25.4.2004

Enn um jafnrétti - fjölmiðlaskýrsla,  frumvarp og Fréttablaðið.

Umræður um jafnréttismál vegna ummæla minna hafa haldið áfram undanfarna daga. Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hélt til dæmis almennan fund um málið síðdegis miðvikudaginn 21. apríl. Þar töluðu tveir lögfræðingar, Dögg Pálsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Bæði átöldu þau kærunefnd jafnréttismála fyrir að færa ekki nein rök fyrir því, að ég hefði brotið gegn jafnréttislögum með kynferðislegri mismunun við val mitt á hæstaréttardómara við skipun Ólafs Barkar Þorvaldssonar. Sjónarmið Jóns Steinars komst síðan inn á fréttasíðu Morgunblaðsins, en í blaðinu hafa einnig birst greinar eftir lögfræðinga, Jóhann Benediktsson, sýslumann á Keflavíkurflugvelli, Þorstein Einarsson hrl. og Hilmar Gunnlaugsson lögmann á Egilsstöðum.  Þeir hafa allir áréttað réttmæti þess, að Ólafur Börkur varð hæstaréttardómari og þar með svarað þeirri makalausu fullyrðingu Sigurðar Líndals prófessors, að engir lögfræðingar væru sammála þeirri ráðstöfun.

Í DV hafa þeir siðapostular, sem rita forystugreinar í blaðið, býsnast yfir því, sem ég sagði um Sigurð Líndal hér á vefsíðu minni í síðasta pistli mínum, þegar ég velti því upp, að söguþekking hans á 20. öldinni virtist ekki mikil, þegar hann teldi mig hafa svipaða afstöðu til hæstaréttar og Jónas frá Hriflu. Ég ætla ekki að árétta hér álit mitt á þeim siðareglum, sem ráða ferðinni á DV. Ég læt orð blaðsins og ávítur mér í léttu rúmi liggja, enda eru skilin milli uppspuna og staðreynda að engu orðin í blaðinu undir hinni nýju ritstjórn þess.

Í ljósi allra þeirra sjónarmiða, sem fram hafa komið frá lögfræðingum um þetta mál undanfarna daga í Morgunblaðinu og annars staðar, var sérkennilegt, að í morgunfréttum hljóðvarps ríkisins klukkan 08.00 laugardaginn 24. apríl var vitnað í grein í Fréttablaðinu þennan sama laugardag eftir Jónas Jóhannsson, héraðsdómara í Hafnarfirði, sem heitir: Tunguna er torvelt að temja og veitist héraðsdómarinn þar að mér. (Jónas var að vísu sagður Haraldsson í fréttinni.) Síðan var að nýju vitnað í þessa sömu blaðagrein í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins sunndaginn 25. apríl. Í sjálfu sér er óvenjulegt, að fréttastofan vitni þannig í aðsendar greinar dagblaða, hitt er þó óvenjulegra, að það sé gert í mismunandi fréttatímum tvo daga í röð. Hvers vegna velur fréttastofan aðsenda grein þessa höfundar en ekki annarra? Kannski af því að hann veitist að mér? Jónas gerði það með stóryrðum í Fréttablaðinu strax síðastliðið sumar, við skipun Ólafs Barkar, þannig að ekki boðaði þessi grein hans neitt nýtt og var ekki fréttnæm af þeirri ástæðu. Varla hefur fréttastofunni þótt fréttnæmt, að héraðsdómarinn gæti ekki tamið tungu sína?

Þessi sami héraðsdómari hefur komist að annarri niðurstöðu, til dæmis í meiðyrðamáli, en hæstiréttur, án þess að nokkur  velti því fyrir sér eða skrifi um það skammargreinar, hvort í þeirri túlkun hans felist tregða til að fylgja lögum eða jafnvel lögbrot. Í þessu sambandi vitna ég í orð mín í umræðum utan dagskrár á alþingi á dögunum: „Hæstiréttur er að fjalla um héraðsdóma og kemst að þeirri niðurstöðu að héraðsdómarinn hafi komist að annarri niðurstöðu en rétt sé miðað við lögin. Fara menn þá að fjalla um hvort héraðsdómarinn sé lögbrjótur eða ekki? Það er alltaf verið að túlka lög, alltaf verið að leggja út af lögum.“

Skondnasta hlið þessa máls birtist í fréttatíma Stöðvar 2 föstudaginn 23. apríl, þegar Sighvatur Jónsson fréttamaður var að segja frá nýjum radarmæli lögreglunnar. Fréttinni lauk á þessum orðum: „En hvað skyldi nú kosta að láta koma sér svona á óvart? Að vera á 90 kílómetra hraða þar sem hámarkið er 60 kostar 20 þúsund krónur. Yfir 100 kílómetrana og þú missir 40 þúsundkall. Fari menn yfir 111 kílómeta hraða missa þeir leyfið í mánuð. Þá dugir lítið að beita rökum ónefndra stjórnmálamanna og segja iss, þessi umferðarlög eru barn síns tíma.“ Hver eru mörkin milli fréttar og áróðurs í starfsreglum Stöðvar 2? Hvernig getur fréttamaðurinn staðið á því, ef á reyndi, að bera saman brot á umferðarlögum og skoðun á áliti kærunefndar jafnréttismála eða vangaveltur um það, hvort lög hafi knúið nefndina til að komast að niðurstöðu, án þess að hún færði skýr rök fyrir því, að ég hefði beitt kynferðislegri mismunun.

Á fyrrnefnum Varðarfundi sagði Jón Steinar Gunnlaugsson meðal annars:

„Við veitingu dómaraembættis er mismunun eftir kynferði ómálefnaleg – konur og karlar iðka sömu lögfræði – í héraði eru dómarar, sem einir dæma mál ýmist konur eða karlar – engum dettur í hug að þeir beiti mismunandi aðferðum við að komast að niðurstöðum í dómsmálunum.“

Í kvöldfréttum sunnudaginn 25. apríl hafði fréttastofa hljóðvarps ríkisins samband við Jón Steinar og reifaði hann rök sín fyrir því, að álit kærunefndar jafnréttismála væri marklaust vegna óvandaðra vinnubragða nefndarinnar.

Dögg Pálsdóttir sagðist á Varðarfundinum ekki síst undrandi á því, að þetta veður skyldi allt gert núna vegna þess, að kona hefði ekki verið skipuð í hæstarétt, miðað við þögnina um sama atriði við hverja dómaraskipunina eftir aðra á undanförnum árum, meðal annars á þeim tíma, þegar aðeins ein kona sat í réttinum.

Fjölmiðlaskýrsla, frumvarp og Fréttablaðið.

Umræður í fjölmiðlum hafa síðustu daga einkum snúist um greinargerð nefndar menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi. Greinargerðin var lögð fram í ríkisstjórn þriðjudaginn 20. apríl og þar kynnti forsætisráðherra einnig hugmyndir sínar um lagafrumvarp í ljósi þess, sem fram kemur í greinargerðinni. Var ákveðið, að ríkisstjórnin hefði tíma til næsta fundar, sem ráðgerður var föstudaginn 23. apríl, til að fara yfir greinargerðina og íhuga tillögu forsætisráðherra. Vegna jarðarfara var ekki unnt að halda fundinn á föstudag. Formenn stjórnarflokkanna Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hittust á fundi í forsætisráðuneytinu síðdegis laugardaginn 24. apríl.  Í dag, sunnudaginn 25. apríl, klukkan 11. 30 var fundur í ríkisstjórn og lauk honum í góðri sátt um efni frumvarps forsætisráðherra rúmlega 12.00. Eftir fundinn tilkynnti menntamálaráðherra, að hún mundi óska eftir því við Halldór Blöndal, forseta alþingis, að greinargerðin yrði til umræðu á alþingi þriðjudaginn 27. apríl. Frumvarp forsætisráðherra fer fyrir þingflokka stjórnarflokkanna á morgun, mánudag. Markmiðið er að afgreiða þetta mál á þingi, áður en sumarleyfi þingmanna hefst.

Ótrúlegt fjaðrafok hefur verið í fjölmiðlum vegna greinargerðarinnar, ekki síst í Baugsmiðlunum svonefndu, það er þeim, sem eru í eign Norðurljósa hf. en fyrirtækið á allan eignarhlut í Íslenska útvarpsfélaginu hf., sem rekur Stöð 2, Stöð 3, Sýn, Bíórásina, Popp tíví, Fjölvarp og sex hljóðvarpsstöðvar, auk þess á fyrirtækið Frétt ehf., sem gefur út DV og Fréttablaðið.

Fyrir okkur, sem höfðum greinargerðina undir höndum sem trúnaðarmál og vinnuskjal á borði ríkisstjórnar, var einkennilegt að fylgjast með þessum hamagangi öllum auk þess sem menn veltu því að sjálfsögðu fyrir sér, hver hefði eiginlega séð sér hag af því að leka efni greinargerðarinnar til fjölmiðla og ýta undir umræður af þeim toga, að allt logaði í illdeilum milli stjórnarflokkanna um málið. Þetta blasti alls ekki svona við okkur, sem erum vön því, að mál séu tekin til umræðu og skoðunar á milli funda í ríkisstjórn í því skyni að spara tíma á fundum ríkisstjórnarinnar og leiða mál til lykta á málefnalegum forsendum með aðstoð sérfróðra aðila.

Fréttablaðið hefur verið með frásagnir af fjölmiðla-greinargerðinni og meintum ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar á forsíðu sinni undanfarna daga.

Fimmtudaginn 22. apríl var fjögurra dálka forsíðufyrirsögn:

Fjölmiðlafrumvarp veldur ágreiningi. Ekki sátt innan ríkisstjórnarinnar um drög að lögum um eignarhald á fjölmiðlum. Framsóknarmenn vilja að farið verði eftir niðurstöðu nefndar um málið en ekki gengið lengra.

Föstudaginn 23. apríl var tveggja dálka forsíðufyrirsögn:

Takmarkað eignarhald. Nefnd um fjölmiðla leggur til að eignarhald á fjölmiðlum verði takmarkað. Nefndin gerir ekki ráð fyrir að slík lagasetning verði afturvirk.

Laugardaginn 24. apríl var fjögurra dálka forsíðufyrirsögn:

Framsókn ekki sátt við frumvarpið. Stjórnarformaður Árvakurs segir að sér lítist ekkert á frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum. Hann segir að „skrýtinn hugsunarháttur“ búi þar að baki. Algjör óvissa um framtíð Norðurljósa.

Sunnudaginn 25. apríl var fjögurra dálka forsíðufyrirsögn:

Engin lausn í sjónmáli. Stjórnarflokkarnir hafa ekki náð lendingu í frumvarpsmáli forsætisráðherra. Framsóknarmenn freista þess að fá samþykkt í ríkisstjórn að frumvarpið verði ekki eins íþyngjandi og Davíð vill.

Ég veit ekki, hvernig sda, blaðamanni Fréttablaðsins, sem samdi fréttina í sunnudagsblaðið um, að engin lausn væri í sjónmáli í framhaldi af fjölmiðla-greinargerðinni, leið, þegar hann hlustaði á fréttir í hádeginu á sunnudag, eftir ríkisstjórnarfundinn, að víst var lausn í sjónmáli, hún fannst þann dag, sem blaðamaðurinn skrifaði frétt sína, og var síðan staðfest af ríkisstjórninni fyrir hádegi á sunnudag. Skynsamlegt væri að minnsta kosti fyrir blaðamanninn að fara yfir það í huganum, hverjir hafi verið heimildarmenn hans að því, að engin lausn væri í sjónmáli, og hvað fyrir þeim vakti með fullyrðingum um það.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, tók málið upp á alþingi föstudaginn 23. apríl og sagði meðal annars:

„Það sem skiptir þó mestu máli, herra forseti, er sómi og virðing Alþingis. Hér er um að ræða mál sem varðar grundvallaratriði um aðkomu löggjafans að atvinnulífinu og það hlýtur að vera frumréttur og krafa hins háa Alþingis að það fái nægan tíma til að leita samráðs og til að kanna jafndjúptækt mál og þetta. Þó segir hæstv. forsætisráðherra að hann geri ráð fyrir því að málið verði afgreitt. Ætlar þessi ríkisstjórn enn einu sinni að beita ofbeldi til að ná fram vilja sínum í þessu máli? Mig langar líka til að spyrja, herra forseti, af því að hér eru margir þingmenn Framsóknarflokksins.  Ætlar Framsóknarflokkurinn virkilega að láta beygja sig til hlýðni enn einu sinni, líka í þessu máli ofan á önnur?“

Í Fréttablaðinu  laugardaginn 24. apríl heldur Össur áfram í sama dúr og segir, að það komi í ljós á næstu dögum hvort „í leggjum Halldórs Ásgrímssonar eru forsætisráðherrabein eða –brjósk.“

Í umræðunum í þinginu sagði Mörður Árnason, að ríkisstjórnin hefði haft þessa skýrslu hjá sér í hálfan mánuð. Hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu veit ég ekki, því að greinargerðin var ekki lögð fyrir ríkisstjórn fyrr en 20. apríl.

Davíð Oddsson forsætisráðherra vék að nefndinni og tengslum við Framsóknarflokkinn í svari sínu við þeim Össuri og Merði.

Davíð sagði meðal annars:

„Í þeirri nefnd [sem samdi greinargerðina] átti m.a. sæti framkvæmdastjóri þingflokks Framsóknarflokksins þannig að eitthvert tal um að ekki hafi verið tengsl við hinn stjórnarflokkinn --- þegar framkvæmdastjóri sjálfs þingflokksins situr í nefndinni --- er auðvitað algjörlega út í hött. …

Það sem hefur hins vegar komið mér á óvart er að Samfylkingin, án þess að hafa séð málið, kynnt sér skýrslu upp á 180 síður, skuli bersýnilega leggjast svona gegn málinu fyrir fram. Ég hlustaði, að vísu úr fjarlægð, á brot úr stefnuræðu Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar í Borgarnesi frá sjálfu forsætisráðherraefninu mikla og þar var auðvitað ákveðið, að það ætti að skipa sérstakan verndarhring í kringum þrjú fyrirtæki, fyrirtæki Jóns Ólafssonar, Baugs og Kaupþings þannig að það er ekkert sem kemur manni á óvart í viðbrögðum Samfylkingarinnar.“

Össur fær að berja sér á brjóst í Fréttablaðinu laugardaginn 24. apríl og segir aðeins tvo menn á Íslandi hafa tekist harkalega á við Baug, hann sjálfur sé annar en forsætisráðherra hinn. Finnst Össuri með ólíkindum, að forsætisráðherra skuli vitna í orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Borgarnesræðu hennar og sýna „hversu gjörsneyddur hann er rökum í málinu.“ Samfylkingin hafi ekki þegið túskilding frá Baugi í síðustu kosningarbaráttu!

Ljóst er, að heimildarmenn Fréttablaðsins eru úr röðum Samfylkingarmanna, sem þrá ekkert heitar en koma illu af stað milli stjórnarflokkanna. Af Fréttablaðinu  má svo ráða, að Samfylkingarforystan nýtur velþóknunar þeirra, sem ráða þar á bæ. 

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins laugardaginn 24. apríl var birt viðtal við Halldór Ágrímsson, utanríkisráðherra og formann Framsóknarflokksins. Þar sagði:

„Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra: Við erum að vinna í málinu á grundvelli þessarar skýrslu. Ég hef lýst því yfir að mér finnst skýrslan góð. Ég tel nauðsynlegt að grípa til lagasetningar á grundvelli þessarar skýrslu. Hér er um viðkvæmt og flókið mál að ræða og það er eðlilegt að það taki einhverja daga að vinna úr því. Þannig að allar sögusagnir um einhvern ágreining eru úr lausu lofti gripnar.

Guðný Kamilla Aradóttir fréttamaður : Og líst þér vel á frumvarpið?

Halldór Ásgrímsson: Mér líst vel á skýrsluna og við erum síðan að vinna í því að koma saman frumvarpi um þetta mál og það er ekki komin niðurstaða í það.“

Þetta gekk allt eftir á ríkisstjórnarfundinum sunnudaginn 25. apríl. Það var lausn í sjónmáli á laugardeginum og hún varð að staðfestri niðurstöðu ríkisstjórnarinnar á sunnudeginum.

Í Fréttablaðinu sunnudaginn 25. apríl fáum við fréttir af því, hvernig Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs, líður vegna alls þessa. Hann fjallar um stjórnmál hér á landi á bls. 4 í blaðinu og segir þau „bera sífellt meir keim af geðþóttaákvörðunum þar sem grundvallarreglur réttarríkisins eru brotnar í hverju málinu á fætur öðru.“ Hann segir greinargerðina um fjölmiðla flausturslega unna, þar sé öllu réttu snúið á hvolf, í raun sé verið að vega að grundvelli frjálsra fjölmiðla í landinu. Lokaorð stjórnarformannsins feitletra ég: „Nú þurfa frjálshuga menn að taka höndum saman og hleypa þessari ógnarstjórn frá.“

 

Ég þurfti að lesa þessi orð tvisvar til að átta mig á því, að Hreinn Loftsson, lögmaður og stjórnarformaður Baugs, telur ógnarstjórn ríkja hér á landi. Þetta hugtak er notað um stjórnarhætti á borð við þá, sem Saddam Hussein beitti í Írak, Pol Pot í Kambódíu, og Stalín í Sovétríkjunum.

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins, útgefandi DV og stjórnarmaður í Norðurljósum hf., skrifar síðan sunnudagsbréf í Fréttablaðið, sem er samfelldur óhróður um Davíð Oddsson forsætisráðherra.

Heift í garð stjórnvalda ræður ríkjum innan Baugsveldisins. Er einsdæmi að stjórnendur verslunar- og fjölmiðlasamsteypu beiti sér með þeim orðum gagnvart ríkisstjórn og löggjafarvaldi, sem við blasir um þessar mundir. Verður spennandi að sjá, hvaða stjórnmálamenn skortir þrek til að standast þetta áhlaup í krafti fjármagns og fjölmiðla.