2.5.1999

Af kosningafundum og fleiri önnum

Síðustu daga hafa gefist mörg tækifæri til að ræða við kjósendur. Þessi tækifæri gefast bæði á kosningafundum en einnig á annars konar fundum og mannamótum. Tvo kosningafundi ætla ég að nefna hér sérstaklega.

Um hádegisbilið fimmtudaginn 29. apríl sótti ég fund fyrir frambjóðendur í Reykjavík í Iðnskólanum í Reykjavík. Þar vakti framganga Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, sem skipar 10. sæti á fylkingu vinstrisinna í Reykjavík, sérstaka athygli mína. Er með ólíkindum, hvernig hann kynnir málstað fylkingarinnar, með neikvæðum hætti og ósannindum. Honum er sérstaklega uppsigað við mig, eins og áður hefur komið fram hér á þessum síðum. Þegar menntamálaráðuneytið boðaði til menntaþings haustið 1996 var Vilhjálmur í forystu stúdentaráðs og reyndi að spilla fyrir þinginu með sérstöku námsmannaþingi í tjaldi við Hótel Sögu. Nú fer hann um skólana og lýgur því að nemendum, að ég hafi boðað skólagjöld. Hann segir einnig, að undir stjórn sjálfstæðismanna hafi Íslendingar verið afvopnaðir í menntamálum. Þegar hann ræðir fjárveitingar til menntamála byggjast tölur hans á gögnum frá 1995! Hann hefði átt að sækja ársfund Rannsóknarráðs Íslands og hlusta þar á lýsingu fulltrúa OECD á þeirri breytingu til batnaðar, sem orðið hefur í rannsóknum og vísindum hér á landi á síðari helmingi þessa áratugar. Hvarvetna er gróska í menntamálum og meira hefur verið unnið að umbótum á því sviði undanfarin ár en nokkru sinni fyrr á jafnskömmum tíma.

Drífa Snædal, fyrrverandi formaður Iðnnemasambandsins, var á þessum fundi sem frambjóðandi vinstri/grænna. Hún er andvíg því, að með einkaframkvæmd sé verið að reisa nýtt hús yfir Iðnskólann í Hafnarfirði. Hefur hún talið sjálfri sér trú um, að einkaframkvæmd jafngildi því að skólinn verði einkaskóli og muni taka upp skólagjöld. Sýnir þetta, að vinstri/grænir gera sér miklar grillur yfir því, að ríkið er ekki látið gína yfir öllu, stóru og smáu.

Ólafur Örn Haraldsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins, var í loforðastellingunum auk þess sem hann þakkaði framsóknarmönnum allt gott, sem gerst hefði á kjörtímabilinu. Meðal annars sagðist hann sérstaklega vilja upplýsa fundarmenn um það, að framsóknarmenn hefðu tryggt iðnnemum fulltrúa í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna. Er furðulegt að hlusta á þetta sjálfshól framsóknarmanna um mál, sem hafa verið í mínum höndum og hefði iðnnemi ekki fengið sæti í stjórn LÍN nema af því að ég flutti um það tillögu. Ólafur Örn hefur ekki lengur þrek til að standa að endurinnritunargjaldinu í framhaldsskólunum, sem framsóknarmenn hafa stutt til þessa og ekki hreyft neins staðar við okkur samstarfsmenn sína, að þeir vildu fella það í burtu.

Í hádeginu föstudaginn 30. apríl vorum við frambjóðendur í Reykjavík á fundi með starfsmönnum Stöðvar 2. Var hann með því sniði, að við höfðum 5 mínútur til að lýsa ágæti eigin flokks og stefnu og síðan 1 mínútu á flokk til að segja kjósendum, hvers vegna þeir skyldu ekki kjósa viðkomandi flokk. Sérstaka athygli mína vakti, hve lítill sannfæringarkraftur var í máli Össurar Skarphéðinssonar, þegar hann ræddi um fylkingu vinstrisinna og hlutverk hennar að kosningum loknum. Um og upp úr áramótunum voru fylkingarmenn jafnvel farnir að tala um, að þeir fengju hreinan meirihluta og yrðu fleiri á þingi en sjálfstæðismenn að kosningum loknum. Þróunin hefur orðið á annan veg, í ljós kemur, að fylkinguna skortir allan slagkraft.

Jónína Bjartmarz var þarna fyrir Framsóknarflokkinn og hélt fram þeim málstað, að sporna yrði gegn Sjálfstæðisflokknum, af því að svo margir kjósendur ætluðu að styðja hann. Ég sagðist ekki geta mælt með því að fólk kysi framsókn, úr því að hún hefði svona mikla minnimáttarkennd, þá þætti mér ekki sannfærandi flokkur, sem þyrfti að eigna sér allt hið góða, sem áunnist hefði stjórnarsamstarfinu, auk þess sem loforðaflaumur framsóknar væri ótrúverðugur.

Fylkingin og aðrir tala mikið um gjafakvóta, án þess að fjölmiðlamenn spyrji þá, hvaða hugtak þetta sé. Hvað stendur á bakvið það? Er verið að skilgreina þá aðferð, sem var höfð uppi 1983, þegar kvótakerfið kom til sögunnar? Eða er verið að vísa til þess, að í tveimur tilvikum var kvóti látinn fylgja skipstjórum? Annar þeirra, sem fékk slíkan kvóta, var Ágúst Einarsson, þingmaður fylkingarinnar.