9.7.2000

Enn um kristnihátíð - dálkahöfundar - skondin Íslandsfrétt

Stundum kemur í hugann, að sumt, sem gerist sé svo stórbrotið, að ekki sé á allra færi að skynja það og viðbrögðin verði þá á þann veg að reyna að smækka atburðinn og gera sem minnst úr honum. Þessi hugsun læðist að mér, þegar ég les margt af því, sem skrifað er neikvætt um kristnihátíðina á Þingvöllum. Er undarlegt að sjá dagfarsprúða menn taka dýfur af hneykslan yfir hátíðinni. Hitt kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að menn reyni að draga að sér athygli og umtal á kostnað hátíðarinnar og þá helst með því að hallmæla henni, þegar fjöldinn, sem sótti hana var minni, en margir væntu.

Morgunblaðið gerði hátíðinni einstaklega góð og almennt jákvæð skil í sérstöku blaði þriðjudaginn 4. júlí. Þar endurpeglaðist sú góða tilfinning, sem ég hafði, eftir að hafa tekið þátt í hátíðinni þá tvo daga, sem hún stóð. Dálkahöfundar blaðsins hafa hins vegar almennt hallmælt því, sem gerðist á Þingvöllum og draga af því stórar ályktanir, að ekki skyldu fleiri hafa komið á hátíðina. Sér Morgunblaðið ástæðu til að setja ofan í við þá í forystugrein í dag, sunnudaginn 9. júlí. Er óvenjulegt, að ritstjórar blaðsins taki þannig opinberlega í lurginn á þeim, sem hafa atvinnu af því að skrifa í blaðið.

Erfitt er að átta sig á því í hvaða samhengi á að setja hina þungu gagnrýni og af hverju hún sprettur. Er um að ræða reiði vegna þeirra fjármuna, sem ákveðið var að verja í hátíðina? Er verið að hallmæla hátíðinni vegna þess, sem þar var í boði? Er andúðin sprottin af reiði í garð presta, biskupa eða kirkju? Brýst þarna fram óvild í garð kristinnar trúar? Er verið að beina spjótunum almennt að þeim, sem fara með almannavald í landinu, alþingi og ríkisstjórn? Ber að túlka andúðina sem lið í baráttu gegn því, að hér sé ríkiskirkja eins og þjóðkirkjan en gjarnan nefnd núna?

Spurningarnar eru í raun jafnmargar og greinarnar, því að af þeim er ekki unnt að draga neina eina ályktun. Við efnum ekki oft til kirkjulegra hátíða af þessu tagi. Í hugann kemur Skálholtshátíðin 21. júlí 1963, þegar dómkirkjan þar var vígð og staðurinn afhentur kirkjunni til eignar. Vegna hátíðahaldanna þá urðu ýmsir fullir hneyklsunar í fjölmiðlum, þótt það væri allt af flokkspólitískari toga en þetta hátíðarandóf núna.

Andófið og andúðin gegn kristnihátíðinni núna er sérstakt rannsóknarefni og er ástæða fyrir forráðamenn kirkjunnar að láta taka saman yfirlit yfir sjónarmiðin, sem þar birtast, ef þau endurspegla á einhvern hátt hug manna til kirkjunnar sem stofnunar. Fyrir hátíðina komst biskupinn yfir Íslandi þannig að orði í 17. júní predikun í dómkirkjunni, að niðurrifsöfl hefðu stofnað til ófrægingarherferðar gegn Þingvallahátíðinni. Eftir hátíðina sagði Sigurbjörn Einarsson biskup í samtali við DV : „Sumt af því sem hefur verið birt á opinberum vettvangi [um hátíðina] minnir á það allra versta sem verstu nasistar og kommúnistar höfðu fram að færa á sínum tíma. Þetta endurspeglar andkristin viðhorf þeirra sem um ræðir.“

Þessi orð hafa verið lögð út af ýmsum með svipuðum hætti og þegar ég var sakaður um að segja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vera fjöldamorðingjann Pol Pot, af því að ég nefndi hann í netpistli sem sögulega skírskotun í sömu andrá og Ingibjörgu Sólrúnu. Nú er ráðist á Sigurbjörn biskup á þeim forsendum, að hann hafi kallað einhverja nasista og kommúnista fyrir að andmæla kristnihátíð, þegar hann nefnir þessi andkristnu stjórnmálaöfl til sögunnar til áhersluauka. Var sagt frá því einhvers staðar, að kæra ætti biskupinn fyrir siðanefnd kirkjunnar vegna þessa og er það enn til marks um að menn vilja láta kné fylgja kviði í andstöðu sinni við kirkjunnar menn í tengslum við þessa hátíð.

Annan atburð má nefna, sem er greinilega of stór í sniðum fyrir suma, en það er, að opnað var Þjóðmenningarhús 20. apríl síðastliðinn, sumardaginn fyrsta. Er verið að hnýta í húsið öðru hverju, gjarnan af þeim, sem nú sjá ofsjónum yfir kristnihátíðinni. Þar byggjast andmælin á því, að stjórnvöld hafi verið of stórtæk í ákvörðunum sínum og nær væri að nýta þetta glæsilega hús með öðrum hætti, þótt hann sé ekki endilega nánar skilgreindur. Einhverjir vildu líklega helst, að í húsinu væru áfram geymd skjöl frá Þjóðskjalasafni og varaeintök Landsbóknasafns Íslands, að húsið væri einskonar opinber skjala- og bókageymsla, sem ekki kallaði á marga og gæti því rykfallið án þess að nokkrir kæmu þar í sjálfu sér nærri.

Í mínum huga er svipuð reisn yfir því að vilja Safnahúsinu framtíðarhlutverk sem bóka- eða skjalageymsla og að snúast jafnan gegn því, ef menn taka ákvarðanir um að gera eitthvað til hátíðabrigða. Naumhyggja á fyllilega rétt á sér en hafi menn hana alltaf að leiðarljósi, rísa þeir sjaldan mjög hátt. Að sjálfsögðu hefur þjóðin burði til þess að standa undir veglegum hátíðarhöldum vegna 1000 ára afmælis kristnitökunnar, merkasta atburðar Íslandssögunnar, sem er einstæður á heimsvísu.

Ég sagði á dögunum hér á þessum stað frá ævisögu Max Frankels, sem lauk blaðamannsstarfi sínu sem ritstjóri The New York Times. Fróðlegt er að lesa um það, hvernig dálkar og fréttaskýringar tóku að ryðja sér rúms í blaðinu og hve varlega var stigið til jarðar í þeirri þróun. Raunar var það svo um nokkurt skeið, að aðeins einn blaðamaður, James Reston, sem starfaði fyrir blaðið í Washington, hafði leyfi til þess að skrifa fréttaskýringar eða segja fréttir með þeim hætti, að hann gæti komið að ályktunum sínum en ekki aðeins beinum staðreyndum eða ummælum eftir heimildarmönnum. Dálkarnir urðu ekki til í því skyni, að höfundar þeirra gætu notað dýrmætt rými blaðsins til að fá útrás fyrir eigin fordóma, gremju eða vonbrigði, heldur var og er tilgangur þeirra að bregða ljósi á atburði líðandi stundar, skýra þá betur fyrir lesendum eða setja þá í stærra samhengi en unnt er með því að skrifa einungis hefðbundnar fréttir.

Morgunblaðið tók upp á því fyrir nokkrum misserum að birta dálka eftir fasta höfunda, en tilgangur þeirra er greinilega ekki að dýpka fréttaflutninginn eða setja atburði líðandi stundar í stærra samhengi á þeim forsendum, sem Max Frankel lýsir í bók sinni, heldur einkennast skrifin af því að halda að lesendum ákveðinni skoðun, sem byggist oft á fordómum, gremju eða vonbrigðum höfundarins. Dálkarnir eru oftar en ekki einskonar Víkverji í öðru veldi, þar sem höfundurinn fær tækifæri til að hella úr skálum sínum undir eigin nafni en nöldrar ekki yfir einhverju smáræði í skjóli nafnleysis.

Er baglalegt, að þessi viðleitni Morgunblaðsins til að gefa blaðamönnum sínum svigrúm til að fjalla um málefni á annan hátt en á fréttasíðunum, skuli hafa þróast á þann veg, að lítill sem enginn munur sé á þessum greinum starfsmanna blaðsins og aðsendum greinum, sem eru almennt ritaðar í því skyni að halda að lesendum skýrum málstað. Í aðsendu greinunum er raunar oft að finna betri upplýsingar til að skýra fréttir líðandi stundar en í þessum dálkum.

Í bókinni segir Frankel frá því, að hann hafi sannfærst um það sem samstarfsmaður Restons í Washington, að hann ætti að fá að skrifa eigin dálk. Þótti Walter Lippmann fremstur dálkahöfunda á þessum tíma og Reston sagði við Frankel, að hann skyldi leita ráða hjá Lippmann, sem Frankel segir, að hafi þrjá morgna í viku ritað gneistandi ferska dálka, sem brugðu ljósi á erfiðustu mál líðandi stundar. Lippmann hafi snætt hádegisverð í Metropolitan-klúbbnum og aldrei setið til borðs með öðrum en öldungadeidarþingmanni, hershöfðingja eða sendiherra, lægra settir fengu ekki að koma að borði hans. Síðan fór hann á skrifstofuna heima hjá sér, las heimsblöðin, hringdi, lagði sig og bjó sig undir að ræða örlög heimsins við kvöldverðarborðið með utanríkisráðherrum, æðstu embættismönnum eða starfsmönnum Hvíta hússins. Þótti Frankel það spennandi að geta fetað í fótspor Lippmanns. Hann var heimspekikonungur, sem hafði í áratugi skrifað snilldarlega um bandarískt lýðræði og óstöðugleika í heiminum. Lippmann blandaði sér einnig óhikað í stefnumótun, sagði forsetum hvað þeir ættu að gera og skrifaði fyrir þá ræður, þegar þeir báðu hann. Frankel segir, að Lippmann hafi verið íhaldsmaður af gamla skólanum, sem vildi að hinir fáu og fremstu héldu um stjórnvölinn en jafnvægi ríkti milli stórþjóða á alþjóðavettvangi, enda hefði hver þeirra sitt áhrifasvæði. Í brjósti hans hafi hins vegar einnig búið öryggislaus púki, sem skammaðist sín fyrir gyðinglegan uppruna sinn og líklega fyrir að hafa á fyrstu árum Hitlers sýnt honum nokkra virðingu á sama tíma sem Franklin Roosevelt naut hennar ekki hjá honum. Þrátt fyrir þetta nutu glæsilegar ritstmíðar Lippmanns athygli allra hugsandi Bandaríkjamanna og Frankel sótti heilshugar ráð hjá honum um líf dálkahöfundarins. Var það í eina skiptið, sem hann snæddi í Metropolitan-klúbbnum, en hann var aðeins opinn hvítum. Lippmann hrósaði Frankel fyrir störf hans í Washington, en sagði, að hann yrði að velja á milli tveggja leiða, vildi hann verða dálkahöfundur. Hann gæti orðið einmana fréttahaukur í kapphlaupi um fréttir við hundruð annarra. Lippmann sagði Joe Alsop vera besta dæmið um slíkan dálkahöfund og bætti við, að hann væri á eftir hverjum mola, sem félli af kvöldverðarborðunum í Washington. Hitt væri skynsamlegra fyrir Frankel að stefna að því að skrifa eins og Lippmann sjálfur, eins og predikari, sem léti atburðina kristallast í eigin lífsheimspeki og lýsingu á þeim mótast af henni. Frankel segist hafa hatað sjálfsupphafningu Alsops og hvernig hann lét hana magna upp allt, sem að honum sneri. En Frankel spurði sjálfan sig að því, hvort hann hefði mótað eigin lífsheimspeki. Hvort hann hefði tileinkað sér hugmyndafræði, sem mundi leiða til þess að skýringar hans byggðust ekki á því að velta hlutunum fyrir sér frá öllum hliðum. Hann segist hafa komist að þeirri niðurstöðu, að sér liði best, þegar hann gæti kynnt sér mál án þess að gæta nokkurra eigin hagsmuna, og þegar hann fengi tækifæri til að skilja hugmyndir og ástríður annarra en væri ekki að lýsa eigin skoðunum eða afla þeim fylgis. Hann væri að eðlisfari fréttamaður og áhugamaður um kenningar og orsakir hlutanna en ekki höfundur þeirra - veðurhani en ekki varphæna.

Í hópi dálkahöfunda, sem nú skrifa í íslensk blöð, finnum við hvorki Reston, Lippmann, Alsop né Frankel, frekar en við eigum sjónvarpsmenn, sem búa til góða viðtals- eða fréttaþætti á forsendum mikillar reynslu og víðtækrar þekkingar.

Í hinni ágætu bók sinni segir Frankel frá einkennilegu atviki, þar sem Ísland kemur við sögu. Hann er í Washington í byrjun sjöunda áratugarins um það leyti, sem Berlínamúrinn er reistur og af því að hann hafði jafnframt verið fréttaritari í Moskvu, var hann hvað eftir annað beðinn að skrifa um Berlínadeiluna í Washington, raunar hafi hann í lok hverrar viku verið beðinn að skrifa um stöðu deilunnar fyrir sunnudagsblaðið og hafi þetta verið sér leiðigjarnt til lengdar. Í mótmælaskyni hafi hann sagt einn laugardagsmorgun, að í stað þess að skrifa enn einu sinni um Berlín mundi hann kasta pílu í símaskrá utanríkisráðuneytisins og finna eitthvað skemmtilegra efni. Al Shuster, samstarfsmaður hans í Washington, hafi tekið hann á orðinu en af því að hann hafði enga pílu notaði hann bréfaklemmu og stöðvaði hana við nafnið á þeim starfsmanni [desk officer], sem fór með málefni Íslands í utanríkisráðuneytinu. Segist Frankel hafa hringt í aumingja manninn heima hjá honum og ávítað hann fyrir að sinna ekki hættuástandinu. á umsjónarsvæði sínu, en maðurinn hafi þá í fullri alvöru sagt, að Bretar hefðu lofað að halda að sér höndum í viku og leyfa ekki neina fleiri árekstra við íslensk fiskveiðiskip á hafi úti. Hefði eitthvað nýtt gerst? Hefði einhver slasast? Frankel sagði, að svo væri ekki, hann væri aðeins að leita eftir staðfestingu á orðrómi, sem væri greinilega ekki á rökum reistur. Þó spurði hann embættismanninn, hvort hann gæti ef til vill sagt sér meira um sáttaumleitanir Bandaríkjamanna á bakvið tjöldin. Hann gerði það og Frankel segist hafa notið þess að geta í eitt skipti skrifað um raunverulegt stríð, fiskveiðistríð í Norðurhöfum.

Nú veit ég ekki, hvernig þessi frétt um fyrsta raunverulega þorskastríð okkar við Breta var, en tilefni þess, að hún var skrifuð er skondið, svo að ekki sé meira sagt. Síðari tíma menn geta hins vegar hæglega dregið þá ályktun af því, að allt í einu hafi birst frétt um málið skrifuð af helsta sérfræðingi New York Times í málefnum austurs og vesturs, að fiskveiðildeilan hafi verið komin á borðið hjá æðstu mönnum Bandaríkjanna, sem þá glímu harkalega við Moskvuvaldið á spennutíma í kalda stríðinu.