Hvíta hússins.

 

Niðurstaða Gergens er, að líklega hafi Bush ákveðið endurskipulagninguna of seint auk þess sem efast megi um eindreginn vilja hans til að fylgja henni eftir af nauðsynlegum þunga. Gergen telur, að Bush hefði átt að fara að fordæmi Ronalds Reagans, þegar hart var sótt að honum vegna Íran-Contra hneykslisins, opna skjalahirslur og leita eftir samstarfi við demókrata samhliða breytingu á starfsliði og þetta hefði Bush átt að gera síðastliðið haust, eftir fellibylinn Katrinu og ákæruna á hendur  I. Lewis Libby. Þá hefði honum átt að geta tekist að bæta stöðu sína. Hann kaus frekar að aðhafast ekkert og það hafi ýtt undir með þeim, sem telja hann ekki lengur trausts verðan.

 

Breytingar nú séu alltof síðbúnar auk þess sem Bush kalli ekki á nógu mikla þungavigtarmenn sér til aðstoðar – honum virðist mest í mun að huga að innri stjórnun í Hvíta húsinu og markaðssetningu á sjálfum sér. Allt geti þetta skilað einhverjum árangri en dugi ekki til að rétta lítinn hlut forsetans í skoðanakönnum eða draga úr vantrú almennings á honum. Líti Bush ekki í eigin barm og taki sig sjálfur á muni lítið breytast.

 

Borgarstjórnarstraumar.

 

Samkvæmt könnun Fréttablaðsins, sem birt er í dag, vex fylgi litlu flokkanna í Reykjavík á kostnað Sjálfstæðisflokks, sem mælist með 47%, og Samfylkingar, sem mælist með 31%. Vinstri/grænir fá nú 11% og framsókn og frjálslyndir um 5% hvor – samkvæmt þessu fengju sjálfstæðismenn meirihluta í borgarstjórn og Samfylkingin fimm eða sex.

 

Við því var að búast, að Sjálfstæðisflokkurinn héldi ekki því mikla forskoti, sem hann hefur haft samkvæmt könnunum, en þessar tölur sýna mjög sterka stöðu hans, þegar fimm vikur eru til kosninga. Frambjóðendur flokksins hafa haldið vel á sínum málum og styrkt stöðu sína sem samhentur hópur, sem vill leggja sig fram um að bæta stjórnarhætti í borginni og efla hag borgarbúa, án þess að stunda yfirboð eða nálgast úrlausn mála á óraunsæjum forsendum.

 

Morgunblaðið fjallar um borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavíkurbréfi sínu í dag, sunnudaginn 23. apríl.

 

Í fyrsta lagi vekur blaðið máls á hugmyndum þeirra Björns Inga Hrafnssonar, framsóknarmanns, og Dags B. Eggertssonar, samfylkingarmanns, um samstarf þeirra í borgarstjórn að kosningum loknum. Er því haldið fram, að séu framsóknarmenn á því að fara í samstarf við Samfylkinguna, verði það kjósendum hvatning til að kjósa frekar Samfylkinguna en framsókn, auk þess sem hægrisinnaðir framsóknarmenn muni frekar kjósa Sjálfstæðisflokkinn en framsókn, stefni í vinstri stjórn í Reykjavík. Halli Björn Ingi sér til hægri, ráðist samfylkingarfólk og vinstri/grænir á hann frá vinstri. Þess vegna eigi Björn Ingi að þegja um samstarfsflokk og fara gömlu framsóknarleiðina og segja já, já og nei, nei. Framsóknarmenn hafi auk þess ekki fundið „hinn rétta tón fyrir sig í borgarstjórnarkosningunum.“

 

Í öðru lagi telur Morgunblaðið lítið fara fyrir Degi B. Eggertssyni, hann hafi ekki mikið fram að færa og betra hefði verið fyrir Samfylkinguna að tefla fram Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra, hún sé framtíðarforystumaður Samfylkingarinnar. Gefur blaðið til kynna, að Dagur hafi hvorki hugsjónir né baráttumál. Óskiljanlegt sé, að Samfylkingin skilgreini sig sem „valkost til vinstri“ – hún eigi að snúa sér inn á miðjuna, en kannski sé Samfylkingin hrædd við Svandísi Svavarsdóttur, frambjóðanda vinstri/grænna. „Foringjalaus Samfylking í borgarstjórn Reykjavíkur er ekki líkleg til mikilla afreka,“ segir blaðið.

 

Í þriðja lagi telur, blaðið það hafa skapað Sjálfstæðisflokknum sterka stöðu að fara sér hægt í kosningabaráttunni og gera ekkert, sem geti ruggað bátnum. Samstaða sé sterk meðal frambjóðenda. Það komi Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni nú vel, að hann hafi lengi ræktað þá ímynd að vera miðjumaður í stjórnmálum. Flokkurinn megi þó ekki láta eins og hann hræðist að láta brjóta á sér, það sé ekki sá Sjálfstæðisflokkur, sem kjósendur þekki best. Höfundur Reykjavíkurbréfsins staðfestir djúpstæða þekkingu sína á stjórnmálabaráttunni með því að bera baráttuaðferð sjálfstæðismanna nú saman við baráttu Gunnars Thoroddsens árið 1958! (Er þessi líking dregin sérstaklega út úr Reykjavíkurbréfinu til að árétta mikilvægi hennar.)

 

Í fjórða lagi telur Morgunblaðið Ólaf F. Magnússon hjá frjálslyndum ná betur til almennings en ætla hefði mátt í upphafi pólitískra afskipta hans og segir setu Guðrúnar Ásmundsdóttur leikkonu á lista frjálslyndra styrkja hann „gífurlega.“ Blaðið telur frjálslynda einkum höfða til trillukarla og vörubílstjóra, sem eiga atvinnutæki sín. Sjálfstæðismenn ættu að kanna nánara samstarf við frjálslynda.

 

Höfundur Reykjavíkurbréfs gerir ekki sérstaka úttekt á vinstri/grænum að þessu sinni ( ef rétt er munað hefur Morgunblaðið áður talið, að Svandís Svavarsdóttir sé mjög sterkur frambjóðandi) en telur undir lokin, að þróun efnahagsmála um þessar mundir verði ekki komin á það stig, þegar gengið verður til sveitarstjórnakosninga að hún muni hafa þar úrslitaáhrif.

 

Ég ætla ekki að gagnrýna þessa greiningu Morgunblaðsins á stefnum og straumum í borgarstjórnar-kosningabaráttunni. Að sjálfsögðu munu vinstri flokkarnir taka höndum saman að nýju um stjórn borgarinnar, sjái þeir hið minnsta færi á því og stjórnarhættirnir verða mun brotakenndari, en þeir hafa verið undir forystu R-listans.

 

Raunar er með ólíkindum, hve R-listaflokkarnir sleppa billega frá lélegri stjórn sinni á Reykjavíkurborg í fjölmiðlunum. Í Reykjavíkurbréfinu er ekki lagt mat á neitt, sem þessir flokkar hafa verið að burðast við að gera á liðnum tólf árum, án þess í raun að skilja nokkuð eftir sig sem máli skiptir fyrir utan skuldabaggana, sem eru orðnir svo þungir, að enginn virðist lengur treysta sér einu sinni til að ræða þá. Umræður um Vatnsmýrina og Sundabraut eru til nákvæmlega eins nú og fyrir fjórum árum, nema þá gældu menn við hábrú sem lausn á öllum vanda yfir Elliðavoginn, en nú er verið að tala um enn dýrari leið í botngöngum, án þess að R-listinn hafi unnið þau skipulagsverk, sem eru nauðsynleg til að koma Sundabrautinni á beinu brautina. Þá var býsnast yfir því af samfylkingarfólki innan R-listans, að við sjálfstæðismenn teldum nauðsynlegt, að ríki og Reykjavíkurborg kæmu sér saman um framtíð flugvallar og Vatnsmýrar, en nú leggur Samfylkingin til að ríki og Reykjavíkurborg stofni félag um lausn Vatnsmýrarmálsins.

 

Fyrir okkur, sem höfum fylgst með málflutningi Ólafs F. Magnússonar í borgarstjórn í fjögur ár, hljómar það eins og hver annnar brandari að lesa um hann sem sérstakan baráttumann fyrir trillukarla og vörubílstjóra. Í síðustu kosningum beindi Ólafur F. mjög spjótum sínum að sjálfstæðismönnum og útmálaði þá sem enn verri kost fyrir Reykvíkinga en R-listamenn, vegna þess að sjálfstæðismenn hefðu ekki sýnt honum nægilega virðingu á landsfundi og hann hefði orðið að segja sig úr flokknum. Í kosningabaráttunni 2002 snerust sjálfstæðismenn ekki til varnar gegn Ólafi F. og létu hann í raun afskiptalausan, en guldu þess að sjálfsögðu í kosningunum, að flokkur þeirra gekk klofinn til þeirra.

 

Á þessu kjörtímabili hef ég lýst því oftar en einu sinni hér á síðunni, hve sjálfhverfur málflutningur Ólafs F. er í borgarstjórn – reiði hans yfir því, að hann komist ekki nógu oft í Kastljósið eða hans sé ekki getið í Sögu stjórnarráðsins vegna söfnunar undirskrifta gegn Eyjabakkavirkjun.

 

Ólafur F. berst fyrir umhverfisvernd og segist vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni en hann var andvígur því, að gert yrði umhverfismat vegna áformanna um Háskólann í Reykjavík á svæðinu milli Nauthólsvíkur og Öskuhlíðar, sem í senn gengur þvert á hagsmuni þeirra, sem vilja flugvöllinn á sínum stað, og spillir umhverfi á einum viðkvæmasta stað í bæjarlandinu að mati sérfróðra manna.

 

Af Reykjavíkurbréfinu mætti draga þá ályktun, að sjálfstæðismenn í borgarstjórn eða annars staðar vildu ekki eiga samstarf við frjálslynda. Þetta er mikill misskilningur. Sjálfstæðismenn eru fúsir til samstarfs við frjálslynda en vandinn við samstarf þeirra við Ólaf F. Magnússon felst í afstöðu hans til sjálfstæðismanna, sem lýsir sér meðal annars í þeim ósannindum hans, að í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna hafi verið tekin ákvörðun um að selja Orkuveitu Reykjavíkur.