28.10.1995

Umræður um málfrelsi í Gautaborg

Bókamessan í Gautaborg var að þessu helguð málfrelsi, prentfrelsi og fjölmiðlafrelsi. Af því tilefni var menningarmálaráðherrum Norðurlandanna boðið þangað til að ræða um þetta efni í einn og hálfan klukkutíma undir stjórn Lars Åke Engström, sem var forstjóri Norræna hússins á sínum tíma. Ráðherrarnir eru Jytte Hilden frá Danmörku, Claes Andersson frá Finnlandi, Åse Kleveland frá Noregi og Margot Wallström frá Svíþjóð.

Eftir að við höfðum flutt nokkur inngangsorð voru almennar umræður, sem snerust meðal annars töluvert um Salman Rushdie en hann hafði einmitt verið viðstaddur fyrr þennan fimmtudag 26. október, þegar bókamessan hófst. Ég lét þess getið, að á fundi, sem ég sat með Salman Rushdie fyrr á þessu ári í London, hefði hann sagt, að aðeins með því að koma einræðisherrunum frá völdum í Íran væri unnt að aflétta dauðadóminum yfir sér. Hvernig gætum við gert það? Hvað gætum við í raun gert annað en minnt á algildi mannréttinda og hvatt allar þjóðir og ráðmenn þeirra til að viðurkenna það? Værum við tilbúnir til þess að beita valdi til að tryggja mönnum tjáningarfrelsi?

Minnt var á, að á Íslandi hefðu menn orðið fyrstir til þess á Norðurlöndunum að afnema einokun ríkisins á útvarpsrekstri. Ég rifjaði upp, að sprotinn hafi verið verkfall starfsmanna Ríkisútvarpsins fyrir tíu árum, þá hefði ég meðal annars tekið þátt í að koma fót einkastöð til að tryggja málfrelsið. Síðan hefði Alþingi samþykkt lög um afnám einokunarinnar og nú væri svo komið, að af fjórum sjónvarpsrásum ræki ríkið aðeins eina. Þá hefði það einnig gerst, að Íslendingar væru orðnir mjög tölvuvæddir og nýttu sér þá tækni og símann til að rækta tjáningarfrelsið. Ég hefði heimasíðu og gæti verið í beinu sambandi við kjósendur mína og umbjóðendur fyrir tilstilli tækninnar og án milligöngu fjölmiðlamanna. Sagðist ég ekki efast um að tjáningarfrelsi hefði aukist hér á landi undanfarið vegna tæknibyltingar, afnáms einokunar og breytinga á stjórnarskránni. Nú væri unnið að því að setja lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Danska ráðherranum þótti greinilega nóg um og sagði ekki unnt að skoða málin í þessari rósrauðu birtu. Hún áréttaði nauðsyn þess, að ríkið léti upplýsingamiðlun og tjáningarfrelsi til sín taka. Tölvur og internet gætu aukið á stéttaskiptingu í þjóðfélaginu, leitt til þess að fáir útvaldir sætu að upplýsingum en hinn stóri fjöldi yrði óupplýstur og drægist aftur úr. Ríkið yrði að eiga þarna ríkan hlut að máli eins og í útvarps- og sjónvarpsrekstri.

Á fyrri fundum með þessum ágætu starfsbræðrum hafði mér þótt, að hugmyndir þeirra um þessi mál væru eitthvað á skjön við mínar og staðfestu þessar umræður þá trú mína. Má ekki gleyma því, að ég er eini stjórnmálamaðurinn í þessum hópi, sem ekki aðhyllist sósíalisma og þá ríkisforsjá, sem honum fylgir.

Upplýsingamiðlun innan Evrópusambandsins bar á góma. Lét ég þá skoðun í ljós, að fyrir okkur sem stæðum utan við ESB væri erfitt að fá vitneskju um það, sem gerðist innan veggja þess. Fréttir bærust af leynilegum bókunum á ráðherrafundum. Starfsmaður ESB, sem hefði lýst skoðun sinni á stefnu þess varðandi sameiginlegan evrópska gjaldmiðil, hefði verið látinn hætta og nú hefði Ritt Bjerregaard kommissar eða mengungarmálastjóra verið bannað að gefa út dagbók sína. Hún var reyndar prentuð í heild sem kálfur með Politiken 26. október og unnt er að finna hana á netinu. Ætli ég yrði ekki bannfærður, væri ég starfsmaður ESB og leyfði mér að hafa heimasíðu eins og þessa?