21.3.1998

Fleiri skólastefnufundir - vandræðagangur Dags

Fundir vegna nýju skólastefnunnar héldu áfram í vikunni. Að vísu komumst við ekki til Akureyrar vegna veðurs mánudaginn 16. mars. Af þeim níu fundum, sem menntamálaráðuneytið skipulagði í tengslum við kynningu á skólastefnunni, höfum við nú lokið átta. Ef fært hefði verið til Akureyrar, væri þessum þætti kynningarinnar nú lokið. Hins vegar er þess að geta, að við höfum síður en svo enn haft tök á því að koma til móts við alla, sem óska eftir fundum um stefnuna og námskrárgerðina. Er greinilegt, að sumir fundanna hljóta að frestast fram yfir páska.

Starfsmenn ráðuneytisins fara með mér á fundina. Hellen Gunnarsdóttir deildarsérfræðingur sér um að skipuleggja fundina fyrirfram og koma öllu fyrir með þeim hætti, sem við viljum hafa á hverjum stað. Þá hefur verkefnisstjórn námskrárvinnunnar verið á fundunum, það er þeir Stefán Baldursson skrifstofustjóri og deildarstjórarnir Hrólfur Kjartansson og Hörður Lárusson, auk þess Jónmundur Guðmarsson, verkefnisstjóri námskrárgerðar, og Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður minn, en hún hefur borið hita og þunga af allri hinni miklu skipulagsvinnu, sem fylgir því að fara í fundaferð af þessu tagi.

Að lokinni framsöguræðu minni er kaffihlé og síðan spyrja fundarmenn eða koma með athugasemdir. Svörum við frá ráðuneytinu eftir því sem við á hverju sinni. Almennt standa fundirnir í rúmlega tvær klukkustundir og enn hefur það sama gerst í þessari viku og hinni síðustu, að hver fundur hefur sitt sérstaka yfirbragð eftir viðhorfum á þeim stað, sem sóttur er heim. Í sjálfu sér er þetta eðlilegt en sýnir einnig, að það er ekkert eitt, sem menn tíunda sérstaklega og telja neikvætt við stefnuna. Þvert á móti er með vísan til hennar rætt um, hvernig standa eigi að því að framkvæma úrbætur og menn taka mið af aðstæðum, hver á sínum stað.

Spurningar vakna um fjölda stunda fyrir einstakar námsgreinar í viðmiðunarstundaskrá. Telja margir rök hníga að því, að ráðuneytið bindi fleiri stundir með námskránni, til dæmis í 9. og 10. grunnskólans, því að of rúmt valfrelsi þar sé áhættusamt. Þá eru tengsl milli grunnskóla og framhaldsskóla mikið rædd; kostnaðarþættir við endurmenntun kennara og námsefnisgerð; greining til að finna ágalla hjá nemendum, sem kalla á sérkennslu eða sérstakar ráðstafanir og þannig get ég áfram talið. Athygli vekur, að jafnt skólamenn sem foreldrar hafa ekki áttað sig til fulls á samningunum, þegar grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna. Spurningar um kostnað við fjölgun kennslustunda í grunnskólanum eru til marks um þetta, því að tillögur ráðuneytisins byggjast alfarið á þeim samningum, sem voru gerðir um fjölgun kennslustundanna og var fjölgunin metin til fjár við flutning grunnskólans, áður en samið var um fjárhagshlið flutningsins.

Í síðasta pistli gat ég um stuðning við stefnuna meðal fjölmiðlamanna og í þessari viku hafa tveir leiðarar eftir Jónas Kristjánsson í DV vakið athygli mína. Hinn fyrri birtist sl. mánudag 16. mars og sá síðari í dag, laugardaginn 21. mars. Þar fjallar Jónas sérstaklega á þann þátt í tillögunum, sem snýr að nýrri námsgrein, lífsleikni. Kemst hann þannig að orði í lok leiðarans: "Nú þegar sjálf skólastefnan hefur verið sett fram, er næsta skrefið að finna þá, sem geta kennt kennurum og búið til námsgögn, sem henta ýmsum stigum skólakerfisins [í lífsleikni]. Miklu skiptir, að í senn sé haldið vel á spöðunum og vandað til allra verka.

Ef vel tekst til, hefur verið efnt til byltingar á lífi og högum þjóðarinnar, sem ætti að gera henni kleift að ráða betur við næstu öld en þá, sem nú er á enda." Hér er fast að orði kveðið hjá ritstjóra DV. Megi þetta verða áhrínisorð!

------

Árni Sigfússon, efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið netið í þjónustu sína í kosningabaráttunni og sendir bréf til hóps manna, þar sem hann kynnir viðhorf sín. Í einu bréfa sinna í þessari viku tók hann kafla úr síðasta vikupistli mínum, þar sem ég vitnaði í frásögn Birgis Guðmundssonar, aðstoðarritstjóra Dags, af kosningabaráttunni í Danmörku og bar saman við innihaldslausa kosningabaráttu R-listans.

Ég hef stundum velt því fyrir mér, hver skrifar nafnlausa dálkinn Garra í Dag, en hann á víst að vera fyndinn. Útsending Árna á þessum orðum mínum hefur greinilega farið fyrir brjóstið á Garra og fjallar hann um þau illu örlög sín að hafa verið dreginn inn í kosningaslaginn fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík með þessum hætti, það er sem sé augljóst að Birgir Guðmundsson skrifar Garra, að minnsta kosti í dag, laugardaginn 21. mars. Hann þykist vera að vitna í þessa pistla á síðu minni og setur innan gæsalappa orð, sem eiga að vera höfð eftir mér en eru það ekki. Lýsir þetta ekki vönduðum vinnubrögðum.

Fréttamat og fréttamennska Dags vekur oft undrun mína, eins og til dæmis fréttin um umræður innan menntamálanefndar Alþingis um bæjarnöfn, en þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á gildandi lögum, sem standast ekki kröfur tímans um stjórnsýsluhætti. Að gera þetta að fréttaefni með þeim hætti sem Dagur gerði með stórum uppslætti á forsíðu sinni er mikið undrunarefni fyrir alla, sem til málsins þekkja. Sömu sögu er að segja um jafnstóra frétt í blaðinu á dögunum um það hvað felst í orðunum, að "hafa lokið háskólanámi" þegar auglýst er eftir starfsmanni. Ég hef túlkað þessi orð á þann veg, að við mat á hæfni beri að leggja að jöfnu hefðbundið háskólanám og nám hjá endurmenntunarstofnunum háskóla, enda sé litið til inntaks slíks náms með hliðsjón af þeirri stöðu, sem um er að ræða. Orðalagið gerir ekki kröfu til þess, að um háskólagráðu sé að ræða. Höfnuðu menn háskólanámi á vegum endurmenntunarstofnunar væri verið að ráðast á hagsmuni fjölda einstaklinga, sem margir leggja mjög hart að sér við háskólanám samhliða kröfuhörðum störfum. Um leið og lýst er yfir því, að menntun sé æviverk og hvatt til þess að menn leggi sig fram um símenntun og endurmenntun, yrðu þau skilaboð frá menntamálaráðherra, að slíkt nám væri einskis metið við ráðningu í störf, næsta undarleg, svo að ekki sé meira sagt.

Undanfarið hefur Dagur lagt hart að sér við öflun upplýsinga um kostnað vegna prentunar á ritlingi menntamálaráðuneytisins, Enn betri skóli, sem dreift hefur verið á hvert heimili í landinu og prentaður var í um 100 þúsund eintökum í prentsmiðju Morgunblaðsins. Nam kostnaður við prentun og pappír þessa 24 bls. litprentaða ritlings alls 600 þúsund krónum eða um 6 kr. á hvert eintak. Er varla unnt að vænta þess, að þetta sé gert á ódýrari hátt. Var það Íslenska auglýsingastofan, sem gerði tillögu um að skipt yrði við Morgunblaðið, enda væri ekki unnt að fá lægra verð fyrir sambærilega vinnu á jafnskömmum tíma. Hefur Dagur birt að minnsta kosti tvær fréttir um prentun ritlingins. Í gær var hringt í mig til að bregða því ljósi á málið, að um óeðlilegan hagsmunaárekstur væri að ræða í þessu sambandi vegna þess, að ég á lítinn hlut í Árvakri hf., sem á Morgunblaðið, og ég er auk þess varaendurskoðandi félagsins. Ég svaraði Degi á þann veg, að ég teldi hér ekki um óeðlileg viðskipti að ræða og mætti ráðuneytið ekki eiga viðskipti við Morgunblaðið vegna hagsmuna minna, ætti það líklega einnig við um auglýsingar og áskrift að blaðinu. Ég met þennan mikla áhuga Dags á þessum þætti kynningarstarfs ráðuneytisins vegna nýrrar skólastefnu út frá þeirri staðreynd, að Ísafoldarprentsmiðja, sem er hluti af sama fyrirtæki og Dagur og DV, hefur lagt sig fram um prentun af þessu tagi og hjá henni prentar ráðuneytið fréttabréf sitt. Er líklegt, að eigendur og stjórnendur Ísafoldarprentsmiðju vilji ekki aukna samkeppni á þessu sviði og þyki þess vegna ekki verra, að sækja að þeim, sem "leyfa" sér að skipta við Morgunblaðið og fá afnot af prentvélum þess, þar sem DV er þó einnig prentað. Nú þegar dagblöðin eru hætt að skrifa hvert um annað og deila ekki lengur sín á milli eins og hefur þó verið megineinkenni íslenskrar blaðaútgáfu frá öndverðu, fjalla þau helst um málefni hvers annars í tengslum við viðskiptamál og eigendur sína.