18.9.2005

Þýsku kosningarnar.

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, var glaðbeittur í sjónvarpsumræðum þýsku stjórnmálaforingjanna, eftir að úrslit lágu fyrir í þingkosningunum í Þýskalandi í dag, 18. september. Hann lét eins og hann væri hinn mikli sigurvegari kosninganna og talaði á þann veg til Angelu Merkel, formanns og kanslaraefnis Kristilegra demókrata, að stjórnandi þáttarins setti ofan í við hann. Markmið Schröders virðist vera að reyna að endurtaka það, sem honum tókst í kosningunum 2002, þegar hann náði því, andstætt öllum spádómum, að verða kanslari áfram. Nú segir hann, að markmið sitt sé að verða áfram kanslari Þýskalands, þótt stjórn hans með græningjum hafið tapað meirihluta sínum.

 

Kristilegum demókrötum (CDU/CSU) vegnaði mun verr en spáð hafði verið og þegar þetta er skrifað er talið, að þeir fái 35 til 35,4% atkvæða en sósíaldemókratar (SPD) 34,2%. Fall stjórnar Schröders leiðir ekki til þess, að CDU/CSU og Frjálsir demókratar (FDP) geti myndað meirihlutastjórn, þótt FDP hafi unnið einn besta sigur í sögu sinni en þeim er spáð um 10% atkvæða. Hinir smáflokkarnir tveir græningjar og Vinstri flokkurinn (Die Linke) fá hvor um sig um 8% samkvæmt þessum spám. Vinstri flokkurinn, sem er flokkur gamalla kommúnista frá Austur-Þýskalandi og vinstri sósíalista, jók fylgi sitt mikið, en hvorki SPD né CDU/CSU vilja eiga við flokkinn samstarf.

 

Gerhard Schröder er lýst á þann veg, að hann sé stjórnmálamaður, sem njóti sín best í kosningabaráttu en þess á milli sé engu líkara en hann liggi í dvala. Honum tókst 2002 að merja sigur gegn Edmund Stoiber, forsætisráðherra í Bæjaralandi, sem þá var kanslaraefni CDU/CSU. Schröder beitti þá and-ameríkanisma og fagurgala til að snúa naumum meirihluta kjósenda til fylgis við sig, þótt skoðanakannanir hefðu spáð honum harkförum. Að þessu einnig vann Schröder jafnt og þétt á í kosningabaráttunni, þótt ekki hefði hann sigur að lokum.

 

Síðan Schröder tók við kanslaraembættinu af Helmut Kohl 1998 hefur flest farið á verri veg í þýsku atvinnu- og efnahagslífi. Schröder lofaði því þá að vinna bug á atvinnuleysi, sem var um 10%. Síðan hefur atvinnuleysi á hinn bóginn aukist jafnt og þétt og er meira en nokkru sinni frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, hagvöxtur í ár er aðeins 1,1% (6% hér á landi) og honum er ekki spáð meiri á næsta ári.

 

Stóru flokkarnir CDU/CSU og SPD komu báðir sárir frá þessum kosningum. Það verður ekki mynduð tveggja flokka stjórn í Þýskalandi nema þessir flokkar sameinist um hana, en Schröder taldi sjálfsagt í kvöld, að hann yrði kanslari áfram, hvort heldur með CDU/CSU eða öðrum. Merkel telur sig eiga það embætti, hún sé formaður stærsta flokksins. Slík stór samsteypustjórn hefur aðeins einu sinni verið við völd í Þýskalandi, það er undir stjórn Kurts Georgs Kiesingers, árin 1966 til 1969, en Willy Brandt, leiðtogi sósíaldemókrata, var utanríkisráðherra í þeirri ríkisstjórn og kom meðal annars hingað til lands 1968, þegar í fyrsta sinn var haldinn hér utanríkisráðherrafundur NATO. Ludwig Erhard leiddi stjórn CDU/CSU og FDP á undan Kiesinger en Erhard var efnahagsmálaráðherra í ríkisstjórn Konrads Adenauers eftir stríð og var gjarnan kallaður faðir þýska efnahagsundursins.

 

Eftir sjö ára efnahagsstjórn Schröders þarf nýtt undur til að blása nýjum krafti í þýskt efnahagslíf. Og meira er í húfi en aðeins efnahagur Þýskalands, þar sem framgangur á evru-svæðinu öllu hlýtur að ráðast af því, hvernig fjölmennasta aðildarríkinu vegnar. Ef það er dragbítur, setur það alla aðra innan svæðisins í vanda. Veik stjórn og forysta í Þýskalandi er það sem Evrópusambandið (ESB) þarfnaðist síst nú á tímum, þegar leitast er við að efla trú á pólitíska forystu innan sambandsins eftir útreið sáttmálans um nýja stjórnarskrá þess í þjóðaratkvæðagreiðslunum í Frakklandi og Hollandi.

 

Schröder ákvað að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga, áður en kjörtímabilið var á enda, eftir að flokkur hans hafði goldið afhroð í hverjum samandsríkis-kosningunum eftir aðrar. Hann var kominn út í horn og sá þessa leið til að brjótast út úr því. Honum tókst það að nokkru vegna þess hve CDU/CSU vegnaði illa. Flokkurinn hefur aðeins einu sinni áður frá stríðslokum fengið minna fylgi, það var 1949, í fyrstu kosningunum til endurreistrar neðri deildar þýska þingsins, þegar hann fékk 31 %.

 

Nú eru báðir stóru þýsku flokkarnir með svipað fylgi, þar sem aðeins um 1% skilur á milli þeirra, á bilinu 35 til 34%. Jafn mjótt var munum milli flokkanna í kosningum árið 1972, þá fékk SPD 45,8% og CDU/CSU 44,9%. Þá var fylgi þeirra beggja sem sagt um 10% meira en nú. Þessar tölur sýna betur en flest annað, hvers vegna líklegt er, að mynduð verði þriggja flokka stjórn í Þýskalandi eftir kosningarnar núna, en slíkt hefur ekki gerst áður frá stríðslokum, enda er þýska kosningakerfið hannað á þann veg, að gera smáflokkum sem erfiðast að ná fótfestu.

 

Ef Schröder á næstu daga eftir að slá um sig gagnvart forystumönnum annarra flokka á sama hátt og hann gerði í sjónvarpsumræðunum í kvöld, verður það ekki til þess að flýta fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar. Hann ætlar ekki að láta kanslaraembættið af hendi fyrr en í fulla hnefana. Þýska þingið getur gert þrjár atrennur að því að mynda meirihlutastjórn. Takist það ekki getur forseti Þýskalands veitt umboð til minnihlutastjórnar.

 

Varnaglar þýsku stjórnarskrárinnar gegn minnihlutastjórnum og smáflokkum byggjast á dýrkeyptri reynslu áranna milli stríða, þegar Weimar-stjórnarskráin var í gildi. Hún var talin ein besta stjórnarskrá samtímans, áður en mönnum var ljóst, að í skjóli hennar gátu nasistar komist til valda.