11.5.2003

Kosningaúrslitin og veruleiki stjórnmálanna.

Þá liggja úrslit kosninganna fyrir. Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur,  halda meirihluta sínum  með 34 þingmönnum en flokkar í stjórnarandstöðu, Samfylking, vinstri/grænir og frálslyndir fá 29 menn. Hlutdeild stjórnarflokkanna  í greiddum atkvæðum var 51,4% en annarra þingflokka 47,2%.

Úrslit á landsvísu voru þau, að Sjálfstæðisflokkur fékk 33.68%  og  22  þingmenn, hafði 40.74% og 26 þingmenn, tapaði 7% og 4 þingmönnum. Samfylking fékk 30.95%  og 20 þingmenn, hafði 26.78%  og  17 þingmenn, bætti við sig 4,2% og 3 þingmönnum. Framsóknarflokkurinn fékk  17.73%  og 12 þingmenn, hafði 18.35%  og 12 þingmenn, tapaði 0,7% atkvæða. Vinstri/grænir  fengu 8.81%  og  5  þingmenn, höfðu 9.12% og  6 þingmenn, töpuðu 0,4% og einum þingmanni. Frjálslyndir fengu 7.38%  og  4 þingmenn, höfðu 4.17% og tvo þingmenn, unnu 3,21% og tvo þingmenn. Nýtt afl fékk 0,98% og T-listi Kristjáns Pálssonar 0,46%.

Þegar litið er á útkomu Sjálfstæðisflokksins, er hún ekki gleðiefni miðað við fylgistapið síðan 1999, en þá fengum við að vísu óvenjulega góða kosningu. Í sögulegu ljósi eru þessi úrslit flokksins einnig slæm, því að aðeins tvisvar á síðustu 40 árum hefur flokkurinn fengið minna fylgi: 1978 32,7% en þá hafði Geir Hallgrímsson leitt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem lenti skömmu fyrir kosningar í miklum átökum við verkalýðshreyfinguna. Taldi hún stjórnina hafa brotið á umsömdum rétti launamanna með lagasetningu til að takmarka verðbætur á laun; 1987 27,2% vegna framboðs Borgaraflokksins undir forystu Alberts Guðmundssonar.

Að þessu sinni var eins og 1987 um klofningsframboð hægra megin við miðjuna að ræða, Frjálsynda flokkinn, sem stofnaður var fyrir kosningarnar 1999 af Sverri Hermannssyni, fyrrverandi þingmanni og ráðherra flokksins, sem fékk þá Guðjón Arnar Kristjánsson, sem verið hafði verið varaþingmaður flokksins á Vestfjörðum til liðs við sig. Sóttist Guðjón Arnar eftir framboði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum 1999 en til að tryggja konu sæti á listanum var honum vikið úr 3. sæti hans og hvarf þá til samstarfs við Sverri. Eftir að Sverrir hætti formennsku í Frjálsynda flokknum snemma á þessu ári og ákvað að gefa ekki kost á sér til framboðs núna, var Guðjón Arnar kjörinn formaður flokksins og fylgi frjálslyndra fór að glæðast en dvínaði að nýju eftir því, sem nær dró kosningum. Flokkurinn fékk engan mann kjörinn í Reykjavík núna þaðan sem Sverrir kom síðast sem uppbótamaður með Guðjóni Arnari, nú var Margrét dóttir Sverris í efsta sæti í Reykjavík suður en komst ekki á þing.

Ekki var nóg með, að sótt væri að Sjálfstæðisflokknum af þessum fyrrverandi stuðningsmönnum hans heldur bauð Kristján Pálsson, sem verið hafði þingmaður flokksins í Reykjaneskjördæmi, fram sérstakan lista, T-lista, í Suðurkjördæmi og varð hann til, eftir að uppstillinganefnd hafnaði Kristjáni á listann.

Loks er þess að geta, að Ellert B. Schram, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, var í sjötta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, þar sem Samfylkingin náði sigri, þótt Davíð Oddsson skipaði efsta sæti okkar sjálfstæðismanna (en ég var þar í öðru sæti). Þarna voru einnig Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður og forsætisráðherraefni, í framboði.

Klukkan 03.17 á kosninganóttina lágu úrslitin í Reykjavík norður fyrir og þá birtist viðtal vegna þeirra á www.mbl.is við Össur Skarphéðinsson. Hann sagði meðal annars:

„Það er ákaflega ánægjuleg tilfinning að í því kjördæmi sem við töldum fyrirfram vera langsterkasta kjördæmi Sjálfstæðisflokksins að þar skuli formaður Samfylkingarinnar verða fyrsti þingmaðurinn. Það ber ekki síst að þakka mjög öflugri liðsheild og miklum baráttuanda en ekki síst þeirri staðreynd að forsætisráðherraefni okkar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, var í 5. sæti á framboðslista okkar í þessu kjördæmi.  Ég vil líka nefna að í 6. sæti er nýr liðsmaður Samfylkingarinnar, Ellert B. Schram. Ég varð þess áskynja að Ellert á miklu persónufylgi að fagna og það er ekkert efamál að ég nýt þess sem 1. þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þó það sé ánægjulegt að sitja í þessari stöðu þá er hitt miklu meira gleðiefni að við náðum þeim árangri sem við tölum að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er þingmaður í þessu sama kjördæmi.“ 

Þarna birtist það mat Össurar, að framboð Ellerts hafi skipt miklu fyrir Samfylkinguna, hafi auðveldað þeim, sem ella hefðu kosið Sjálfstæðisflokkinn, að styðja Samfylkinguna í Reykjavík norður.

Lokatölur í Reykjavík norður urðu þær að Samfylkingin hlaut 13.110 atkvæði eða 35,8%. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 277 atkvæðum færra, eða 12.833 sem er 35,0%. Framsóknarflokkurinn fékk 4.199 atkvæði eða 11,6%, Vinstrihreyfingin - grænt framboð 3.537 atkvæði eða 9,7%, Frjálslyndi flokkurinn fékk 2002 atkvæði eða 5,5% og Nýtt afl 464 atkvæði eða 1,3%. Alls voru 36.615 atkvæði greidd í kjördæminu en á kjörskrá voru 42.787 og kjörsókn því 85,6%. Auðir og ógildir voru 470 atkvæðaseðlar.

Tölurnar sýna, að mjótt var á munum. Össur Skarphéðinsson er sigurkátur og um leið og honum er óskað til hamingju með þessa niðurstöðu er rétt að minna á, að í starfi þingmanna skiptir almennt litlu, hvort þeir séu fyrstu þingmenn kjördæmis, og alls engu, ef þeir eru jafnframt flokksformenn. Össur sagði við www.mbl.is að gleði sín yfir eigin stöðu jafnaðist þó ekki á við gleði sína þá um nóttina yfir því, að Ingibjörg Sólrún væri komin á þing. Þegar öll atkvæði höfðu verið talin um klukkan 09.00 að morgni sunnudagsins 11. maí í Suðurkjördæmi, kom hins vegar í ljós, að Árni Magnússon í Framsóknarflokki náði kjöri sem annar maður flokksins í Reykjavík norður en Ingibjörg Sólrún verður ekki á þingi.

Við sjálfstæðismenn hljótum að líta í eigin barm og huga að stöðu okkar og starfsháttum í ljósi úrslitanna. Oft er sagt, að flokksstarf og innri rækt við flokka gjaldi fyrir stjórnarsetu og ábyrgð. Í tólf ár hefur meginþungi stjórnmálastarfs okkar sjálfstæðismanna lotið að því að hafa forystu í ríkisstjórn og fylgja störfum þar fram af þunga. Af þeim ástæðum skiptir jafnframt mestu fyrir okkur eins og aðra, þegar úrslitin eru metin, að ríkisstjórnin heldur velli með fimm þingmanna mun.

Er einsdæmi í stjórnmálasögu þjóðarinnar, að ríkisstjórnarflokkur hafi jafnsterka stöðu eftir 12 ára stjórnarforystu og Sjálfstæðisflokkurinn nú og ekki verði unnt að mynda starfhæfa tveggja flokka stjórn án þátttöku hans. Niðurstaða kosninganna afsannaði einnig þá kenningu, að minni samstarfsflokkur sjálfstæðismanna í ríkisstjórn tapi óhjákvæmilega á samstarfinu. Þótt sárt sé að missa fjóra þingmenn og 7% fylgi, hefur það þó þá  hlið, að ekki er unnt að halda þeirri kenningu fram með rökum, að minni flokkar tapi á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Í kosningunum árið 1999 töpuðu framsóknarmenn þremur þingmönnum eftir samstarf við sjálfstæðismenn í fjögur ár. Breytti það engu um stöðu þeirra í ríkisstjórn eða fjölda ráðherra. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn í þeirri stöðu að hafa tapað. Í sjónvarpsviðræðum við Alfreð Þorsteinsson, forystumann Framsóknarflokksins í R-listanum, á Stöð 2 á kosninganóttina heyrði ég hann ræða um það sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut, að ríkisstjórnarsamstarfið héldi áfram eins og áður. Hafði hann greinilega ekki áhuga á, að R-lista-leið yrði reynd við landstjórnina.

Öruggur meirhluti ríkisstjórnarinnar á þingi gerir að engu það meginmarkmið Samfylkingarinnar að fella hana í kosningunum. Það gerðist ekki. Stjórnin hélt velli, þótt að henni hefði verið sótt á þeim forsendum, að það ætti að breyta, breytinganna vegna, því að annað tækifæri gæfist kannski ekki! Forystumennirnir á bakvið Samfylkinguna vita sem er, að það hefur verið þeim þungt að halda út utan stjórnar í átta ár, þeir voru farnir að lýjast verulega, áður en kosningaslagurinn hófst og þess vegna kallaði Össur á Ingibjörgu Sólrúnu, hann vonaði að vísu, að hún gæti boðið sig fram og setið áfram sem borgarstjóri. Það gekk ekki eftir og þá ákvað Össur, að hún yrði forsætisráðherraefni og talsmaður í kosningabaráttunni. Fenginn var liðhlaupi úr Sjálfstæðisflokknum til að styrkja listann með henni í Reykjavík norður, en leikfléttan heppnaðist ekki. Ingibjörg Sólrún er ekki á þingi og Össur hamrar nú á því, að hann hefði verið búinn að ná fylgi flokks síns í meira en 32%, áður en hún kom til sögunnar og þannig jafnvel náð meira fylgi samkvæmt könnunum en úrslitin urðu 10. maí. Ingibjörg Sólrún hefði með öðrum orðum ekki breytt neinu, hann verði endurkjörinn formaður flokksins næsta haust, enda hafi hann og hans menn í þingflokknum gert flokkinn að því, sem hann er.

Var Össur greinilega kominn í sjálfsvörn í Silfri Egils um hádegið 11. maí og kynnti rökin, sem hann mun nota gegn andstæðingum sínum í eigin flokki. Er sjaldgæft að heyra flokksformann eiga slíkt eintal um stöðu innan eigin flokks á opinberum vettvangi en sýnir, að Össur á í vök að verjast í Samfylkingunni, þegar hann heimtar nú óskorað húsbóndavald að nýju. Athyglisvert var að fylgjast með því í sjónvarpi frá kosningahátíð Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún var hyllt þar í beinni útsendingu en Össur hlýddi ekki kalli hennar, þegar hún lét svo lítið að bjóða honum að koma og standa við hlið sér í sviðsljósinu.  Össur sagði að vísu af mildi sinni við Egil Helgason, að yrði Samfylkingin í ríkisstjórn settist Ingibjörg Sólrún í hana, þótt hún sé ekki á þingi. Sérmeðferðinni verður ekki hætt, um það sömdu þau Össur og Ingibjörg Sólrún í í byrjun janúar 2003. Jafnframt taldi Össur, að hann hefði eitthvað annað uppi í erminni til að bæta Ingibjörgu Sólrúnu atvinnumissinn.

Þegar hvorki tókst að fella ríkisstjórnina né að koma Ingibjörgu Sólrúnu á þing, hefur forysta Samfylkingarinnar huggað sig við, að hún hafi rofið „30%-múrinn“. Líklega vita fæstir kjósendur Samfylkingarinnar, hvað í þessu felst, enda voru þeir aldrei hvattir til þess að taka þátt í slíku hástökki. Þetta eru pólitískir loftfimleikar og eftiráskýringar með söguna að mælistiku, en skipta engu í veruleika stjórnmálanna. Þetta er einnig pólitísk sjálfsstyrkingarleið samfylkingarfólks til að unnt sé að sýna fram á, að baráttan hafi þrátt fyrir allt ekki verið háð til einskis.

Veruleiki stjórnmálanna snýst ekki um atkvæðatölur úr fortíð, þótt nota megi þær sem mælistiku, heldur um það hvaða stöðu atkvæðatölur á kjördag skapa flokkum og forystumönnum. Kosningarnar 10. maí breyttu í raun engu fyrir forystumenn Samfylkingarinnar, þeir komust ekki í neina lykilstöðu, þótt þeir skipi efstu sæti í Reykjavík norður og Suðurkjördæmi.  Kosningarnar ollu því, að Ingibjörg Sólrún stendur nú utan við meginstrauma hinna pólitísku ákvarðana. Kosningarnar hafa einnig leitt til þess, að í borgarstjórn Reykjavíkur skortir R-listann póltískan forystumann.