6.2.2000

ESB á nýrri braut - framhaldsskólaheimsóknir - þunglyndi

Stjórnarmyndunin í Austurríki er mönnum ofarlega í huga, því að með henni er stigið nýtt skref í evrópskum stjórnmálum. Austurrískir jafnaðarmenn, sem hafa haft undirtökin í stjórn lands síns í marga áratugi og jafnan leitt ríkisstjórn í samvinnu við Þjóðarflokkinn, lenda nú utan stjórnar. Á heimavelli hafa austurrískir jafnaðarmenn tapað og geta ekki myndað meirihlutastjórn. Flokkar með 104 af 183 þingsætum á bakvið sig kjósa að setjast í meirihlutastjórn eftir fjögurra mánaða árangurslausar tilraunir jafnaðarmanna til stjórnarmyndunar. Forseti Austurríkis á ekki annarra kosta völ en fara að vilja meirihluta þings og þjóðar.

Greinilegt er, að sú dirfska Wolfgangs Schüssels, formanns Þjóðarflokksins og fráfarandi utanríkisráðherra Austurríkis, að ganga til stjórnarsamstarfs án jafnaðarmanna og í samvinnu við Frelsisflokk Jörgs Haiders, vekur mikla reiði meðal evrópskra jafnaðarmanna og víðar, og reiðin setur nýjan svip á afstöðu Evrópusambandsins (ESB) til eins aðildarlands þess, en jafnaðarmenn leiða ríkisstjórnir flestra aðildarlanda ESB.

Jörg Haider hefur til þessa skipað svipaðan sess í umræðum um stjórnmál og greiningu á þeim og aðrir stjórnmálamenn, sem velja sér stöðu lengst til hægri í stjórnmálum. Þessir flokkar vilja þó gjarnan láta skilgreina sig sem frjálslynda flokka, liberala, og hafa tekið þátt í alþjóðlegu flokkasamstarfi slíkra flokka. Hvarvetna í Evrópu einkennist stefna flokka á borð við Frelsisflokkinn af efasemdum um evrópsku samrunaþróunina, varað er við yfirstjórnarvaldi ESB og lögð er áhersla á að stemma stigu við fjölda innflytjenda, ítökum þeirra og menningarlegum áhrifum í nýjum heimalöndum þeirra. Við þekkjum slíka flokka frá Norðurlöndunum, þeir hafa stungið sér niður í Þýskalandi og mega sín nokkurs í Belgíu og Frakklandi, sumir vilja einnig skipa Berlusconi á Ítalíu í flokk með Haider. Þótt þetta sé sagt, er mikil einföldun að setja alla þessa flokka undir einn hatt, þeir eru allir afsprengi sérstakra aðstæðna í einstökum löndum og eiga ef til vill ekki annað sameiginlegt en að yfirleitt eru leiðtogar þeirra litríkir og mjög umdeildir. Haider hefur til dæmis látíð í ljós forkastanlegar skoðanir á ferli sínum og daður hans við ýmislegt, sem einkenndi stefnu nasista er með ólíkindum. Í Frakklandi sæta þeir sérstöku ámæli, sem starfa með stuðningsmönnum le Pen þar í landi, en hann er franskur Haider. Á hinn bóginn er ekkert sérstakt veður gert út af því í Frakklandi, þótt kommúnistar sitji þar í ríkisstjórn. Kommúnisminn hefur ekki síður kostað blóðbað í Evrópu og um heim allan en nasisminn, í því efni er ekki unnt að gera upp á milli þess sem er rautt eða brúnt.

Ég hef jafnan haft mikla skömm á stjórnmálastarfi manna á borð við Haider, le Pen og Glistrup. Tel þá ekki trausts verða heldur lýðskrumara, sem slá um sig á kostnað annarra og skjóta sér undan ábyrgð eins lengi og frekast er unnt. Er jafnvel sagt, að Haider ætli að leika tveimur skjöldum í stjórnarsamstarfinu, leyfa flokki sínum að njóta valdanna en halda áfram að gagnrýna allt og alla að eigin vild.

Á hinn bóginn er mjög erfitt að skilja, hvernig forystumenn ríkja Evrópusambandsins ætla að fylgja eftir einangrunarstefnu sinni gagnvart stjórn Austurríkis, sem ekki hefur brotið neitt gegn sáttmálum ESB og starfar í umboði meirihluta þjóðar sinnar. Ýmislegt bendir til þess, að ótti við þróun heimafyrir, fylgisaukningu flokka með svipaða stefnu og Frelsisflokksins í Austurríki, ráði því, að jafnaðarmenn margra Evrópulanda taka höndum saman innan ESB og blása í herlúðra gegn Austurríki. Þar með er tekið nýtt skref í samrunaþróuninni í Evrópu, ESB verður að pólitísku afli, sem beitt er gegn einstöku aðildarríki á flokkspólitískum forsendum.

Franz Josef Strauss, leiðtogi kristilegra demókrata í Bæjaralandi til margra ára og einn öflugasti stjórnmálamaður Vestur-Þýskalands, var um árabil vinsæll skotspónn vinstrisinna og sakaður um að halla sér alltof langt til hægri. Hann svaraði slíkri gagnrýni oft með þeim orðum, að þeir, sem lærðu ekki af sögunni, yrðu að reyna hana sjálfir. Við skulum vona, að Austurríkismenn átti sig á gildi þessarar ráðleggingar. Þeir, sem ætla að dæma þá út af hinum pólitíska sakramenti, ættu einnig að hafa hugfast, að slíkar ögranir í garð heilla þjóða geta hæglega haft þveröfug áhrif.

Í vikunni hélt ég áfram að heimsækja framhaldsskólana og átti þess nú kost að eiga fundi með nemendum og kennurum í tveimur fjölmennustu skólunum, það er Iðnskólanum í Reykjavík og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Fundinn í Iðnskólanum varð að halda í Hallgrímskirkju, því að enginn salur í skólanum rúmar allan nemendaskarann, töldu kennarar, að um 700 nemendur hefðu verið í kirkjunni, en þeir kvörtuðu undan því að hafa heyrt lítið, því að hátalarakerfi kirkjunnar er mjög erfitt viðureignar fyrir þá, sem eru því óvanir og hljóðið berst ekki vel. Mér var sagt, að um 1000 þúsund nemendur hefður fylgst með fundinum í Breiðholti, en þar var þéttstaðið og setið í matsal nemenda og hátalarar voru á göngum skólans. Ég fór einnig í tvo fámennari skóla, Iðnskólann í Hafnarfirði, sem býr við nýjar og glæsilegar aðstæður, og Fjölbrautaskólann við Ármúla, þar sem ég kom í fyrsta sinn í nýtt og glæsilegt anddyri, sem jafnframt þjónar sem samkomusalur.

Nemendur láta alls staðar verulega að sér kveða og spyrja margs. Er ég viss um, að hefði verið efnt til funda af þessu tagi, þegar ég var í skóla, hefðu þeir verið með öðru sniði og við ekki gengið fram með því frjálslega og einarða fasi sem nemendur gera nú. Raunar var ég spurður að því í FB, hvort ég hefði treyst mér til þess 15 eða 16 ára, að ákveða hvort ég vildi fara í bóknám eða starfsnám eða velja aðra leið að loknum grunnskóla. Var þar vísað til þess, að við erum að breyta samræmdu prófunum úr grunnskóla frá með vorinu 2001, gera þau valfrjáls í stað þess að skylda alla til að taka prófin. Fer það eftir fjölda prófa, sem nemandi tekur og árangri á þeim, hvaða kosti hann getur valið á framhaldsskólastigi. Ég sagðist einmitt hafa staðið frammi fyrir þeirri ákvörðun að velja mér námsleið, þegar ég ákvað að fara í landspróf í stað þess að velja eitthvað annað, sem þá var í boði. Í öðrum skóla spurði kennari og foreldri, hvað við ætluðum að gera til að vekja athygli nemenda og foreldra á þessari róttæku breytingu. Ráðuneytið hefur meðal annars látið taka saman efni um málið, sem sent verður til foreldra barna í 8. 9. og 10. bekk grunnskólans. Þá er það mikils virði, að ákvörðun um þessa breytingu er tekin með góðum fyrirvara.

Í heimsóknum í skólana hef ég orðið var við undrun kennara yfir fréttaskýringu í Speglinum í hljóðvarpi ríkisins mánudaginn 31, janúar, þar sem skýrt var frá öflugu skólastarfi Rafiðnaðarsambandsins. Lét fréttamaður í veðri vaka, að það væri til marks um að skólakerfið hefði brugðist, að margir leituðu sér frekari menntunar í Rafiðnaðarskólanum, Viðskipta- og tölvuskólanum og Margmiðlunarskólanum, sem Jón Árni Rúnarsson stjórnar. Ég lít á þessa skóla sem hluta af íslenska skólakerfinu og get ekki séð að öflug starfsemi þeirra sé vantraust á það. Öllum er nauðsynlegt að bæta við sig þekkingu vilji þeir fylgjast með nýjungum í upplýsingatækninni, ekkert skólakerfi getur veitt neinum endanlega kunnáttu á þessu sviði frekar en mörgum öðrum, það getur hins vegar lagt góðan grunn að símenntun og endurmenntun. Nýjar námskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla taka ríkt tillit til upplýsingatækninnar.

Forvígismenn í heilbrigðismálum hafa beitt sér fyrir átaki gegn þunglyndi og umræðum um þennan sjúkdóm, sem leggst á fleiri en vilja viðurkenna það eða átta sig á því. Hafa birst fréttir um góðan árangur af þessu átaki, því að margir hafi leitað til lækna í framhaldi af þessari kynningu. Mér þykir það hins vegar ganga þvert á þetta ágæta átak, að Lyfjaerftirlit ríkisins banni á sama tíma, að St. John's Wort jurtate sé selt í heilsubúðum eða lyfjaverslunum. Berast fréttir af því, að þetta jurtate hafi verið gert upptækt í verslunum hér á landi. Víða um Evrópulönd er unnt að kaupa slíkt te, St. John's Wort hylki eða jafnvel dropa. Þessi jurt er talin vinna gegn þunglyndi, en bannið við notkun hennar hér byggist á því, að hún getur verið hættuleg fyrir þá, sem eru á ákveðnum lyfjum. Spurning er, hvort í þessu efni eins og svo mörgum, sé ekki árangursríkara fyrir opinbera eftirlitsmenn að beita sér fyrir fræðslu og miðlun upplýsinga en boðum og bönnum. Vilji menn ná í mörg efni á bannlista hér eru hæg heimatök á ferðalögum erlendis, því að þar blasa þessi efni við í öllum heilsubúðum. Er áreiðanlega meiri forvörn fólgin í því að upplýsa fólk um hættur og treysta því síðan sjálfu fyrir að fara eftir slíkum upplýsingum en setja á allsherjarbann og krefjast upptöku.