20.9.2003

Veður hamlar leitum - IISS-ársfundur

 

 

Í dag, laugardaginn 20. september, er ég austur í Fljótshlíð og fór með bændum í morgun á fjöll til leita en við urðum frá að hverfa, eftir að hafa barist við rok og rigningu í um það bil þrjá tíma. Bæði var skyggni of slæmt til að smala og eins var slagviðrið svo mikið að féð húkti í giljum eða við börð og hefði ekki látið að stjórn, ef við hefðum farið að stugga við því. Áttum við raunar nóg með að keppast við að halda okkur á baki, þegar riðið var í vindinn.

 

Hafði ég verið í burtu í sex tíma, þegar ég kom heim aftur um klukkan 13.00, holdvotur að ofan, þótt ég væri í góðum hlífðarfötum. Var heppilegt, að ekki skyldi vera kaldara, en hitinn er um 10 gráður.

 

Þegar við fórum yfir Fiskána á leiðinni upp úr í morgun var hún tær og létt yfirferðar en í bakaleiðinni hafði hún vaxið mikið og var orðin mórauð. Við fórum með hestana í gær að Reynifelli, eyðibýli rétt norðan við Fiská. Þaðan héldum við ríðandi í morgun og vorum komin í Rauðnefsstaði, þegar ákveðið var að snúa við, eftir að við höfðum áð þar í meira en klukkustund í von um, að veður breyttist. Rauðnefsstaðir og fleiri bæir, vestan og norðvestan við Þríhyrning fóru í eyði í Heklugosinu 1947. Er vikurinn nú að mestu gróinn en þó má sjá breiður hans hér og þar.

 

Spáð hafði verið, að snörp lægð mundi valda roki og rigningu á vestanverðu landinu síðastliðna nótt en sagt var, að hún yrði gengin yfir hér um hádegisbilið. Núna um klukkan 15.30 er enn nokkuð hvasst en sólin skín og tiltölulega bjart yfir, samkvæmt spá er þetta þó aðeins stundarglenna, því að veðurstofan varar við stormi og jafnvel fárviðri í kvöld og á morgun, einkum norðanlands.

 

Í göngunum í fyrra var fyrripartur dagsins sæmilegur en síðan skall á dimm þoka og dreifðust þá menn og fé, svo að aðeins lítill hluti safnsins náði til byggða. Ég veit ekki, hvernig bændur ætla að bregðast við núna, hvort reynt verður að nýju í fyrramálið. Veðurspáin lofar ekki góðu um það. Við sjáum hvað setur.

 

Viðbót sunnudaginn 21. september:

Sunnudaginn 21. september klukkan 05.30 vaknaði ég og hélt til leita með Fljótshlíðarbændum klukkan 06.00. Við létum vonda veðurspá ekki hafa áhrif á okkur og vorum heppnir með veður. Það hafði kólnað og snjóað í fjöll frá því daginn áður. Vindur var að suð-vestri og í bakið þegar við riðum um 07.00 frá Reynifelli. Bjart var yfir og þegar við snerum til suðurs var vindáttinn að norðan og verstu kviðurnar voru krafmiklar, þegar leið á daginn.  Hélt ég einu sinni að við klárinn minn mundum hreinlega takast á loft. Klukkan var 15.30 þegar við komum með safnið í réttarhólfið og klukktíma síðar var tekið við að rétta

IISS-ársfundur

Athafnir mínar þennan laugardag eru ólíkar því, sem var fyrir réttri viku, en þá var ég í Leesburg í Virginíuríki, skammt frá Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, og sat þar ársfund International Institute for Strategic Studies (IISS). Hef ég verið félagi í þeim samtökum, en þau eru með höfuðstöðvar í London, í meira en aldarfjórðung. Sótti ég þessa ársfundi nokkrum sinnum á árum áður og nýttust þeir mér vel sem blaðamanni til að skilja og skilgreina meginstrauma alþjóðlegra öryggismála.

 

Nú ákvað ég að fara á ársfundinn til að fræðast vegna starfa minna sem dómsmálaráðherra, því að meðal annars var verið ræða innra öryggi ríkja og ráðstafanir til að tryggja það á tímum hryðjuverka og alþjóðlegra glæpasamtaka.

 

Á tímum kalda stríðsins voru umræður á þessum fundum nokkuð fyrirsjáanlegar. Skipst var á skoðunum um þróun samskipta austurs og vesturs og lagt mat á breytingar, sem tóku mið af hernaðartækni og stefnumörkun undir forystu Bandaríkjanna annars vegar og Sovétríkjanna hins vegar. Nú er myndin miklu flóknari en á þeim tímum og hættan síður en svo minni fyrir íbúa Vesturlandanna, svo að ekki sé talað um upplausn annars staðar.

 

Skilin á milli löggæslustarfa og starfa á vegum herafla eru að verða óskýrari en áður, þar sem hættan, sem steðjar að ríkjum og íbúum þeirra, hefur á sér annan svip en áður. Fyrir skömmu var til dæmis efnt til æfingar í neðanjarðarlestarkerfinu í London til að þjálfa starfsmenn þess og farþega lestanna í viðbrögðum við eiturefnaárás. Vandinn er, hve langt stjórnvöld eiga að ganga við slíkar æfingar. Með þeim má ekki ala á ótta meðal almennings.

 

Þegar mest var rætt um SARS eða HABL, það er bráðalungnabólguna frá Hong Kong, á liðnum vetri, jókst álag á sjúkrahús til mikilla muna víða um heim. Fólk fylltist ótta um, að slæm kvefpest eða þrálátur hósti væri til marks um, að það væri smitað af þessari banvænu sótt. Auðvitað var nauðsynlegt að ræða pestina opinberlega, að sjálfsögðu ekki í því skyni að hræða fólk heldur til að hvetja til varúðar og árvekni.

 

Náskyld umræðum um þetta er ákvörðun, sem ríkisstjórnin tók í sumar um, að gerð skyldi áhættugreining og hættumat hér í Rangárþingi. Var þetta gert að ósk almannavarnanefnda á svæðinu með vísan til þess, að sérfræðingar teldu ekki óhugsandi, að eldsumbrot yrðu í vesturhluta Mýrdalsjökuls eða Eyjafjallajökli. Gætu þau leitt til stórflóða og hamfara hér við Markarfljót. Til að átta sig á viðbrögðum væri meðal annars nauðsynlegt að átta sig á jarðfræðilegum merkjum um fyrri hlaup.

 

Í ráðstöfunum af þessu tagi felst auðvitað ekki spá um, að hamfarir verði eða til árása komi, heldur hitt, að ekki beri að útiloka hættuna. Þess vegna sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að draga sem mest úr tjóni tengdri henni. Einfeldningsleg sjónarmið eins og þau, að ekki eigi að gera öryggisráðstafanir, vegna þess að ekki sé unnt að benda á augljósan óvin, koma ekki fram, þar sem menn stofna til alvarlegra og ígrundaðra umræðna innan vébanda IISS.