15.1.2001

Stjórnarandstaðan forðast efnisumræður


Að neitað sé um afbrigði á alþingi er sjaldgæft, því að jafnt stjórn og stjórnarandstaða eiga mikið undir atkvæðagreiðslum af þessu tagi. Meginreglan er sú, að lagafrumvarp skuli liggja frammi í tvær nætur, áður en það er tekið til umræðu, það er því skal dreifa í þingsalnum með þessum fyrirvara, áður en það er sett á dagskrá þingfundar. Hugmyndin á bakvið þetta ákvæði er sú, að þingmönnum gefist færi á því að kynna sér mál, áður en þeir taka til við að ræða það, og að sjálfsögðu er enginn ágreiningur um skynsemi þessa. Hins vegar gera þingsköp, það er reglurnar, sem gilda um fundi alþingis, ráð fyrir því, að unnt sé að veita afbrigði frá þessari meginreglu, enda séu tveir þriðju þeirra, sem atkvæði greiða um tillögu þess efnis, henni sammála.

Alþingi kom var kallað saman í dag, fyrr en ætlunin var, eftir að jólaleyfi þingmanna hófst, til að ræða um frumvarp ríkisstjórnarinnar vegna öryrkjamálsins svonefnda, sem má rekja til dóms hæstaréttar frá 19. desember 2000. Eftir að dómurinn féll, kom fram krafa frá stjórnarandstöðunni um að alþingi yrði þá þegar kallað saman til að fjalla um málið. Ríkisstjórnin hraðaði allri meðferð þess og fól 22. desember sérstökum starfshópi að semja skýrslu um dóminn og viðbrögð við honum. Varð niðurstaðan sú, að leggja þyrfti sérstakt lagafrumvarp fyrir alþingi til að unnt yrði að fullnægja ákvæðum dómsins.

Ríkisstjórn kom saman til fundar miðvikudaginn 10. janúar 2001 og fór yfir skýrslu starfshópsins og ákvað jafnframt, að flutt yrði frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar, til að unnt yrði að framkvæma dóminn. Þá var ákveðið, að alþingi kæmi saman hinn 15. janúar, til að ræða málið, og skyldi afgreiðslu þess flýtt svo sem frekast væri kostur, til að koma til móts við þá öryrkja, sem falla undir dóminn, en fram hefur komið, að það séu um 700 af 8700 manna hópi, en það var Öryrkjabandalag Íslands, sem höfðaði dóminn til viðurkenningar á rétti félagsmanna sinna og taldi niðurstöðu hæstaréttar mikinn sigur fyrir málstað sinn.

Sama dag og ríkisstjórnin ákvað að bregðast við dómi hæstaréttar og kalla saman alþingi voru þingflokkar hennar kallaðir saman og málið rætt í þeim, en þeir féllust á tillögur ráðherra, sem síðan efndu til blaðamannafundar og lögðu öll gögn málsins á borðið. Morgunblaðið birti hinn 11. janúar skýrslu starfshópsins og frumvarp ríkisstjórnarinnar ásamt með tölulegum upplýsingum frá þjóðhagsstofnun.

Alþingi kom saman til fundar mánudaginn 15. janúar klukkan 13.30 eins og ákveðið hafði verið og höfðu, áður en til funda kom, farið fram viðræður undir stjórn forseta þingsins um þinghald í eina viku til að ljúka afgreiðslu frumvarps ríkisstjórnarinnar.

Þegar forseti ætlaði að taka frumvarpið á dagskrá, báðu formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar um orðið vegna tillögunnar um afbrigði, sem var nauðsynleg, þar sem þing hafði ekki setið og frumvarpið því ekki legið frammi í tvær nætur, áður en það yrði tekið til umræðu.Vegna afbrigðanna höfðu stjórnarandstæðingar allt á hornum sér og var sérkennilegast að heyra þá kvörtun þeirra, að þeir hefðu ekki átt þess kost að kynna sér frumvarpið, sem hafði þó verið birt í Morgunblaðinu 11. janúar og á mörgum vefsíðum strax eftir blaðamannafund ráðherra miðvikudaginn 10. janúar. Aðrir báru því við, að þeir gætu ekki staðið að því að meðferð málsins væri flýtt, af því að það snerti brot á stjórnarskrá lýðveldisins, sem hefði þó átt að knýja þá til dáða, þar sem frumvarpið miðar að því að laga lög að stjórnarskrá í samræmi við dóm hæstaréttar. Þegar þessar kvartanir höfðu gengið um nokkra hríð, tók Davíð Oddssom forsætisráðherra af skarið og dró tillöguna um afbrigði til baka, málið kæmi á dagskrá samkvæmt þingsköpun án afbrigða miðvikudaginn 17. janúar.

Fyrir okkur, sem vorum til þess búnir að hefja umræður um þetta mikilvæga mál í þingsalnum og koma því sem fyrst til nefndar í því skyni, að flýta viðbrögðum við dómi hæstaréttar, var furðulegt að verða vitni að þessari framgöngu stjórnarandstöðunnar eftir öll stóru orðin, sem fallið höfðu um nauðsyn skjótra viðbragða. Þegar að því kom að standa við þessi sömu stóru orð, féllu forystumenn stjórnarandstöðunnar á prófinu og komu í veg fyrir, að þetta mikilvæga mál kæmist á dagskrá þingsins, þeir þrösuðu þess í stað um hrein aukaatriði, sem menn setja almennt aldrei fyrir sig við afgreiðslu mála á þingi.

Sérkennilegt var einnig að verða vitni að uppnáminu í liði stjórnarandstæðinga. Það var eins og þeir vissu ekki hvaðan á þá stóð verðið, eftir að málið komst ekki á dagskrá, þótt þeir hefðu sjálfir spornað gegn því, jafnvel þá ábyrgð á eigin gerðum áttu þeir erfitt með að axla. Engu var líkara af framgöngu þeirra en hæstiréttur hefði fært þeim jólagjöf, sem þeir vissu ekki alveg, hvort þau ættu í raun eða væru kannski að glutra niður á fyrsta degi þings til að fjalla um hana. Virðist enn ætla að sannast, að illt sé að setja traust sitt á þessa stjórnarandstöðu, sama hvaða mál henni eru færð í hendur.

Hljóta fleiri en við, sem sátum í þingsalnum í dag og fylgdumst með atgangi stjórnarandstöðunnar, að spyrja: Hvers vegna vildu þeir ekki ræða efni málsins? Af hverju eru þau svona hrædd við efnisumræður um þetta mikilvæga mál?