9.1.2005

Þorlákshöfn - orkuveituraunir - makalaus könnun - Jónína hirtir Hallgrím.

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins hófum mikla fundaferð laugardaginn 8. janúar. Við gerum það undir kjörorðinu: Með hækkandi sól! Ætlunin er að halda 45 fundi núna í janúar og fyrstu dagana í febrúar. Fyrsti fundurinn var haldinn í Valhöll klukkan 10. 30, þar sem Davíð Oddsson var ræðumaður. Ég gat ekki sótt þann fund, þar sem ég hélt um þetta sama leyti til Þorlákshafnar, þar sem við Kjartan Ólafsson alþingismaður vorum framsögumenn á fundi í Ráðhúskaffinu.

Var svo sannarlega bjart yfir fundinum, bæði þegar ég hugsa um viðbrögð fundarmanna og sólarbirtuna, en um austurglugga ráðhússins mátti sjá sólbaðaðan, skjannahvítan fjallahringinn frá Heklu í norðri til Eyjafjallajökuls í suðri.

Ræður okkar fengu jákvæðar undirtektir og fram komu ábendingar um marga góða hluti.  Það er ánægjulegt að fara á fundi sem þennan og fá tækifæri til að kynnast viðhorfum fundarmanna til þeirra mála, sem hæst ber í þjóðlífinu eða viðkomandi byggðarlagi á líðandi stundu.

 

Eftir stutta kynnisferð um Þorlákshöfn er mér  krafturinn í sveitarfélaginu Ölfusi betur ljós en áður og skil vel, að innan þess séu ekki margir fylgismenn þess, að það verði sameinað nágrannasveitarfélögunum. Raunar á ekki að taka ákvarðanir um sameiningu sveitarfélaga með ályktunum á landsþingum eða lögbundnum kvöðum, heldur eiga slíkar ákvarðanir að byggjast á vel ígrunduðum og þaulræddum grunni með vísan til hagsmuna hvers sveitarfélags fyrir sig og íbúa þess.

 

Á fundinum var ég spurður um kröfugerð ríkisins á grundvelli þjóðlendulaganna, en síðan í febrúar 2004 hafa stjórnendur Ölfuss verið að búa sig undir málaferli vegna krafna ríkisins um eignarhald á afréttarlöndum sveitarfélagsins, sem ná norður fyrir Litlu kaffistofuna og yfir Hengilsvæðið, þar sem Orkuveita Reykjavíkur er nú að búa sig undir að virkja gufuorkuna til að selja raforku til stóriðju. Þarna eru gífurlegir hagsmunir í húfi og í sjálfu sér skiljanlegt, að íbúar Ölfuss telji þá betur komna í sinni vörslu og eign en ríkisins. Spurningunni svaraði ég almennum orðum og sagði skynsamlegt markmið í sjálfu sér að komast að niðurstöðu um eignarhald á landi, hvort heldur afréttum eða öðru landi, því að vissa um eignarhald væri besta leiðin til að tryggja skynsamlega og friðsamlega nýtingu.

 

Þá var vakið máls á því á fundinum, að 70 milljónir króna færu úr Þorlákshöfn til ríkisins vegna ný skatts, auðlindagjaldsins. Hvort sú tala stæðist miðað við þrönga stöðu sjávarútvegsfyrirtækja vegna hins háa gengis krónunnar um þessar mundir, veit ég ekki. Hvað sem því líður var  talan nefnd og veltum við fyrir okkur, hvort friður um kvótakerfið hefði verið keyptur of dýru verði með þessum nýja skatti. Eitt er víst, að við, sem ekki vorum talsmenn auðlindagjalds, vöruðum oft við því, að með því kæmi aðeins nýr skattur til sögunnar, sem mundi leggjast þyngst á landsbyggðina. Um leið og þetta var rætt í Þorlákshöfn, var því fagnað, að skattaglaðir vinstri flokkar hefðu ekki verið  við völd, þegar auðlindagjaldið kom til sögunnar, því að þá hefði það örugglega orðið miklu hærra.

 

Við vorum hvattir til þess að hafa áhyggjur af hinu háa gengi krónunnar, því að það þrengdi um of að sjávarútveginum og ferðaþjónustunni, sem væri vaxtarbroddur í Ölfusi eins og annars staðar á landinu.

 

Orkuveituraunir.

 

Borgarstjórn Reykjavíkur hélt fyrsta fund sinn á nýju ári þriðjudaginn 4. janúar og þar voru umræður mestar um tillögu okkar sjálfstæðismanna um að innri endurskoðendur Reykjavíkurborgar myndu kynna sér fjárfestingar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í fjarskiptafyrirtækjum og arðsemi þeirra.

 

Skemmst er frá því að segja, að R-listinn fór enn einu sinni af hjörunum, þegar minnst er á OR og Línu.net og önnur gæluverkefni Alfreðs Þorsteinssonar. Viðbrögðin voru þau sömu og þegar ég vakti máls á því á sínum tíma, að kostnaður við nýjar höfuðstöðvar OR myndu fara fram úr áætlun og kanna ætti það sérstaklega. Þá var farið að tala um Skálann við alþingishúsið, náttúrufræðihúsið í Vatnsmýrinni og endurgerð safnhúss Þjóðminjasafnsins. Nú flutti Alfreð tillögu um, að borgarstjóri skyldi kanna kostnað allra fyrirtækja í fjarskiptum, þar á meðal fyrirtækja, þar sem Reykjavíkurborg hefur engra beinna hagsmuna að gæta.

 

Stefán Jón Hafsteins stjórnaði að þessu sinni fyrsta fundi sínum sem forseti borgarstjórnar, eftir að Árni Þór Sigurðsson fór til Brussel til að vera þar í sendiráði Íslands í því skyni að kynna sér hagsmunagæslu sveitarfélaganna gagnvart Evrópusambandinu (ESB). Ég lýsti því á fundinum og endurtek hér, að Stefán Jóns brást við fundarstjórn sína. Hann beitti forsetavaldi sínu á rangan hátt, þegar hann hafnaði þeirri ósk okkar sjálfstæðismanna að bera tillögu okkar undir atkvæði, auk þess sem hann túlkaði fundarsköp og samþykktir borgarstjórnar á rangan hátt, þegar hann úrskurðaði tillögu R-listans tæka til umræðu og afgreiðslu á fundinum.

 

Enn sannaðist á þessum fundi, hve samstarfsmenn Alfreðs Þorsteinssonar  ganga langt til móts við ómálefnalegar kröfur hans til að komist sé hjá því að hlutlausir aðilar leggi mat sitt á fjármálaráðstafanir OR undir stjórn hans.

 

Miðvikudag 5, janúar, daginn eftir borgarstjórnarfundinn var efnt til stjórnarfundar í OR og að kvöldi miðvikudagsins sagði í fréttum ríkissjónvarpsins:

 

„Heildarkostnaður við aðstöðu Orkuveitu Reykjavíkur á Bæjarhálsi er tæpir 4,3 milljarðar króna. Kostnaðurinn við aðalbygginguna er 32% meiri en áætlun gerði ráð fyrir. Þetta var kynnt á stjórnarfundi Orkuveitunnar í dag.

Höfuðstöðvar Orkuveitunnar við Bæjarháls hafa verið nokkuð umdeildar, fyrst og fremst vegna kostnaðar. Aðalbyggingin er rúmir 14 þúsund fermetrar og kostar um 3,3 milljarða króna eða tæpar 230 þúsund krónur á fermetrann. Upphafleg kostnaðaráætlun hússins hljóðaði upp á tæpa 2,7 milljarða en hún varð í raun 32% meiri þegar bílastæðahúsið er meðtalið. Framkvæmdum á lóðinni er ekki endanlega lokið. Áætlað er að flytja inn í svokallað norðurhús sem hýsir m.a. skrifstofur framkvæmdasviðs, í mars. Þá verður bílastæðahús og tengibygging á lokastigi. Heildarkostnaður við allar byggingar, lóð og bílastæði er samkvæmt nýjustu tölum tæpir 4,3 milljarðar króna en þar munu starfa um 500 manns.“

 

Daginn eftir ræddi Rakel Þorbergsdóttir á ríkissjónvarpinu við Guðlaug Þór Þórðarson borgarfulltrúa okkar sjálfstæðismanna í framhaldi af fréttinni daginn áður um kostnaðinn við höfuðstöðvarinnar. Í fréttinni fimmtudaginn 6. janúar sagði meðal annars:

 

„Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks: Það liggur fyrir að það er mjög frjálslega farið með þessar tölur eða réttara sagt með túlkun á þeim.

Rakel Þorbergsdóttir: Hvað áttu við með frjálslega með farið?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Þá er ég að vísa í það að því hefur verið haldið fram að þetta sé 30% umfram kostnaðaráætlun. Það sér það hver maður sem skoðar tölurnar að ef við miðum við þær forsendur sem eru lagðar þarna til staðar að þessi kostnaðaráætlun, þ.e.a.s. 2,7 milljarðar eru framreiknaðir, að þá hefur verið farið fram úr ja yfir 60% af kostnaðaráætlun.

Guðlaugur Þór segir að ef miðað sé við upphaflega áætlun, sem gerði ráð fyrir að söluverð eldri húseigna Orkuveitunnar stæði straum af framkvæmdunum, væri framúrkeyrslan enn meiri eða um 120%. Hann segir mjög alvarlegt að ekki sé hægt að treysta forsvarsmönnum Orkuveitunnar til að segja satt og rétt frá stöðu mála. Guðlaugur Þór segir ljóst að kostnaðurinn eigi enn eftir að aukast enda framkvæmdum ekki lokið.

Guðlaugur Þór Þórðarson: Við gefumst ekki upp. Þetta er náttúrulega að verða ansi mikill farsi og það er alveg kominn tími á að skipta þarna um fólk, bæði í stjórn Orkuveitunnar af hálfu meirihlutans og í meirihlutanum í borgarstjórn. Það sér það hver maður.“

 

Ég er sannfærður um það eins og Guðlaugur Þór Þórðarson, að ekki eru enn öll kurl komin til grafar í þessu máli og enn séu stjórnendur OR undir forystu Alfreðs Þorsteinssonar að reyna að gera eins lítið úr þessum kostnaði og frekast er unnt. Það hefur verið viðleitni þeirra og stefna frá upphafi.

 

Snemma vetrar 2002 gagnrýndi ég kostnaðinn við hinar nýju höfuðstöðvar OR harkalega og átti hörð orðaskipti við Alfreð Þorsteinsson um málið.

 

Eins og áður sagði vildi Alfreð Þorsteinsson ræða allt annað en hús OR á þeim tíma og kostnað við það og þá hélt hann því fram meðal annars í Morgunblaðinu 25. október 2002, að kostnaður við höfuðstöðvar OR yrðu 2,5 milljarðar króna. Þá var einnig staðhæft af honum, að kostnaður mynd aðeins fara  8% fram úr áætlun.

Ég hef ekki sagt skilið við þetta mál, enda er því ólokið og enn vantar kostnaðartölur vegna byggingarinnar. Málatilbúnaður R-listans í því er hins vegar einkennandi fyrir hann og tilraunir hans til að fara tala um eitthvað allt annað, þegar að honum er saumað. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri gat til dæmis ekki brugðist efnislega við gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á skattastefnu R-listans í auglýsingu í Morgunblaðinu 3. janúar. Þar sýndum við svart á hvítu, að R-listinn hefur gengið á bak orða sinna, hann lofaði ekki að hækka skatta.

 

Í ríkissjónvarpinu mánudaginn 3. janúar sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir um þessa auglýsingu og þær staðreyndir, sem þar er að finna:

 

„ Mér finnst hún nú hálfbilleg ef ég á að vera alveg hreinskilin. Það er auðvitað staðreynd að öll sveitarfélög á landinu eru að auka tekjur sínar með einhverjum hætti og að setja málin fram með þessum hætti finnst mér svona hálfgerð auglýsingamennska og auðvitað veltir maður því fyrir sér hvort að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sem að ekki er bara borgarfulltrúi heldur líka formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hvort að hann muni þá birta sams konar auglýsingu til félaga sinna í Kópavogi og Garðabæ svo dæmi séu tekin.“

 

Fráleitara og vesældarlegra svar hef ég ekki heyrt frá stjórnmálamanni, sem vill láta taka sig alvarlega, það er einfaldlega út í hött og raunar makalaust, að fréttamaður skuli líta á það sem málefnalegt framlag til umræðna um málið og ekki ganga frekar á sjálfan borgarstjórann, sem leyfir sér að ræða auknar álögur á borgarbúa á þennan hátt. Þessi sífellda samanburðarfræði R-listafólks minnir aðeins á það, þegar svipuðum fræðum var beitt til að sanna, að Sovétríkin væru ívið betra risaveldi en Bandaríkin. Við vitum núna öll, hver urðu hin sovésku örlög.

 

Við Reykvíkingar sitjum uppi með stjórnarformann Orkuveitu Reykjavíkur, sem snýr út úr, þegar rætt er um fjármál fyrirtækisins, forseta borgarstjórnar, sem beitir ofríki, þegar fjármál Orkuveitu Reykjavíkur eru til umræðu í borgarstjórn, og borgarstjóra, sem svarar út í hött, þegar skattþyngingarstefna R-listans er gagnrýnd.

 

Makalaus könnun.

 

Dagana 10. til 29. desember 2004 gerði Gallup könnun og spurði: Á Ísland að vera á lista með þeim þjóðum sem styðja hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Írak eða á Ísland ekki að vera á listanum? Úrtakið var 1219 manns á aldrinum 18 til 75 ára, svarhlutfall var um 62%. Sögðust 84% ekki vilja að Ísland væri á listanum, 14% vildu Ísland á listanum, 2% töldu það ekki skipta máli. Sagt hefur verið frá því, að svonefnd þjóðarhreyfing telji þessa niðurstöðu stuðning við málstað sinn og hún verði notuð í auglýsingu, sem ætlunin er að birta í The New York Times.

 

Ég tek undir með þeim, sem hafa lýst undrun yfir ákvörðun Gallups að leggja þessa spurningu fyrir fólk. Hvaða listi er þetta, sem hér um ræðir?  Er Gallup að spyrja um hinn svonefnda lista frá því snemma árs 2003? Eru einhverjar þjóðir lengur á þeim lista? Er ekki um þessar mundir unnið að því að endurreisa Írak á grundvelli ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1511 og 1546? Er verið verið að spyrja um lista þeirra þjóða, sem að því verki koma? Er verið að spyrja um það, hvort Íslendingar eigi að vera þátttakendur í sameiginlegu átaki þjóða, sem aðstoða stjórnvöld í Írak við að koma á öryggi og stöðugleika í landinu í aðdraganda kosninganna, sem þar fara fram 30. janúar?

 

Gallup er alþjóðlegt gæðamerki um vönduð vinnubrögð við skoðanakannanir. Fullnægir þessi spurning Gallup á Íslandi um afstöðu Íslendinga til þessa lista alþjóðlegar gæðakröfur Gallup? Skyldi vera unnt að láta á það reyna, hvort svo sé? Úr við því að svonefnd þjóðarhreyfing ætlar að nota nafn Gallup í auglýsingu sína í The New York Times í því skyni að gera málstað sinn trúverðugri, er meiri ástæða en ella til að huga að vinnubrögðum Gallup við þessa spurningu í alþjóðlegu samhengi.

 

Jónína hirtir Hallgrím.

 

Jónína Benediktsdóttir birtir grein í Morgunblaðinu í dag, sunnudag 9. janúar, þar sem hún ræðir illkvittna grein, sem Hallgrímur Helgason rithöfundur birti í Fréttablaðinu 31. desember. Sýnir hún, að í nýju fötum Norðurljósa er höfundur þeirra ber.