27.6.2004

Forsetaembætti í ólgusjó

 

Alls neyttu 134.374 kjósendur atkvæðisréttar síns eða 62,92% af 213. 552 á kjörskrá í forsetakosningunum laugardaginn 26. júní 2004  og hefur kjörsókn aldrei verið minni í nokkrum kosningum síðan 1919. 79.178 kjósendur tóku ekki þátt í kosningunni. Meðalkosningaþátttaka í þingkosningum síðustu 60 ár er um 88% og tæplega 85% í forsetakosningum.  Þá hafa auðir atkvæðaseðlar mest verið 2.123 í forsetakosningum eða 1,7% en voru nú 27.627 eða 20,7% atkvæða að 834 ógildum seðlum frátöldum. Ólafur Ragnar Grímsson hlaut 90.662 atkv. eða  67,9% greiddra atkvæða, Baldur Ágústsson 13.250 atkv. eða 9,9% og Ástþór Magnússon 1867 atkv. eða 1,5%. 

Ef aðeins er tekið tillit til atkvæða sem greidd voru frambjóðendunum þremur þá hlaut Ólafur Ragnar 85,6%, Baldur 12,3% og Ástþór 1,9%. Sé hins vegar fylgi frambjóðenda reiknað sem hlutfall af kjósendum á kjörskrá hefur Ólafur Ragnar fengið atkvæði 42,5% þeirra, Baldur 6,2% og Ástþór 0,9% en auð atkvæði jafngilda 12,9% af heildarfjölda kjósenda á kjörskrá. Í þremur stærstu kjördæmunum var þetta hlutfall Ólafs Ragnars minna eða 40,4%.

Samkvæmt mbl.is féllu atkvæði sem hér segir og í svigum er hlutfall viðkomandi af greiddum atkvæðum:

Kjördæmi

Ólafur R.

Baldur

Ástþór

Auð

Ógild

Reykjavík N

17775 (66,4%)

2515 (9,4%)

502 (1,9%)

5989 (22,4%)

158

Reykjavík S

16671 (63,3%)

2468 (9,4%)

481 (1,8%)

6521 (24,8%)

186

Suðvestur

20578 (64,5%)

3.061 (9,6%)

437 (1,4%)

7.832 (24,5%)

187

Norðvestur

10143 (75,5%)

1241 (9,2%)

134 (1,0%)

1902 (14,2%)

76

Norðaustur

13310 (74,7%)

1825 (10,2%)

197 (1,1%)

2492 (14,0%)

109

Suðurkjörd.

12185 (69,8%)

2140 (12,3%)

250 (1,4%)

2891 (16,6%)

118

Fréttin vegna þessara úrslita er ekki, að Ólafur Ragnar Grímsson náði endurkjöri sem forseti Íslands, heldur sú staðreynd, að auðir seðlar hafa aldrei verið fleiri og kosningaþátttakan aldrei minni.  Líklega er einsdæmi á heimsvísu, að í kosningum af þessum toga, þegar aðeins 62,92% kjósenda fara á kjörstað, skuli 20,7% gera það til að skila auðu. Ef þeir eru taldir saman, sem sátu heima eða skiluðu auðu voru þeir alls 106.805, en eins og áður sagði hlaut Ólafur Ragnar 90.662 atkvæði.

 

Áður hefur verið boðið fram gegn sitjandi forseta Íslands, gegn Vigdísi Finnbogadóttur árið 1988, þegar hún hafði setið 8 ár í embætti eins og Ólafur Ragnar nú. Þá var kosningaþátttaka 10% meiri en núna og auðir seðlar aðeins 1,7% á móti 20,7% núna. Vigdís hlaut afdráttarlausan stuðning um 70% atkvæðisbærra manna en það verður ekki sagt um Ólaf Ragnar nú, þegar hann fær stuðning um 42% kosningabærra manna. (Innan sviga má benda á þennan fróðleiksmola: Ef miðað væri við kröfu Reykjavíkurborgar undir stjórn R-listans um bindandi þátttöku í kosningum um álitaefni á vettvangi hennar, það er 2/3 kjósenda eða 66%, væri þessi kosning núna ógild vegna þátttökuleysis!)

Þegar rætt er um kosningarnar og dræma þátttöku í þeim, heyrist þeirri skoðun hreyft, að fjöldi þeirra, sem kaus ekki, endurspegli þróun í vestrænum lýðræðisríkjum. Þetta er lítt sannfærandi, því að þessi þróun hefur ekki verið hér á landi, til dæmis tóku um 88% þátt í þingkosningunum á síðasta ári.

Fráleitt er að líta nú til þessara úrslita og segja, að þau endurspegli harða baráttu fyrir kosningarnar. Allir eru á einu máli um, að kosningabaráttan hafi síður en svo verið hörð og Ólafur Ragnar Grímsson kepptist við að skýra það fram á síðustu stundu, að hann hefði ákveðið að halda sér til hlés í baráttunni, af því að hann vildi leyfa keppinautum sínum að njóta sín. Í síðasta sjónvarpsþættinum fyrir kosningar vakti sérstaka athygli margra, hve mikla áherslu hann lagði á gott samstarf sitt við Davíð Oddsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins. Aldrei varð ég þess var í aðdraganda kosninganna, að Ólafur Ragnar kveinkaði sér undan fréttum eða skoðunum Morgunblaðsins.

Í kosningabaráttunni var hvergi með áberandi hætti rætt sérstaklega um, að fólk ætlaði eða ætti að skila auðu eða sitja heima á kjördag. Sjónarmið af þeim toga eiga sjaldan nokkra málsvara í kosningabaráttu og fyrir því eru ekki haldbær rök, að tengja ákvörðun kjósenda um að sýna hug sinn á þann veg við Sjálfstæðisflokkinn eða Morgunblaðið. Ef slík eftiráskýring  er sett fram í því skyni að gera lítið úr því, sem tölurnar sýna, er hún í besta lagi barnalega en í versta lagi vísvitandi tilraun til að breiða með falsrökum yfir vonbrigði eða áfall vegna niðurstöðu kosninganna.

Þeir, sem sýta, hve margir skilurðu auðu, þar á meðal Ólafur Ragnar Grímsson, hafa sérstaklega beint spjótum sínum að forsíðufrétt Morgunblaðsins á kjördag. Vonbrigði Ólafs Ragnars beinast gegn Morgunblaðinu og í fréttum Stöðvar 2 að kvöldi kjördags var Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og einn ákafasti málsvari Ólafs Ragnars, kallaður út á völl til að hallmæla kjördagsforsíðu Morgunblaðsins. Í samtali við mbl.is sagði Ólafur Ragnar, þegar fyrstu tölur lágu fyrir að kvöldi kjördags:

„Þótt auðu seðlarnir séu teknir með, sem var greinilega línan hjá áhrifaríkum öflum sem vildu beita sér gegn mér í þessum kosningum að hvetja fólk til að mótmæla mér með því að skila auðu og Morgunblaðið mjög framarlega í þeirri fylkingu eins og forsíða blaðsins í dag ber greinilega með sér, þá eru úrslit sem fela í sér, jafnvel þó það sé tekið með, um tvo þriðju landsmanna eða svo, svo afgerandi stuðningur að það er í rauninni hærra hlutfall og meiri stuðningur en ég gerði mér vonir um.“

Hvað er það, sem mátti lesa á forsíðu Morgunblaðsins á kjördag og olli Ólafi Ragnari og stuðningsmönnum hans hugarangri? Jú, þar segir í sterkri fimm dálka fyrirsögn:

Auð atkvæði verða birt

sérstaklega í fyrsta sinn

 

Í inngangi fréttarinnar segir: „Gengið er til forsetakosninga í dag, í sjötta sinn í sögu lýðveldisins. Verður í fyrsta sinn í kosningum sérstaklega tilgreindur fjöldi auðra atkvæða sem kjósendur skila inn en þær upplýsingar hafa hingað til ekki legið fyrir fyrr en nokkru eftir kosningar í samantekt Hagstofu Íslands. “

Á  blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu er rætt við Þórunni Guðmundsdóttur, formann kjörstjórnar í Reykjavík norður, sem sagði, að með því að telja auð atkvæði og ógild um kosninganóttina væri verið að koma til móts við þá, sem vildu vita fjölda auðra atkvæða samhliða öðrum tölum. Það væri ekkert leyndarmál, að ýmsir hefðu lýst yfir því, að þeir ætluðu að skila auðu og þætti kjörstjórnum sjálfsagt að verða við því og taka fjölda auðra atkvæða sérstaklega fram.

Hvernig í ósköpunum unnt er að líta á þetta sem hvatningu til kjósenda til að skila auðu, er með öllu óskiljanlegt. Því síður, að í þessu felist, að Morgunblaðið sé að hverfa frá þeirri stefnu að greina á milli frétta og skoðana eins og Mörður Árnason gaf til kynna í hinu skipulagða eða pantaða „frétta“-viðtali á Stöð2 á kjördag. Viðtalið hafði greinilega tvíþættan tilgang, að hallmæla Morgunblaðinu og hvetja fólk til þess að skila ekki auðu.

Morgunblaðið birti forystugrein um forsetakjörið á kjördag og þar er ekki að finna neina hvatningu til lesenda blaðsins um það, hvernig þeir skuli verja atkvæði sínu. Blaðið rifjar upp andstöðu sína við þá ákvörðun Ólafs Ragnars 2. júní að synja lögum frá alþingi en segir undir lok forystugreinarinnar:

„En hvað svo sem segja má um þær deilur, sem sprottið hafa upp vegna ákvörðunar forseta Íslands frá 2. júní sl., fer ekki á milli mála, að forsetaembættið er þjóðinni mjög kært. Landsmenn eru mjög viðkvæmir fyrir forsetaembættinu. Þeir vilja að menn umgangist það embætti með virðingu. Sú krafa er ekki bara gerð til þeirra, sem utan við standa heldur einnig til þeirra sem gegna embættinu hverju sinni.“

Í ljósi úrslita kosninganna hvílir meiri ábyrgð en áður á Ólafi Ragnari að gæta heiðurs og virðingar embættis forseta Íslands sem sameiningartákns allrar þjóðarinnar. Sé honum annt um þá skyldu, er misráðið af honum, að leggjast í víking gegn Morgunblaðinu eða óskilgreindum „áhrifaöflum“, þegar úrslitin eru kunn. Hann hélt áfram árásum á Morgunblaðið í aukafréttatíma Stöðvar 2 í hádegi sunnudags 27. júní og taldi þar, að blaðið væri að hverfa aftur til tíma „kalda stríðsins“, en í huga gamalla alþýðubandalagsmanna eins og Ólafs Ragnars eru það hinir verstu tímar. Ólafur Ragnar viðraði sömu sjónarmið og Mörður Árnason, að Morgunblaðið  væri með áróður í fréttum og brygðist þannig skyldu sinni sem fjölmiðill.  Í aukafréttatíma sjónvarps ríkisins klukkan 13.00 sunnudaginn 27. júní komst Ólafur Ragnar þannig að orði um Morgunblaðið, að hann vonaði að „blaðið og ritstjórinn nái góðri heilsu á ný,“ en því miður lét fréttamaður undir höfuð leggjast að spyrja nánar út í það, hvaða heilsubrestur hefði orðið hjá blaðinu eða ritstjóra þess.

Ólafur Ragnar tók pólitíska og umdeilda ákvörðun með því því að synja lögum frá alþingi, hann varð „virkari gerandi í stjórnmálum“, svo að vitnað sé til fræðilegs orðalags Ólafs Þ. Harðarsonar prófessors, um að forsetinn hafi tekið til við pólitísk afskipti og þar með breytt eðli forsetaembættisins. Ólafur Ragnar verður að axla ábyrgð á ákvörðun sinni og aðförinni að alþingi, sem í henni felst. Hann getur síður en svo vænst,  að allir séu sammála honum. Davíð Oddsson forsætisráðherra segir réttilega, að úrslit kosninganna sýni, að „hyldýpisgjá“ hafi myndast milli forsetaembættisins og þjóðarinnar.

Velji Ólafur Ragnar að leggja út af úrslitum forsetakosninganna á pólitískum forsendum, stækkar gjáin, sem forsætisráðherra nefndi, enn frekar – fyrsta og æðsta hlutverk forseta er að bera klæði á vopnin.

Reiði í garð Morgunblaðsins  vegna úrslita þessara kosninga er greinilega  mælikvarði á vonbrigði með niðurstöðu kosninganna. Kenningin um að forsíða Morgunblaðsins á kjördag hafi ráðið úrslitum um, hve margir skiluðu auðu, stenst ekki gagnrýni, þegar til þess eins er litið, að kannanir fyrir kjördag höfðu sýnt, að um 20% mundu skila auðu. Forsíðufréttin endurspeglaði strauma, sem höfðu borist til kjörstjórna með óskum um nýbreytni við talningu atkvæða. Hún byggðist einfaldlega á lifandi fréttamati. Árásir á blaðið og hin óskilgreindu öfl, sem eiga að hafa beitt sér gegn Ólafi Ragnari, eru alls ekki trúverðugar, þegar litið er til kosningabaráttunnar eða leitað skýringa á úrslitunum. Þau verða ekki skýrð á annan veg en þann, að Ólafi Ragnari hafi tekist að skapa ágreining um forsetaembættið og uppskeri í samræmi  við það. Um leið og honum eru sendar hamingjuóskir í tilefni af endurkjörinu, er óhjákvæmilegt að hvetja hann og stuðningsmenn hans til að skilgreina stöðuna á raunsæjan hátt og draga ályktanir í samræmi við það.

Víst er, að það er síður en svo til þess fallið að auka samhug um forsetaembættið á þessari stundu, hve eindreginn samhljómur er í málflutningi Ólafs Ragnars og þeirra talsmanna Samfylkingarinnar, sem hafa tekið að sér að túlka niðurstöður kosninganna. Þar gengur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lengst í árásum á Sjálfstæðisflokkinn, eins og við var að búast, en þau Ólafur Ragnar nota svipað eða sama orðalag,  þótt Ólafur Ragnar gangi ekki eins langt og Ingibjörg Sólrún í þeirri dæmalausu viðleitni að snúa vanda forseta, sem varð fyrir áfalli í kosningum, upp í vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn!