3.11.1996

Kvótaumræður

Sama dag og landsfundur okkar sjálfstæðismanna hófst, þ.e. fimmtudaginn 10. október, hófst umræða á Alþingi um tillögu Alþýðuflokksins eða jafnaðarmanna eða hvað þeir heita nú, sem hafa tekið höndum saman að nýju, eftir að Jóhanna hljóp úr Alþýðuflokknum, um veiðileyfagjald. Var stjórnarandstöðunni mikið kappsmál, að þessi umræða hæfist einmitt þennan dag og vildi hún, að forsætisráðherra yrði við hana. Stóð umræðan eitthvað fram eftir þessum degi og síðan hefur henni verið fram haldið með hléum.

Ég verð að viðurkenna, að ekki hef ég fylgst með þessum umræðum nema úr fjarlægð. Eitt er víst, að hafi verið ætlun þeirra krata að tillaga þeirra setti einhvern vandræðalegan svip á landsfundinn, misheppnaðist það herbragð gjörsamlega. Raunar gerði hún frekast andstæðingum veiðileyfagjalds auðveldara fyrir á fundinum, því að þeir gátu haldið því að andstæðingum sínum, að þeir flyttu þingmál krata, sem sérstaklega væri stefnt gegn Sjálfstæðisflokknum. Hér þarf ekki að rekja það, sem gerðist á landsfundinum í þessu efni. Þar náðu menn saman um stefnumörkun, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tekið undir með þeim veiðileyfisgjaldsmönnum.

Þegar ég er spurður um afstöðu til kvótamálsins, svara ég jafnan á þá leið, að ég styðji það stjórnkerfi í íslenskum sjávarútvegi, sem leiði í senn til þess að fiskistofnar séu verndaðir og veiðar séu stundaðar með hagkvæmum hætti. Tel ég, að með því sé hag þjóðarinnar best borgið til lengdar og með slíku kerfi sé best tryggður arður af fiskveiðum fyrir þjóðarbúið í heild og þannig sé einnig staðinn öflugastur vörður um sameign þjóðarinnar, fiskimiðin.

Ég sé ekki annað en kvótakerfið sé farið að hafa þessi jákvæðu áhrif. Fiskistofnar eru að braggast og arður af fiskveiðum eykst með aukinni hagræðingu. Auk þess eru útgerðarfyrirtæki komin á almennan hlutabréfamarkað og allir geta eignast hlut í þeim, sem vilja. Þannig geta allir keypt kvóta.

Sjónarmið af þessu tagi eru þó ekki mest til umræðu, þegar rætt er um kvótakerfið. Talsmenn veiðileyfagjalds draga upp þá mynd, að sameignin, fiskistofnanir, hafi verið afhent útgerðarmönnunum, sægreifunum, þeir ráðskist síðan með þessa eign annarra og hafi dágóðar tekjur af braskinu. Ná þurfi þessum peningum af þeim með því að leggja á þá sérstakt gjald. Öfund setur nokkurn svip á röksemdarfærslu þeirra, sem vilja seilast ofaní vasa kvótaeigenda. Hefur hún oft verið notuð af ríkisforsjársinnum í nafni jafnréttis og heil stjórnkerfi verið byggð upp í krafti hennar eins og í Sovétríkjunum sálugu. Öfundarhugarfarið leiðir aldrei til jöfnunar en er oft jarðvegur fyrir ofstjórn og síðan kúgun.

Í umræðunum á Alþingi kom alls ekki fram, hvernig kratar ætla að framkvæma tillögur sínar um veiðileyfagjaldið, talsmenn öfundar í garð kvótaeigenda hafa alls ekki mótaða stefnu. Þeir eru nú á sama stigi og áður, það er að ýta undir neikvæða umræðu í von um, að hún dugi til að einhverjir aðrir komi með raunhæfar tillögur í anda sjónarmiða þeirra.

Í sjónvarpsfréttum ríkisins voru leidd fram tvenn sjónarmið í vikunni. Annars vegar var sagt frá ræðu Ragnars Árnasonar, prófessors í viðskiptadeild Háskóla Íslands, á aðalfundi LÍÚ. Hins vegar var kvöldið eftir birt viðtal við Markús Möller, hagfræðing í Seðlabankanum. Ragnar var á sínum tíma í trúnaðarstörfum fyrir Alþýðubandalagið en Markús er mjög virkur á landsfundi okkar sjálfstæðismanna. Ég verð að segja eins og er, að mér fannst málflutningur Ragnars miklu rökfastari en Markúsar. Ég hef sem sagt ekki séð ljós þeirra, sem telja, að allir agnúar hverfi af kvótakerfinu með nýjum skatti til ríkisins, veiðileyfagjaldi, án þess að frekar sé rökstutt, hvernig staðið skuli að gjaldtökunni.

Á sínum tíma hefði mátt fara þá leið að bjóða upp kvóta, en ég sé ekki, að hún eigi við núna, mörgum árum eftir að kerfið kom til sögunnar.

Að halda því fram, að núverandi stjórnkerfi í sjávarútvegi sé pólitískt spillingar- og úthlutunarkerfi fær ekki staðist að mínu mati. Afskipti stjórnmálamanna eru allt annars eðlis en áður, þegar fiskverð var ákveðið af fulltrúum þeirra og leitast var við að stjórna sókninni með hömlum á skipakaup. Ég minnist þess frá árum mínum sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og ritari á fundum ríkisstjórnarinnar undir lok 8. áratugarins, hvernig þrýstingurinn var á þeim tíma á stjórnmálamenn vegna fiskveiða og útgerðar. Mér finnst það ekki til marks um góðan málstað kvótaandsæðinga að vilja draga upp þá mynd, að ástandið þá hafi verið betra en það er núna eða betur hafi verið farið með fiskistofnana, sameign þjóðarinnar, þá en núna eða þeir hafi gefið meira í aðra hönd.