18.1.2009

Norðurslóðir og ný tækifæri í utanríkis- og öryggismálum.

Þáttaskil verða með embættistöku í Washington þriðjudaginn 20. janúar, þegar Barack Obama tekur við af George W. Bush sem forseti Bandaríkjanna. Virðast allir samdóma um, að forsetaembættið geti ekki annað en styrkst með þessari breytingu og þar með forysta þess á heimavelli og erlendis.

Barack Obama barðist undir kjörorði breytinga: Change, þegar hann tókst á við Hillary Clinton innan eigin flokks og einnig í kosningarbaráttunni við John McCain. Með vísan til áherslunnar á breytingu hefur komið á óvart, hve litla áherslu hann hefur lagt á breytingu við val á ráðherrum og ráðgjöfum. Þar kemur í sjálfu sér meira á óvart, hver varfærinn hann hefur verið við að kalla á nýtt fólk.

Robert Gates (65 ára), sem Bush gerði að varnarmálaráðherra, þegar hann losaði sig við Donald Rumsfeld úr Pentagon, heldur áfram í því embætti. Hillary Clinton (61 árs) verður utanríkisráðherra. Þau verða örugglega bæði sjálfstæð í störfum sínum og með beinan aðgang að forsetanum. Gates, þar sem hann er úr flokki repúblíkana og á þess vegna ekki samleið með demókrötum almennt, og Hillary, af því að hún er sögð hafa sett það sem skilyrði.

Obama sætti gagnrýni í kosningabaráttunni fyrir að hafa litla þekkingu á utanríkis- og öryggismálum. Robert Gates hefur áunnið sér traust og virðingu innan varnarmálaráðuneytisins, hersins og þingsins fyrir varfærna stefnu og fyrir að kasta fyrir róða hugmyndum Rumsfelds um að kollsteypa bandarískri stefnu í varnarmálum í krafti nýrrar tækni. Átökin í Írak og Afganistan þykja sýna, að ekki er unnt að sigra stríð og ná markmiðum sínum með því að hafa tæknilega yfirburði. Bandamenn og pólitísk ítök skipta máli til að hernaðaraðgerðir beri þann árangur, sem að er stefnt.

Þegar Hillary Clinton kom fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings til að skýra henni frá áformum sínum sem utanríkisráðherra, fengi hún staðfestingu nefndarinnar, sagði hún:

„Bandaríkin geta ekki ein leyst úr brýnustu viðfangsefnunum, og heimurinn getur ekki leyst þau án Bandaríkjanna.“ Bandaríkjamenn yrðu að beita því, sem kallað hefði verið „smart power“ til að ná markmiðum sínum á alþjóðavettvangi. Með „smart power“ að leiðarljósi yrðu störf diplómata og utanríkisstefna máttarstólpar utanríkisstefnunnar.

Hér má sjá skilgreiningu á því, sem felst í hugtakinu „smart power“ það er tenging á milli „hard power“ , hernðarafls, og „soft power“, diplómatískra aðgerða. Í tilvísuninni sést, að hópur á vegum hugveitunnar Center for Strategic and International Studies (CSIS) hefur verið að móta inntak þessarar stefnu, sem Hillary ætlar nú að gera að sinni.

Þetta er lýsir vel, hvernig unnið er að stefnumótun í Bandaríkjunum og það var einmitt CSIS, sem bauð mér til málþings í lok október 2008 til að ræða um norðurskautið, siglingar og öryggi á Norður-Atlantshafi. Þar voru kallaðir saman sérfræðingar til að skiptast á skoðunum um þessi mál, orkumál almennt og loftlagsbreytingar.

Þess var vænst í Washington í lok október, að George W. Bush mundi gefa út nýja norðurskautstefnu Bandaríkjanna, áður en hann hyrfi af forsetastóli. Unnið hefði verið að endurskoðun stefnunnar í nokkur ár, hin fyrri væri orðin 14 ára gömul og úrelt, og það væri öllum fyrir bestu, að nýja stefnan yrði birt með staðfestingu forsetans fyrir embættistökuna þriðjudaginn 20. janúar. Viti menn, hinn 9. janúar sl. ritaði Bush undir þessa nýju stefnu og hún var kynnt mánudaginn 12. janúar. Daginn eftir skýrði talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, hvað í henni fælist og má lesa svar hans hér.

Hin nýja norðurheimskautstefna Bandaríkjanna tekur mið af sjö meginþáttum: 1) Öryggismálum. 2) Alþjóðareglum. 3) Réttindum á landgrunni utan efnahagslögsögu og ágreiningi um markalínur. 4) Mikilvægi alþjóðasamvinnu við rannsóknir. 5) Sjóflutningum. 6) Hagrænum þáttum, þ. á m. orkulindum. 7) Umhverfisvernd og varðveislu náttúruauðlinda.

Hér er um 10 blaðsíðna skjal að ræða og hafa Kanadamenn túlkað ýmislegt í því á þann veg, að þeir þurfi að auka varðstöðu sína gagnvart bandarískri ásælni, en Kanadamenn og Bandaríkjamenn deila um yfirráð á svonefndri norð-vestur siglingaleið, það er við vesturströnd Grænlands, norður fyrir Kanada og Alaska og vestur á Kyrrahaf. Bandaríkjamenn telja hér um alþjóðlega siglingaleið að ræða en Kanadamenn, að hún lúti þeirra yfirráðum.

Hinn 20. nóvember 2008 birti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stefnu sína í norðurskautsmálum og er sagt frá henni hér.

Á þingi Evrópusambandsins hefur verið ályktað á þann veg, að sambandið ætti að beita sér fyrir sérstakri alþjóðalöggjöf eða samningi um norðurskautið. Í stefnu Bandaríkjanna er því sjónarmiði hafnað en hvatt til þess, að Bandaríkin staðfesti hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hann verði lagður til grundvallar við lausn mála á norðurskautinu.

Fellur þetta vel að þeim sjónarmiðum, sem ég hef hreyft í erindum mínum um þessi mál, meðal annars á þingmannaráðstefnu norðurskautslandanna í Fairbanks í Alaska í ágúst 2008. Þar andmælti ég þeirri skoðun, að Evrópusambandið ætti að hlutast til um málefni norðurskautsins. Fimm ríki eiga land að Norður-Íshafi og geta gert kröfu til yfirráða þar samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna: Bandaríkin, Kanada, Grænland (Danmörk), Noregur og Rússland – þrjú ríki að auki eiga aðild að norðurskautsráðinu (Arctic Council) vegna hnattstöðu sinnar: Finnland, Ísland og Svíþjóð.

Að mínu áliti á Evrópusambandið ekki neinn rétt á aðild að þessu samstarfi og óskir þess um það endurspegla aðeins viðleitni innan þess til að teygja sig til áhrifa og yfirráða á norðurslóðum, þar á meðal N-Atlantshafi.

Fimmtudaginn 29. janúar verður haldið hér málþing í samvinnu íslenskra stjórnvalda og NATO um málefni norðurslóða. Í fréttatilkynningu NATO í tilefni af málþinginu segir, að þar verði hugað að breyttu viðhorfi til norðurskautsins í ljósi auðlindanýtingar og hernaðarumsvifa. Svæðið hafi viðvarnandi strategíska þýðingu fyrir NATO og öryggi bandalagsríkjanna og þess vegna þurfi að fylgjast náið með framvindu mála þar og bregðast við henni af skynsemi.

Rússneska blaðið Rossiiskaya Gazeta telur, að þessi aukni áhugi NATO á svæðinu sé til marks um kaldara pólitískt andrúmsloft á svæðinu og telur að norðurskautið verði til frambúðar vettvangur hernaðarlegrar ævintýramennsku eða „military adventures“ eins og segir á vefsíðunni BarentsObserver 16. janúar 2009. Haft er eftir Jevgení Shestakov blaðamanni: „..Það er ljóst, að utanríkisstefna bandalagsins [NATO] nær ekki fram að ganga, án þess að styðjast við hervald. Komi það ekki til sögunnar nú mun það gerast innan skamms tíma.“

Við upphaf hvers árs flytur norski varnarmálaráðherrann stefnuræðu í Olso Militære Samfund og gerði Anne-Grete Ström-Erichsen það hinn 5. janúar 2009.

Athygli vekur, hve ítarlega hún fjallar um hernaðarstöðuna á norðurslóðum og Rússland. Hún segir, að Norðmenn finni nú fyrir nærveru Rússlands, sem hafi meiri fjárráð en áður, Rússlands, sem fari frekar eigin leiðir en áður og flytji mál sitt með þyngri þjóðernistóni og einstefnu. Boðskapurinn sé einfaldur, þegar rússneskar flugvélar séu næstum vikulega á ferð við Noregsstrendur, eða þegar flugmóðurskipið Kutznetsov sé þar á ferð: Rússland er ekki lengur veikburða.

Ráðherrann sagði, að þessum boðum væri ekki beint gegn Noregi heldur væri verið að senda skilaboð til Vesturlanda og NATO almennt. Ykist spenna milli Rússlands og Vesturlanda hefði það áhrif á norðurslóðum. Rússar hefðu efnahagslega hagsmuni af því að á svæðinu ríkti stöðugleiki. Hins vegar væri ekki unnt að líta fram hjá því að norðurslóðir hefðu mikla hernaðarlega þýðingu. Hernaðarumsvif væru minni en á tíma kalda stríðsins en hin mestu síðan Berlínarmúrinn féll. Norðmenn yrðu að búa sig undir að þannig yrði það til frambúðar.

Hún minnti á, að ríkisstjórn Noregs hefði sagt við valdatöku sína árið 2005, að setja ætti norðurslóðir efst á dagskrá utanríkis- og öryggismála. Þróunin hefði sýnt, að það hefði verið rétt. Þá hefðu margir sagt, að það væri tímaskekkja og bara í anda kalda stríðsins að huga að því að styrkja hervarnir á norðurslóðum. Nú væru þessar raddir þagnaðar.

Áhugi alþjóðasamfélagsins á norðurslóðum hefði aukist. Loftlagsbreytingar, nýting auðlinda og orku réðu þar úrslitum. Það væri jafnvel augljósara á þessu svæði en annars staðar, að þessi þróun hefði áhrif á ákvarðanir í öryggismálum. Norðmenn hefðu því eflt hernaðarlegan viðbúnað sinn í norðri.

Fyrir utan aðgerðir af eigin hálfu yrðu Norðmenn að vinna að því innan NATO að draga athygli bandalagsþjóðanna að þessum breytingum í norðri. Þess væri að vænta að sjóflutningar mundu stóraukast á svæðinu milli Kyrrahafs og N-Atlantshafs og Norðmenn hefðu þess vegna stofnað til nánari samskipta við Kína, Japan, Suður-Kóreu og Indland með sérstaka áherslu á siglingaöryggi og þróun á norðurslóðum – hér væri um nýja geopolítíska staðreynd að ræða. Við henni yrði að bregðast. Norðmenn hefðu til dæmis í fyrsta sinn skipað varnarmálafulltrúa við sendiráð sitt í Austur-Asíu og yrði hann með aðsetur í Kína. Þá hefðu Norðmenn einnig aukið samskipti sín við önnur ríki á norðurslóðum og nefndi ráðherrann þar Kanada, Bandaríkin og Danmörku.

Hér rek ég ekki efni þessarar ræðu frekar. Ég tel, að í henni sé norski varnarmálaráðherrann að ræða mun raunhæfari viðfangsefni í utanríkis- og öryggismálum en gert er hér á landi, þegar rætt er um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í ljósi breytinga í okkar heimshluta má segja, að það sé beinlínis gamaldags að beina athyglinni til Brussel, þegar menn þar átta sig á þeim geopólitísku breytingum, sem eru að verða á norðurslóðum. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að við Íslendingar sjálfir séum betur til þess fallnir að gæta hagsmuna okkar gagnvart samstarfsþjóðum í N-Ameríku og Asíu en að fara með þá hagsmuni fyrst til Brussel og fela valdamönnum þar að ræða þá við þriðju ríki.

Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi ráðherra og sendiherra í Noregi, vinnur nú að því að semja skýrslu um þróun öryggismála á norðurslóðum og viðbrögð Norðurlanda við þeim. Hún er væntanleg í febrúar. Þar verður vafalaust vikið að sömu atriðum og norski varnarmálaráðherrann reifaði og lagt á ráðin um samstarf Norðurlandanna.

Edward Lucas, sérfræðingur í málefnum Rússlands og höfundur bókarinnar, The New Cold War, ritaði hugleiðingu í spárit The Economist um árið 2009 og fjallaði þar um þróun mála á norðurslóðum og NATO. Hann gagnrýndi bandalagið fyrir aðgerðarleysi en benti á, að Norðurlöndin væru að efla samstarf sitt og þau hefðu einnig auga á því að styrkja varnir Eystrasaltsríkjanna þriggja gagnvart Rússlandi. NATO hefði ekki samið neinar áætlanir um varnir þeirra, af því að bandalagð vildi ekki láta eins og þeim stafaði ógn af Rússum.

Lucas lýkur stuttri grein sinni um þetta á þeim orðum, að Bandaríkjamenn fylgist af vaxandi áhuga með því, sem Norðurlöndin séu að gera í þessu efni og sömu sögu sé að segja um Kanadamenn. Þeir hafi gjarnan litið á sig sem friðflytjendur en séu nú mjög uggandi vegna hættu á ævintýramennsku Rússa á norðurskautinu. Þá mætti nefna Breta í sömu andrá – og létu þeir einnig að sér kveða mætti mynda lið, sem gæti glímt við „mestu hitasvæðin í því, sem sumir kalla nýja kalda stríðið.“ Lucas segir, að nú þyrfti aðeins að finna gott nafn á þennan félagsskap – og hann spyr: „Hvað segja menn um að kalla hann Norður-Atlantshafsbandalagið?“

Hér er verk að vinna, þar sem Íslendingar verða að láta að sér kveða til vekja athygli á augljósum breytingum og gæta eigin hagsmuna. Öll uppbygging Landhelgisgæslu Íslands undanfarin ár hefur tekið mið af þessari þróun. Með nýrri flugvél og varðskipi verður gæslan betur í stakk búinn en nokkru sinni fyrr til að taka þátt í samstarfi af því tagi, sem óhjákvæmilegt er við nágrannaþjóðir okkar á norðurslóðum. Það er í senn sjálfstæðismál og öryggismál að standa vörð um gæsluna og störf hennar, þótt móti blási í opinberum fjármálum. Ég tel, að forgangsraða eigi í hennar þágu, þegar hugað er að varnar- og öryggishagsmunum Íslands.

Í utanríkis- og öryggismálum stendur íslenskum stjórnvöldum næst að sinna verkefnum á þessu sviði. Nýtt tækifæri til að treysta samstarfið við Bandaríkin felst í því að taka upp þráðinn við nýja ríkisstjórn í Washington. Sé mönnum þar nauðsynlegt að beita „smart power“ til að koma ár sinni betur fyrir borð á alþjóðavettvangi, þurfa íslensk stjórnvöld ekki síður að beita snilli til að treysta stöðu þjóðarinnar í samfélagi þjóðanna. Hinar geopólitísku breytingar á norðurslóðum veita íslenskum stjórnvöldum ný tækifæri í utanríks- og öryggismálum – þau verður að nýta!