22.2.2001

Borgarstjóraumræður – reiðiskrif um menntamál

Þriðjudaginn 20. febrúar birti Hrafn Jökulsson á vefsíðu sinni, Pressunni, frétt þess efnis, að skorað hefði verið á mig að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Strax sama dag tóku fréttamenn að hringja til að leita staðfestingar hjá mér á þessari frétt. Ég lét daginn líða án þess að sinna þessum fyrirspurnum.

Miðvikudaginn 21. febrúar hringdi fréttamaður á hljóðvarpi ríkisins, Sveinn Helgason, í mig, til að leita eftir afstöðu minni til fréttar þess efnis, að borgarlögmaður og menningarmálanefnd Reykjavíkur teldu frumvarp til safnalaga brjóta í bága við stjórnarskrárverndað sjálfstæði sveitarfélaga. Lýsti ég furðu minni á þessari afstöðu, sem stenst engan veginn lögfræðilega og hlýtur því að byggjast á viðleitni til að gera frumvarpið tortryggilegt á annarlegum forsendum. Eftir að við höfðum rætt þetta bætti fréttamaðurinn við spurningu um það, sem stóð á vefsíðu Hrafns og þótti mér ekki ástæða til að leyna því, að um þessi mál hefði verið rætt við mig, en ég teldi, að rétt væri að sjá, hvert þessar umræður leiddu, áður en ég segði meira um málið. Má segja, að eftir að ég leyfði, að þetta yrði haft eftir mér, hafi boltinn byrjað að velta með meiri hraða en ég vænti, ef ég marka þann tölvupóst, sem ég hef fengið eða fyrirspurnir frá öðrum fjölmiðlum.

Engum, sem hefur lesið þessar síður mínar undanfarin sex ár, getur dulist, að mér hefur blöskrað margt, sem R-listinn hefur verið að gera og hef ég síður en svo farið í launkofa með það. Er að mínu mati mikið áhyggjuefni, ef Reykvíkingar eiga eftir að búa við þessa stjórnarhætti enn að loknum næstu borgarstjórnarkosningum, sem fram fara vorið 2002. Líkega er það meðal annars vegna þessara skrifa minna, sem um það hefur verið rætt við mig, hvort ég hefði hug á því taka virkari þátt í baráttunni gegn R-listanum. Eftir að vangaveltur um það mál voru komnar inn á vefsíðu Hrafns Jökulssonar, þótti mér ekki fært að segja annað en hið rétta í málinu.

Síðastliðinn mánudag var ég í Helsinki og fékk meðal annars tækifæri til að ræða þar við embættismenn um starfsaðferðir Finna í vísindum og rannsóknum, en þeir þykja hafa náð langt á því sviði. Ég spurði meðal annars að því, hve margir finnskir háskólastúdentar stunduðu nám við háskóla utan Finnlands. Spurningin kom viðmælendum mínum í opna skjöldu og svöruðu þeir á þann veg, að skipti á nemendum hefði vaxið jafnt og þétt og væru þeir um 4000 á ári, sem færu frá Finnlandi til náms erlendis og sami fjöldi kæmi fra öðrum löndum, hitt, að Finnar stunduðu allt sitt háskólanám erlendis þekktist varla.

Ég hef vakið athygli á því í umræðum um fjárframlög til háskólastigsins hér á landi og samanburð við önnur lönd sleppi menn því gjarnan, að um 29% íslenskra háskólanema stundi nám við erlenda háskóla, þessa verði að gæta, þegar fjárframlög eru borin saman við það, sem gerist annars staðar.

Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV, skrifar reiðilega forystugrein um menntamál í blað sitt í vikunni, þar sem hann ræðst á mig fyrir að benda á þetta og telur, að með því sé ég að víkja mér undan eðlilegum kröfum um aukið fé til íslenskra háskóla auk þess lætur hann í veðri vaka, að Íslendingum sé fyrir bestu, að sem mest háskólanám sé unnt að stunda hér. Ritstjórinn hefði átt að kynna sér, hvað gert hefur verið síðustu ár til að efla háskólanám hér á landi á alla lund, hvort sem litið er til fjölbreytni, fjárveitinga eða húsbygginga, áður en hann tók þetta reiðikast í garð íslenska menntakerfisins.

Ég hef aldrei orðið þess var, að í skrifum sínum um menntamál líti Jónas Kristjánsson til þess, sem er og hefur verið að gerast, heldur er hann haldinn þeirri trú, að íslenska skólakerfið sé á hverfanda hveli og skrif hans mótast af því að sanna réttmæti hennar en ekki raunveruleikanum. Þegar bent er á, að taka verði tölum um alþjóðlegan samanburð með eðlilegum fyrirvara, rýkur ritstjórinn upp á nef sér eins og vegið hafi verið að virðingu hans sjálfs. Því miður skila umræður um menntamál á þessum forsendum ekki neinu, frekar en endranær þegar menn kjósa að hafa staðreyndir að engu.