4.9.2005

RÚV ehf. - reynsluleysi Samfylkingar.

Yfirlit

Sagt var frá því í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins laugardaginn 3. september, að hugmyndir væru um að breyta Ríkisútvarpinu (RÚV) í einkahlutafélag í eigu ríkisins, það gengi ekki að breyta því í sameignarfélag eins og ráðgert var í frumvarpi menntamálaráðherra sl. vor, eftirlitsstofnun EFTA, ESA, í Brussel hefði gert athugasemd við hugmyndina um sameignarfélag vegna þess að í henni fælist ótakmörkuð ríkisábyrgð. Með hlutafélagi takmarkaðist ábyrgðin við hlutaféð.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að við breytingu á skipulagi RÚV ætti að velja þann kost, sem best hefur reynst í einkarekstri, hlutafélagsformið. Stjórnendur RÚV voru sömu skoðunar, þegar ég var menntamálaráðherra, en málið strandaði á pólitísku skeri. Nú strandar hugmyndin um sameignarfélag á evrópsku skeri og samkeppnisreglum á evrópska efnahagssvæðinu.

Við breytingar á RÚV verður vitaskuld að taka mið af Evrópurétti og ESA er lögbundinn álitsgjafi um hann og nú hefur ESA sagt, að sameignarfélag um RÚV sé ekki í samræmi við þennan rétt. Allir, sem vilja RÚV vel, eru sammála um, að núverandi skipan dugi RÚV ekki lengur við gjörbreyttar aðstæður á fjölmiðlamarkaði.

 

Nýr útvarpsstjóri, Páll Magnússon, tók til starfa 1. september og óska ég honum velfarnaðar í starfi. Ég undraðist, þegar Páll sagði skömmu eftir að hann fékk starfið, að RÚV ætti að hverfa af auglýsingamarkaði. Hann hefur síðan dregið í land, enda er fráleitt að banna RÚV að veita alla þjónustu ljósvakamiðla, þar með birtingu auglýsinga.

 

Þegar nýi útvarpsstjórinn var spurður, hvaða breytingar hann sæi á RÚV sagði hann útvarpsráð barn síns tíma og ætti að hverfa. Þetta var ekki mjög frumleg gagnrýni á núgildandi stjórnskipan RÚV, en að sjálfsögðu verður stofnunin að lúta stjórn. Er ekki sanngjarnast, að hún sé valin af alþingi? Ég veit ekki um neitt almannaútvarp, sem ekki þarf á einn eða annan hátt að sætta sig við ákvarðanir trúnaðarmanna stjórnvalda. Það er ekki bæði unnt að halda í skjól ríkisins og vilja síðan sleppa því, að ríkið, eigandinn, hafi stjórn á eign sinni.

 

Í kvöldfréttum hljóðvarpsins 3. september var hugmyndin um RÚV ehf. borin undir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar. Hún sagði meðal annars: „Í fljótu bragði líst mér nú ekki vel á það en auðvitað á maður eftir að sjá hvaða, á hvaða forsendum það er gert og hvernig umgjörðin er um reksturinn. En hins vegar þá er hlutafélagaformið sem form á þjónustu ja, almannaþjónustu ólýðræðislegt og á frekar illa við í opinberum rekstri vegna þess að þegar það gerist þá gilda ekki lengur stjórnsýslulög eða upplýsingalög eða lög um opinbera starfsmenn. Þannig að mér finnst þetta almennt ekki henta vel fyrir almannaþjónustu.“

 

Undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur var Orkuveitu Reykjavíkur (OR) breytt í sameignarfélag vegna þess að vinstri/grænir vildu ekki breyta fyrirtækinu í hlutafélag í opinberri eigu. Að því er stjórnarhætti varðar og ábyrgð stjórnarmanna er enginn munur á sameignarfélagi og hlutafélagi. Undir forystu Ingibjargar Sólrúnar hafa verið stofnuð félög utan um rekstur slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu og sorphirðu og rekstur almenningsvagna, Strætó bs.

 

Enginn vafi er á því, að þessar breytingar hafa allar fært þessi þjónustufyrirtæki fjær sveitarstjórnum viðkomandi sveitarfélaga og dregið úr áhrifum kjörinna fulltrúa á þessa nærþjónustu við borgarana auk þess sem eftirlit sveitarstjórna með fyrirtækjunum hefur minnkað. Á vettvangi borgarstjórnar hef ég gagnrýnt, að skipulega hefur verið dregið úr afskiptum kjörinna fulltrúa af þessum mikilvægu þjónustustofnunum umbjóðenda þeirra. Ég hef ekki orðið var við, að meiri hlutinn í Reykjavík, R-listinn, hafi haft miklar áhyggjur af þessu. Nú bregður hins vegar svo við, þegar rætt er um að færa rekstur RÚV í nútímalegt horf, að Ingibjörg Sólrún sér aðeins vandamál vegna hættu á því, að almannaþjónusta verði ólýðræðisleg.

 

Hlutafélagsformið er besta rekstrarform fyrirtækja, sama hver er eigandinn, ábyrgð stjórnenda og eigenda er skýr. Það er blekkingar- eða hræðsluáróður, að hlutafélagavæðing opinberra stofnana leiði óhjákvæmilega til sölu þeirra. Eigandinn, í tilviki RÚV alþingi, á þar síðasta orð.

 

Reynsluleysi.

 

Í Tímariti Morgunblaðsins sunnudaginn 4. september birtist viðtal við Guðmund Árna Stefánsson, fráfarandi alþingismann Samfylkingarinnar, í tilefni af því, að hann er að taka við embætti sem sendiherra Íslands í Stokkhólmi.

 

Hann ítrekar fyrr orð sín um, að hann uni sér illa í stjórnmálum, eftir að hafa verið 10 ár í stjórnarandstöðu. Hann vilji láta að sér kveða sem stjórnarsinni og beita áhrifum sínum sem hluti af meiri hluta á alþingi. Það urðu honum „gríðarleg vonbrigði“ að Samfylkingin skyldi lenda í stjórnarandstöðu eftir síðustu kosningar. Honum fannst niðurstaða kosninganna „kalla á“, að Samfylkingin færi í ríkisstjórn. Hans menn hefðu ekki haldið nógu vel á spilunum. „Okkar forystufólk var fullfljótt til að klappa Halldór Ásgrímsson upp á sviðið og bjóða honum forsætisráðherraembættið. Við hefðum átt að gefa þessu miklu meira ráðrúm og tíma. Það voru aðrir kostir í stöðunni. Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda,“ sagði Guðmundur Árni.

 

Hann telur að það „hefði orðið affarasælast fyrir þjóðina og fyrir Samfylkinguna“ að stofna til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. „En þeim möguleika spiluðum við út úr höndunum strax morguninn eftir kosningar. Ég held að þar hafi reynsluleysi orðið okkur fjötur um fót,“ sagði Guðmundur Árni og nefndi síðan Össur Skarphéðinsson og Ingibjörgu Sólrúnu til sögunnar, en Össur hringdi í Halldór Ásgrímsson, eins og fram kom strax eftir kjördag.

 

Kosningabarátta Samfylkingarinnar snerist um það vorið 2003 að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Flokkurinn bauð Ingibjörgu Sólrúnu fram sem forsætisráðherra í staðinn fyrir Davíð Oddsson og hamrað var á því, að nauðsynlegt væri að breyta, þó ekki væri nema breytinganna vegna. Lýðræðinu væri hætta búin, að sami flokkur svo að ekki sé sagt sami maður færi með stjórnarforystu fjórða kjörtímabilið í röð.

 

Ég hallast að því, að það hafi ekki endilega verið reynsluleysi, sem fyrst birtist eftir kosningar, sem réð símtalinu örlagaríka, heldur eðlilegt framhald kosningabaráttu Samfylkingarinnar, hún var einfaldlega öll rekin á vitlausum nótum, ef ætlunin var eftir kosningar að ná höndum saman um ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Reynsluleysið eða feilsparkið fólst í því, að gera Ingibjörgu Sólrúnu að forsætisráðherraefni og láta óvildartón hennar í garð Sjálfstæðisflokksins ráða ferðinni í kosningabaráttunni.

 

Baráttan vorið 2003 var með öðrum orðum í sama anda og kosningabarátta Alþýðuflokksins fyrir kosningarnar 1995 undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar, þegar hann hélt þannig á málum, að ekki kom til álita fyrir Sjálfstæðisflokkinn að líta á hann sem álitlegan samstarfsaðila að kosningum loknum. Er undarlegt, að forysta Samfylkingarinnar skuli ekki hafa lært neitt af reynslu forystu Alþýðuflokksins frá 1995.

 

Fylgi Samfylkingarinnar heldur áfram að minnka, því að könnun Gallups fyrir ágústmánuð sýnir tæplega 30% fylgi eða 4% fall frá því að Ingibjörg Sólrún varð formaður. Sjálfstæðisflokkurinn er með ríflega 36% fylgi og kemur það þeim líklega mest í opna skjöldu, sem hafa lagt hart að sér á undanförnum vikum við að ráðast á Davíð Oddsson, formann flokksins, með ímynduðum ásökunum um afskipti hans af störfum ákæruvaldsins og efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

 

Árni Þórarinsson viðmælandi Guðmundar Árna spyr: „Gæti gamall NATO- og herstöðvaandstæðingur eins og Guðmundur Árni orðið sendiherra Íslands hjá NATO?“ Og svarið er: „Auðveldlega. Ég skipti um skoðun þegar Múrinn féll. Ég hafði efasemdir um ógnarjafnvægið í heimsmálunum og áhyggjur af okkar hlutdeild í því.“

 

Sumarið 1999 skrifaði ég um viðhorf Guðmundar Árna til NATO og varnarmálanna hér á síðuna mína og svaraði hann mér tvisvar sinnum reiðilega í Morgunblaðinu og taldi af og frá, að það væri sín skoðun, að Sameinuðu þjóðirnar gætu komið í stað NATO, þótt þær gætu tekið við „velflestum verkefnum“ bandalagsins. Í viðtalinu nú segir Guðmundur Árni, að það sé auðvitað tímanna tákn „að nú vilja allir gerast aðilar að NATO, en fáir tali um að ganga úr því. Hermálið er svo að leysast af sjálfu sér. Dregið hefur mjög úr umfangi Bandaríkjamanna á Vellinum, þeir verða hér með lágmarksviðbúnað og við öxlum sjálf meiri ábyrgð á okkar vörnum. Sú þróun er mér ekki á móti skapi. Það var hluti af sendiherrafundinum að fara í kynningarheimsókn í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Manni bregður dálítið í brún að sjá að nánast hver einasti íslenskur lögregluþjónn á flugvellinum er vopnaður. Það er gjörbreyting sem orðið hefur á fjórum árum eftir 11. september 2001. Við verðum að horfast í augu við þennan veruleika. Við þurfum varnir, en þó ekki íslenskan her.“

 

Mín skoðun var og er, að við þurftum einnig varnir á tímum kalda stríðsins, þrátt fyrir ógnarjafnvægið svonefnda, sem talað var um af svo miklum hryllingi og vanþekkingu á þeim tíma af þeim, sem notuðu það, sem átyllu til að vera á móti vörnum Vesturlanda. Ég skammast mín ekki fyrir að vera sagður „enn mosagróinn við mikilvægi Berlínarmúrsins“ fyrir að hafa haft þessa skoðun á sínum tíma og halda fast við það viðhorf, að hér á landi þurfi að vera varnir með aukinni þátttöku okkar sjálfra.

 

Ég þakka Guðmundi Árna samfylgdina á þingi undanfarin ár og óska honum velfarnaðar í nýju starfi.