29.11.1998

Flokkadráttur - 1. desember

Deilurnar meðal andstæðinga Sjálfstæðisflokksins taka á sig sérkennilegar myndir. Furðulegast er að fylgjast með því, sem gerst hefur undanfarna daga vegna Frjálsynda flokksins. Hefur sjaldan eða aldrei tekist jafnilla að stofna stjórnmálaflokk og þennan. Sverrir Hermannsson varð að laumast til að stofna flokkinn á blaðamannafundi fimmtudaginn 26. nóvember og var síðan sakaður um að hafa stolið stefnuskrá hans frá þeim, sem stofnuðu Frjálsynda lýðræðisflokkinn laugardaginn 28. nóvember. Þeir, sem að þeirri flokksstofnun stóðu, eru hins vegar sakaðir um að stela nafni flokksins frá Frjálslynda flokknum og Lýðræðisflokknum, sem starfar undir forystu Ástþórs Magnússonar, ef rétt er munað. Þá var sagt frá því, að um 30 manns hafi sótt stofnfund Frjálslynda lýðræðisflokksins í stað þeirra 300, sem fyrirfram áttu að sækja fundinn. Meðal annars var annar þeirra, sem boðaði til stofnfundarins með mynd af sjálfum sér í Morgunblaðsauglýsingu ekki á fundinum.

Flokkadrættirnir vegna Frjálslynda flokksins birtast ekki aðeins í gagnkvæmum persónulegum árásum um undirmálsmenn og þjófnaði, heldur hefur Sverrir Hermannsson verið sakaður um fasisma, hvorki meira né minna. Hann þoli ekki aðra skoðun en sjálfs sín og vilji ekki starfa með þeim, sem krefjast lýðræðislegra vinnubragða. Sverrir telur sig þó ekki muna um, að kippa flokksmönnum Frjálsynda lýðræðisflokksins inn í flokkinn sinn og Bárður Halldórsson, sem sakaði Sverri um fasisma bauð honum sáttahönd!

Framboðsraunir vinstri bræðingsins eða samfylkingarinnar í Reykjavík eru miklar. Kjarni málsins er sá, að of margir sitjandi þingmenn vilja halda sætum sínum, en ekki er unnt að tryggja það, þegar litið er til þess litla fylgis, sem bræðingurinn nýtur meðal almennings. Össur Skarphéðinsson telur, að hann sigri í prófkjöri, Svavar Gestsson er hins vegar hræddur um að verða illa úti og jafnvel utan þings nema prófkjörið verði með öryggsineti fyrir hann. Þegar litið er á átök þessara tveggja fyrrverandi ritstjóra Þjóðviljans og forystumanna Alþýðubandalagsins og haft er í huga, að Jóhanna Sigurðardóttir klauf sig á sínum tíma frá Alþýðuflokknum, er unnt að slá því föstu, að Alþýðuflokkurinn er úr sögunni sem pólitískt afl í Reykjavík. Hann hefur einfaldlega lagt upp laupana, kjósendur á vinstri kanti geta valið á milli tveggja eða þriggja Alþýðubandalaga.

Nú eru 80 ár liðin frá því, að sambandslögin tóku gildi 1. desember 1918. Með þeim náðist samkomulag um það milli Dana og Íslendinga, hver skyldi vera staða Íslands innan danska ríkisins. Undir forystu Jóns Sigurðssonar mótuðu Íslendingar þá stefnu um miðja síðustu öld, að innan danska ríkisins ættu Íslendingar milliliðalaust samband við danska konunginn en hvorki í gegnum danska þingið né ríkisstjórn Danmerkur. Með sambandslögunum varð Ísland fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku.

Þess hefur gætt hjá ýmsum undanfarin ár, að þeir telja 1. desember marka meiri þáttaskil í sögu þjóðarinnar en stofnun lýðveldis 17. júní 1944. Birtist þessi skoðun meðal annars í Morgunblaðsgrein í dag, 29. nóvember, eftir Jón Þ. Þór sagnfræðing. Er látið í veðri vaka, að allar ákvarðanir í sjálfstæðismálum þjóðarinnar eftir þetta hafi legið í hlutarins eðli. Ég er ekki sammála þessu. Stundum mætti ætla, að þeir, sem þannig tala séu að bera blak af þeim, sem snerust á sínum tíma gegn því, að lýðveldið yrði stofnað 17. júní 1944 og héldu uppi hræðsluáróðri um að konungur og Danir myndu aldrei fyrirgefa Íslendingum að stíga þetta örlagaríka skref, á meðan Danmörk var hernumin. Þegar þessar ákvarðanir í sjálfstæðismálunum voru teknar, var ekki ljóst, hver yrði þróun styrjaldarinnar eða hvernig málum Danmerkur yrði háttað. Íslendingar þurftu hins vegar tryggja stöðu sína í sjálfstæðu ríki og gerðu það með stofnun lýðveldisins.

1.desember er ekki lengur almennur frídagur, hins vegar minnast stúdentar í Háskóla Íslands hans og fullveldisins með því að efna til hátíðar. Er hún þó svipur hjá sjón frá því sem áður var. Sjálfsagt er að hafa inntak sambandslaganna í huga og minna á það, hvaða árangur náðist í sjálfstæðisbaráttunni þennan dag fyrir 80 árum. Þegar fram líða stundir kann að þykja við hæfi að efna til hátíðar og minnast þess þegar síðasti erlendi togarinn sigldi út úr 200 mílna efnahagslögsögunni og rifja samtímis upp, hvernig staðið var að baráttunni fyrir þessum lokasigri í landhelgisdeilunni. Slíkur dagur kæmi aldrei í staðinn fyrir þjóðhátíðardaginn.

Ef við hefðum ekki stofnað lýðveldi, hefðum við konung Danmerkur sem þjóðhöfðingja en ekki forseta. Umræður síðustu daga sýna, að ýmsir telja, að skilgreina eigi forsetaembættið upp á nýtt. Ljóst er, að það verður ekki gert af þeim, sem í embættinu situr, því að hann ber ekki ábyrgð á stjórnarathöfnum og gegnir ekki pólitísku hlutverki. Um breytingar á forsetaembættinu er ekki heldur tekist í forsetakosningum, því að þar er verið að kjósa sameiningartákn þjóðarinnar. Meirihluti Alþingis getur lagt það fyrir þjóðina með stjórnarskrárbreytingu, að inntak í starfi forseta breytist. Miklar umræður verða um stjórnarskrána nú á síðustu mánuðum þings fyrir kosningar, þegar teknar verða ákvarðanir um breytingu á kjördæmaskipaninni. Engar tillögur hafa komið fram um að breyta ákvæðunum um forsetaembættið en á Alþingi er rétti vettvangurinn til að beita sér í því efni sé talið nauðsynlegt að skilgreina stöðu þjóðhöfðingjans með nýjum hætti í ljósi nýrra krafna.