25.10.1998

Leiklistarumræður - Háskólinn á Akureyri - menningarstyrkir

Í fyrra lagði ég fram frumvarp til leiklistarlaga á Alþingi. Náði það ekki fram að ganga, án þess þó að beinlínis yrði látið á það reyna, hvort meirihluti væri fyrir því á þinginu, því að frumvarpið var aldrei afgreitt út úr menntamálanefnd þingsins, eftir að hún hafði leitað umsagnar hjá ýmsum í leiklistarheiminum eða geiranum, eins og æ fleiri orða það. Í frumvarpinu eru sameinaðar breytingar á tveimur 20 ára gömlum lögum, sem eru orðin barn síns tíma vegna endurbóta á ýmsum lögum um afskipti ríkisvaldsins og stjórnarhætti í ríkisstofnunum.

Afstaða manna til leiklistarlaga ræðst ekki af flokkspólitískum ástæðum, heldur snúast umræður um tæknileg atriði, sem að öðrum þræði eru menningarpólitísk og hinum byggðapólitísk Menningarpólitíkin er um það, að setja beri í lög ákvæði um að sami maður megi ekki gegna embætti þjóðleikhússtjóra lengur en ákveðinn árafjölda, tíu ár nefna flestir, sem vilja setja þak, 15 ár hafa einnig verið nefnd. Ég fellst ekki á þetta sjónarmið. Meginrök mín eru þau, að ekki beri með lögum að banna ríkinu að hafa menn í þjónustu sinni, sem sýna árvekni, dugnað og samviskusemi í störfum sínum og njóta almenns trausts. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir því, að á fimm ára fresti sé embætti þjóðleikhússtjóra auglýst laust til umsóknar. Starfsöryggi hans er því minna en almennt gerist um embættismenn. Rök þeirra, sem vilja þak, byggjast á fortíðarvanda í Þjóðleikhúsinu, það er að menn óttast, að þjóðleikhússtjóri verði eilífur augnakarl og ekki sé unnt að losna við hann nema með miklum harmkvælum. Þetta fólk virðist ekki átta sig á þeim breytingum, sem almennt hafa orðið á högum embættismanna að þessu leyti, frá því sem áður var. Hitt atriðið, byggðapólitíkin, snýst um það, að með því að Leikfélag Akureyrar er ekki nefnt í lögunum, sé verið að vega að eina atvinnuleikhúsinu utan Reykjavíkur. Þetta er einfaldur og skrýtinn áróður, því að núgildandi lög veita Leikfélagi Akureyrar enga tryggingu, sem það hefur ekki með frumvarpinu.

Fyrir utan að ræða þetta í nokkra klukkutíma á Alþingi fimmtudaginn 22. október, efndi ég fimmtudaginn 15. október til sérstaks fundar með forvígismönnum leiklistar og fór yfir málið með þeim, einnig ræddum við Svanfríður Jónasdóttir, þingmaður jafnaðarmanna, þetta í Þingsjá, sem var send út laugardaginn 24. október, en Svanfríður hefur snúist einna mest gegn frumvarpinu af þingmönnum og segist í því efni vera sérstakur málsvari Leikfélags Akureyrar eða landshlutaleikhúsa, sem er norskt hugtak og notað við mótun styrkjastefnunnar þar. Hefur verið áberandi á öllum þessum fundum, að ekki er samhljómur í málflutningi gagnrýnenda, einum finnst það gott, sem öðrum þykir slæmt. Furðulegast þótti mér, að í Morgunblaðinu hélt Hávar Sigurjónsson því fram í pistli, að frumvarpið hefði þann galla, að hafa verið samið af embættismönnum. Ég skil ekki, hvers vegna þetta er galli, ef tekið er mið af umræðum og áliti nefnda, sem hafa fjallað um viðkomandi málaflokk, auk þess sem frumvarpið var víða kynnt á síðasta vetri áður en það var lagt fram og fékk fjöldi manna utan ráðuneytisins tækifæri til að segja álit sitt á því. Staðreynd er, að embættismenn eru best að sér um þær almennu breytingar, sem orðið hafa á stjórnarháttum og stjórnsýslu og leggja verður til grundvallar við gerð frumvarps á borð við þetta.

Frumvarpið er nú komið í annað sinn til menntamálanefndar Alþingis og hef ég lagt á það áherslu, að afgreiðslu þess verði flýtt.

Háskólinn á Akureyri hefur starfað síðan 1987. Föstudaginn 23. október var tekin fyrsta skóflustunga að nýbyggingu fyrir hann að Sólborg en það hús á fögrum stað í hjarta Akureyrar fékk skólinn til umráða fyrri hluta árs 1995. Hafa þegar verið gerðar góðar endurbætur á húsakosti þar í þágu skólans, nú á sem sé að ráðast í að reisa þar kennsluhúsnæði og síðan aðstöðu til annarrar starfsemi.

Af þessu tilefni fór ég norður á Akureyri og flutti meðal annars ræðu við hátíðlega athöfn eftir að ég hafði tekið fyrstu skóflustunguna með aðstoð Þorsteins Gunnarssonar rektors. Ég held, að við sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu gerum okkur enga grein fyrir því, hve mikilvægur Háskólinn á Akureyri er fyrir þá, sem þar búa, auk þess sem stjórnendur hans hafa óhikað dregið athygli að gildi menntunar, þegar búseta í landinu öllu er til umræðu.

Hef ég víða orðið var við það á ferðum mínum, hve skilningur á gildi þess, að háskólamenntað fólk fái störf við hæfi í hinum dreifðu byggðum, er að aukast. Menn sjá það alls staðar, hve miklu þetta skiptir fyrir svo margt annað en þau störf, sem krefjast háskólamenntunar. Leiklist og hvers kyns menningarstarf er einnig til þess fallið að festa fólk í sessi.

Ég sá, að gamall og góður starfsfélagi minn á Morgunblaðinu, Ásgeir Sverrisson, taldi í pistli sínum í blaðinu, að það væri ekki rétt forgangsröðun í þjóðfélaginu að verja rúmlega 500 milljónum króna af opinberu fé til að standa að ýmsum verkefnum undir merkinu Reykjavík - menningarborg Evrópu árið 2000. Ef menn líta á slík framlög sem einhvern munað og telja, að ekki eigi styrkja menningar- og listastarfsemi úr opinberum sjóðum, er unnt að fallast á þetta sjónarmið Ásgeirs. Séu menn hins vegar þeirrar skoðunar, að menningar- og listastarfsemi sé liður í því að gera lífskjör okkar almennt bærilegri, er eins unnt að rökstyðja framlög til þeirra og hinnar almennu heilbrigðisþjónustu. Mörg dæmi eru um að velheppnað átak í menningarmálum hafi breytt hugmyndum íbúa í borg eða héraði um sjálfa sig og einnig ímynd þeirra út á við. Hefur þetta til dæmis oftar en einu sinni gerst í tengslum við menningarborgarverkefnið, og síst erum við stórtækari í ráðstöfun á opinberu fé til þess en aðrar þjóðir.

Í störfum mínum sem menntamálaráðherra hefur hvað eftir annað komið mér á óvart, hvað tiltölulega litlar fjárhæðir í styrki, geta skipt miklu fyrir þá, sem eru að starfa að menningu og listum. Er ég sannfærður um, að með því að hlú að lista- og menningarstarfi á höfuðborgarsvæðinu erum við í senn að gera Ísland allt meira aðlaðandi til búsetu fyrir sífellt kröfuharðari neytendur á öllum sviðum og við erum einnig að mynda stíflu, ef ég má orða það svo, til að halda fleirum í landinu en við gætum ella gert. Auðvelt er að gera opinberar styrkveitingar á þessu sviði eins og öðrum tortryggilegar og láta eins og þar sé frekar um sóun á skattfé að ræða en fjárfestingu, sem gefur arð.