26.9.2008

Sérkennilegt fréttamat - evrumálin.

Yfirlit

Fréttamat er oft sérkennilegt. Á fréttastofu RÚV sáu menn ekki þann fréttapunkt í hádeginu 26. september, að hvorki Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, né Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, leggjast gegn því, að hér verði búið svo um hnúta, að unnt verði að stunda forvirkar rannsóknir, það er leyniþjónustustörf. Þeir töldu annað hins vegar eiga að hafa forgang við fjárveitingar og Steingrímur J. velti fyrir sér, hvar ætti að vista þessa starfsemi innan stjórnkerfisins. Ég vænti þess ekki, að erindi, sem ég flutti að ósk Háskólans á Bifröst 26. september sl. mundi bera þennan árangur.

Á ruv.is 26. september 2008 mátti lesa þetta:

„Stjórnarandstæðingar segja að Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, væri nær að efla almenna löggæslu og tollgæslu, en að gæla við hugmyndir um öryggis- og greiningarþjónustu eða leyniþjónustu.

Í erindi Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, í vikunni um forvirkar rannsóknarheimildir kom meðal annars fram að drög að frumvarpi um öryggis- og greiningarþjónustu, einhvers konar þjóðaröryggisdeild, hafi verið kynnt fulltrúum þingflokka. Með forvirkum rannsóknarheimildum er reynt að koma í veg fyrir brot eins og landráð og hryðjuverk eða skipulagða brotastarfsemi.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, telur forgangsröðun dómsmálaráðherra ranga. Borgararnir hafi áhyggjur af fámennu lögregluliði, átökum innan lögreglunnar.

Steingrímur J Sigfússon, formaður vinstri grænna, segir að meðan ekki sé staðið sómasamlega að almennum löggæsluverkefnum, tollgæslu og fíkniefnalöggæslu eigi ekki að eyða skattfé í sérstaka þjóðaröryggisdeild sem yrði enn ein peningahítin undir embætti ríkislögreglustjóra.

Steingrímur segir ekkert vandamál hafa verið fyrir lögregluna hér að eiga samstarf við lögreglur í öðrum löndum og Interpol. Skoða megi hvaða heimildir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eða lögreglan á Suðurnesjum hafi í þessum efnum en hann sér enga þörf fyrir leyniþjónustu undir Ríkislögreglustjóra. Steingrímur segist tortryggja málið allt og kallar hugmyndina rugl.“

Þess var óskað, að ég flytti fyrirlestur um forvirkar rannsóknir í Háskólanum á Bifröst, sem ég gerði hinn 24. september og fór yfir málið. Í ljósi þess, sem áður hefur verið sagt um þessi mál á stjórnmálavettvangi, þykir mér stórmerkilegt að lesa það, sem haft er eftir þeim Guðna Ágústssyni og Steingrími J. Sigfússyni í þessari frétt á ruv.is.

Meginsjónarmið þeirra er, að ekki sé rétti tíminn til að hrinda áformum um öryggis- og greiningarþjónustu í framkvæmd núna heldur eigi að nota fjármuni til að efla almenna löggæslu. Þeir eru sem sé ekki andvígir því, að lögregla fái forvirkar rannsóknarheimildir heldur ræða fjárveitingar og skipulag.  Steingrímur J. vill, að þessi starfsemi tengist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum en ekki ríkislögreglustjóra.

Ég gerði ekki annað í Bifröst en reifa málið, gaf engin fyrirheit um að flytja frumvarp um málið heldur sagði, að málið hefði verið sett í frumvarpsform fyrir auk þess sem ég sagði sérstakt álitaefni, hvar slík starfsemi ætti heima innan kerfisins, kæmi hún til sögunnar.

Fréttamennirnir kveiktu ekki á aðalatriðinu í fréttinni vegna þess að þeir voru of uppteknir við að hlusta á kveinstafi um, að ég væri að gera lögreglunni einhvern óleik með því að ræða forvirkar rannsókarheimildir á Bifröst. Dæmalaus áróður er nú allt í einu sprottinn upp um óvild mína í garð lögreglu og löggæslu, eftir að ég hef um árabil sætt gagnrýni fyrir að ætla að efla löggæslu um of og ganga með því á rétt borgaranna.

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, nálgast viðfangsefnið á sinn venjulega hátt, þegar hann segir hinn 26. september á vefsíðu sinni:

„Björn Bjarnason stríðsráðherra er tifandi tímasprengja. Hann er að koma sér upp sextíu manna herlögleglu með því að svelta almenna löggæzlu í landinu. Löggan sinnir ekki útköllum, tekur ekki skýrslur, ræður fólki frá að kæra. Sextíu manna lögregluhópur er ekki til neins gagns, hoppandi um með grímur á daglegum æfingum. Duglegur lögreglustjóri er rekinn fyrir að neita að falsa skjal fyrir ráðherrann, sem situr og horfir á bíó af Bruce Willis. Er þetta mál ekki komið út yfir allan þjófabálk? Af hverju mannar Geir Haarde sig ekki upp í að losa sig við vandræðamann, sem þjóðin skilur alls ekki.“

Þvættingur Jónasar um „herlögreglu“ dæmir sig sjálfur. Ég vek sérstaklega athygli á setningunum, sem ég hef feitletrað.  Hin fyrri er alröng. Í hinni síðari eru tvær rangfærslur og ein aulafyndni. Enginn lögreglustjóri hefur verið rekinn. Ég hef ekki farið þess á leit við neinn lögreglustjóra, að hann falsaði skjal. (Hér er Jónas líklega að endurtaka ósannindi Baugsmiðilsins DV, sem ræðir ekki lausnarbeiðni Jóhanns Benediktssonar, án þess að geta þess, að Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi blaðsins, hafi átt yfir höfði sér handtöku síðsumar 2002 á Keflavíkurflugvelli og er gefið til kynna, að ég hafi komið þar við sögu sem dómsmálaráðherra – ég tók hins vegar ekki við embættinu fyrr en vorið 2003.) Skemmtigildi þess, að ég sagði við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í samtali fyrir mörgum árum, að mér þætti gaman að Die Hard myndum með Bruce Willis, er löngu útrunnið og tímabært að spyrja: Kanntu ekki einhvern annan betri? Svo má einnig velta fyrir sér, hvort það sé gild forsenda, ef reka á ráðherra, að hann hafi gaman af því að horfa á Bruce Willis.

 Evrumálin

Nú er tvíhöfða Evrópuvaktnefndin komin frá Brussel. Nefndarmenn hittu þrjá framkvæmdastjórnarmenn Evrópusambandsins og ýmsa aðra embættismenn að auki. Þá ræddi hún við fastafulltrúa ýmissa ESB-ríkja. Skal ekki dregið í efa, að ferðin hafi verið upplýsandi fyrir nefndina og skýrsla hennar um það, sem fram kom, verði leiðarvísir um stöðu mála í Brussel um þessar mundir.

Hinn 12. júlí ritaði ég hér á síðuna:

„Íslendingar hafa valið þann kost, að tengjast ESB eftir tveimur meginleiðum: með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu. Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf, það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin.“

Vegna þessara orða minna hófst ferli, sem verðugt væri að skoða náið til að skilgreina, hvernig umræður um Evrópumál þróast hér og hve skringileg sjónarmið geta birst í þeim. Hér skal það ekki gert heldur staldrað við niðurstöðu Evrópuvaktnefndarinnar, en hinn 13. júlí fól Geir H. Haarde, forsætisráðherra, henni að kanna hljómgrunn undir það, sem nefnt hefur verið „hugmynd Björns Bjarnasonar“ í ferð sinni til Brussel.

Illugi Gunnarsson, annar formaður Evrópuvaktnefndarinnar, túlkar niðurstöðu viðræðna nefndarinnar í Brussel á þann veg, að þar sé 111. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins túlkuð svo þröngt, að hún eigi ekki við gagnvart Íslandi. Segir Illugi þetta „pólitíska túlkun“ embættismanna í Brussel, sem er í raun þversögn, því að hið pólitíska vald innan ESB liggur ekki hjá þeim heldur ráðherraráðinu og loks leiðtogafundi Evrópusambandsríkjanna, the European Council.

Ef til vill hefur einhver nefndarmanna keypt bókina Life of a European Mandarin eftir Derk-Jan Eppink í ferðinni, en þar lýsir höfundur, hollenskur blaðamaður, störfum sínum fyrir einn af framkvæmdastjórum ESB. Embættismennirnir í Brussel eru kallaðir mandarínar og taldir hafa undirtökin innan skrifræðisins. Í bókinni er lýst dæmum um það, hvernig þeir setja framkvæmdastjórunum stólinn fyrir dyrnar, ef svo ber undir, enda eru mandarínarnir fastskipaðir en framkvæmdarstjórarnir sitja almennt fimm ár.

Þegar efnt er til leiðtogafunda eru framkvæmdastjórar ekki boðaðir inn á þá nema mál á þeirra verksviði sé til umræðu.  Framkvæmdastjórinn er látinn bíða í litlu hliðarherbergi, þar til „röðin“ er komin að honum. Hann er þá leiddur inn í fundarherbergið og fer með texta sinn. Að lestri loknum er þess vænst, að hann hverfi á brott jafnhljóðlega og hratt og hann kom á vettvang – forseti framkvæmdastjórnarinnar er hinn eini úr þeim hópi, sem á seturétt á leiðtogafundunum.

Í bókinni segir, að líklega sé yfirmaður lagaþjónustunnar mikilvægasti mandaríninn. Frakkar gæti þess dyggilega, að stöðunni gegni jafnan Frakki. Í nafni lagatúlkunar sé unnt að drepa allar tillögur. Í þessu ljósi er athyglisvert, að Illugi Gunnarsson segir, að samtöl í Brussel hafi sannfært Evrópuvaktnefndina um, að þar hafi menn tekið pólitíska ákvörðun um að túlka 111. gr. stofnsáttmála ESB þröngt gagnvart okkur Íslendingum – það er að segja framkvæmdastjórar ESB, sem Evrópuvaktnefndin hitti. Framkvæmdastjórarnir eiga þó hvorki síðasta orðið um lagatúlkun né pólitísk málefni, þegar í harðbakka slær innan ESB, eins og mörg dæmi sanna og meðal annars má kynna sér í fyrrnefndri bók.

Í lok þess, sem ég sagði 12. júlí, kom fram sú skoðun, að evruleið af  Íslands hálfu kynni að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleið. Ég dreg þá meginályktun af ferð Evrópuvaktnefndarinnar, að í Brussel hafi menn ekki áhuga á evruaðild Íslands en þar sé hljómgrunnur fyrir aðild Íslands að ESB. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar, að Evrópuvaktnefndin hafi fengið nokkurn lokadóm um, hvernig túlka beri 111. gr. gagnvart Íslandi.

Í Morgunblaðinu 26. september birtist þessi frétt:

„„Ekkert í þessum frásögnum frá Brussel kemur á óvart,“ segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, spurður álits á þeim svörum sem Evrópunefndin hefur fengið hjá embættismönnum ESB í Brussel um hvort Íslendingar geti tekið upp evru án þess að ganga í ESB. „Ég hef bent á leið, sem ég tel þess virði að skoða, ég hef jafnframt sagt, að ég sé ekki nægilega vel að mér um hagfræði eða peningamál til að leggja mat á hvaða efnislega stefnu eigi að móta í þessu efni. Framkvæmdastjórn á ekki síðasta orðið um inntak laga eða stofnsáttmála á vettvangi ESB og nú sætir ESB-dómstóllinn meira að segja gagnrýni á þann veg, að ríkisstjórnir segjast ekki ætla að una niðurstöðu hans, má þar nefna útlendingamál í Danmörku og svonefnt Volkswagen-mál í Þýskalandi,“ segir Björn.

Mjúkir í hnjáliðum

„Mig undrar enn í þessu sambandi, hve sumir stjórnmálamenn og álitsgjafar eru mjúkir í hnjáliðum, þegar rætt er við embættismenn í Brussel,“ segir Björn.“

Sama dag og fréttin birtist í Morgunblaðinu spurði höfundur Staksteina mig, hvort ég teldi Illuga Gunnarsson og Geir H. Haarde „mjúka í hnjáliðum“ gagnvart Brusselvaldinu. Sendi ég grein í blaðið og svaraði spurningunni neitandi. Nú er spurningin, hvort Morgunblaðið leggur fyrir mig fleiri spurningar um þetta efni, því að auðvitað skiptir blaðið miklu og sérstaklega höfund Staksteina að finna hina stimamjúku.

Á dögunum birtust lofsamleg ummæli um Dorritt forsetafrú í Staksteinum og af því tilefni sagði Guðmundur Magnússon á vefsíðu sinni:

„Bezt þótti mér þessi lína:

„Síðast en ekki sízt léttir Dorrit andrúmsloftið á Bessastöðum, sem annars væri á stundum óþægilega formlegt.“

Snilli þessarar setningar felst í undirgerð hennar, hinum leynda texta. Skáldið [höfundur Staksteina] er að hvísla því að okkur að það geti sjálft borið vitni um lífið við hirðina. Þar hef ég verið, merkir þetta.“