7.6.1995

Sjónvarpsumræður um utanríkismál

Í gærkvöldi, það er á fimmtufagskvöldi, tók ég þátt í sjónvarpsumræðum um Ísland og umheiminn í sjónvarpi ríkisins. Þátturinn stóð í 85 mínútur. Við vorum þar fulltrúar sex stjórnmálaflokka, tveir stjórnendur og sex spyrjendur að auki. Mikið var lagt undir sem umræðuefni og að mínu mati gafst alltof lítil tími til að ræða sérhvert málefni, þannig að umræðurnar urðu næsta yfirborðskenndar. Umræður um einstök efni teygðust um of á langinn. Eftir þátttinn var mér sagt, að ég hefði talað skemmst af stjórnmálamönnunum.

Friðrik Skúlason var kominn í þáttinn sem fulltrúi þeirra, sem eru að vinna að útflutningi á hugviti og eru sérfróðir um upplýsingatæknina. Því miður urðu umræður svo langar um önnur mál, að Friðrik komst aldrei að með neina spurningu. Var það bagalegt að mínu mati, því að byltingin í upplýsingatækni mun hafa mikil áhrif á stöðu Íslands í umheiminum. Er nauðsynlegt að gera það að forgangsefni eftir kosningar að stækka gáttina út úr landinu og standa þannig að málum, að ríkið sé ekki að vasast meira í þessum málum en brýn nauðsyn krefst.

Ég sé þá hættu eftir þennan þátt, ef vinstri stjórn verður mynduð, að hún muni í uatnríkismálum eins og á öðrum sviðum fara inn á vafasamar brautir. Bæði kom fram áhugi hjá vinstri flokkunum á því að hrófla við EES-samningnum og varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Verði annað eða hvoru tveggja gert er verið að leika sér að eldi, sem ef til vill verður ekki við ráðið. Vísasti vegurinn til að koma í veg fyrir slíka ævintýramennsku er að hafna þessum flokkum í kosningunum!