28.5.1995

Ferðalögum fjölgar

Undir menntamálaráðuneytið falla málaflokkar, sem skipt er á marga ráðherra og mörg ráðuneyti erlendis: Menntamál, menningarmál, íþróttamál, rannsókna- og vísindamál og æskulýðsmál. Starfsemi undir öllum þessum málaflokkum fer fram um land allt og á öllum þessum sviðum er mikið og vaxandi alþjóðasamstarf. Á fyrstu vikunum sem ráðherra hef ég áttað mig á því, að ekki er unnt að verða við öllum óskum um að vera alls staðar. Vandinn við að velja og hafna er því mikill.

Sunnudaginn 21. júní fór ég til Kaupmannahafnar en á mánudeginum tók ég þátt í fyrsta fundi mínum með menntamálaráðherrum Norðurlandanna í aðsetri ráðherraráðs Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og einnig fyrsta fundi mínum með norrænu menningarmálaráðherrunum og menningarmálanefnd Norðurlandaráðs, þar sem sitja þingmenn. Var fundað allan mánudaginn í Kaupmannahöfn, um kvöldmatarleytið var flogið frá Kastrup til Borgundarhólms. Þar héldu norrænu menningarmálaráðherrarnir óformlegan fund fyrir hádegi á þriðjudeginum en síðdegis var menningarlegt seminar með þátttöku menningarmálaráðherra frá Eystrasaltsríkjunum. Höfum við Íslendingar nýlega fengið formlega aðild að Eystrasaltsráðinu og sat ég því þetta seminar, þar til tími var kominn til þess að fljúga aftur til Kastrup til að ná kvöldvélinni heim.

Mér þóttu fundir menningarmálaráðherranna áhugaverðari en menntamálaráðherranna. Undir menninguna fellur meðal annars þróun útvarps og sjónvarps við nýjar aðstæður og nýting upplýsingatækninnar, þótt hún snerti einnig menntamálin. Er ljóst, að tækniframfarir setja alls staðar mikinn svip á umræður um menningar- og menntamál. Sannaðist enn fyrir mér þarna, hve brýnt er fyrir okkur Íslendinga að marka okkur stefnu í þessum málaflokki. Starfsbræður mínir í menningarmálum á Norðurlöndunum eru allir jafnaðarmenn eða lengra til vintsri, þeim finnst því ríkið hafa miklu hlutverki að gegna varðandi útvarpsrekstur og standa verði vörð um hlut þess við tæknibyltinguna.

Uppstigningardag notaði ég til ferðar norður á Akureyri fyrir frumkvæði Tómasar Inga Olrichs, þingmanns og flokksbróður míns. Hittum við forystumenn Háskólans á Akureyri á fróðlegum morgunfundi, síðan skoðaði ég framtíðaraðsetur háskólans á Sólborg. Þangað sóttu forsytumenn lúðueldis á Hjalteyri okkur og fórum við og skoðuðum aðstöðu þeirra og kynntumst merkilegu starfi þar og viðhorfi til rannsókna og þróunar. Loks var efnt til sérstaks fundar um matvælanám og rannsóknir í ferðamálum á Hótel KEA.

Sunnudaginn 28. maí var ég beðinn að koma aftur til Akureyrar í því skyni að hefja Landshreyfingu '95, sem Ungmennafélag Íslands, Sundsamband Íslands og Frjálsíþróttasamband Íslands standa að og miðar að því að hvetja til almennrar líkamsræktar. Birtist ávarp mitt þar annars staðar hér á heimasíðunni. Var mér ljúft að verða við þessu og fórum við Rut kona mín norður með 10-vélinni og komum aftur með kaffivélinni. Voru okkur sýnd Minjasafnið og Listasafnið í ferðinni og vel á móti okkur tekið undir forystu Jakobs bæjarstjóra, Ingólfs menningar- og skólafullrúa og Þóris, formanns Ungmennafélags Íslands. Eina sem var ekki eins og við vildum var blessað veðrið, það rigndi svo mikið, að minnti helst á skýfall eftir þrumuveður í suðurlöndum.

Mér sýnist, að lítið lát verði á ferðalögum, innan lands og utan. Tímastjórnun er með því brýnasta, sem menn þurfa að temja sér í þessu starfi, þótt það sé leiðinlegt til lengdar að vera ávallt í tímaþröng. Óskir um þátttöku í menningarhátíðum erlendis, þar sem íslensk list er kynnt, eru eðlilegar og einnig í íþróttamótum, þar sem Íslendingar keppa. Menningunni mun ég reyna að sinna á næstunni meðal annars í Barcelona og Bonn.