8.10.1998

Frakklandsferð - dr. Charcot - UNESCO

Við Rut héldum til Parísar föstudaginn 2. október, daginn eftir að Alþingi var sett og Davíð Oddsson flutti stefnuræðu sína. Þingsetningin var með nýju sniði. Fer vel á því, að forsætisráðherra geri þingi og þjóð strax á fyrsta degi grein fyrir meginatriðum í stefnu ríkisstjórnarinnar. Hins vegar getur orkað tvímælis að höggva umræðurnar um stefnuna í sundur eins og gert var.

Hafi stjórnarandstaðan verið sundurleit fyrr á kjörtímabilinu er hún orðin ennþá sundurleitari núna, þrátt fyrir samfylkinguna. Var athyglisvert, að ræður fulltrúa stjórnarandstöðunnar snerust ekki síður um ávirðingar hver annars en gagnrýni á ríkisstjórnina. Sérkennilegt er einnig að fylgjast með því, að samfylkingaráráttan þokar stjórnarandstöðuflokkunum frekar til vinstri heldur en hitt, því að þeir eru farnir að keppa um einhver sérviskuleg málefni, sem skipta litlu sem engu nema í innbyrðis kapphlaupi þeirra. Við hinir sitjum og hlustum undrandi á það, sem um er deilt, eins og til dæmis, hvort Ísland eigi að vera í NATO eða herinn að fara. Hvernig er unnt að taka þá menn alvarlega sem stjórnmálamenn á þessum tímum, sem halda því blákalt fram, að Ísland eigi að verða varnarlaust? Engu að síður eru þau Steingrímur J. Sigfússon og Margrét Frímannsdóttir nú farin að keppa um þessa stefnu og Margrét stofnar á sama tíma til pólistísks bandalags við Alþýðuflokkinn.

Við höfðum stutta viðdvöl í París og héldum þaðan í lest með Sverri Hauki Gunnlaugssyni sendiherra til bæjarins Saint-Malo á Bretagne-skaga. Þar vorum við gestir borgarstjórnarinnar í tvær nætur en laugardaginn 3. október afhenti ég bænum sem gjöf frá ríkisstjórn Íslands styttu, sem Einar Jónsson gerði í minningu skipstapa dr. Charcot haustið 1936, það er þegar skip dr. Charcot, Pourquoi-Pas? fórst við Álftanes á Mýrum.

Þegar þess var minnst 1996, að 60 ár voru liðin frá þessu hörmulega sjóslysi var ég í safni Einars Jónssonar og sá þar þessa styttu, vaknaði þá hugmyndin að því að afsteypu af henni yrði valinn staður í Frakklandi. Sverrir Haukur tók að sér að kanna viðbrögð þar við því.Var Hrafnhildur Schram, forstöðumaður safns Einars Jónssonar með í ráðum við allan undirbúning og val á afsteypumönnum í Bretlandi, kom hún einnig með okkur til Saint-Malo til að sannreyna, að vel væri frá styttunni gengið aþr. Eftir samráð við dótturdóttur dr. Charcot varð niðurstaðan sú að taka málið upp við bæjaryfirvöld í Saint-Malo, þar sem var heimahöfn Pourquoi-Pas? og sumardvalarstaður Charcot-fjölskyldunnar. Tók René Couanau, þingmaður og bæjarstjóri, þessum tilmælum ákaflega vel. Um það bil tveimur árum síðar rættust sem sé áformin með því að við borgarstjórinn afhjúpuðum styttuna á fjölförnum en samt friðsælum stað við turninn Solidor í Saint-Malo. Hafði bæjarstjórnin látið gera fallegan stöpul undir styttuna. Flutti ég ræðu við þessa hátíðlegu athöfn.

Þá var boðið til móttöku í ráðhúsi bæjarins og undir lok dagsins bauð ég þeim, sem það vildu, að sjá mynd Kristínar Jóhannesdóttur, Svo á jörðu sem á himni, þar sem hún lýsir síðustu vikum Pourquoi-Pas? og tengir við íslenskar sagnir. Var það sérstök reynsla að horfa á myndina í þessu umhverfi og með mörgum, sem höfðu ættar eða tilfinningatengsl við þá, sem fórust með skipinu.

Sérstaklega var eftirminnilegt að fá tækifæri til að kynnast því, hve minningin um afdrif Pourquoi-Pas? er lifandi á þessum stað og raunar víðar í Frakklandi. Við Íslendingar áttum okkur ekki á því til fulls né heldur hinu, hve vitneskja Frakka um veiðar franskra sjómanna við Ísland er mikil. Er það ekki síst að þakka rithöfundinum Pierre Loti, sem skrifaði bókina Les Pêcheurs d'Islande, eða um fiskimennina við Ísland. Var þessi bók í gluggum í bókabúðum í Saint-Malo , er greinilegt, að hún er sígilt verk, sem er alþekkt í Frakklandi.

Þegar við gengum inn í kirkjuna Eglise Sainte-Croix við upphaf hátíðarhaldanna þennan laugardagsmorgun vék einn prestanna sér að mér og spurði, hvort hann mætti gefa mér bók um síðustu vikur Pourquoi-Pas?, sem hann hefði skrifað til minningar um föður sinn Guillaume Le Conniat skipherra Pourquois-Pas?. Þessi prestur heitir Alexis Le Conniat og bók hans heitir: Au Vent de la destinée! Byggist bókin á bréfum frá Le Conniat skipherra og dr. Charcot, af henni má til dæmis ráða, hve nákvæmlega Kristín Jóhannesdóttir fer eftir staðreyndum í kvikmynd sinni, þegar hún lýsir örlögum skipsins.

Le Conniat er ættaður frá Paimpol, sem er smábær vestar á Bretagne-skaga en Saint-Malo. Þaðan héldu margir sjómenn til veiða við Ísland og voru þeir almennt kallaðir les Islandais, eða Íslendingarnir, í bænum og má fá það staðreynt með því að skoða götunöfn og heiti veitingastaða. Ókum við til Paimpol sunnudaginn 4. október áður en við tókum hraðlestina að nýju frá borginni Rennes til Parísar.

Bretónar hafa tekið til við að skilgreina rætur sínar með skarpari hætti en áður og leggja vaxandi rækt við keltneskan uppruna sinn meðal annars með menningarmótum eins og sönghátíð í sumar, en Tjarnarkvartettinn var í hópi þeirra, sem þar skemmti. Er áhugi á því, að bretnóska verði endurlífguð sem tungumál og hafa yfirvöld í París ákveðið að leggja ekki stein í götu þess. Verður fróðlegt að fylgjast með því, hvernig til tekst á því sviði. Er ljóst að áhugi á menningarlegri ræktarsemi af þessum toga er vaxandi í Evrópu og er ástæða fyrir okkur frá litlum menningarsvæðum að gleðjast yfir þessari þróun, því að hún færir okkur fleiri bandamenn í baráttunni fyrir því, að menning okkar sé jafnmikils metin og fjölmennari þjóða.

Mánudaginn 5. október hófst ráðstefna UNESCO í París um æðri menntun. Sóttu rúmlega 100 menntamálaráðherrar hana og daginn eftir flutti ég þar ræðu. Þann sama dag þriðjudaginn 6. október gafst okkur Rut tækifæri til að fara í frönsku vísindaakademíuna og vera viðstödd, þegar Haraldur Ólafsson veðurfræðingur var heiðraður af samtökum franskra veðurfræðinga fyrir ritgerð sína um samspil vinda og fjalla, eða um áhrif fjalla á vinda. Var ritgerðin valin til verðlauna úr flokki ritgerða um veðurfræðileg efni og varð Haraldur fyrstur útlendinga til að hljóta þennan heiður. Flutti hann erindi við athöfnina og svaraði lærðum spurningum fundarmanna og síðan var boðið til móttöku til að samfagna með verðlaunahafanum. Þarna hitti ég franska vísindamenn, sem töluðu um dr. Charcot af mikilli aðdáun og vissu um það framtak okkar að gefa styttuna til Saint-Malo.

Að kvöldi þessa þriðjudags fórum við í kirkjuna Notre-Dame-des-Blancs-Manteux, þar sem Schola cantorum frá Hallgrímskirkju efndi til tónleika undir stjórn Harðar Áskelssonar, en kórinn var þarna á leið til bæjarins Noyon, þar sem hans beið að taka þátt í keppni kirkjukóra.

Heim héldum við síðan frá París miðvikudaginn 5. október.