20.6.1999

Skólaumræður

Töluverðar umræður hafa verið um málefni grunnskólans undanfarið vegna upplýsinga um niðurstöður í samræmdum prófum.

Miðlun upplýsinga um niðurstöður samræmdu prófanna gerir skólum og sveitarfélögum nú kleift að meta stöðu skóla sinna í samanburði við aðra. Nýjustu tölur sýna, að það er síður en svo sjálfgefið að í fámennum skólum nái menn verri árangri en í fjölmennum. Glæsileg frammistaða nemenda í Reykholtsskóla í Biskupstungum hefur vakið verðuga athygli. (Ljóst er, að það eru ekki allir, sem átta sig á því, hvar þessi skóli er, til dæmis birtist í Degi mynd af gamla skólahúsinu í Reykholti í Borgarfirði með frétt um niðurstöður samræmdu prófanna, en ekkert skólastarf fer þar fram auk þess sem þar var starfandi framhaldsskóli en ekki grunnskóli. Fyrst ég er að tala um fjölmiðla innan sviga vil ég láta í ljós undrun mína yfir því, að fyrst í dag, 20. júní, segi hljóðvarp ríkisins frá því eins og nýgerðum hlut, að Danir hafi ákveðið að afhenda Færeyingum forngripi úr söfnum í Danmörku. Samkomulagið um þetta var undirritað í Þórshöfn fyrir 10 dögum, það er fimmtudaginn 10. júní í tengslum við fund menningarmálaráðherra Norðurlandanna þar og var það danski menningarmálaráðherrann, sem ritaði undir samningin, en ekki menntamálaráðherrann eins og sagði í þessum síðbúnu hljóðvarpsfréttum.)

Margítrekað hefur verið, að niðurstöður á samræmdum prófum segi ekki allt um starf í einstökum skólum og að fleiru þurfi að hyggja, þegar lagt er mat á skólastarf. Tölurnar eru hins vegar þess eðlis, að auðvelt er að bera skólana saman. Ýmsar ályktanir hafa verið dregnar af tölunum, til dæmis sá ég einhvers staðar, að menn kenndu háu hlutfalli leiðbeinenda um lélegan árangur. Hættulegt er að alhæfa með þessum hætti. Vissulega ber að stefna að því að allir kennarar í grunnskólum hafi full réttindi. Hitt er þó ástæðulaust, að gera lítið úr hlut leiðbeinenda og þeim árangri, sem þeir ná í sínum störfum. Lögum samkvæmt hafa fleiri en réttindafólk heimild til að kenna í skólum og margir leiðbeinendur eru vel menntaðir á sínu sviði, þótt þeir hafi ekki nægilega margar einingar í uppeldis- og kennslufræði.

Oft hafa orðið miklar umræður um framkvæmd samræmdu prófanna. Var hún gagnrýnd og vörpuðu umræðurnar neikvæðu ljósi á þennan mikilvæga þátt í skólastarfinu. Þá var einnig gert mikið úr því, hvernig nemendur höguðu sér síðasta prófdaginn. Hvorugt hefur vakið miklar umræður núna. Menntamálaráðuneytið og Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, sem sér um framkvæmd prófanna í umboði ráðuneytisins, hafa tekið höndum saman um að bæta framkvæmd prófanna og náð góðum árangri. Kennarar og foreldrar hafa tekið til sinna ráða í því skyni að koma í veg fyrir ólæti síðasta prófdaginn.

Nú er sem sagt einkum rætt um árangurinn í samræmdu prófunum. Heyrði ég í einhverjum útvarpsþætti, að þar lögðu viðmælendur áherslu á, að nauðsynlegt væri að stofna til umræðna um skólamál meðal annars í því skyni að lengja skólaárið. Undanfarin ár hafa verið miklar umræður um skólamál. Þær voru meðal annars skipulagðar af menntamálaráðuneytinu vegna útgáfu á nýjum námskrám. Síðla vetrar 1998 efndi ég til fjölmargra funda um allt land og sendur var kynningarbæklingur inn á hvert heimili í landinu. Á þessum fundum var meðal annars rætt um lengd skólaársins, en mín skoðun er sú, að vinnuvika nemenda sé þegar fullskipuð og vilji menn kenna meira á hverjum vetri verði að lengja skólaárið. Ég hef þó ekki lagt til, að skólaárið verði lengt en það er á valdi sveitarfélaga að ákveða lengd skólaársins innan umdæma sinna. Er greinilegt, að sjónarmiðin eru mismunandi eftir því hvar er á landinu. Sumum finnst skólaárið nú þegar of langt. Lengd skólaársins í framhaldsskólum er lögbundið, 9 mánuðir, á sínum tíma var lagt til við alþingi, að þetta yrðu 10 mánuðir, en fékkst ekki samþykkt þar.

Umræður um skólamál eru af hinu góða og með öllu er rangt að halda því fram, að þær hafi skort. Þær mega hins vegar snúast meira um annað en laun og ráðningarmál kennara. Sá þáttur setur alltof mikinn svip á skólamálaumræðurnar. Er engu líkara en fjölmiðlar gefi sér að kennarar bregðist illa við öllum breytingum í skólamálum. Þannig birtist til dæmis lítil frétt í Morgunblaðinu um ályktun sögukennara í framhaldsskólum, þar sem þeir hvöttu til þess að hugað yrði skipulega að nýju námsefni í samræmi við nýjar námskrár. Fréttin bar fyrirsögn, sem var alls ekki í samræmi við efnið, því að höfundur hennar gaf sér einfaldlega þá forsendu, að kennararnir væru að mótmæla nýju námskránni, sem þeir voru ekki að gera.

Ýmsir kennarar og talsmenn þeirra láta nú í veðri vaka, að námskárnar kalli á mikla nýja vinnu og margvíslegt erfiði. Við frágang námskránna hafði menntamálaráðuneytið að leiðarljósi að hrófla í engu við atriðum, sem snerta kjaramál eða kjarasamninga. Í öllum störfum standa menn frammi fyrir því að þurfa að bregðast við nýjungum og breyta vinnubrögðum án þess að það sé talið stangast á við kjarasamninga þeirra.

Síðastliðinn mánudag svaraði ég tveimur óundirbúnum fyrirspurnum á alþingi um grunnskólann. Annars vegar um þær breytingar, sem verið er að gera á yfirstjórn skólamála í Vesturbyggð og hins vegar um skort á réttindakennurum og uppsagnir kennara í grunnskólum. Þingmenn vita að sjálfsögðu, að þeir eru í þessu efni að spyrja um málefni, sem er alfarið á verksviði sveitarfélaganna, enda voru svör mín í samræmi við það. Ég hef leitast við að árétta sjálfstæði sveitarfélaganna í þessu efni og ekki haft afskipti af ákvörðunum þeirra. Telji menn brotin lög vegna skólastarfs hafa þeir leiðir til að leita réttar síns.