30.12.1996

Við áramót

Jæja, ágætu lesendur heimasíðu minnar, þá er komið að síðasta vikupistli þessa árs. Mér telst til, að þetta sé 49. pistill ársins, sem sýnir, að ekki hefur mér tekist að skrifa einn í viku - en þó næstum því. Þá fór ég inn á þann hluta heimasíðunnar, sem geymir ræður mínar og greinar á árinu, þar taldi ég 69 línur - þess ber að geta, að ekki hef ég fært inn allar ræður mínar eða greinar í blöðum og því síður viðtöl, sem við mig hafa birst, gefur þessi fjöldi því ekki heildarmynd af því, sem ég hef skrifað í blöð eða lesið af blöðum á mannamótum á árinu, sem er að líða. Ekki geri ég mér grein fyrir því, hvað þetta allt yrði mikið af vöxtum, ef það yrði sett á blað og gefið út í bók, líklega yrði hún nokkur hundruð blaðsíður á lengd.

Í sjálfu sér er nokkurs virði að geta safnað þessu á þennan einfalda hátt og vil ég enn og aftur þakka þeim Miðheimamönnum fyrir ómetanlega aðstoð, án tæknilegrar hjálpar þeirra og góðrar þjónustu hefði ég líklega gefist upp við þessa iðju. Það, sem gerir hana sérkennilega, er sú staðreynd, að ég hef ekki minnstu hugmynd um, hve margir fletta í þessum textum. Frá upphafi tók ég þá ákvörðun að láta ekki skrá, hve margir kæmu inn á síðuna. Ég hef raunar alltaf litið svo á, að ég gæti dundað mér við þetta í friði á þeirri forsendu, að ekki legði ég það á neinn, sem skorti áhuga sjálfur, að lesa neitt afi því, sem hér er í boði. Eins og þeir sjá, sem lesa fyrstu pistlana mína, finnst mér allt annað nota þennan miðil eða aðra fjölmiðla og hef ég komist í kynni við þá flesta með einum eða öðrum hætti og meðal annars starfað sem blaðamaður á annan áratug.

Ég er þeirrar skoðunar, að tölvutæknin hafi að mörgu leyti auðveldað mér störfin sem ráðherra, en hún eykur einnig álagið. Ég hef ekki haldið nákvæma skrá yfir þau tölvubréf, sem mér berast, en þau skipta áreiðanlega þúsundum erindin, sem ég hef aðeins svarað með aðstoð tölvunnar. Hvort það er því að þakka eða einhverju öðru, hefur mér allt frá því ég tók við ráðherrastarfinu tekist að halda biðlista eftir viðtölum við mig tiltölulega litlum.

Þegar ég lít yfir stjórnmálaþróunina á liðnu ári, hlýt ég að vera bærilega sáttur við hana frá sjónarhóli okkar, sem sitjum í ríkisstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Við höfum tekið á ýmsum viðkvæmum og erfiðum málum og siglt í gegnum árið án þess að flokkurinn hafi dalað í skoðanakönnunum. Fylgið við okkur ráðherranna hefur sveiflast og í haust sýndu kannanir, að persónulegar vinsældir mínar höfðu minnkað mikið. Í sjálfu sér kippi ég mér ekki upp við það, því að aldrei hef ég litið á þátttöku mína í stjórnmálum, sem kapphlaup eftir vinsældum. Raunar má líklega segja, að mörg þau mál, sem ég hef fjallað um í stjórnmálabaráttu undanfarna áratugi, hafi ekki beinlínis verið til vinsælda fallin. Um langt árabil kom það til dæmis í minn hlut að svara þeim fullum hálsi, sem vildu endilega koma því orði á Ísland, að hér væru eða hlytu að hafa verið geymd kjarnorkuvopn. Þetta voru langvinnar deilur eins og almennt baráttan fyrir skynsamlegri stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum með aðild að NATO og varnarsamningi við Bandaríkin.

Á fyrstu árum mínum á þingi voru andstæðingarnir iðnir við að kenna málflutning minn við kalda stríðið, en ég lít þannig á, að eldskírn mína í þingmennsku hafi ég fengið með formennskunni í utanríkismálanefnd, þegar EES-samningurinn og það, sem honum fylgdi var afgreitt á Alþingi. Minnist ég þess nú til dæmis, hve kaldar kveðjur ég fékk frá mörgum, þegar ég hreyfði því á Alþingi, að Ísland ætti að sjálfsögðu að tengjast Vestur-Evrópusambandinu (VES), sem er sá vettvangur, þar sem sérstaklega er rætt um öryggi og varnir Vestur-Evrópuríkja. Var meiri andstaða við aukaaðild að VES en aðild að EES á þingi. Nú talar enginn öðru vísi um þátttökuna í VES en með þeim hætti, að hún sé bæði sjálfsögð og eðlileg.

Í núverandi starfi mínu sakna ég þess helst, að geta ekki hugað meira að utanríkismálum. Þótt okkur Íslendingum hafi vissulega tekist bærilega að tryggja hagsmuni okkar á öllum sviðum við nýjar aðstæður í alþjóðastjórnmálum, getum við síður en svo lagt árar í bát. Ætíð þarf að hafa augun opin fyrir nýjum tækifærum og fylgjast náið með þróuninni. Raunar er það með því gleðilegasta, sem gerst hefur í íslenskum stjórnmálum á síðustu árum, hve menn eru miklu frjáslegri en áður í umræðum um utanríkismál og þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi. Það er engum lengur til framdráttar að vera andvígur erlendri fjárfestingu, ekki er heldur fært að vera andstæður því, að Íslendingar geti flutt fé sitt til útlanda.

Bann við löndun erlendra fiskiskipa í íslenskum höfnum hefur verið afnumið, en í huga margra voru slík bannlög frá 1922 eins og helgur texti. Enn eimir eftir af þeim rökum, sem menn beittu til varnar lögunum frá 1922, þegar rætt er um rétt rússneskra skipa til að sækja hingað þjónustu. Hömlur af þessu tagi munu auðvitað aldrei ráða úrslitum um það, hvort unnt er að forða fiskstofnum frá hruni eða ekki. Annars minnir ýmislegt af þessari Rússaumræðu mig dálítið á það, þegar Sovétmenn höfðu í heitingum við okkur Íslendinga fyrr á árum vegna viðskiptahagsmuna. Kom það oftar en einu sinni í minn hlut að fjalla um þann þátt utanríkismálanna og ekki alltaf við mikinn fögnuð þeirra, sem mætlu með óbreyttum Sovétviðskiptum, hvað sem það kostaði. Sá kafli í utanríkisviðskiptasögu okkar er forvitnilegt rannsóknarefni.

Þegar ég vann á Morgunblaðinu og ritaði um Evrópumál, fólst ristjórnarstefna þess í mikilli varkárni, þegar þátttaka Íslands í samrunaþróuninni í Evrópu bar á góma. Þótti ég þá stundum of róttækur að mati þeirra, sem sögðu síðasta orðið um stefnu blaðsins. Vildi ég ekki fylgja einangrunarstefnu að því leyti frekar en endranær heldur að Ísland væri sem virkast í viðræðum um framtíð Evrópu. Áhugamenn um Evrópumál ættu að lesa skrif Morgunblaðsins um þessi mál undir lok níunda áratugarins og sjá það til dæmis, hvernig blaðið fikraði sig, kannski nauðugt viljugt, til stuðnings við aðild Íslands að EES, enda væri þar um endapunkt að ræða fyrir Ísland andspænis samrunarþóuninni í Evrópu. Þessi varkáru skrif ættu menn síðan að bera saman við þá stefnu, sem Morgunblaðið fylgir um þessar mundir. Skilgreini ég hana á þann veg, að blaðið leggi mun meiri áherslu á þá þætti Evrópuþróunarinnar, sem ætti að hvetja Íslendinga til enn nánara samstarfs við Evrópusambandinu (ESB) en felst í EES-aðildinni, en hina, sem sýna vankanta á nánara sambandi. Af engu verður nú ráðið í stefnu blaðsins, að EES sé endastöð á leið Íslendinga í faðm Evrópusambandsins.

Ég er þeirrar skoðunar, að æskilegt væri að koma Evrópuumræðunum úr þeim farvegi, sem mótaðist af þeim rangfærslum Jóns Baldvins Hannibalssonar, að sjálfstæðismenn eða sérstaklega forystumenn Sjálfstæðisflokksins vildu ekki ræða um Evrópumálin eða skoða til hlítar þá kosti, sem Íslendingum bjóðast í samstarfi við ESB. Eins og kunnugt er hefur þetta orðið að stefi í þeim áróðri andstæðinga Sjálfstæðisflokksins síðustu mánuði, að flokkurinn sé afturhaldssamur og andvígur öllum breytingum. Raunar er það aðeins til marks um yfirborðsmennsku í fjölmiðlun, að slíkt tal skuli geta þrifist um pólitískt átakamál af þessu tagi. Trúarbragða-umræður um Evrópumál skila ekki árangri hér frekar en annars staðar. Evrópuhugsjónin er góð og gild og ég aðhyllist hana. Hins vegar er jafnóskynsamlegt að leggja í trúarbragðastyrjöld hennar vegna nú á tímum eins og slík stríð voru fyrr á öldum í Evrópu. Talsmenn þessarar hugsjónar hafa fjarlægst almenning í Evrópulöndum og tala nú niður til hans eða andstæðinga sinna með þeim hætti, að almennt er lítt til vinsælda fallið. Við sjáum hve illa Evrópuhugsjónin leikur nú breska stjórnmálakerfið og í Svíþjóð er forsætisráðherrann að snúast gegn markmiðum hennar til að bjarga eigin flokki. Ekkert af þessum varnaðarorðum er réttmætt að gagnrýna með þeim hætti, að ekki vilji ég meiri umræður um þennan þátt utanríkismála þjóðarinnar eins og flesta aðra. Ég er þeirrar skoðunar, að við séum að komast hæfilega langt frá hinum djúpstæðu deilum um EES-aðildina og höfum fótað okkur nægilega vel í öryggismálum við nýjar aðstæður til að hefja að nýju djúptækar, alhliða umræður um stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Þær munu þó aldrei skila neinum árangri ef menn ganga til þeirra með þeim fordómafulla hætti, sem einkennir um of málflutning þeirra, sem líta á sig sem sjálfskipaða talsmenn Evrópuhugsjónarinnar eða hina einu sönnu túlkendur GATT-samkomulagsins, en eins og vitað er hefur því verið snúið gegn Sjálfstæðisflokknum af Jóni Baldvini Hannibalssyni og fylgismönnum hans, þótt sjálfstæðismenn hafi bæði tryggt framgang EES og GATT á Alþingi.

Hitt meginstefið í andróðrinum gegn Sjálfstæðisflokknum er, að hann standi um of með útgerðarmönnum og sé andvígur veiðileyfagjaldi, sem að mati andstæðinga núverandi kvótakerfis á að stilla til friðar í þjóðfélaginu um mál, sem spáð hefur verið, að kunni að leiða til einskonar borgarastyrjaldar. Ég hef ekki enn áttað mig á því, að þetta gjald, sem enginn hefur sagt skýrt og skorinort hvernig skuli innheimt, dugi til að tryggja frið um kvótamálið. Að því leyti hefur veiðileyfagjaldstalið sömu áhrif á mig og Evróputalið, patentlausnir eru ekki til í svo margflóknum málum. Hins vegar er alltaf unnt að þyrla upp pólitísku moldviðri um skeið með því að höfða til öfundar og saka andstæðinga sína um þröngsýni.

Mér er þetta ofarlega í huga, þegar ég lít yfir stjórnmálabaráttu síðustu mánaða, því að ég tel, að með því að huga að þessum tveimur meginmálum geti menn best skilgreint ádeiluna, sem höfð er í frammi gegn Sjálfstæðisflokknum. Með þessi mál að vopni reyna andstæðingar flokksins að gera hann tortryggilegan, eftir að hann hefur verið fimm ár í forystu fyrir ríkisstjórn. Finnst mér það hins vegar til marks um, að flokkurinn hafi í sjálfu sér haldið vel á stjórn mála í ríkisstjórn. Ekki er hann sakaður fyrir óstjórn í efnahagsmálum eða skort á forystu við lausn einstakra mála, sem setja svip á dægurstjórnmálin. Á Alþingi er stjórnarandstaða í molum og andstæðingar Sjálfstæðisflokksins sjá þá von helsta til að klekkja á honum í kosningabaráttu að leggja niður gamla flokka og stofna nýjan, af því að hver um sig eru þessir flokkar svo máttvana.

Það er til marks um andann í fjölmiðlaumræðum, að þar er aldrei rætt um sameiningu vinstri manna á þeirri forsendu, að gömlu flokkarnir á þeim kanti stjórnmálanna eru í raun orðnir örmagna. Þeir hafa ekki lengur neina hugsjón heldur leita að hinum sterka foringja eða frambjóðanda, eins og sannaðist með Ingibjörgu Sólrúnu í Reykjavík og Ólafi Ragnari í forsetaframboðinu. Póltískt gjaldþrot lýsir sér í því að sameinast frekar um mann en málefni. Vissulega þurfum við sjálfstæðismenn ekki að kvarta undan skorti á foringja við þurfum þó alls ekki að flagga honum til að fela hugsjónalega uppgjöf. Á hinn bóginn höfum við ekki lagt okkur nægilega mikið fram um að sýna fram á haldleysið í stefnumörkun vinstri manna og þau Potemkin-tjöld, sem þar hafa verið dregin fram. Hér er verk að vinna á nýju ári.

Ég læt þetta nægja sem pólitíska hugvekju um áramót og árna þeim, sem síðuna lesa farsældar á nýju ári.