21.7.2001

Árni segir af sér – löng byggingarsaga – sérhæfing í framkvæmdum - pólitíska ábyrgðin.

Ef ég segði ekki eitthvað um mál Árna Johnsens í þessum pistli mínum, yrði það lagt út með þeim hætti, að ég væri að forðast að ræða málið. Á hinn bóginn hef ég sagt svo mikið og margt um það í vikunni, að ég hef í raun litlu við að bæta. Ég set hér inn á síðuna tvö viðtöl við mig, annars vegar úr Morgunblaðinu miðvikudaginn 18, júlí og hins vegar úr DV laugardaginn 21. júlí, þá var ég í Kastljósi þriðjudaginn 17. júlí og Íslandi í dag fimmtudaginn 19. júlí, en 17. júlí var einnig viðtal við mig í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins og í Sumarspeglinum að þeim loknum. Af þessu má sjá, að margt hef ég sagt af þessu dapurlega tilefni og á líklega eftir að segja ýmislegt meira, áður en yfir lýkur.

Ég fór austur á Egilsstaði föstudaginn 13. júlí til að taka þátt í setningu 23. landsmóts UMFÍ. Skömmu eftir að ég kom þangað hafði ritari minn samband við mig og skýrði mér frá því, að fréttamenn vildu ná í mig vegna einhvers máls, sem tengdist Árna Johnsen og Þjóðleikhúsinu. Náði ég Árna í farsíma hans og sagði hann mér, að komið hefði upp smámisskilningur í samskiptum sínum við BYKO. Sending til sín hefði fyrir mistök verið stíluð á Þjóðleikhúsið - þetta væri smávægilegt mál og mundi það leiðrétt. Ég hvatti hann til að fá skýra yfirlýsingu um mistökin frá BYKO, hann taldi það í sjálfu sér óþarft, þetta lægi svo skýrt fyrir. Sagðist ég vona, að þetta leystist á farsælan hátt og síðan kvöddumst við og höfum ekki rætt saman síðan, þannig að ég hef eins og aðrir fylgst með hinni einstæðu atburðarás í fjölmiðlunum.

Sunnudaginn 15. júlí hringdi fréttamaður frá hljóðvarpi ríkisins í mig og einnig blaðamaður DV og sagðist ég ekki vera í aðstöðu til að segja neitt um málið heima hjá mér á sunnudegi, ég yrði að fá tækifæri til að kynna mér það betur og gögn vegna setu Árna í byggingarnefnd Þjóðleikhússins, þegar ég færi til skrifstofu minnar í ráðuneytinu daginn eftir.

Eftir að ég hafði rifjað upp erindisbréfið, sem ég setti byggingarnefnd Þjóðleikhússins í febrúar 1996, og bréf frá því í júlí 1997, sem ég sendi nefndinni með óskum um áætlun um framtíðarframkvæmdir við Þjóðleikhúsið, hafði ég gleggri mynd af stöðu ráðuneytisins gagnvart nefndinni. Skýrði ég forsætisráðherra frá þessari stöðu, þegar við hittumst þennan mánudag en um klukkan 17.00 efndi hann til blaðamannafundar og tók af skarið um það, að Árni stæði einn í þessu máli og yrði að leiða það óstuddur til lykta. Ég svaraði tölvupósti frá blaðamanni Morgunblaðsins og greindi honum frá bréfunum frá því í febrúar 1996 og júlí 1997. Sama mánudag sendi Halldór Blöndal, forseti alþingis, þau tilmæli til ríkisendurskoðunar, að hún færi yfir öll opinber umsýslustörf Árna Johnsens.

Þennan mánudag var að stefna forseta alþingis, ráðherra og forystu Sjálfstæðisflokksins mótuð í málinu. Hefur ekki verið hvikað frá henni síðan. Öll spjót stóðu á Árna sjálfum, sem reyndi að bæta stöðu sína en gerði í raun illt verra meðal annars með því að leiða fjölmiðla í villu og flækja aðra inn í blekkingarvef sinn. Skömmu fyrir hádegi fimmtudaginn 19. júlí hringdi hann í Davíð Oddsson og sagði honum, að hann ætlaði að segja af sér þingmennsku, en strax mánudaginn 16. júlí sagði hann af sér formennsku í byggingarnefndinni.

Löng byggingarsaga

Ég hef leitast við að skýra hlut menntamálaráðuneytisins í þessu máli öllu. Ég skipaði þriggja manna byggingarnefnd og gekk á eftir því hana, að hún skilaði áætlun og tillögum um það, hvernig ljúka ætti endurreisn Þjóðleikhússins og fékk greinargerð um það, sem er dags. í apríl 1999. Þar kemur fram, að það muni kosta meira en 1200 milljónir króna að ljúka þessu verki.

Undanfarin ár hefur verið veitt fé úr Endurbótasjóði menningarbygginga með samþykki alþingis á fjárlögum til viðhaldsverka í Þjóðleikhúsinu, en viðgerðir á safnhúsi Þjóðminjasafns hafa verið forgangsverkefni fyrir fé úr sjóðnum. Sjóðurinn lýtur sérstakri stjórn, sem að hluta er kosin af alþingi, en menntamálaráðherra skipar formann og er hann nú Hermann Jóhannesson, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu. Sjóðnum skal varið til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana, stuðla að verndun gamalla bygginga í eigu ríkisins og bygginga sem vernda þarf að mati Þjóðminjasafnsins og samkvæmt tillögum þess. Stjórn sjóðsins hefur meðal annars haft auga á framkvæmdum við Þjóðleikhúsið og gengið eftir, að um þær yrðu gerðar áætlanir. Hefur hún verið samstiga menntamálaráðuneytinu í því efni.

Framkvæmdir við Þjóðleikhúsið hafa verið innan fjárheimilda á undanförnum árum en um vinnubrögð við þær hefur gilt samkomulag milli formanns byggingarnefndar og forstöðumanns Framkvæmdasýslu ríkisins, eins og forstöðumaðurinn hefur lýst í bréfi til yfirboðara síns, fjármálaráðherra, og birt var í heild í Morgunblaðinu. Þar er staðfest, að Framkvæmdasýsla ríkisins hefur annast greiðslu fjár samkvæmt heimildum í samvinnu við formann byggingarnefndarinnar. Í sumum tilvikum hefur forstöðumaðurinn leitað álits embættismanna menntamálaráðuneytisins vegna greiðslu einstakra reikninga, en ákvörðun um greiðslu hefur verið í höndum forstöðumannsins.

Ég held, að ekki sé unnt að draga réttmæti þeirra verka í efa, sem hafa verið unnin við viðhald Þjóðleikhússins síðan 1996. Í Lesbók Morgunblaðsins í dag 21. júlí er stutt grein eftir Árna Ibsen, þar sem segir meðal annars:

„Allt baksviðs er ógert enn, ástand bakhússins reyndar orðið ægilegt, en með öllu er óvíst hvort samstaða getur nokkurn tíma orðið um að ráðast í kostnaðarsama aðgerð sem almenningur sér ekki. Og hin sögufræga múrklæðning er löngu orðin háskaleg þeim sem leið eiga meðfram húsinu. Á seinustu tíu árum hefur húsið auðvitað haldið áfram að grotna líkt og þjóðar- og söguvitund okkar hefur veikst. Má segja að ástand hússins sé í sjálfu sér tákn um hvar við erum á vegi sem þjóð.

Byggingarsaga Þjóðleikhússins er fróðleg um margt. Og nýjar fréttir herma að hún sé sífellt dæmd til að endurtaka sig. Að minnsta kosti má ætla svo þegar fréttist að Reykjavíkurborg ætli enn einu sinni að draga lappirnar gagnvart framkvæmdum við þetta hús. Það var meðvitaður seinagangur af þeirri sort sem olli því á sínum tíma að húsið hlaut ekki verðuga staðsetningu.

Deiliskipulag Þjóðleikhúsreitsins stendur nú meðvitað í þeim sem sinna borgarskipulagi. Embætti húsameistara ríkisins, sem eitt sinn var, gerði þó mikla úttekt á reitnum og lagði mat á húseignir þar fyrir um tuttugu árum, m.a. til að flýta fyrir deiliskipulagi. Og enn ætlar húsfriðunarnefnd að skáka í skjóli hinna hægfara embættismanna borgarinnar. Samt liggur verk- og kostnaðaráætlun menntamálaráðherra fyrir (sbr. Mbl. 19. júlí.). [Þetta er ekki rétt hjá Árna Ibsen. Það liggur ekki nein slík áætlun fyrir hjá mér heldur greinargerð frá byggingarnefnd um það, sem gera þarf við Þjóðleikhúsið - þeirri greinargerð hefur ekki verið breytt í verk- og kostnaðaráætlun undir minni forystu, því að ekki hafa enn verið veittir fjármunir til að ráðast í stórverkefni við Þjóðleikhúsið. Byggingarnefndin hefur hins vegar unnið að því að fá leyfi til að reisa geymslu við leikhúsið og um hana er ágreiningur.]

Á meðan menn bíða með hendur í skauti heldur tíminn áfram að vinna á húsinu og rándýrar smáskammtalækningar verða hlutskipti þess. Það er við þessar aðstæður sem krónunni er hent en aurinn sparaður. Það er við þessar aðstæður sem menn flikka frekar upp á ónýtar útitröppur en að endurnýja múrhúðun sem er að hrynja fyrir ofan þær. Er hin viðburðaríka byggingarsaga dæmigerð fyrir okkur? Er hún kannski tákræn fyrir þjóðarsöguna?"

Ég birti þessi orð Árna Ibsens hér vegna þess að hann beinir athyglinni að því, sem skiptir mestu, þegar hugað er að framkvæmdum við Þjóðleikhúsið og stöðu þeirra mála. Hvað sem líður máli Árna Johnsens, sem leitt verður til lykta á eigin forsendum, er nauðsynlegt að missa ekki sjónar á nauðsyn þess, að opinber mannvirki séu í sómasamlegu horfi og staðið skipulega og vel að viðhaldi þeirra. Á meðan ekki er viðurkennt, að ár hvert þurfi að veita viðhalds- og endurbótafé til opinberra stofnana, svo að unnt sé að koma í veg fyrir að húsakostur þeirra grotni niður, verður ekki horfið frá núverandi skipan við framkvæmdir.

Sérhæfing í framkvæmdum

Ég hef aldrei litið þannig á, að innan menntamálaráðuneytisins eigi menn að sérhæfa sig í opinberri mannvirkjagerð, og tel, að Fasteignir ríkisins, sem starfa á vegum fjármálaráðuneytis, eigi að fara með umsýslu vegna allra opinberra húseigna. Er til dæmis unnið að því núna að færa húsakost framhaldsskóla landsins frá menntamálaráðuneyti til Fasteigna ríkisins.

Á vettvangi Endurbótasjóðs menningarbygginga hefur verið unnið að því í samvinnu við menntamálaráðuneytið á síðustu árum að koma sér saman um forgangsröðun verkefna og gera ríka kröfu um áætlanir vegna einstakra verka. Þjóðminjasafnið nýtur forgangs núna við fjárveitingar úr sjóðnum eins og áður er sagt. Þjóðleikhús og Þjóðskjalasafn eru stórar stofnanir, sem búa við mikinn vanda vegna skorts á viðhalds- og endurbóatfé. Þeir, sem fylgjast með umræðum um fjárlagafrumvarpið, vita, að hvert haust er ákveðið að taka hluta af tekjum Endurbótasjóðs menningarbygginga og láta hann renna í ríkissjóð. Rökin hafa verið þau, að nauðsynlegt sé að draga úr opinberum framkvæmdum vegna þenslu á vinnumarkaði, einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Sjóðurinn er lögum samkvæmt í vörslu menntamálaráðuneytisins og nýtur sérstaks tekjustofns, sem kom til sögunnar vegna byggingar Þjóðarbókhlöðunnar. Sjóðurinn sinnir að mínu mati mikilvægu hlutverki, á meðan ekki er viðurkennt, að úr ríkissjóði skuli renna ákveðin fjárhæð á hvern fermetra húsakosts menningarstofnana, svo að þær geti sinnt viðhaldsverkum, auk þess sem sjóðurinn stuðlar að verndun gamalla bygginga. Ríkið ætti að viðurkenna almenna fjárskuldbindingu án milligöngu sjóðsins til viðhalds mannvirkjum sínum. Ætti húsnæði menningarstofnana að falla undir Fasteignir ríkisins og þar með létta þeirri skyldu af forstöðumönnum þeirra að vera sífellt með hugann við verklegar framkvæmdir, en við ráðningu þeirra er alls ekki gerð krafa til sérþekkingar þeirra í þeim efnum. Hún á að vera fyrir hendi annars staðar innan hins opinbera kerfis.

Pólitíska ábyrgðin

Eftir að Árni Johnsen sagði af sér þingmennsku er athyglinni beint að öðrum stjórnmálamönnum og þar á meðal mér. Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV, fullyrðir í forystugrein í blaði sínu í dag, að í nágrannaríkjum okkar væru ráðherrar menntamála og fjármála búnir að segja af sér, enn fremur embættismenn ráðuneytanna, sem höfðu með Árna að gera, svo og forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Hér beri hins vegar enginn neina ábyrgð og allra síst stjórnmálamenn.

Fullyrðingar af þessu tagi eru innantómar enda settar fram til að heimta meira pólitískt blóð af ritstjóra, sem löngum hefur fylgt þeirri stefnu, að hann selji blað sitt því meira sem hann geti traðkað meira á stjórnmálamönnum. Upphrópanir um að ráðherrar segi af sér eru þess vegna ritstjóranum tamar. Forvitnilegt væri að vita, hvort hann vissi um nokkurt sambærilegt mál og það, sem hér hefur verið til umræðu síðustu daga, í nágrannaríkjunum. Veit hann um það? Forystugrein ritstjórans einkennist af dylgjum, sem lesendur DV hljóta að vona, að móti ekki fréttastefnu eða skrif blaðsins. Í sama tölublaði og þessi forystugrein birtist er viðtal við mig, sem hnekkir ýmsum fullyrðingum ritstjórans. Skrifar hann í upphöfnu tómarúma? Er það rétt niðurstaða í þessu máli, sem Jónas Kristjánsson lýsir í lok forystugreinarinnar: „Kerfið hefur ákveðið að fórna einum til að friða þjóðina, svo að hinir sleppi. Það hefur ákveðið að hengja Árna fyrir alla." Er það þetta, sem blasir við almenningi eftir atburðarás síðustu daga? Er það ekki frekar hitt, að Árni hafi staðið og fallið með þeim upplýsingum, sem birtust um framgöngu hans í fjölmiðlum? Blaðamenn þurfa ekki síður en stjórnmálamenn að huga að því, hvernig þeir viðhalda trausti og trúverðugleika gagnvart almenningi. Munurinn er hins vegar sá, að stjórnmálamenn leggja málstað sinn undir dóm kjósenda á fjögurra ára fresti, en ritstjórar sitja sem fastast á stól sínum áratugum saman og endurtaka sömu tugguna, hvað sem á dynur.

Ég heyrði einnig Jóhann Hauksson, fréttaritara RÚV á Austurlandi, varpa þeirri spurningu fram í útvarpsþætti, hvort ég hefði gerst brotlegur við lög um ráherraábyrgð. Enginn viðmælanda hans þekkti efni þessara laga og var spurningin skilin eftir í lausu lofti, eins og hún ætti ef til vill við rök að styðjast. Hefði fréttaritarinn haft fyrir því að kynna sér lögin um ráðherraábyrgð, áður en þátturinn, sem hann stjórnaði, hófst, efast ég um, að hann hefði varpað fram spurningu sinni.

Margir hafa heiður að verja, þegar rætt er um mál eins og þetta, ekki aðeins stjórnmálamenn heldur einnig þeir, sem sækja að þeim. Ég hef verið spurður, hvort Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, sé að verja heiður sinn sem fræðimanns, þegar hann setur upp spekingssvip í sjónvarpssal og kemst að þeirri niðurstöðu í beinni útsendingu, að það séu helst þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem tengist ámælisverðri framgöngu með opinbert fé. Þessari spurningu gat ég ekki svarað, enda veit ég ekki hvaða fræðilegum grunni niðurstaða prófessorsins byggist.

Stjórnmálamenn eiga vafalaust eftir að takast á um þetta mál næstu daga og vikur. Ef menn eiga að víkja úr embættum vegna samanburðar við það, sem gerist í útlöndum, hlýtur þó í stjórnmálaumræðum á heimavelli að vera tekist á um mál af þessu tagi í ljósi íslenskra laga og hefða. Verði miklar stjórnmálaumræður eftir afsögn Árna Johnsens og í framhaldi af því að mál hans er upplýst, hljóta þær að ná til fleiri mála af svipuðum toga frá fyrri tíð og hvernig við þeim var brugðist.